Tíminn - 26.06.1986, Blaðsíða 11
Fimmtudagur 26. júní 1986
llllilllllllllllllllill MINNING llllllllllllllliilll
Tíminn 11
Málfríður Bjarnadóttir
Fædd 20. okt. 1896
Dáin 15. júní 1986
„Það er ekki oft að hún amma mín
deyr,“ segir gamalt máltæki.
Ég kvaddi hana ömmu á sjúkra-
húsinu á Akranesi, hún strauk mér
um andlitið eins og í gamla daga,
þótt hún vissi víst ekki lengur, hver
ég var, svo flaug ég burt að flytjast
til fjarlægs lands og að kvöldi þess
sama dags var hún dáin.
Hún amma hét Málfríður Bjarna-
dóttir og var fædd að Nýlendu í
Meðallandi í Vestur-Skaftafellssýslu
20. október 1896. Hún var yngst sex
alsystkina og þau eldri hétu Eina-
lína, Bjarni, Gunnar, Jóhanna og
Jón, sem dó ungur maður, en hálf-
systir þeirra Sigrún, sem fædd var
1917 andaðist í vetur leið. Amma er
því seinust þeirra að kveðja þennan
heim.
Systkini ömmu voru afar traust og
gott fólk og með þeim voru miklir
kærleikar. Mér eru þau sem gömul
urðu öll í fersku minni, glettnin og
einbeitnin í svip Línu, sem snerist í
kringum skjáturnar sínar, með
staurfót og gekk við staf, brosið á
bræðrunum, þrifnaður og gestrisni
Jóu og handbragðið hennar Sigrún-
ar, sem var sannur meistari í kjóla-
saumi.
Ég er því miður svo alltof ófróð
um æsku og uppvöxt þessara systk-
ina, sem komin voru út af Jóni
Steingrímssyni eldpresti, amma tal-
aði of fátt. Ég skildi þó, að foreldrar
hennar, Bjarni og Málfríður, voru
fátækt fólk, börnin fæddust þeim
haust eftir haust og móðir hennar
missti snemma heilsuna. Þegar
mamma var á öðru ári fluttu þau
búferlum úr Meðallandinu alla leið
vestur í Flóa í leit að betra viðurværi.
Leiðin yfir sandana, óbrúuð jökul-
fljótin og allar þær stórár, sem varð
að sundríða, var löng og ströng fyrir
lítil börn, sem bundin voru upp á
hesta. Og ferðalúin hljóta þau að
hafa verið langafi minn og lang-
amma, þegar þau komu með ómegð-
ina sína á leiðarenda.
Þau byggðu sér bú á Lambastöð-
um og þar ólst amma upp.
Fermingarvorið missti hún móður
sína, og þá skildi ég, að amma hafði
einhvern tíma verið barn, þegar hún
sagði mér, hvað hún grét.
Eftir missi konu sinnar brá Bjarni
búi og fluttist til Eyrarbakka. Þar
gerðist hann smiður, því hann var
mikill völundur. Hann giftist öðru
sinni, Sigríði Höskuldsdóttur og bjó
með henni þar. En amma varð eftir
á Lambastöðum. Hún hafði verið
send í fóstur eftir dauða móður
sinnar, en undi hvergi nema í túninu
heima.
Seinna gerðist hún vinnukona í
læknishúsinu á Eyrarbakka, og það-
an réði hún sig að Ósi við Akranes.
Á Ósi kynntist hún afa.
Afi hét Leó Eyjólfsson. Hann var
sjómaður, þegar ástir tókust með
honum og ömmu og tók próf frá
stýrimannaskólanum um það leyti
sem þau giftust. En hann var vöru-
bílsstjóri og vegagerðarmaður alla
þá tíð, sem ég man hann.
