Tíminn - 07.09.1988, Blaðsíða 8

Tíminn - 07.09.1988, Blaðsíða 8
8 Tíminn Tíminn MÁLSVARIFRJÁLSLYNDIS, SAMVINNU OG FÉLAGSHYGGJU Útgefandi: Framsóknarflokkurinn og Framsóknarfélögin í Reykjavík Framkvæmdastjóri Ritstjórar: Aðstoðarritstjóri: Fréttastjórar: Auglýsingastjóri: Kristinn Finnbogason Indriði G. Þorsteinsson ábm. IngvarGíslason OddurÓlafsson Birgir Guðmundsson Eggert Skúlason Steingrimur Gíslason Skrifstofur: Lyngháls 9, Reykjavlk. Sími: 686300. Auglýsingasími: 680001. Kvöldsímar: Áskrift og dreifing 686300, ritstjórn, fréttastjórar 686306, íþróttir 686332, tæknideild 686387. Setning og umbrot: Tæknideild Tímans. Prentun: Blaðaprent h.f. Auglýsingaverð kr. 465,- pr. dálksentimetri. Verð í lausasölu 60,- kr. og 70,- kr. um helgar. Áskrift 700.- Staða sauðfjárbúskapar Aðalfundur Stéttarsambands bænda var hald- inn á Akureyri í fyrri viku. Fundinn bar upp á hið mikla umrót sem nú á sér stað í efnahagsmálum þjóðarinnar, þegar ríkisstjórnin leitar ráða til þess að treysta grundvöll útflutningsframleiðsl- unnar og draga úr verðbólgu. Ekki er því að neita að vandi landbúnaðarins er enn verulegur og sérstæður að ýmsu leyti. Rangt væri að halda því fram að vandi landbúnað- ar tengist ekki hinum almenna efnahagsvanda, en eigi að síður er hann sérstakur, einkum að því leyti að landbúnaðurinn hefur undanfarin þrjú ár gengið gegnum aðlögunartímabil, sem ekki er lokið, og sett hafa verið skipuleg heildarmarkmið varðandi landbúnaðarframleiðslu sem ekki er sambærilegt við neitt það sem er að gerast í öðrum atvinnugreinum eða á við um aðrar þjóðhags- stærðir. Svo langur tími er þegar liðinn af aðlögunar- tímabili landbúnaðarframleiðslunnar, að hægt er að greina árangur og ágalla í ýmsum atriðum. Eins og skýrt kom fram í yfirlitsræðum landbún- aðarráðherra, Jóns Helgasonar, og formanns Stéttarsambands bænda, Hauks Halldórssonar, hefur gengið tiltölulega vel að aðlaga mjólkur- framleiðsluna þeim markmiðum sem sett voru, þannig að mjólkursalan svarar til fullvirðisréttar mjólkurframleiðenda. Það er því greinilegt að offramleiðsluvandamál á sviði kúabúskapar er hverfandi. Hins vegar hefur miklu síður tekist til í sauðfjárræktinni. Þrátt fyrir kerfisbundna fækkun sauðfjár og fullan vilja bændastéttarinnar að ná eðlilegu framleiðslumarki á sviði sauðfjárbúskap- ar, er birgðastaða í kindakjöti óhagstæð í upphafi nýs sláturtímabils. Þetta eru að sjálfsögðu vonbrigði og ástandið á allt annan veg en búist var við þegar búvörulögin voru sett fyrir þremur árum. Það sem gerst hefur er ekki það að bændur hafi ekki staðið við það að fækka sauðfé eins og til stóð, heldur hitt að sala og neysla kindakjöts dregst saman langt umfram áætlanir. Ekki liggur ljóst fyrir hvaða markaðsöfl eða aðrar aðstæður ráða því að kindakjötsneyslan minnkar svo mjög sem raun ber vitni. Á því eru þó vafalaust ýmsar skýringar. Sumar þessara skýringa eru nærtækar, en aðrar e.t.v. ekki. Það er brýnt að forystumenn bændastéttarinnar og landbúnaðarráðuneytið einbeiti sér að því að kanna ástæðurnar fyrir minnkandi neyslu