Tíminn - 14.02.1987, Side 15
Laugardagur 14. febrúar 1987 Tíminn 15
llllllllllllllllillillllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllilillllll
í dag eru liðin 100 ár frá fæðingu
Guðbrandar Magnússonar, fyrsta
ritstjóra Tímans, og eins gáfaðasta,
skemmtilegasta og vinflesta manns
samtíðar sinnar.
Guðbrandur Magnússon var
prentari að mennt. Kynni okkar
hófust fyrst að ráði í prentsmiðjunni
Acta vorið 1934, þegar ég var nýorð-
inn blaðamaður við Nýja dagblaðið.
Guðbrandur var þá orðinn forstjóri
Áfengisverslunarinnar, en hann hélt
-enn tryggð við prentiðnina og heim-
sótti oft gamla félaga sína þar.
Jafnframt var hann reiðubúinn að-
stoðarmaður þeirra, sem önnuðust
ritstjórn Tímans og tók að sér að
fylgjast með blaðinu, ef þeir þurftu
að bregða sér úr bænum, en Tíminn
var þá vikublað. Guðbrandur fékk
jafnan góðar móttökur þegar hann
kom í prentsmiðjuna, því að allir
prentararnir urðu vinir hans og hann
var hrókur alls fagnaðar, þegar hann
var í hópi gamalla og nýrra stéttar-
bræðra, eins og reyndar hvarvetna.
Kynni okkar Guðbrandar urðu
með þeim hætti, að allir þeir, sem
rituðu að staðaldri um pólitík í
Tímann, eins og Gísli Guðmundsson
og Jónas Jónsson, voru í framboði í
fjarlægum kjördæmum í kosningun-
um 1934. Hallgrímur Jónasson
kennari, sem hafði verið ráðinn
staðgengill þeirra, var einnig sendur
á framboðsfundi í Dalasýslu vegna
lasleika Jóns Árnasonar, sem var
þar í framboði. Síðustu 2-3 vikurnar
stóðu Nýja dagblaðið og Tíminn
uppi án pólitískra ritstjóra. Sú vand-
ræðalausn var valin, að mér var falið
að skrifa forustugreinarnar, en hafði
ekki nema takmarkað traust til þess,
enda ekki nema 19 ára. Því var
ákveðið að ég skyldi vera undir
eftirliti Guðbrandar Magnússonar
og leist mér vel á það, því að ég hafði
verið nemandi hjá Guðbrandi í Sam-
vinnuskólanum, en þar kenndi hann
samvinnusögu, og hlotið góðan vitn-
isburð hjá honum.
Guðbrandur hagaði þessu eftirliti
þannig, að hann kom í prentsmiðj-
una að loknum vinnutíma hjá
Áfengisversluninni og fór yfir for-
ustugreinar mínar, og var óragur við
breytingar, mér stundum til hrelling-
ar, en prenturum til skemmtunar.
Mér féllu ekki allar breytingar
Guðbrandar, því að hverjum þykir
sinn fugl fagur, en sá þó oftast eftir
á, að þær voru til bóta. Það bætti svo
úr skák, að eftir slík hreinsunarverk
tók Guðbrandur oft lagið, en hann
var bæði söngvinn og söngglaður.
Þessar 2-3 vikur, sem ég starfaði
undir leiðsögn Guðbrandar, urðu
lærdómsríkasti tími ævi minnar.
Þessi samvinna gerði okkur Guð-
brand að góðum vinum. Tveimur
árum seinna, eða veturinn 1936,
þurfti að ráða Nýja dagblaðinu rit-
stjóra og var leitað til ýmissa án
árangurs. Guðbrandur kom Ioks
með þá tillögu, að gera Þórarin að
ritstjóra. Flestum stjórnendum Nýja
dagblaðsins, þótti þetta áhættusam-
ur kostur, því að ég var aðeins 21
árs. Ég skal taka á mig ábyrgðina,
sagði Guðbrandur, og varð niður-
staðan sú, að skipuð var ritnefnd til
að fylgjast með mér og varð Guð-
brandur aðalmaður hennar. Að ráði
hans var hún lögð niður eftir fáa
mánuði. Seinna sagði Guðbrandur í
spaugi, að hann hefði ekki aðeins
ráðið Tryggva Þórhallsson að blað-
inu, heldur þann ritstjóra, sem hefði
þraukað þar lengst.
Guðbrandur var austfirskur að
uppruna og voru þeir Vilmundur
Jónsson landlæknir náfrændur og
segir sagan, að þeir hafi verið komnir
að einhverju leyti af frönskum
ættum. Báðir voru þeir stórgáfaðir,
en alls ólfkir á margan hátt, Vil-
mundur mikill undirhyggjumaður og
frekar hlédrægur, stjórnaði að
tjaldabaki og byggði þannig upp
mikið krataveldi við isafjarðardjúp.
