Tíminn - 01.06.1988, Side 15
Miðvikudagur 1. júní 1988
Tíminn 15
MINNING
Gísli Björnsson
Höfn Hornafirði, fyrrverandi rafveitustjóri
Fæddur 18. mars 1896
Dáinn 25. maí 1988
Sá mæti maður Gísli Björnsson
lést í hárri elli á dvalarheimilinu
Skjólgarði þann 25. þ.m. eftir mikið
og giftusamt starf á sínu æviskeiði.
Hann var fæddur að Austurhóli í
Nesjahrcppi, Austur-Skaftafells-
sýslu. í byggðarlaginu Austur-
Skaftafellssýslu bjó hann alla tíð. Ég
ætla ekki að rekja hér lífsferil Gísla,
það munu væntanlega aðrir gera,
aðeins að minnast á nokkra þætti af
þeim fjölmörgu þar sem hann kom
við sögu um ævina. Gísli var snemma
hneigður fyrir margvísleg störf er
snertu vélar, rafmagn og iðnað. Þar
má tilnefna útvarp (í byrjun út-
varpsaldar 1932), rafvirkjastörf,
járnsmíði, vélaviðgerðir, það var
ekki hvað síst á vetrartíð sem hann
þjónaði bátaflotanum þar eystra. í>á
annaðist hann uppsetningu heimilis-
rafstöðva í nærsveitunum. Hér er
fátt eitt talið af þeim fjölmörgu og
fjölbreyttu störfum sem Gísli kom
við sögu, því auk hinna faglegu
starfa sem hann vann að voru honum
falin margvísleg störf fyrir sitt sveit-
arfélag í gegnum árin. Það var einn
sá þáttur á starfsferli Gísla, sem ég
ætla að víkja nokkrum orðum að,
bæði vegna þess að hann var bæði
fyrirferðarmikill á hans æviskeiði og
að kynni okkar Gísla urðu hvað
mest í gegnum þann þátt - rafveitu-
og rafstöðvarmálin.
Heimildir herma að 20. desember
1921 hafi fyrsta rafstöðin verið tekin
í notkun á Höfn. Gísli mun þá strax
hafa komið við sögu í rafmagnsmál-
um staðarins. Hann tók svo við
vélgæslustarfi við þessa stöð á árinu
1924.
Allt til ársins 1947 urðu tvisvar
eigendaskipti að rafstöðinni en þá
keypti Hafnarhreppur hana og stofn-
aði eigin rafveitu. Þá var Gísli ráðinn
sem rafveitustjóri Rafveitu Hafnar-
hrepps. Rak hreppurinn rafveituna
allt til ársins 1959 að hreppsnefndin
óskaði eftir því að Rafmagnsveitur
ríkisins yfirtækju rafveituna. Samn-
ingur um það var undirritaður þann
27. júlí 1959. Gísli hafði þá starfað
allt frá árinu 1924 við rafstöðina og
rafveituna sem vélstjóri og rafveitu-
stjóri. Hann var ráðinn áfram sem
rafveitustjóri við rafveituna eftir að
Rafmagnsveiturnar tóku við henni.
Frá þeim tíma og allt til þess að Gísli
lét af störfum fyrir aldurssakir í lok
ársins 1969, áttum við mikið og gott
samstarf saman að rafveitumálum
héraðsins. Gfsli var mjög áhugasam-
ur og annt um þessi mál fyrir hönd
sveitunga sinna og jafnframt trúr og
tryggur starfsmaður Rafmagnsveitn-
anna að þessum málum.
Það urðu miklar framfarir á þessu
sviði í héraði á þeim árum sem Gísla
naut við og átti hann drjúgan þátt
þar að. Díselstöðin var flutt frá
Hafnarbraut, - en þar var orðið
alltof þröngt um hana - og út í
Álaugarey, þar var byggt allveglegt
hús yfir díselvélarnar og vélum
fjölgað.
Rafmagnsnotkun óx hröðum
skrefum á þessu svæði bæði á Höfn
og með síaukinni rafvæðingu sveit-
anna. Vélkost varð stöðugt að auka
með aukinni notkun. Til þess að
varpa ljósi á hversu ört raforkunotk-
unin á svæðinu óx má geta þess að
þegar Rafmagnsveitur ríkisins yfir-
tóku rafveituna á miðju ári 1959 var
dieselafl um 350-400 kW. Þegar
Höfn tengdist Byggðalínunni árið
1982 voru 5-6000 kW í dieselafli til
staðar og 1400 kW í Smyrlabjargar-
árvirkjun.