Afi og amma eignuðust fjögur
börn, sem öll hafa lifað og starfað á
Akranesi fram á þennan dag. Elstur
er Ragnar, vörubílsstjóri næst
Bjarnfríður, kennari við Fjölbraut-
arskólann, þá Hallbera Guðný, sem
stýrir skrifstofu Brunabótafélagsins,
yngstur Jón múrari. Þau byggðu
húsið Efra-Nes með hjálp Bjarna,
sem flutti frá Eyrarbakka til að taka
að sér smíðina. Sjálfum sér byggði
hann annað hús og nefndi Bjarna-
staði. Seinna keyptu þau Sunnu-
braut 30 og þar býr systir mín nú
með manni og börnum.
Þegar amma var hálfníræð var
hún hjá mér, þar sem ég var að gefa
litlu telpunni minni brjóst. Þá sagði
hún mér, að aldrei hefði hún verið
sælli í lífinu, en þegar hún var í sömu
sporum, með börnin sín á brjósti.
líún lýsti hamingjunni, sem gagntók
hana og ég fann, hvað ég var óendan-
lega skyld þessari gömlu konu, sem
einu sinni var ung. Amma lifði fyrir
börnin sín. Og elskaði afa, sem gaf
henni þau. Síðan breiddi hún sig yfir
allan afkomendaskarann, og svo
lengi sem hún gat fylgst með, hvar
börn voru að fæðast, fitjaði hún upp
í vettling eða sokk.
Ég var svo lánsamt barn að alast
upp í kjallaranum hjá afa og ömmu
til átta eða níu ára aldurs. Alla þá
daga var líf okkar uppi og niðri
samofið.
Ég man það fyrst eftir mér, að ég
sat á tröppunum hjá ömmu og söng
fyrir þá, sem um götuna gengu, að
ég hefði eignast lítinn bróður. Hann
var skírður Leó í höfuðið á afa og
þau unnu honum bæði mjög heitt.
Við systkinin sóttum mikið upp á
loft, enda var þangað margt að
sækja. Andlegt fóður og líkamlegt.
Þar var alltaf einhverju stungið upp
í holuna, afi sagði sögur, amma tók
á móti gestum. Stundum voru það
hýru og hógværu systkinin hennar
sjálfrar, stundum bræður afa, eða
Eyvör afasystir. Þá glumdi húsið af
hlátri því það var fyrirferðarmikið
fólk. Þau töluðu hátt og sögðu
dæmalausar sögur, skelltu á lær sér
og hlógu svo að tárin runnu niður
kinnarnar á þeim. Ég man ekki eftir
öðrum eins skemmtikröftum í
bernsku og tveim yngstu bræðrum
afa, Jóni og Helga.
Þegar þeir komu frá Reykjavík
var hringt í Arthúr bróður eða
Valmar bróður eða Þorstein mág og
slegið í slag. Það var sögð hálfa og
heila og barið í borðið og rifjuð upp
feiknaleg strákapör og hrekkir frá
uppvaxtarárum þeirra bræðra á
Akranesi og við bróðir minn göftum
af aðdáun þó allt væri þetta í raun
hneykslanlegt. Síðan fylgdu frásagn-
ir af svaðilförum á sjó og landi og
jafnvel lofti, því Helgi var einn
fyrstu íslendinga til að taka flug-
mannspróf.
Amma bar endalaust mat og
drykk í alla. Amma átti alltaf nóg í
búrinu, hversu margir sem komu, og
þó hún bæri sjaldan fram færri en
ellefu sortir með kaffinu, þá var
viðkvæðið hjá henni: „Æ, elsku
fyrirgefið þið, hvað þetta er ómynd-
arlegt hjá mér.“
Amma var sívinnandi. Ég man
ekki hvort ég sá hana nokkurn tíma
sitja í stól á Sunnubrautinni, nema
til að matast. Afi lagði sig aftur á
móti. Hann vann erfiðisvinnu, en
fékk að halla sér, þegar hann kom
heim. Þá gátum við skriðið upp fyrir
hjá honum og fengið að heyra í
ótalið skipti, hvernig hann tróð
staurnum upp í ginið á Leppalúða.
