Tíminn - 12.01.1991, Blaðsíða 15

Tíminn - 12.01.1991, Blaðsíða 15
Laugardagur 12. janúar 1991 Tíminn 27 og höfðu tekið við höfuðábyrgðinni. hannig er hin farsæla þróun milli kynslóða, þegar best er. Nú þegar Jenný á Eyjólfsstöðum er öli er það ekki harmsefni. Miklu fremur má gleðjast yfir því að hún hefir verið Ieyst frá hrörnandi lík- amsviðjum að Ioknu Iöngu og far- sælu lífsstarfi og að hún fékk endur- goldna þá umhyggju sem hún hafði áður öðrum veitt. Enginn endurgalt henni það ríkulegar en Jóhanna dóttir hennar af mikilli fórnfysi. Börn Jennýjar biðja fyrir hjartans kveðju til móður sinnar og óska eft- ir að þetta erindi Matthíasar Joc- humssonar fylgi: ,jíg kveð þig móðir í Kristi trú sem kvaddir forðum mig sjálfan þú á þessu þrautanna landi. Þú fagra Ijós, í Ijósinu bgrð, nú launar þér Guð í sinni dgrð. Nú gleðst um eilífð þinn andi. “ Jenný Rebekka Jónsdóttir hefir nú, í byrjun nýs árs, hafið för til þess óþekkta sviðs, sem allra bíður að lokum. Blessunaróskir fylgi henni og eru hér með færðar öllum, sem henni stóðu næstir og voru kærastir í lífinu. Hún verður jarðsett í dag, laugar- daginn 12. janúar, við hlið manns síns, að Undirfelli í Vatnsdal. Grímur Gíslason. Þegar árið 1990 hafði runnið sitt skeið á enda og horfið í aldanna skaut, hvarf frænka mín, er þessar línur rita, yfir landamærin miklu. Árin líða hvert af öðru þar til þau fylla öldina og síðan líður hver öldin af annarri. Þetta er alltaf jafn langur tími sem ekki verður breytt. Þessu er öðruvísi farið með okkur menn- ina. Þeir hverfa af sjónarsviðinu á misjöfnum aldri og fá oftast litlu ráðið um það. Það er erfitt að sjá á eftir fólki í blóma lífsins. Jafnvel þótt fólk sé orðið háaldrað er einsog þessi vistaskipti snerti alltaf við- kvæman streng í brjósti hvers manns og veki upp minningar. Jenný Jónsdóttir, húsfreyja að Eyj- ólfsstöðum í Vatnsdal, lést að heim- ili sínu snemma að morgni 1. jan. s.l. Hún fæddist rétt áður en þessi öld, sem nú er komin á síðasta ára- tuginn, hóf göngu sína, svo æviárin voru orðin býsna mörg. Jenný var sérstaklega gæfusöm kona í öllu sínu lífi. Hún hafði góða heilsu svo að segja til síðustu stundar, en það verður að teljast meira virði en orð geta lýst. Ekki síst þegar fólk nær jafn háum aldri og hér var um að ræða. Hún átti kærleiksríka for- eldra, sem hún gat haft á heimili sínu þar til yfir lauk. Þeir sem til þekktu vita vel að Jenný naut þess í ríkum mæli að geta sýnt foreldrum sínum ástúð og umhyggjusemi, þegar þau þurftu mest á því að halda. Eiginmaður Jennýjar var henni ástríkur og traustur lífsföru- nautur í löngu og farsælu hjóna- bandi. Síðast en ekki síst átti hún in- dæl börn, sem báru hana á höndum sér til hinstu stundar og að lokum fékk hún að kveðja þetta líf í faðmi þeirra. Af því sem hér að framan er sagt er ljóst að Jenný hefúr átt margar hugljúfar minningar um ástvini sína, frá því fyrsta til hins síðasta. Það má því með sanni segja að hún hafi verið gæfumanneskja. Foreldrar Jennýjar voru hjónin Ingibjörg Kristmundsdóttir og seinni maður hennar Jón Baldvins- son. Bæði voru þau Húnvetningar. Ingibjörg var fædd 31. des. árið 1861. Hún var komin af góðum ætt- um á Vatnsnesi. Jón var fæddur 28. júní 1866 á Síðu í Refasveit. Móðir Jennýjar missti fyrri mann sinn árið 1891 frá tveimur ungum dætrum. Sú eldri, Halldóra Guðrún, fór í fóst- ur til föðursystur sinnar, Jóhönnu Jóhannesdóttur. En sú yngri, Ingi- björg Rósa móðir mín, ólst upp hjá móður sinni og seinni manni henn- ar, sem alla tíð reyndist