Guðbrandur var mikill fjörmaður,
eldhugi, einlægur og fór ekki í neina
launkofa með hugsanir sínar. Hann i
var mikill drengskaparmaður og |
vildi engum mein gera. Hann var
fljótur að hugsa og að koma auga á
nýjar hugmyndir og úrlausnir. Þess
vegna var hann ómetanlegur í félags-
starfi. Hann gerðist strax ungmenna-
félagi, þegar sú hreyfing kom til
sögunnar, og var aðal stofnandi
Ungmennafélags Reykjavíkur. Þar
lágu saman leiðir hans, Jónasar Jóns-
sonar og Tryggva Þórhallssonar.
Guðbrandur lærði ungur prentiðn
og vann hjá ýmsum þeirra blaða-
manna, sem þá rituðu best íslenskt
mál. Hann varð því mjög hagur á
mál og gat oft sagt í einni setningu
kjarna þess máls, sem aðrir hefðu
þurft langt mál til að útskýra. Fund-
argerðabækur miðstjórnar Fram-
sóknarflokksins, sem hann hefur
orðið frægur fyrir, bera þessu gott
vitni og mega margir vera honum
þakklátir fyrir hvernig hann gat sagt
frá löngum ræðum í örstuttu máli
eða jafnvel einni setningu og gert
viðkomandi þannig að málsnillingi.
Ég hefndi mín hins vegar stundum á
Guðbrandi, þegar hann var að um-
skrifa greinar mínar í prentsmiðj-
unni, og var búinn að orða setningu
á snilldarlegan hátt, að hér ætti að
koma punktur og ekkert meira.
Mælsku og áhuga Guðbrandar var
hins vegar þannig háttað, að hann
átti stundum erfitt með að nema
staðar. Raunar á þetta við um flesta,
þegar hrifningin fær lausan tauminn,
og hrifnæmur maður var Guðbrand-
ur.
Það hafði verið ákveðið, að Héð-
inn Valdimarsson yrði fyrsti ritstjóri
Tímans og dróst útkoma blaðsins
nokkuð því að beðið var eftir að
Héðinn lyki hagfræðinámi í Kaup-
mannahöfn. Vegna þátttöku Fram-
sóknarflokksins í samsteypustjórn-
inni í ársbyrjun 1917, var talið
nauðsynlegt að hefja útgáfu blaðsins
og leitaði Jónas Jónsson þá til vinar
síns Guðbrandar og bað hann að
annast ritstjórnina þangað til Héð-
inn kæmi heim, en Guðbrandur var
þá búinn að ákveða sér annað
verksvið. Guðbrandur féllst á þetta,
en aðeins í nokkra mánuði. Undir
ritstjórn Guðbrandar fór Tíminn
mjög vel af stað og eru margar
greinar eftir Guðbrand, sem þá birt-
ust í Tímanum, meðal þess besta,
sem blaðið hefur flutt. Ritstjórn
hvíldi rnest á Guðbrandi, því að
Jónas skrifaði ekki mikið í fyrstu
blöðin. Af því varð ekki, að Héðinn
Valdimarsson tæki við ritstjórn
Tímans, því að hann hafði þegar til
kom skipað sér í Alþýðuflokkinn og
gerðist starfsmaður hjá Landsversl-
uninni og ráðunautur Magnúsar
Kristjánssonar.
Guðbrandur kom fljótt auga á
ekki lakari ritstjóraefni, þegar gam-
all vinur hans úr ungmennafélags-
hreyfingunni, Tryggvi Þórhallsson,
ákvað að hætta prestskap. Guð-
brandur fór þess á leit við Tryggva,
að taka við ritstjórninni og var
Tryggvi reiðubúinn, ef það fengi
stuðning Jónasar og Hallgríms Krist-
inssonar og annarra ráðamanna
blaðsins. Jónas Jónsson var þá stadd-
ur norður í Hriflu og þurfti að leita
samþykkis hans símleiðis. Óvarlegt
þótti að ræða við Jónas á íslensku,
því að hér var um að ræða mál, sem
átti að vera leyndarmál. Franski
sendiherrann var því fenginn til að
ræða við Jónas á frönsku, en þau
Jónas og Guðrún kona hans höfðu
dvalist í Frakklandi og voru vel
frönskumælandi. Jónas tók því með
fögnuði aö Tryggvi yrði ritstjóri.
Guðbrandur gat því með góðri
samvisku lokið starfi sínu við Tím-
ann að sinni, og tekið við því starfi,
sem hann hafði verið ráðinn til í
stjórnarráðinu. Þaðan hélt hann
tveimur árum síðar austur í Hall-
geirsey, þar sem hann tók við starfi
kaupfélagsstjóra. Dvöl hans þar
varð mikil saga, sem bar útsjónar-
semi hans, dugnaði og fórnfýsi gott
vitni, en hún verður ekki rakin hér,
né önnur afskipti Guðbrandar af
félagsmálum, en hann var hvarvetna
eftirsóttur og átti marga vini í öllum
flokkum, þótt ekki færi hann dult
með skoðanir sínar.