Eitt mesta áhugamál Gísla svo og
sveitunga hans var vatnsaflsvirkjun í
héraðinu. Ýmsar hugmyndir voru
uppi um virkjunarstað í gegnum
árin. Mælingar á vatnsmagni og
aðstöðu gerðar. Um síðir beindist
athyglin að Smyrlabjargará í Borgar-
hafnarhreppi. Voru mælingar fram-
kvæmdar á virkjunarsvæðinu 1950
(Raforkumálaskrifstofan) og áætl-
anir gerðar á árunum 1953-1957
(Verkfræðist. Sigurðar Thoroddsen)
1956 og voru vélar og þrýstivatn-
spípa keypt til virkjunarinnar.
Virkjunarframkvæmdum var samt
frestað og réði þar miklu um ótti
manna um minnkandi vatnsrennsli
til Smyrlabjargarár þar sem jöklar
rýrnuðu óðum á þessu svæði.
Ég minnist þess hve mikið þessi
ákvörðun um frestun fékk á Gísla.
Hann ræddi þessi mál af miklum
þunga við helstu ráðamenn á þessu
sviði. Þegar ég og aðrir starfsmenn
Rafmagnsveitnanna voru á ferðinni
þar eystra ók Gísli okkur gjarnan
suður að Smyrlu bæði til þess að
kynna okkur sem best þær ágætu
aðstæður, sem þarna væru til virkj-
unar og þá nöturlegu staðreynd að
þarna lágu rörin, sem áttu að notast
í þrýstivatnspípuna tvist og bast við
vegkantinn á þjóðveginum í nánd
við Smyrlabjargará. Við Gísli tókum
okkur til og létum flytja rörin úr
augsýn, forvitinna ferðamanna, sem
um þjóðveginn fóru. Það liðu 12
löng ár þar til aftur var hafist handa
við virkjunarframkvæmdir og átti
þáverandi rafmagnsveitustjóri Val-
garð Thoroddsen stóran hlut að því
máli. Varð þessi ákvörðun Gísla og
öðrum heimamönnum mikið fagn-
aðarefni. Þessa rafveitu og virkjun-
arsögu ætla ég ekki að rekja nánar
hér það yrði alltof langt mál, en
virkjunin tók til starfa um mánaða-
mótin september-október 1969.
Gísli sá því draum sinn rætast um
virkjun Smyrlu á meðan hann ennþá
gegndi starfi rafveitustjóra.
Fyrr á árum, áður en vötn voru
brúuð fór ég oft með Gísia á jeppan-
urn hans suður í sveitir, í ýmsum
erindagjörðum, m.a. á ísilögðum
vötnum. Ráðlegra þótti að tveir eða
fleiri bílar hefðu samflot í þeim
ferðum. ísinn gat oft verið varasam-
ur á vissum stöðum, sem heimamenn
þekktu þó til. í einni slíkri ferð var
héraðslæknirinn á Höfn í fylgd með
okkur á sínum jeppa. Hann ók fyrir,
snaraðist út úr jeppanum af og til,
hafði stöng mikla, pikkaði í ísinn til
þess að kanna styrkleika hans, tók
stefnuna á ný og þannig koll af kolli.
Þetta tókst með ágætum enda traust-
ir menn á ferð.
Eitt sinn fór ég með Gísla, að
frumkvæði hans, minnisstæða ferð
frá Smyrlabjörgum um Borgarhafn-
arheiði m.a. til þess að kanna vötn
sem eru á heiðinni en ekki í tengslum
við vatnasvæði Smyrlabjargarár. Að
athuguðu máli, töldum við að hægt
væri að ná talsverðu viðbótarvatns-
magni frá þessum vötnum yfir í
Smyrlu með tiltölulega litlum kostn-
aði. Og svo var gert nokkru síðar.
Gísli var einstaklega þægilegur
ferðafélagi, fróðleiksfús og fróður
um land og gróður.
Ég kynntist síðari konu Gísla,
Regínu en hún er einnig mjög áhuga-
söm um gróður og fæktun. Á þessu
sviði áttu þau sameiginlegt og heill-
andi áhugamál. Þau höfðu mikið
yndi af ferðalögum og náttúruskoð-
un á landi okkar. Og ekki má gleyma
skógræktaráhuga þeirra hjóna.
Gísli var aldursfélagi í Sambandi
íslenskra rafveitna eftir að hann lét
af störfum sem rafveitustjóri. Þau
hjón sóttu flesta aðalfundi SÍR um
áraraðir sem haldnir voru víðsvegar
um landið. Höfðu þau sem flestir
aðrir mikla ánægju af þessum ferð-
um og fundum.
