Tíminn - 24.06.1989, Blaðsíða 11

Tíminn - 24.06.1989, Blaðsíða 11
Laugardagur 24. júní 1989 Tíminn 23 lllllllllllllllllllllllll MINNING i| Séra Jakob Jónsson Fæddur 20. janúar 1904 Dáinn 17. júní 1989 Á mánudag verður jarðsunginn í Reykjavík séra Jakob Jónsson, sem lengi var sóknarprestur Hallgríms- kirkjusafnaðar og þekktur rithöf- undur og skáld. Séra Jakob andaðist á ferðalagi á Djúpavogi, en þangað fór hann, ásamt Eysteini Jónssyni, bróður sínum, til að minnast fjögur hundruð ára afmælis verslunar á staðnum. Hafði verið fyrirhugað að séra Jakob flytti frumort kvæði vegna afmælisins, en af því varð ekki. Séra Jakob fæddist 20. janúar 1904 á Hofi í Álftafirði sonur séra Jón Finnssonar prests þar og konu hans Sigríðar Hansdóttur. Hann ólst upp á Djúpavogi, þar sem faðir hans þjónaði en varð guðfræðingur frá Háskóla íslands 1928. Að loknu guðfræðiprófi gerði séra Jakob víð- reist vegna framhaldsnáms. Dvaldi hann víða á Norðurlöndum og einnig í Kanada við nám og störf á fyrri árum, og þjónaði einnig á þeim tíma bæði á Djúpavogi sem aðstoðar- prestur föður síns og í Norðfirði. Árið 1934 flutti séra Jakob ásamt fjölskyldu sinni vestur um haf og gerðist prestur í íslendingabyggðum í Kanada í fimm ár. Heim flutti hann skömmu eftir stríðsbyrjun, og fékk veitingu fyrir Hallgrímsprestakalli frá ársbyrjun 1941. Pví embætti gegndi hann með reisn til ársloka 1974. Með prestsskap gegndi séra Jakob fjölmörgum trúnaðarstörfum, bæði í þeim byggðarlögum, þar sem hann starfaði heima og erlendis, og tók virkan þátt í flestu því sem laut að kirkjulegum málefnum. En að auki var séra Jakob mikilvirkur rithöf- undur. Liggur eftir hann fjöldi rit- verka, m.a. leikrit ein sjö talsins. Þekktast þeirra er leikritið Tyrkja- Gudda, sem tekið var til sýningar í Þjóðleikhúsinu og naut mikilla vin- sælda. Þar segir frá konu Hallgríms Péturssonar, sem Tyrkir (Alsír- menn) rændu og kemur fram sú gamla sögn, að Guðríður Símonar- dóttir hafi orðið trúarvana í útlegð- inni. Það henti hana hins vegar að hún giftist einhverjum trúheitasta manni, sem hér hefur verið uppi, og mun séra Jakob hafa séð að þarna var nokkur grunnur til að reisa á leikverk. Sóknarbörn nutu mikillar mælsku séra Jakobs og andagiftar hans. Ræður sínar byggði hann oft upp á dæmisögum, eða lyfti þeim upp með sögum úr daglega lífinu, og fóru þá saman á kostum guðspekingurinn og skáldið í einum og sama manni. Séra Jakob var dáður kennimaður af sóknarbörnum sínum, og þegar hann flutti útvarpsmessur hér áður fyrr talaði fólk gjarnan um efni þeirra eftir á, enda voru þær á máli sem það skildi. Séra Jakob gerði sér far um að semja og flytja mál sitt á ljósan hátt og vísaði gjarnan í máli sínu til efnis sem fengið var hjá alþýðu manna. Sem kennimaður og skáld varpaði séra Jakob svip á umhverfi sitt og samtíð. Hann var gjarnan léttur í máli og mælskur vel og skemmtileg- ur. Þótt samræður yrðu kannski ekki langar tókst honum að koma víða við, minntist þá jöfnum höndum sorga samborgara og gleðiefna. En það skildist greinilega á raddblænum hvort hann var að ræða um sorgar eða gleðiefni, slík var hluttekning hans. Það sýnir breidd persónunnar og vinnusemi, að þrátt fyrir