Allt frá því að Tíminn var stofnað-
ur átti Guðbrandur sæti í Tímaklík-
unni svonefndu, sem um alllangt
skeið var raunverulega ein mesta
valdastofnun Framsóknarflokksins,
en þegar skeið hennar rann á enda
tók hann sæti í blaðstjórn Tímans.
Hann skrifaði öðru hvoru í blaðið,
en mestu munaði um holl ráð hans.
Jafnan leitaði ég til Guðbrandar,
þegar mikinn vanda bar að höndum
og deilur risu í flokknum og Tíminn
eins og lenti milli tveggja elda eða
fleiri. Forustumenn flokksins eins
og Jónas Jónsson, Hermann Jónas-
son og Eysteinn Jónsson leituðu oft
álits Guðbrandar. Vafasamt er, að
Tíminn og Framsóknarflokkurinn
hafi átt annan hollráðari mann en
Guðbrand Magnússon.
Þess má geta, að Morgunblaðið á
nafn sitt Guðbrandi Magnússyni að
þakka. Vilhjálmur Finsen hafði
ákveðið blaðinu annað nafn, en
Vísir var þá kominn til sögunnar
sem dagblað og stal hugmynd Vil-
hjálms og blaðið var því nafnlaust
þegar útgáfa þess átti að hefjast.
Vilhjálmur sagði prenturunum frá
þessu en einn þeirra var Guðbrandur
Magnússon. Flann gall við fljótt: Því
ekki að kalla það Morgunblað. Vil-
hjálmur féllst á nafnið.
Útilokað er að ljúka þessu skrafi
um Guðbrand Magnússon án þess
að minnast á konu hans, Matthildi
Kjartansdóttur, frábæra gáfukonu
og góðviljaða. Hjónaband þeirra
var eitt hið besta, sem ég hefi
kynnst. Yfir því hvíldi viss ævintýra-
ljómi, því að ég hefi fyrir satt, að þau
hafi trúlofast án þess að hafa sést.
Matthildur var símamær á þessum
tíma, en Guðbrandur þurfti oft að
tala í símann vegna starfs síns. Þau
Matthildur tóku oft tal saman og féll
talið svo vel, að þau ákváðu að
trúlofast. Sú ákvörðun varð mesta
hamingja þeirra óslitið til æviloka.
Þórarínn Þórarinsson
UÍHm y ^■3 ■T : ^
Reykjavík
Fundur í Fulltrúaráði framsóknar-
félaganna í Reykjavík
verður haldinn mánudaginn 16. febrúar kl. 20.30 að Rauðarárstíg 18.
Fundarefni: Afgreiðsla á framboðslista flokksins vegna komandi
alþingiskosninga.
Stjórn fulltrúaráðsins.
Skrifstofa
Skrifstofa framsóknarfélaganna í Reykjavík er í Nóatúni 21 og er
opin kl. 9.00-17.00 virka daga. Síminn er 24480.
Nýverið tók Einar Valsson við starfi framkvæmdastjóra Fulltrúaráðs-
ins og hefur hann aðsetur á skrifstofunni.
Lítið inn hjá okkur - það er alltaf heitt á könnunni.
Framsóknarfélögin í Reykjavík
Fundir B-listans
í Austurlandskjördæmi
Framsóknarflokkurinn heldur almenna stjórnmálafundi föstudaginn
13. febrúar i Félagsheimilinu Stöðvarfirði kl. 21.00, sunnudaginn 15.
febrúar að Staðarborg, Breiðdal kl. 14.00, sunnudaginn 15. febrúar í
félagsmiðstöðinni Djúpavogi kl. 21.00. Frambjóðendur flokksins
mæta á fundina og hafa framsögu og svara fyrirspurnum.
Fundirnir eru öllum opnir.
KSFA
Austurlandskjördæmi
Skrifstofa Kjördæmissambands framsóknarmanna á Austurlandi er
að Lyngási 1, Egilsstöðum, sími 1584. Skrifstofan er opin alla virka
daga frá kl. 9 til 17.
Hvolsvöllur og nágrenni
Jón Helgason ráðherra, Þórarinn Sigurjónsson alþingismaður ásamt
Guðna Agústssyni og Unni Stefánsdóttur verða til viðtals og ræða
þjóðmálin í félagsheimilinu Hvoli mánudaginn 16. febrúar kl. 21.00.
Allir velkomnir.
Rangæingar
Spilakvöld verður í Hvolnum sunnudaginn 15. febrúar kl' 21.00.
Unnur Stefánsdóttir flytur ávarp.
Mætum sem flest.
Framsóknarfélag Rangæinga.
Selfoss - framsóknarvist
Spilum mánudagskvöld 16. febr. kl. 20.30 að Eyrarvegi 15. Ávarp
Anna Þ. Árnadóttir matvælafræðingur.
Góð verðlaun. Mætum öll.
Framsóknarfélag Selfoss
Suðurland
Skrifstofa Kjördæmissambands framsóknarmanna á Suðurlandi,
Eyrarvegi 15, Selfossi er opin alla virka daga frá kl. 9.00 til 12.00.
Einnig er skrifstofa Þjóðólfs opin á sama tíma.