á kinda- kjöti og geti að því loknu gert skýra grein fyrir framtíðarhorfum þessarar mikilvægu búgreinar. Miðvíkudagur 7. september 1988 Að af la og að eyða DV birti niöurstööur nýrrar skoðanakönnunar sinnar í fyrra- dag. Þar kemur fram, líkt og fyrr á þessu ári, að Kvennalistinn virðist hafa stóraukið fylgi sitt. Nánar til tekið lítur dæmið þannig út að flokkur kvennanna myndi fá einar átján þingkonur ef kosið væri núna. Með eðlilegum fyrirvara um að lítið er hér vitað um ferðalög fólks á milli flokka þá er helst svo að sjá að Kvennalistinn sé að hirða kjós- endur í stórhópum frá Alþýðu- flokki og Alþýðubandalagi. Auk þess virðist hann taka til sín nokk- uð af fylgi Borgaraflokks, sem annars virðist vera að þurrkast út, eða nánar til tekið það sem ekki skilar sér aftur til föðurhúsanna í Sjálfstæðisflokknum. Hvað sem annars líður áreiöun- leika skoðanakannana svona yfír- leitt þá virðast niðurstöður, sem sýna fylgisaukningu Kvennalist- ans, vera orðnar það margar að gera verði ráð fyrir að þær séu marktækar. Með öðrum orðum að Kvennalistinn sé orðinn einn af þremur stærstu stjórnmáiaflokkum þjóðarinnar. Flokkur án stefnumála Þessi nýja stærð Kvennaiistans kallar hins vegar á að þar á bæ fari fólk að taka á sig rögg og sýna meiri stjórnmálalega ábyrgð en verið hefur. Það þarf hvorki að rekja það fyrir einum né neinum að undanfarin misseri hefur Kvennalistinn mátt sitja undir þungum ásökunum um að hann sinnti engu nema mjúku málunum, en þegar kæmi til hinna bláköldu staðreynda i rekstri þjóðarbúsins þá stæði hann uppi ráða- og stefnu- laus. Því er ekki að leyna að oftar en hitt hafa talsmenn flokksins komið fram með þeim hætti að frekar hefur ýtt undir þessa gagnrýni en hitt. Þingkonur hans hafa haldið langar ræður sem eingöngu snérust utan um kúgun karla á konum, jafnt heima fyrir sem á vinnumark- aði, nauðsyn þcss að fjölga dag- heimilum og búa betur að öldruö- um. Það er þetta sem venjulega er kallað mjúku málin, með öðrum orðum skoðanir sem hver einasti réttsýnn og heiðarlegur íslending- ur hlýtur að taka undir. En aftur á móti hefur líka jafnoft og jafnmikið borið á því að þing- konur Kvcnnalistans sýndu sig í því að vera talsvert miður talglaðar þegar til dæmis er um að ræða að leysa vanda útflutningsgreina eða berjast við verðbólgudraug. Garri telur sig fylgjast nokkuð vel með fjölmiðlaumræðunni, en hann seg- ir eins og er að honum er gjörsam- lega óijóst hvaða leiðir Kvennalist- inn vill fara til að leysa þann vanda frystihúsanna »g atvinnurekstrar í dreifbýli yfirleitt, sem hvað mest hefur verið rætt um undanfariö. Svo er nefnilega að sjá að Kvennalistakonur hafl til dæmis ekki mótað sér neina skoðun á því hvort lækka cigi gengið eða ekki, hvort leyfa eigi hávaxtastefnunni að grassera áfram óheftri, eða hvort beita eigi niðurfærsluleið í baráttu við verðbólgu og þenslu. Og eru þá aðeins örfá atriði nefnd af fjöldumörgum, sem alvöru stjórnmálamenn landsins eru nú að vega og meta, og sem óneitan- lega skipta talsvert miklu máli varðandi það hvort hægt verður að búa