annasamar tíðir tókst séra Jakobi að skrifa fræðiritgerðir trúarlegs eðlis og var hann í framhaldi af því gerður að doktor í guðfræði við Háskóla íslands. Þá skrifaði hann ritgerðina Humor and Irony in the New Testa- ment, útgefna í Kaupmannahöfn 1961. Nokkru seinna var honum boðið til Persíu til að sitja þar mikla þjóðhátíð sem Persakeisari efndi tii, og mun boðið hafa komið til vegna rannsókna séra Jakobs á Kyrusi, en árið 1973 gaf hann út bók, sem nefndist Kyrus f íslenskum rímum. Þótt hér hafi aðeins fátt af því verið talið, sem séra Jakob tók sér fyrir hendur, gefur það þó nokkra mynd af nær ótrúlegum afköstum skáldsins og kennimannsins. í júlímánuði 1928 kvæntist séra Jakob eftirlifandi konu sinni, Þóru Einarsdóttur. Þau eignuðust fimm böm. Elst er Guðrún Sigríður. Þá er Svava fyrrverandi þingmaður og rit- höfundur. Jökull rithöfundur og leikritaskáld var næstur í röðinni, en hann er látinn. Svo koma þeir Þór og Jón Einar. Afkomendur séra Jakobs eru margir og frændgarður hans er stór. Það sást best, þegar styttaaf Eysteini Jónssyni, fyrrverandi ráðherra, var afhjúpuð á Djúpavogi á dögunum. Kært var með þeim bræðrum. Séra Jakob var orðinn áttatíu og fimm ára og er það hár aldur hverri manneskju. Hins vegar er það nú svo, að kveðjustundin kemur oft á óvart, einkum þegar andlegt atgervi er óskert. Séra Jakob var aftur kominn á æskustöðvar sínar og þær voru það síðasta sem hann sá. Það er fagur dánarstaður hverjum manni. Við hér á Tímanum fáum ekki fleiri upphringingar, þegar brugðið var á skraf um ólíklegustu hluti. Við fáum heldur ekki fleiri ljóð til birtingar. Um leið og við viljum votta aðstandendum og frændliði samúð okkar út af fráfalli þessa mæta manns, viljum við ítreka að séra Jakob var ekki einungis margra manna maki í ævistarfi sínu. Hann var líka landi sínu góður sonur. Indriði G. Þorsteinsson Traustir austfirskir ættstofnar úr fjörðum og af Héraði stóðu að séra Jakobi. 1 hópi forfeðra hans og for- mæðra voru embættismenn, fræða- menn, skáld, athafnamenn og forustu- menn í félagsmálum. Til alls þessa fólks hafði hann sótt eins og fjölhæfni hans og vítt áhugasvið bar vitni. Hann var embættismaður í besta skilningi þess orðs og hafði næma tilfinningu fyrir þeim skyldum sem embættið krafðist, hann var vísindamaður á heimsmælikvarða, hann var frjótt og hugmyndaauðugt skáld og hann naut sín einkar vel sem forustumaður í félagsmálum, glöggskyggn á vandamál og viðfangsefni manníegs samfélags. Jakob var fæddur á Hofi í Álftafirði, annar í röðinni af þremur sonum Sigríðar Hansdóttur Beck og séra Jóns Finnssonar. Elstur var Finnur er lést nokkurra vikna gamall, en yngstur var Eysteinn fyrrverandi ráðherra. Tvær fóstursystur áttu þeir'Jakob og Ey- steinn, Elísabetu Hansdóttur Beck og Guðríði Sveinbjarnardóttur sem báðar eru látnar. Á heimili þeirra Sigríðar og séra Jóns var mikið af bókum og mikið lesið og Djúpivogur þar sem þau áttu lengstaf heima var gamalgróinn versl- unarstaður. Á öndverðri öldinni fóru þar um nýir straumar þjóðfrelsis og jafnaðarstefnu sem ungt fólk með réttlætiskennd hreifst af og var gaman að heyra séra Jakob segja frá þvi hver áhrif þessar nýju hugmyndir höfðu haft