Það var margt, sem bar fyrir afa í
vegavinnunni, þar mætti hann tröll-
um og forynjum, álfum og huldu-
fólki og rataði í marga raun.
Og afi hvatti okkur til dáða. Hann
fylgdist vel með, hvernig við leystum
þær litlu þrautir, sem lífið lagði fyrir
okkur og kannski hefur engin viður-
kenning haft meiri þýðingu fyrir mig
um dagana, en krónan, sem afi gaf
mér, þegar ég sýndi honum fyrstu
skriftarbókina mína.
Amma var engin draumórakona.
Hún hafði sjaldan hátt um skoðanir
sínar og henni líkaði ekki alltaf vel
sú þróun, sem gerði dætur hennar og
dætradætur að afskiptakonum um
pólitík og kvenréttindi. Einu sinni
var hún á fundi í slysavarnarfélaginu
eða kvenfélaginu sem voru hennar
félög. Fundurinn dróst á langinn og
afi beið á fótum, þó liðið væri langt
á kvöld. Mamma .fór þá upp til að
bjóða honum góða nótt og spurði,
hvort hann vildi ekki bara fara að
sofa þótt amma væri ókomin heim.
Þá svaraði hann og var þungt í
honum. „Ég sé nú ekki, að það sé
búið að taka ofan af rúminu.“
Þannig var það hjá þeim.
Amma efaðist aldrei um, hver
væri hennar staða í lífinu og hún
gekk að hverju verki, sem þeirri
stöðu fylgdi af röggsemi og myndar-
skap. Hún stjórnaði því, hvenær
farið var í kálgarðana vor og haust
að setja niður kartöflurnar og taka
upp. Hún stýrði sláturgerðinni jafnt
fyrir sig og dætur sínar og tengda-
dætur og hún hafði okkur með í
heyskapinn til Karólínu í Sigtúnum
á meðan grannkonan hafði skepnur.
Svo dó afi skyndilega af blóðtappa
rétt rúmlega sextugur og amma varð
ein eftir. Hún bjó þó áfram á
Sunnubrautinni og hélt uppteknum
hætti að veita öllum af rausn, sem
þangað komu og nú bættust í þann
hóp tengdabörn barnanna hennar
og barna-barna-börn. Jafnvel barna-
barna-barna-barn. Amma gerðist
með tímanum sannur ættarhöfðingi.
Þegar hún hafði jafnað sig nokkuð
eftir fráfall afa fór hún út að vinna
fyrir viðurværi sínu. Hún þvoði
flöskur og brúsa í mjólkurstöðinni,
seinna skúraði hún í kaupfélaginu
og sá um kaffi fyrir kennara barna-
skólans og vann í prjónaverksmiðju.
Frístundir hennar heima fóru líka
mest í að prjóna á ættbogann sem
sífellt stækkaði.
En amma fór nú loksins að sinna
öðrum hugðarefnum en fjölskyldunni
eins og því að ferðast. Hún gerðist
harðdugleg ferðakona. Hún fór í
ferð til hinna Norðurlandanna og
oftar en einu sinni til sólarlanda en
mest ferðaðist hún um sitt eigið
ættarland. í meira en tvo áratugi
held ég að amma hafi farið í ferðalag
hvert einasta sumar um einhvern
hluta landsins. Hún náði að sjá
ísland allt að kalla, byggðir þess og
óbyggðir. Hún var svo ótrúlega létt
á fæti og heilsuhraut.
Þegar amma var áttatíu og fimm
ára hélt hún mikla veislu. í það sinn
rúmaðist hún ekki á Sunnubrautinni,
heldur þurfti að leigja stóran sal.
Amma bar sig eins og tignarkona
eins og jafnan, þegar hún var á
íslenskum búningi. Áður en veisl-
unni lauk hélt hún fyrstu ræðu lífs
síns í þvílíku fjölmenni. Hún var þá
svona fljúgandi mælsk þegar upp var
staðið.
Litlu seinna fór hún að kenna
lasleika. Það var tekið að líða að
ferðalokum.