áfram hér í þessu landi. Stærð kallar á ábyrgd Hinar nýfengnu staðreyndir skoðanakannana um stærð Kvennalistans leggja honum hins vegar nýja ábyrgð á herðar. Flokk- ur af stærðargráðu 18 þingmanna hefur ekki leyfi til að vera með neinn leikaraskap í þingsölum. Fátt er líklegra en að til hans kasta komi um stjórnarmyndun eftir að næst hefur verið kosið. Og þá reynir á hvort hann sýnir meiri ábyrgð en í scinustu stjórnarmyndunarviðræð- um. En fari svo að Kvennalistinn eignist fleiri eða færri ráðherra þá dugar ekki að eyða bara fé í mjúku málin. Þá reynir á hvort marglofuð útsjónarsemi hinnar hagsýnu hús- móður dugar þeim til að halda atvinnulífínu gangandi, með öðr- um orðum til þess að afla í stað þess einungis að eyða. Svo er skcmmst frá að segja að til þessa hefur ekki borið tiltakan- lega mikið á því að fulltrúar Kvennalistans á þingi kynnu eins vel að afla og að eyða. En nú reynir á. Ósennilegt er að fólk eyði at- kvæðum sínum á flokk sem engin ráð kann til að halda fyrirtækjum í landinu gangandi og þar með að halda uppi atvinnu. í kjölfar nýj- ustu upplýsinga um vaxandi flokk bíða menn nú spenntir eftir nýjum úrræðum. Garri. 11111111111111 VÍTT OG BREITT llllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllli Að smygla biblíum handa grúskurum í austurvegi Eitt hið ánægjulegasta sem ýms- um finnst um heim okkar daga er ferðamenningin og ferðafrelsið, hversu auðvelt það má heita að fara land úr landi án formshindrana og skriffinnsku. En þótt þetta sé sagt og ferðafrelsið lofað hástöf- um, þá hljóta slíkunt fullyrðingum að fylgja margir fyrirvarar að nærri lætur að ályktunin snúist við, nefni- lega að ferðafrelsi sé stórlega tak- markað af ströngum formshindr- unum og skriffinnsku, að ckki sé meira sagt. Áleiðtil Vestur-Þýskalands Á þetta eru íslendingar nú ræki- lega minntir, þegar unglingsstúlka frá Austur-Þýskalandi, sem hér var í skipulagðri boðsferð með jafnöldrum sínum til þess að kynn- ast íslenskum þjóðfélagsaðstæð- um, notar tækifærið til þess að komast leiðar sinnar til Vestur- Þýskalands með laumulegum hætti af því að hún á þess ekki kost að ferðast þangað eins og frjálsborin manneskja. Það má vera öldungis Ijóst að þessi unga stúlka hefur ekkert það til saka unníð gagnvart fósturjörð sinni, sem réttlætir að á hana sé lagt farbann, annað en það að stjórnvöld í Austur-Þýskalandi hindra ferðafrelsi þegnanna með almennum reglum, sem allir verða að lúta. Slíkar reglur munu gilda hvar- vetna í þessum sósíalísku alþýðu- lýðveldum í Mið- og Austur-Evr- ópu. Frelsistakmarkanir eru svo víðtækar að fólk getur ekki ferðast á eigin spýtur eða eftir persónulegu vali, hversu brýnar og eðlilegar sem ástæður ferðalaganna kunna að vera. Frelsistakmarkanir af þessu tagi er augljóst vitni um afturhaldssamt þjóðfélagsástand, sem engin leið er að finna afsakanir fyrir nema tóman fyrirslátt. Biblíuáhugi Sá sem þessar línur ritar hefur átt þess kost að kynnast af eigin reynd hinum furðulegustu frelsis- hindrunum, sem á menn eru lagðar í austantjaldslöndum, ekki vegna þess að