á hann. Nýjungar í verslunar- og menningarmálum voru einnig á döfinni á Djúpavogi á þessum tímum og upp- lestrar og leiksýningar ekki ótíð fyrir- bæri. Úr þessu umhverfi lá Ieiðin í Menntaskólann í Reykjavík og guð- fræðideild Háskólans. Á þessum árum voru einnig ýmsar hræringar í guð- fræðilegum efnum sem guðfræðinemar tóku virkan þátt í með útgáfu tímarits- ins Strauma sem Jakob stóð að ásamt fleirum. Þar var andæft við gamalguð- fræði, en haldið fram frjálslyndri guð- fræði eða nýguðfræði svonefndri og sumir nýguðfræðinga aðhylltust einnig spíritisma að einhverju leyti. Var hald- ið uppi fjörugum og lifandi orðaskipt- um á milli þessara hópa í ræðu og riti. Séra Jakob vígðist til Djúpavogs sem aðstoðarprestur föður síns árið 1928. Frá 1929 til 1935 þjónaði hann Norðfjarðarprestakaili, en gegndi prestsþjónustu hjá íslenskum söfnúð- um í Kanada 1935 til 1940. Frá 1941 til 1974 þjónaði hann Hallgrímspresta- kalli í Reykjavík. Hann sat í stjórn Prestafélags íslands í 18 ár, þar af formaður félagsins í 10 ár. Auk þess voru honum falin mörg trúnaðarstörf á vegum stéttarfélagsins og kirkjunnar, m.a. var hann fulltrúi íslensku kirkj- unnar á stofnfundi alkirkjuráðsins í Amsterdam 1948 og sat fjölmarga aðra fundi á alþjóðavettvangi fyrir kirkj- unnar hönd. Prestsstarf og prestsþjónusta var séra Jakobi í blóð borið. Hann var einstaklega vinsæll prestur, nærfærinn sálusorgari og rómaður predikari. Ræðusnilld hans var einstök, leiftrandi af andagift og visku, mál hans var ljóst og lifandi og hann kryddaði einatt ræður sínar með dæmum úr daglegu lífi. Vissu ef til vill ekki allir að ræður sínar flutti hann oftast blaðalaust af munni fram. Hann var einarður og djarfur f boðun orðsins og flutti það sem fyrir honum var sannast og réttast á hverjum stað og hverri stundu. Ég dáðist oft að uppbyggingu hans á þessum blaðalausu predikunum, hvernig öllu var til skila haldið og þræðirnir dregnir saman í lokin. Síð- ustu predikun af þessu tagi flutti hann í Seljakirkju fyrir nokkrum vikum. Fyrir hönd stéttar sinnar var séra Jakob mjög metnaðarfullur og áhuga- samur um menntun presta og kjör. Árum saman vann hann að því að bæta kjör presta. Hann vildi að þeir gætu helgað sig prestsþjónustunni óskiptir án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni. Ritstörf voru ætíð snar þáttur í starfi séra Jakobs, fræðirit, sögur, ritgerðir, leikrit og ljóð. Mesta verk hans á vettvangi fræðimennsku var doktors- ritgerðin um kímni og skop í Nýjatesta- mentinu sem hann varði við Háskóla íslands árið 1965. Ritgerðin var gefin út á ensku og notuð við háskólakennslu við guðfræðideildir. Hún seldist því upp og var endurútgefin fyrir fáum árum af erlendu útgáfufyrirtæki. Á síðasta ári vann séra Jakob að þýðingu doktorsritgerðarinnar á íslensku og hafði nýlega lokið við að lesa prófarkir að útgáfunni er hann lést. Mun ritgerð- in koma út hjá Menningarsjóði fyrir næstu jól. Árið 1966 var dr. Jakob kjörinn meðlimur í alþjóðlegu félagi Nýja- testamentisfræðinga og var hann eini íslenski guðfræðingurinn sem hefur hlotnast þessi vísindalegi heiður. Sótti hann marga fundi í þessum samtökum sem árlega eru haldnir í hinum ýmsu löndum. Á