Tíminn - 12.01.1991, Blaðsíða 9

Tíminn - 12.01.1991, Blaðsíða 9
8 Tíminn Laugardagur 12. janúar 1991 Jón Helgason alþingismaður er nýkominn heim af ráðstefnu í Finnlandi um samvinnu þjóða við Eystrasalt: MENN OTTAST HERNAÐARÍHLUTUN SOVÉTRÍKJANNA Jón Helgason, alþingismaður og forseti efri deildar Alþingis, sótti í vik- unni ráðstefnu í Helsinki um samvinnu ríkja við Eystrasalt. Frumkvæði að því að halda ráðstefnuna átti Kaleri Sorsa, forseti finnska þingsins. Auk Jóns sóttu ráðstefnuna af ísiands hálfu þingmennimir Ólafur G. Ein- arsson, fyrir hönd Norðurlandaráðs og Matthías Á Mathiesen, fyrir hönd þingmannasamtaka EFTA-ríkja. Jón flutti ræðu á ráðstefnunni þar sem hann gerði grein fyrir ályktunum Alþingis um málefni Eystrasaltsland- anna. Hann lagði áherslu á að löndin fengju að ráða málefnum sínum sjálf og jafnframt að deilur Sovétríkjanna og Eistlands, Lettlands og Litháens verði leyst með friðsamlegum hætti. Ótti við hemaðaríhlutun frá Sovétríkjunum Jón var fyrst spurður hvaða þjóðir hefðu sótt ráðstefnuna í Finnlandi. ,Auk Norðurlandanna sóttu ráðstefn- una fulltrúar frá Eistlandi, Lettlandi, Litháen, Sovétríkjunum, Póllandi, fylkjunum Hamborg, Schleswig-Hol- stein og Meckenburg- Vorpommern í Þýskalandi, Rússneska lýðveldinu og Karelíu sem er sjálfstjórnarsvæði við finnsku landamærin. Á ráðstefnunni var fjallað um fjóra málaflokka, efnahagsmál, umhverfis- mál, menningarmál og stjórnmál. Á fyrsta degi ráðstefnunnar voru haldin sex erindi, þar á meðal fróðlegt erindi sem forstjóri dönsku menningarmið- stöðvarinnar í Eistlandi hélt. Á öðrum degi ráðstefnunnar urðu almennar um- ræður um þessa málaflokka. Menn voru sammála um að brýnt væri að auka samvinnu á sviði efnahagsmála, um- hverfismála og menningarmála, en skoðanir voru skiptar í umræðum um stjórnmál." Varðst þú var við að fulltrúar Eystra- saltslandanna óttuðust hernaðaríhlut- un frá Sovétríkjunum? ,Já, menn óttuðust hana mjög mikið. Fulltrúi Eistlands flutti hvassa ræðu á ráðstefnunni þar sem hann lét í ljós ótta við yfirvofandi hernaðaríhlutun frá Sovétríkjunum. Þessi ræða varð til þess að ýta við fulltrúum Sovétríkjanna. Þeir gagnrýndu að málið væri rætt með þessum hætti á ráðstefnunni og bentu á að fulltrúa annarra ríkja vantaði upp- lýsingar til að geta metið ástandið hlut- lægt. Ég talaði við fulltrúa frá sovésku sendinefndinni og hún sagði að auðvit- að vildu Sovétríkin leysa þessi mál á friðsamlegan hátt. Það væri þeirra ein- lægi vilji. Vandamálin væru hins vegar mörg og ekki auðleysanleg. Ég skrifaði undir áskorun til Gorbatsjovs ásamt 50 öðrum þingmönnum um að leysa vanda Eystrasaltsríkjanna með friðsam- legum hætti. Það kom greinilega fram á ráðstefn- unni að það ríkir mikil gremja út í Sov- étvaldið í Eystrasaltslöndunum þrem- ur. Fulltrúi Eistlendinga sagði að menningu þeirra hefði verið haldið mjög mikið niðri og nefndi sem dæmi að þegar árið 1949 hefðu aðeins 10% verið eftir af þeim háskólakennurum sem voru í landinu á fjórða áratugnum. Hann sagði jafnframt að þróunin í Sov- étríkjunum síðustu mánuðina hefði ekki verið í rétta átt og þess vegna væri ótti þeirra við framtíðina að aukast.