Tíminn - 03.12.1988, Blaðsíða 4
4
HELGIN
Laugardagur 3. desember 1988
Hér eru skipbrotsmenn teknir um borð í þýskan kafbát 1916. Þetta var þó ekki algild regla, því þrengsii voru
mikil í bátunum og ekki alltaf hertekið „björgunarskip" nærstatt. Almennt var farið að vopna kaupskip árið
á eftir og þar með var úr sögunni að kafbátarnir sýndu nauðstöddum áhöfnum slíka mannúð.
U-49
voru menn af ýmsum þjóðernum,
svo sem Norðmaður, Frakki, tveir
ítalir, Grikki, Rússi og Portúgali.
Voru sumir þeirra mjög klæðlitlir,
en Þjóðverjar tóku föt af togara-
mönnum og fengu þeim þau og létu
allir sér vel líka.
Meðal annars sem tekið var úr
ensku togurunum voru margar
drykkjarkrúsir. Ekki vildu Þjóðverj-
ar sjálfir nota þær og drukku aðeins
úr krúsum Braga.
Þessum mannfjölda, sem nú var
um borð, var þannig komið fyrir í
skipinu: Foringi Þjóðverja svaf í
brúnni hjá skipstjóra og höfðu þeir
þar vopnin og sprengjurnar hjá sér,
geymt í klæðaskáp. Allir skipverjar
Braga voru fluttir aftur á og þar voru
einnig þrír Þjóðverjar, véistjórar
sökktu skipanna og matreiðslumað-
ur Seatonia. Tók hann algjörlega að
sér öll brytastörf, ásamt tveimur
hjálparkokkum sínum. Þeir voru
látnir baka brauð allar nætur. Fyrst
voru 19 manns aftur í káetu, en sá
20. var fluttur þangað, vegna þess að
hann veiktist. Tók sig upp sár sem
hann hafði fengið á vígstöðvunum í
Frakklandi. Allir hinir 44 voru
frammi í hásetaklcfa og var þar
þröngt, enda leituðu ýmsirsérsvefn-
staðar hvar sem þeir gátu.
Styttist í herleiðingunni
Haldið var nú suður á bóginn, en
farið hægt, því veðrið var vont og
hélst það alla nóttina, en daginn eftir
var komið dágott veður. Sást þá
stórt, franskt gufuskip koma í móti
Braga. Þótti Þjóðverjum slæmt að
kafbáturinn skyldi hvergi vera nærri
til að sökkva því.
Á áttunda degi frá því er Bragi
hitti kafbátinn var komið suður und-
ir Spánarströnd, um 120 sjómílur
vestur af Santander. Var þá stillilogn
og blíða, en ekkert sást til kafbátsins
og áttu þeir þó að hitta hann á
þessum slóðum. Lónuðu þeir nú
fyrir utan landhelgi í 4-5 klukku-
stundir. Þá sést norskt gufuskip
koma af hafi. Kom nú heldur enn
ekki hugur í Þjóðverja. Létu þeir
draga upp þýska gunnfánann á
Braga og sigldu á móti skipinu. Voru
því gefin merki um að staðnæmast
þegar, því nú skyldi því sökkt. En
þá kom það svar að skipið væri undir
þýskri stjórn. Og rétt á eftir sást
kafbáturinn, sem kom öslandi á eftir
því ofansjávar.
Kafbáturinn gaf nú Braga merki
um það að skipstjórinn og allir sínir
menn ættu að koma um borð, en alla
Englendinga skuli loka niðri í Braga
á meðan. Vissu Bragamenn ekki
hverju þetta sætti og urðu hálf
órólegir, því að þeir bjuggust við að
nú ætti eitthvað að gerast, sem
Englendingar mættu ekki sjá. En
skipuninni var hlýtt. Þjóðverjarnir á
Braga ráku alla Englendinga fram í
hásetaklefa. Varð matreiðslumaður
af Seatonia seinastur, og sagði þá
foringi Þjóðverja að hann mætti
gjarna vera á þilfari. Hafði alltaf
farið vel á með honum og Þjóðverj-
um. Var þetta roskinn maður og
mjög skemmtilegur. En við útgöngu-
dyr hásetaklefans var einn af Braga-
mönnum settur á vörð með byssu.