síðasta ári sótti hann fund sem haldinn var í Cambridge og hann hafði fyrirhugað að sækja fund í Dublin nú í sumar. Á þessum vettvangi fylgdist hann vel með og kynnti sér nýjungar í Nýjatestamentisfræðum í tengslum við fundina. Þá kynntist hann einnig mörg- um erlendum Nýjatestamentisfræðing- um persónulega og átti við marga þeirra tíð bréfaskipti um hin margvís- legustu viðfangsefni. Hér er ekki rúm til að telja upp ritverk séra Jakobs, en á síðari árum ritaði hann bók um Hallgrímssálma og höfund þeirra og tvær rannsóknarrit- gerðir um Nýjatestamentið. Á síðustu árum komu einnig tvær ljóðabækur út eftir hann og hann fékkst við ljóðagerð allt fram á síðasta dag. Bókin Sex leikrit kom út árið 1948 en fyrir hálfum öðrum mánuði voru þrír nýir einþátt- ungar hans Sjáið manninn! frumsýndir í Hallgrímskirkju við mjög góðar undirtektir og síðar sýndir á nokkrum stöðum utan Reykjavíkur og í tengsl- um við það naut hann ánægjulegrar samvinnu við listafólk sem var honum mikils virði. Var aðdáunarvert hve vakandi og lifandi hugur séra Jakobs var til hinstu stundar, áhugaefnin óþrjótandi og viðfangsefnin næg. Er hann féll frá á áttugasta og sjötta ári hafði hann enn fjölda verkefna á prjónunum. í einkalífi sínu var séra Jakob gæfu- maður. Hann kvæntist árið 1928 Þóru Einarsdóttur. Foreldrar hennar voru Einar Ólafsson múrari í Reykjavík og Guðrún Jónasdóttir frá Mörk á Landi. Hjónaband þeirra Þóru og Jakobs var einkar ástríkt og farsælt. Þau voru samhent um alla hluti og veittu hvort öðru styrk öll sín hjúskaparár. Þóra lét sig prestsstarfið miklu varða og var manni sínum stoð og stytta við embætt- isstörfin sem oft fóru fram inni á heimili þeirra. Hún naut síðan einlægr- ar og ástríkrar umhyggju hans hin síðari ár er heilsu hennar hafði hrakað. Missir Þóru er því mikill og sár nú. Þóra og Jakob eignuðust fimm börn og létu sér mjög annt um uppeldi þeirra, menntun og velferð. Þau eru: Guðrún Sigríður, hjúkrunarkona, exam. art. í persnesku, gift Hans Walter Rothenborg lækni og sérfræð- ingi í húðsjúkdómum í Kaupmanna- höfn. Þau eiga þrjú börn. Svava, rithöfundur og fyrrv. alþm., gift þeim sem þetta ritar og eigum við einn son. Jökull, rithöfundur, látinn 1978. Fyrri kona hans var Jóhanna Kristjóns- dóttir blaðamaður og síðari kona Ása Árnadóttir Beck. Börn Jökuls eru fimm. Þór Edward Ph.D. deildarstjóri á Veðurstofu íslands, kvæntur Jóhönnu Jóhannesdóttur rannsóknartækni- fræðingi. Þau eiga tvö börn. Jón Einar hdl. og stórkaupmaður, kvæntur Gudrun f. Larsson, verslunar- stjóra. Þau eiga þrjú böm. Auk þess fóstruðu þau eitt barna- barn sitt, Þóru Þórsdóttur, til tveggja ára aldurs. Barnabörn og barnabarnabörn hafa misst mikið við fráfall afa síns og Iangafa. Var samband hans við þau afar innilegt. Ég naut þess í tæpa fjóra áratugi að þekkja séra Jakob og umgangast hann náið. Ég var við nám í guðfræði er ég varð tengdasonur hans og heimagang- ur á heimilinu. Eru mér minnisstæðar frá þeim árum uppörvandi og áhuga- vekjandi umræður um guðfræði sem ég átti við hann. Þá kenndi hann mér margt í hagnýtri guðfræði sem kom að góðum notum er ég hóf störf í kirkj- unni. Það var einmitt einn af eðlisþátt- um séra Jakobs