“ Framlag íslendinga mikilvægt Þú fluttir ræðu á fundinum. Á hvað Iagðir þú áherslu í henni? „í umræðunum gerði ég grein fyrir ályktunum Alþingis um málefni Eystra- saltslandanna, þar sem lögð er áhersla á rétt þessara ríkja til sjálfstæðis og skor- að á Sovétríkin að leysa þessi mál með friðsamlegum hætti. Ég benti sérstak- lega á það að við skildum betur en sum- ar aðrar þjóðir aðstöðu þessara landa þar sem við höfðum þurft að berjast fyr- ir sjálfstæði okkar. íslendingar hafa lagt sitt af mörkum til að styðja við frelsisbaráttu Eystrasalts- landanna. Auk þess að samþykkja stuðningsyfirlýsingar við málstað þeirra höfum við tjáð okkur fúsa til að leggja til fundarstað undir viðræður Sovétríkjanna og Eystrasaltslandanna. Ég fann það að fulltrúar Eystrasalts- landanna kunna að meta framlag ís- lendinga til þessara mála og töldu það mikilvægt. Þegar sendinefnd frá Alþingi var í Sov- étríkjunum á síðastliðnu hausti í boði Æðsta ráðsins buðum við þingmanna- nefnd frá Æðsta ráðinu að koma til ís- lands. Ég vonast til að af þeirri heim- sókn geti orðið á komandi hausti. Svona þingmannaheimsóknir hafa ver- ið áður, en ég tel að þær hafi jafnvel enn meiri þýðingu nú. Fulltrúi Karelíu á ráðstefnunni sagði að þjóðþingin gætu átt þátt í að brjóta niður múra milli þjóðanna svo að sam- skiptin verði ekki eins og blindur tali við heyrnarlausan. Fulltrúi frá Rússneska lýðveldinu sagði að þeir þyrftu tíma til að koma á þessum umfangsmiklu breytingum, t.d. að breyta verksmiðjum sem fram til þessa hafa einungis framleitt vopn í verksmiðjur sem framleiða nauðsynja- vörur. Fulltrúi Pólverja fagnaði þessum breytingum, en sagði að í staðinn fyrir Berlínarmúrinn væri hætta á að upp risi múr ríkra þjóða og fátækra." 56 þjóðir í einu ríkjasambandi Horfa þessar þjóðir mikið til Norður- landanna í von um hjálp? ,Já, þarna var mjög ákveðið kallað á stuðning landa í Vestur-Evrópu. Hægt er að veita þjóðunum hjálp með ýmsum hætti. Þær þurfa að læra hvernig á að byggja upp lýðræðiskerfi vegna þess að þær hafa engar hefðir til að byggja á. Forseti æðsta ráðsins sagði við mig í haust þegar ég var á ferð í Sovétríkjun- um: „Þið komið frá elsta þjóðþingi heims sem er yfir þúsund ára gamalt. Okkar þing er bara tveggja ára.“ Þeir telja sem sé að þeir séu að byrja frá grunni. f Sovétríkjunum hefur ekki verið byggt á lögum heldur einungis tilskip- unum. Þeir hafa á síðustu mánuðum verið að semja fjölda laga. Ég tel engan vafa leika á að þingmenn frá V-Evrópu geta miðlað þingmönnum í A-Evrópu mikilli þekkingu og hjálpað þeim að byggja upp sitt þingræðiskerfi. í heimsókn minni til Sovétríkjanna á síðastliðnu hausti gerðu forsetarÆðsta ráðsins mjög opinskátt grein fyrir ástandinu hjá sér og hvernig þeir væru að reyna snúa málunum í lýðræðislega átt. Þeir sögðu að eitt brýnasta verkefn- ið væri að koma á framtíðarskipulagi á samband hinna einstöku lýðvelda. Mér fannst það liggja í loftinu að það þyrfti að komast í fastari skorður áður en þeir gætu endanlega samið við Eystrasalts- ríkin. Þarna er um að ræða mjög erfitt vandamál. Fram kom á ráðstefnunni að árið 1922 voru 196 þjóðir innan landa- mæra Sovétríkjanna. í dag eru þær 56 og þá