Leiðir skiljast
Þegar Þjóðverjar voru að búa sig
undir að fara alfarnir frá borði sagði
foringi þeirra við skipstjórann að ef
hann hefði ekki hitt kafbátinn þarna,
hefði hann átt að sigla Braga inn til
Santander undir þýskum herfána,
taka þar kol og matvæli í þýskan
reikning og sigla síðan suður með
landi, þangað til hann hitti kafbát-
iun.
Kvöddu nú Þjóðverjar Braga-
menn með mestu virktum og þökk-
uðu þeim fyrir samveruna. Sögðu
þeir að íslendingar væru tilvaldir
sjóliðsmenn og stríðsmenn. Að
skilnaði voru Þjóðverjum gefnir ís-
lenskir ullarsokkar og fleira, því að
þeir kvörtuðu mjög undan fótakulda
í kafbátnum, þegar hann væri í kafi.
Þegar um borð í kafbátinn kom,
sagði yfirforinginn við skipstjóra
Braga að nú hefði hann fengið betra
skip til þess að taka við fólki af
sökktum skipum. Átti hann þar við
norska skipið. Einnig gat hann þess
að samkvæmt þeim fyrirskipunum
sem hann hafði fengið, hefði hann
fullan rétt til þess að sökkva Braga,
en sökum góðrar framkomu og
hlýðni ætlaði hann að hlífa skipinu.
En það mætti hann vita að ef Þjóð-
verjar hittu Braga aftur á leið til
Englands með farm, þá yrði honum
sökkt fyrirvaralaust.
Síðan afhenti yfirforinginn Guð-
mundi riffil hans og sagði að ef til vill
mundi hann þurfa á honum að
halda, vegna þess hvaða óþjóðalýð
hann hefði innan borðs. Þó megi
hann vita að hlutlaus skip megi ekki
hafa vopn. En marghleypunni
kvaðst hann ætla að halda. Kort
Braga kvaðst hann ekki afhenda, en
fékk honum lítið Evrópukort og
kvað það nægja til næstu hafnar.
Ætlaði Guðmundur nú að fara, en
þá spyr yfirforinginn hvort hann ætli
ekki að taka í hendina á sér og þakka
sér fyrir skipið. Gerði skipstjóri það
auðvitað með gleði og kvöddust þeir
svo með mestu virktum og óskaði
hvor öðrum allra heilla.
Skildust nú leiðir. Hélt kafbátur-
inn og norska skipið suður á bóginn,
en Bragi áleiðis til Santander. Fréttu
þeir Bragamenn það seinna að
norska skipið hefði komið til hafnar
á sunnanverðum Spáni með 160
menn af skipum, sem kafbáturinn
hafði sökkt.
Seinsótt heimför
Ferðalagið frá því er Bragi skildi
við kafbátinn gekk vel, enda þótt
hann hefði engin sjókort. Komu þeir
til Santander eftir tæpan sólahring.
Flaug sú fregn eins og eldur í sinu
um borgina að þangað væri kominn
„danskur“ togari með fjölda manns
af skipum, sem kafbátur hefði sökkt.
Streymdi múgur og margmenni nið-
ur á hafnarbakkann. Stóð þá ekki á
ftölum og Portúgölum um borð að
leysa frá skjóðunni og gerðu þeir
ekki minna úr mannraunum sínum
en efni stóðu til.
Marga blaðamenn bar að og
mynduðu þeir áhöfnina og skip-
brotsmenn í bak og fyrir og birtust
myndir af þessu víða um Spán.
Heima á íslandi hafði skipið verið
talið af. Þarf ekki að lýsa hve fegnir
menn urðu þegar til skipsins spurðist
í Santander. Sendi útgerðarmaður-
inn 40 þúsund peseta ávísun suður á
Spán og veitti ekki af, því í Santand-
er varð skipið að liggja í þrjár vikur.
Að skipun breskra yfirvalda varð
skipið að koma við í Falmouth í
Bretlandi á heimleiðinni. Var það
mjög hættulegt, eins og á stóð,
einkum þar sem Þjóðverjar höfðu
hótað að sökkva skipinu, ef það
sæist á leið til Englands að nýju.
Tókst að fá vottorð frá þýska kon-
súlnum í Santander um hvernig
ferðalaginu væri háttað og urðu
menn hressari í bragði fyrir vikið.