hve uppörvandi og áhugasamur hann var um það sem aðrir voru að gera, óspar að hvetja til dáða og auka mönnum sjálfstraust þar sem það var ef til vill af skornum skammti. Þessi lifandi áhugi var samof- inn velvild og ástúð sem hann miðlaði í ríkum mæli til allra sem umgengust hann. Þeir nutu þó þessa viðmóts best sem stóðu honum næst. Hann var óvenjulega kærleiksríkur faðir og traust stoð barna sinna sem þau kunnu vel að meta. Séra Jakob var til hinstu stundar úrræðagóður sálusorgari og hjálpar- hella hverjum þeim sem sótti til hans ráð eða til hans leitaði. Liðsinni hans við þá sem stóðu fyrir einhverjar sakir höllum fæti í lífinu fór ekki hátt en um það vita þeir best sem nutu. Hvort sem leitað var til hans sem sóknarprests, fræðimanns eða heimilisföður bar allt að sama brunni. Hann leysti ekki eingöngu úr persónulegum vandamál- um heldur var hann einnig óþreytandi að finna lausnir á fræðilegum viðfangs- efnum í fleiri en einni grein, því að menntun hans var breið og alhliða. Og ef hann hafði ekki svar á reiðum höndum við þeim spurningum sem til hans var beint þá fór hann í bókasafn sitt og aflaði svara, því að honum var ósýnt um að láta nokkurn fara bónleið- an til búðar sem leitaði á náðir hans. Þekking hans var söm og jöfn til æviloka og hann hélt dómgreind sinni, andlegum styrk og jafnaðargeði á hverju sem gekk. Styrk sinn, bæði í meðlæti og mótlæti, sótti hann í óbifan- lega trú sína, sem aldrei brást á hverju sem gekk. Séra Jakob og Þóra hafa síðustu árin búið á dvalarheimili aldraðra við Selja- hlíð og notið þar frábærrar umönnunar og góðs atlætis. Fyrir þetta vilja að- standendur þeirra þakka á þessari stundu. Þá vilja aðstandendur einnig flytja hugheilar þakkir til sóknarprests- ins á Djúpavogi, forráðamanna þar og staðarbúa allra fyrir hlýhug og virðingu sem þar var sýnd við hið sviplega fráfall séra Jakobs. Hann var alinn upp á Djúpavogi, þar hófu þau Þóra búskap sinn og þar hóf hann störf í þjónustu kirkjunnar. Séra Jakob átti því margar helgar minningar tengdar þessum stað og hann hlakkaði mjög til að heim- sækja hann á afmælisárinu. Þrátt fyrir háan aldur naut séra Jakob þess að eiga virkan hlut að skapandi starfi til æviloka. Ég veit að hann taldi sig gæfumann. Farsælt er að hafa lifað eins og séra Jakob hefur gert, ætíð trúr sínum grundvallarvið- horfum, jákvæðri afstöðu til lífsins og einlægu trúartrausti. Við fráfall séra Jakobs er söknuður fjölskyldunnar sár en styrkur og hugg- un mega þeim vera orð hans sjálfs í bókinni Frá sólarupprás til sólarlags: „Dauðinn er mér ekkert kvíðaefni. Ég hefi skynjað Guð, og ég hefi skynjað kærleika hans. Dauðinn setur gæzku Guðs engin takmörk. Bjartsýni mín í þessum heimi hefir grundvallazt á trú á hann, og sama gildir um bjartsýni mína gagnvart öðru lífi.“ Ég þakka séra Jakobi fyrir samfylgd gegnum árin og bið Þóru og öðrum aðstandendum hans Guðs blessunar. Jón Hnefill Aðalsteinsson Afmælis- og minmngargremar Þeim, sem óska birtingar á afmælis- og eða minningar- greinum í blaðinu, er bent á, að þær þurfa að berast a.m.k. tveim dögum fyrir birtingardag. Þær þurfa að vera vélritaðar.

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.