Dauðinn fór sér að engu óðslega
við ömmu. í hálft fimmta ár hefur
þrek hennar verið að dvína. Og hún
lá rúmföst síðan fyrir jól.
Afkomendur hennar eru orðnir á
fimmta tug. Við erum því mörg, sem
höfum kúrt undir vængnum hennar
og eigum henni mikið að þakka.
Amma gaf öllum og gleymdi engum
fyrr en ellin tók að lokum frá henni
minnið, svo hún mundi að síðustu
ekkert nema versin sín, sem hún
lærði barn. - Bænin má aldrei bresta
þig... þú guð sem stýrir stjarnaher...
fyrirgef oss vorar skuldir...
Ég vona að mér fyrirgefist sú
skuld að snúa ekki heim og fylgja
henni ömmu til hinstu hvílu.
Svíþjóð 19. júní 1986
Steinunn Jóhannesdóttir
Afmælis- og minningargreinar
Þeim, sem óska birtingar á afmælis* og eða
minningargreinumíblaðinu,erbent á, að þ«r þuifa
að berast a.m.k. tveim dögum fyrir birtingardag.
Þær þurffa að vera vélritaðar.
1
Gluggakarmar
opnanleg fög
Útihurðir - Svalahurðir
Rennihurðir úr timbri eða áli
Bílskúrshurðir
Bílshúrshurðarjám
Sólhýsi - Garðstofur
úr timbri eða áli
Gluggasmiðjan
Útboð - reyklúgur
Hagkaup hf. Lækjargötu 4, Reykjavík, óskar eftir
tilboði í 12 reyklúgur hver um 2 fermetrar að stærð,
fyrir verslanamiðstöð í Kringlumýri í Reykjavík.
(Kringluna)
Útboðsgögn verða afhent á Verkfræðistofu Sigurð-
ur Thoroddsen hf. Ármúla 4, Reykjavík.
Tilboðum skal skila til Hagkaups hf., Lækjargötu
4, Reykjavíkfyrirkl. 11.00 mánudaginn 7. júlí 1986
en þá verða þau opnuð þar að viðstöddum þeim
bjóðendum sem þess óska.
Hagkaup hf., Lækjargötu 4, Reykjavík.
FRAMTÆKNI s/f Skemmuveg 34 N
Vélsmiðja 200 Kópavogur lceland
Járnsmíði - Viðgerðir Tel. 91-641055
Vélaviðgerðir - Nýsmíði
t
Innilegustu þakkir færum við öllum þeim, sem auðsýndu okkur samúð
og vináttu við andlátog útför mannsins míns, föðurokkar, tengdaföður
og afa
Halldórs Árnasonar,
Birkivöllum 1, Selfossi
Fanný Sigurðardóttir,
börn, tengdabörn og barnabarnabörn.
t Þökkum innilega auðsýnda samúð og vináttu við andlát og útförföður
okkar tengdaföður afa og langafa.
Sigurbjörns Finns Björnssonar
fyrrum bónda á Ytri-A í Ólafsfirði
Birna Finnsdóttir
Kristrún Finnsdóttir Gunnar Sigurjónsson
Anton Finnsson Ragnheiður Árnadóttir
Guðmundur Finnsson Guðlaug Steinsdóttir
Laufey Finnsdóttir
Bjarni Finnsson Kristín Elísdóttir
Gunnar Finnsson SvanhvítTryggvadóttir
Stefanía Finnsdóttir Guðbjörn Ragnarsson
Eva Finnsdóttir Marínó Haraldsson
Jón Finnsson Kolbrún Pálsdóttir
Guðrún Finnsdóttir Aðalbjörn T ryggvason
Aðalgeir Finnsson Lilja Karlesdóttir
Bára Finnsdóttir Gunnar Sigvaldason
Kristinn Finnsson María Ásgrímsdóttir
Bragi Finnsson Sigríður Óskarsdóttir
ÓskarFinnsson Júlíanna Ingvadóttir
barnabörn og barnabarnabörn.