Að lokum vil ég geta þess, að ég
tel að Rafmagnsveitur ríkisins hafi
verið einstaklega lánsamar, þegar
þær yfirtóku Rafveitu Hafnarhrepps
að fá Gísla og fleiri ágæta starfsmenn
Rafveitu Hafnarhrepps til að starfa
áfram hjá rafveitunni. Samvinna við
notendur og sveitarfélögin hefur
ávallt verið með ágætum og átti Gísli
Björnsson þar stóran hlut að máli.
Ég þakka svo þau góðu kynni og
góða samstarf sem við Gísli áttum
um langt árabil. Fyrir mína hönd,
Rafmagnsveitna ríkisins og raf-
magnsveitustjóra Kristjáns Jónsson-
ar (sem staddur er erlendis), færum
við eftirlifandi eiginkonu Gísla og
öðrum aðstandendum okkar innileg-
ustu samúðarkveðjur.
Guðjón Guðmundsson
Þó að fornu björgin brotni,
bili himinn og sökkvi í mar
- allar sortni sólirnar.
Aldrei deyr þó allt um þrotni
endurminning þess sem var.
(Gr. Th.)
Þó afi hafi verið orðinn 92 ára þá
var dauðinn svo fjarlægur þegar
maður talaði við afa. Það var alltaf
sami hugurinn í honum og hann var
alltaf að ráðgera eitthað fram í
tímann. Okkur þótti afar vænt um
afa en því miður gátum við ekki hitt
hann eins oft og við hefðum viljað
þar sem hann átti heima á Höfn í
Hornafirði en við í Reykjavík. Það
var alltaf mikið tilhlökkunarefni að
fara austur til afa og ömmu. Afi var
alltaf eitthvað að aðhafast, hann var
svo duglegur og atorkusamur. Hann
byggði t.d. húsið sitt á Vesturbraut-
inni þegar hann var að verða áttræð-
ur og hann keyrði bíl þar til hann var
kominn vel á níræðisaldur. Hann
var mjög raunsær en gat verið fastur
fyrir og hafði ákveðnar skoðanir.
Við eigum margar góðar minningar
um afa, bæði þegar við komum
austur og eins þegar afi eg amma
komu suður og voru hjá okkur. Ein
af fyrstu minningum okkar um hann
eru hlýju hendurnar hans. Hann var
alltaf tilbúinn að hlýja okkur þegar
við komum inn úr kuldanum og það
var gott að stinga köldum höndum í
lófana á afa. En afi hafði líka hlýtt
hjarta og það fundum við oft.
Afi var tvíkvæntur, fyrri konu
sína Arnbjörgu Arngrímsdóttur
missti hann. Með henni átti hann
fjögur börn þau eru Arngrímur vél-
stjóri kvæntur Hrafnhildi Gísladótt-
ur skrifstofumanni, Katrín húsmóðir
gift Guðmundi Pálssyni símvirkja,
Borghildur húsmóðir gift Jóni Krist-
jánssyni sjómanni, Björn raf-
virkjameistari kvæntur Auði Jónas-
dóttur kennara. Síðari kona afa er
amma okkar Regína Stefánsdóttir.
Þeirra börn eru Kristín skólastjóri
gift Hreini Eiríkssyni húsasmíða-
meistara og Baldur rafiðnaðarkenn-
ari, faðir okkar, kvæntur Elísabetu
J. Sveinbjörnsdóttur fóstru.
Afi og amma voru alveg sérlega
samhent í öllu og aðdáunarvert hve
tillitssöm þau voru hvort við annað
og miklir félagar. Samhent voru þau
í allri ræktun bæði í garðinum sínum
á Höfn og í sumarbústaðnum uppi í
Lóni. Aldrei komum við svo austur
að ekki væri farið upp í Lón í
sumarbústaðinn. Afa þótti mjög
vænt um þann stað og var óþreytandi
að sýna okkur allar plönturnar sínar
og segja okkur heiti þeirra og hvenæT
þær voru gróðursettar. Þetta voru
alltaf mjög ánægjulegar stundir. En
nú kemur afi ekki oftar með okkur
upp í bústað en við trúum því að
hann fylgist með bústaðnum sínum
og okkur öllum en bara á annan hátt.
Elsku amma, söknuður þinn hlýt-
ur að vera mikill nú þegar afi er ekki
lengur á meðal okkar. Við vonum að
minningarnar um alla þá góðu daga
sem þið áttuð saman ylji þér og mildi
sorgina. En þú getur sannarlega
glaðst yfir því að hafa gefið afa jafn
mikið og þú gerðir og gert alltaf allt
fyrir hann sem þú gast. Við biðjum
góðan guð að blessa minningu afa og
styrkja ömmu og styðja.
Stefanía Baldursdóttir
Gísli Martcinn Baldursson
Gísli Björnsson fv. rafveitustjóri
á Höfn lést 25. maí, 92 ára að aldri.