maður hafi verið að leita uppi slík dæmi, heldur hafa þau komið ósjálfrátt upp í hendurnar á manni. Eitt sinn hitti ég í einu slíku landi vel lærðan málfræðing, sem lagt hafði stund á germönsk og norræn mál, sem hann virtist hafa vel á valdi sínu, og var m.a. sæmilega að sér í íslensku og langaði að læra enn betur. Hann hafði sérstaka löngun til þess að eignast íslenska biblíu, ekki vegna þess að hann hefði guðfræðiáhuga umfram aðra menn, heldur af því að hann taldi að biblían kæmi sér að betra haldi í íslenskunámi en aðrar bækur. Lagði hann mjög að mér að útvega sér íslenska biblíu, sem var auðsótt mál við mig. Hins vegar upplýsti hann mig um það að það kynni að vera örðugra fyrir sig að veita slíkri bók viðtöku en það tæki mig að kaupa hana og póst- leggja með venjulegum hætti á íslandi. Hans tillaga var því sú að ég tæki þátt í að smygla biblíunni til sín og fór að upphugsa einhver ráð til þess að það mætti heppnast. Þetta reyndist hægara sagt en gert og kunni hvorugur ráð við þessu, þegar á átti að herða. Að lokum sendi ég honum Heilaga ritningu eftir leið, sem enginn huliðshjálm- ur var yfir, en ég veit ekki enn í dag, hvort hann fékk bókina í hendur eða augum litið, og er ntér þó nokkur forvitni á því. Það fylgdi reyndar upDlýsingum hans um bókagjafir af þessu tagi, að líklega yrði séð til þess af hálfu hins opinbera að bókin vrði ekki endur- send og ekki brennd eða urðuð, heldur myndi henni verða komið fyrir í einhverju bókasafni. En engar líkur taldi hann á því að hann fengi bókina til eignar, svo að honum væri frjálst að hafa hana í bókahillu heima eða við höfðalagið hjá sér, sem hann var þó að sælast eftir. Menn geta því ímyndað sér hvernig ferðafrelsi almennings muni vera í umræddu landi, þar sem saklausir grúskarar hafa naumast lestrarfrelsi, að ekki sé minnst á tjáningarfrelsi yfirleitt. Hvar er ferðafrelsið? Miðað við þessi ósköp verður tæpast mikið úr þeirri fyrirtekt frönsku ríkisstjórnarinnar að krefj- ast vegabréfsáritunar fyrir alla út- léndinga, sem til Frakklands koma aðra en þegna Efnahagsbandalags- ríkja. Þessi áritunarkvöð leiðirþað m.a. af sér að íslenskir, norskir og sænskir þingmenn, sem veljast til þess að sækja fundi Evrópuráðsins í Strassborg, geta ekki komist á fundarstað með venjulegt vegabréf í farteskinu, ekki einu sinni dipl- ómatavegabréf, heldur verða þeir að sækja um sérstakt leyfi hjá frönskum stjórnvöldum, hvort þeim sé heimil för á fundi þeirrar Evrópustofnunar, sem leggur aðal- áherslu á persónufrelsi og önnur grundvallarmannréttindi. Þessi frelsishindrun til ferðalaga um Frakkland hefur gilt um nokkurra ára skeið. Nú berast fréttir af því að utanríkisráðherrum Norður- landa þyki nóg komið af svo góðu og hafa ályktað að Norðurlönd muni ekki senda fulltrúa á fundi Evrópuráðsins meðan áritunar- kvöðin er við lýði. Þannig getur sú hugleiðing sem hefst á því að lofa ferðamenningu og ferðafrelsi nútímans endað á því að spyrja spurninga um, hvar þetta frelsi sé á vegi statt. I.G.

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.