Margt varð til að tefja heimsigling-
una. Bragi var aftur og aftur stöðv-
aður af herskipum, bæði breskum og
frönskum og gert að gera grein fyrir
ferðum sínum. En loks stytti öll
þessi él upp og hinn 22. desember
1916 var skipið á ný komið til
Reykjavíkur. Hafði siglingin þá
staðið í 49 daga. Varla hafa ættingjar
mannanna á Braga talið sig hafa
getað fengið betri jólagjöf en að
heimta mennina þannig heila á húfi.
Skipið átti eftir að draga margan
fisk úr sjó við íslandsstrendur eftir
þetta, en siglingar þess urðu ekki
fleiri á Bretland. Árið eftir, 1917,
var það seit til Frakklands og varð
Bragi einn margra íslenskra togara
sem um það leyti voru seldir úr
íslenska flotanum. En það er önnur
saga.
Og hér lýkur að segja frá þessu 72ja
ára gamla ævintýri á ófriðarslóðum.
Helgi Björnsson ásamt félögum sínum í „Síðan skein sól“:
Góð eins og
Graf ík var
Síðan skein sól hefur að mínu
mati nokkra sérstöðu í íslenskri
popptónlist. Þarna fer sveit sem
spilar tiltölulega hráa en engu að
síður aðgengilega tónlist, í flestum
tilfellum allavega.
Fyrirsögnin hér að ofan segir
reyndar til um hvaða hljómsveit
kom fyrst upp í huga mér þegar ég
hlustaði á plötu Síðan skein sól,
sem ber einfaldlega heiti hljóm-
sveitarinnar. Helgi Björnsson
finnst mér vera stórskemmtilegur
söngvari og tími til kominn að í
honum heyrist á ný eftir nokkurt
hlé.
Hrátt en gott. Tónlistin er í
hrárri kantinum, eins og áður
sagði, en þarna er engu að síður
um að ræða melódísk lög sem eiga
vafalaust eftir að heyrast á útvarps-
stöðvunum, ef þau þá drukkna
ekki í því hljómplatnaflóði sem nú
hellist yfir.
Það eru einkum tvö lög á þessari
plötu sem falla mér í geð. en þar er
um að ræða lögin; „Geta pabbar
ekki grátið“ og „Svo marga daga“.
Helgi Björnsson semur alla texta
plötunnar og gerir það oft á tíðum
ágætlega til dæmis í „Geta pabbar
ekki grátið“:
Allir dást að því
hvað þú sért stór og sterkur
kinnkað kolli og klappað
hraustlega á bak
Ef þú svo dettur og meiðir þig
máttu ekki gráta
það er sko merki um dugleysi
og aumingjaskap
Geta pabbar ekki grátið?
í laginu „Svo marga daga“
bregður Helgi fyrir sig töktum sem
minna einna helst á Bryan Ferry
söngvara Roxy Music sálugu.
Skemmtileg raddbeiting í
skemmtilegu lagi.
í stuttu máli sagt er þessi plata
ávísun á góða hluti. Inneignin er til
staðar og ég bíð eftir vöxtunum.
-Árni Magnússon
Jóhann G. Jóhannsson með nýja plötu fyrirftlin, „Myndræn áhrif“:
Fæst orð hafa
minnsta ábyrgð
Ég er búinn að hlusta alloft á
plötu Jóhanns G. Jóhannssonar,
Myndræn áhrif. Ég er búinn að
velta því mikið fyrir mér hvað vaki
fyrir honum með því að senda frá
sér plötu á borð við þessa. Ég hef
árangurslaust reynt að finna lag
sem mér finnst skemmtilegt á þess-
ari plötu. Ég hefði helst viljað
sleppa því að skrifa um hana en
það verður víst að gera fleira en
gott þykir.
Jóhann G. Jóhannsson átti á
sínum tíma ágætt innleg í íslenska
popptónlist. Nægir þar að nefna
íagið „Don’t try to fool me“, sem
af mörgum er talið eitt af betri
popplögunum, íslenskum. Þessi
plata kemur ekki til með að lifa í
minningunni sem meistaraverk.
Jú, kannski hjá einhverjum sem
misskilið meistaraverk. A.m.k. olli
hún mér miklum vonbrigðum.
Kannski skil ég hana ekki og ef svo
er þá eru ótrúlega margir sem eru
jafn skyni skroppnir ogég. Og ekki
orð um það meir, eins og maðurinn
sagði. -Árni Magnússon