Foreldrar hans voru Björn Gíslason
bóndi á Austurhól og Meðalfelli,
Guðmundssonar, og kona hans
Borghildur Pálsdóttir frá Hofi í
Öræfum, Jónssonar.
Ein af bernskuntinningum mínum
er Gísli, þessi langt að komni maður,
austan úr Hornafirði, heimahéraði
föður míns. Milli móður minnar og
Gísla ríkti gagnkvæm virðing og
vinátta fólks sem margt hefur reynt
en lætur ekki bugast. Fyrir um
tuttugu árum tengdumst við Gísli
sérstökum vináttuböndum, fyrst
vegna sameiginlegs ættfræðiáhuga
og frændsemi.
Starfsferill Gísla var orðinn Iangur
við margbreytt störf. Hann fór ekki
varhluta af brauðstritinu frekar en
aðrir á hans aldri. Dugnaður hans og
starfsþrek var með ólíkindum. Hann
var þátttakandi í flestum framfara-
málum, einkum raforkumálum.
Heiðursborgaratitilinn bar hann
með sóma.
Þótt vinnudagurinn væri oft
langur, gaf Gísli sér tíma til að sinna
fræðastörfum. Hann gerði sér grein
fyrir þeim sannindum, að maðurinn
lifir ekki á brauði einu saman. Gísli
ritaði mikið um menn og málefni
heimabyggðar sinnar, s.s. í Byggða-
sögu Austur-Skaftafellssýslu og
Skaftfelling.
Gísli bar einlæga umhyggju fyrir
fólki og aðbúnaði þess. Ekki var
stóryrðum fyrir að fara, en þungi
orða hans var mikill þegar við átti.
Gísli er gott dæmi um mann sem á
brattann þurfti að sækja og lífsbar-
áttan brýndi til sóknar og dáða.
Börnum sínum koni hann til
manns með atorku og ástúð. Eftir
fráfall Arnbjargar, fyrri konu Gísla,
stóð við hlið hans í því hlutverki
eftirlifandi seinni kona hans Regína
Stefánsdóttir. Hún lét ekki sitt eftir
liggja og njóta nú íbúar Hafnar-
hrepps framlags þeirra hjónanna á
mörgum sviðum. Elskulegt viðmót
og greiðvikni aflaði þeim vina og
virðingar um allt land.
Fyrir hönd systkina minna og
fjölskyldu vil ég votta Regínu, börn-
um hennar og Gísla, börnum Gísla
af fyrra hjónabandi og barnabörnum
öllum, innilega samúð.
Arngrímur Sigurðsson
Auglýsing frá stuðn-
ingsmönnum Vig-
dísar Finnboga-
dóttur, forseta
íslands
Erum að Garðastræti 17, 3. hæð. Verðum til
aðstoðar um kjörskráratriði og aðrar upplýsingar
varðandi forsetakosningarnar.
Opið frá kl. 10 til 19 alla daga.
Símar: 17765, 17823, 17985, 18829, 18874 og
11651.
Ef þið verðið að heiman á kjördag, 25. júní,
munið að greiða atkvæði utan kjörfundar.
Skólafulltrúi
Hafnarfjarðarbær auglýsir lausa til umsóknar
stöðu skólafulltrúa.
Umsóknir er greini menntun og fyrri störf skulu
berast á bæjarskrifstofu Hafnarfjarðar, Strandgötu
6, eigi síðar en 17. júní n.k. Nánari upplýsingar um
starfið veita bæjarritari og skólafulltrúi.
Bæjarstjórinn í Hafnarfirði
FRA MENNTAMALARAÐUNEYTINU
Lausar stöður við framhaldsskóla
Við Fjölbrautaskola Suðurnesja, Keflavík, er laus til umsóknar
kennarastaða í íþróttum.
Við Menntaskólann á Akureyri vantar kennara I eftirtaldar greinar:
sögu, efnafræði og líffræði.
Við Framhaldsskólann á Húsavík er laus til umsóknar staða
bókasafnsfræðings.
Umsóknir ásamt upplýsingum um menntun og fyrri störf sendist
menntamálaráðuneytinu, Hverfisgötu 6, 150 Reykjavík, fyrir 16. júní
næstkomandi.
Þá framlengist umsóknarfrestur á áður auglýstum kennarastöðum til
10. júní næstkomandi: í stærðfræði (2 stöður) við Menntaskólann á
Akureyri og við Framhaldsskólann á Húsavík eru lausar kennara-
stöður í dönsku, ensku, íslensku, stærðfræði, viðskiptagreinum,
þýsku. Þá er óskað eftir sérkennara til að kenna nemendum með
sérkennsluþarfir.
Menntamálaráðuneytið