vaknar spurningin, hvað hefur orðið um hinar 130? Það sér hver mað- ur að það hljóta mörg vandamál að fylgja því að hafa 56 þjóðir í einu ríkja- sambandi. Þarna er um að ræða ákaf- lega flókið vandamál." Ríkið hættir verslun, en enginn getur tekið við henni íslendingar hafa átt allmikil viðskipti við Sovétríkin í gegnum árin. Nú bend- ir hins vegar margt til að úr þeim munni draga vegna þeirra erfiðleika sem Sovétmenn eiga við að stríða. „Þetta á sér eðlilegar skýringar. Við urðum mjög vel varir við þetta í haust, en þá voru einmitt á dagskrá erfiðleikar með greiðslur vegna viðskipta með sfld. Sovétmenn stefna að því að láta ríkið hætta öllum beinum viðskiptum, en að- ilinn sem á að taka við er raunverulega ekki til í dag. Maður skilur eiginlega ekki hvernig þessu verður fyrir komið. Stefnt er að því að viðskiptin fari til ein- stakra ríkja og samningar verði gerðir af hálfu sjálfstæðra verslunarfyrirtækja, en þau eru bara svo veikburða ennþá að þau valda ekki því hlutverki sem þeim er ætlað að gegna. Þess vegna virðist mér að meðan þetta óvissuástand varir verði mjög erfitt fyrir íslendinga og önnur ríki að gera stóra viðskiptasamn- inga við Sovétmenn. Eg fann það líka þegar ég var á ferð í Sovétríkjunum að þeir óttast af ýmsum ástæðum að þjóðin sé ekki tilbúin til að taka við þessum breytingum. Almenn- ingur er svo vanur því að taka við fyrir- skipunum að ofan og þess vegna óttast menn að það verði lítið um frumkvæði einstaklinga, en slíkt frumkvæði er auðvitað mjög nauðsynlegt þegar verið er að byggja upp á öllum sviðum þjóðfé- lagsins." Afleiðingar Tsjemobyl-slyssins ekki allar komnar í ljós Umhverfismál í A-Evrópu hafa verið mikið til umræðu á síðustu misserum. Þessi mál voru til umræðu á ráðstefn- unni. „Já, það var mikil umræða um um- hverfismál. Vandamálin á því sviði eru mjög stór í A-Evrópu. Það er búið að gera ýmsar skýrslur um umfang vanda- málsins og brýnustu verkefni, en til þessara mála vantar mikið fjármagn sem A-Evrópuþjóðirnar eiga ekki til. Þegar ég var þarna á ferð í haust var mér sagt að afleiðingar Tsjernobyl- slyssins væru alls ekki allar komnar í ljós. Það þarf að flytja gífurlegan fjölda fólks í burt af stóru landssvæði þar sem er of hættulegt að búa. Þarna er um að ræða svo stórt verkefni að Sovétmenn ráða alls ekki við það einir.“ Verður Hansasambandið endurvakið? Hvað er hægt að segja um árangur ráðstefnunnar? „Ráðstefna gaf okkur kærkomið tæki- færi til að ræða þarna ýmsar hugmynd- ir. Þjóðverjarnir settu t.d. fram þá skoð- un að það ætti að reyna að endurvekja einhvers konar Hansasamband, þ.e. við- skipta- og menningarsamband land- anna við Eystrasaltið. Menn töluðu um Mare Baltica og jafnvel Mare nostrum sem yrði þungamiðja þess samstarfs. Finnarnir sögðust vera tilbúnir til að hafa forystu um að byggja upp þetta samband. Ég lagði áherslu á að slíkt samband gæti ekki þróast með eðlileg- um hætti nema að aliar þjóðirnar sem hlut eiga að máli nytu fulls sjálfstæðis. Menn ræddu um að æskilegt væri að boða til svona fundar aftur og þá í Dan- mörku.“ Egill Ólafsson Tíminn 21 Laugardagur 12. janúar 1991

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.