henni sem besti faðir. Ingibjörg og Jón Baldvinsson gift- usc árið 1894, og var Jenný eina barn þeirra, fædd á Kornsá í Vatns- dal 26. júlí 1898. Á heimili þeirra hjóna dvöldu oft um lengri eða skemmri tíma vanda- laus ungmenni. Ingibjörg hafði orð á sér fyrir að vera sérstaklega lagin að umgangast börn og unglinga og heimilishald þeirra var allt til fyrir- myndar. Það var því leitað mikið eft- ir því að koma þangað fólki sem þurfti á samastað að halda, þótt ekki væri þar auður í garði. Við þessar að- stæður lifði Jenný sín æskuár, ein- mitt þau árin, sem hafa mest áhrif á gæfu hvers manns. í þessu sam- bandi get ég ekki látið hjá líða að minnast Aðalheiðar Björnsdóttur, sem ólst upp með þeim Ingibjörgu Rósu og Jennýju. Gagnkvæm vin- átta og tryggð ríkti á milli þeirra allra, til hinstu stundar, enda töluðu þær alltaf hver um aðra einsog þær væru alsystur. Þá skal þess getið að foreldrar Jennýjar tóku í fóstur Ingi- björgu dóttur Halldóru, hálfsystur Jennýjar, og manns hennar Níelsar Sveinssonar. Hún dvaldi hjá þeim frá fjögurra ára aldri og fram á full- orðinsár. Jenný var við nám, í Kvennaskólan- um á Blönduósi, einsog flestar ung- ar stúlkur í Húnaþingi á þessum ár- um. Jenný giftist 23. júlí árið 1922. Maður hennar var Bjarni Jónasson, mikill myndarmaður og afburða duglegur. Hann var af fátæku fólki kominn og hafði misst móður sína þegar hann var barn að aldri. Þrátt fyrir fátækt og umkomuleysi fór hann í hinn velþekkta Hvítárbakka- skóla, aðeins 15 ára að aldri. Hann gerði sér þá strax Ijóst hve góð menntun er nauðsynleg fyrir lífið, hvert sem ævistarfið kann að verða. Jenný og Bjarni eignuðust þrjú börn, sem upp komust. Þau eru: Ingibjörg, f. 8. júní 1923, gift Ing- vari Steingrímssyni, bónda á Eyj- ólfsstöðum, þau eiga 4 börn. Jón, f. 18. nóvember 1925, giftur Kristínu Lárusdóttur, þau búa á Bakka í Vatnsdal og eiga 5 syni. Jóhanna, f. 12. febrúar 1929, ógift og barnlaus. Hún hefur að mestu dvalið heima og búið með fjölskyldu sinni. Öll eru börnin mannkostafólk, sem bera foreldrum sínum góðan vitnisburð. Strax eftir að þau Jenný og Bjarni giftust, var það mikið áhugamál þeirra að finna sér jarðnæði þar sem þau gætu lifað sjálfstæðu lífi, öðrum óháð og sýnt í verki það mikla vilja- þrek sem í þeim bjó. En þá lágu jarð- ir ekki á lausu. Það varð því hlut- skipti þeirra í mörg ár að skipta oft um verustað. Þau dvöldu á ýmsum stöðum í Vatnsdal og Þingi en kom- ust alltaf vel af, miðað við það sem þá þekktist. Þetta byggðist mikið á vinnu húsbóndans utan heimilis. Á þessum árum hvfldi mikil ábyrgð á Jennýju, að sjá um heimilið, oft við erfiðar aðstæður. En hún vann verk sín og stjórnaði heimilinu með yfir- vegaðri ró og dugnaði. Jenný var mikil hannyrðakona. Hún bæði saumaði, prjónaði og hafði sérstaklega gaman af að hekla og allt sem að því laut, lék í höndum hennar og hafði hún af því mikla ánægju. Þessi handavinna hennar varð til þess að styrkja og prýða heimili þeirra. Þau hjón áttu á seinni árum allgott heimilisbókasafn, enda voru þau bæði mikið gefin fyrir lestur góðra bóka og bæði voru þau sérstaklega Ijóðelsk. Árið 1938 urðu þáttaskil í lífi þeirra Jennýjar og Bjarna. Þá um vorið flutti Þorsteinn Konráðsson á Eyj- ólfsstöðum og hans glæsilega fjöl- skylda alfarin til Reykjavíkur. En þau höfðu búið með mikilli reisn á þessari fallegu jörð, um áratuga skeið. Margir söknuðu þeirra mjög úr sveitinni og töldu að skarð þeirra yrði vandfyllt. Þorsteinn leigði Bjarna og Jennýju jörðina fyrstu ár- in, en seldi síðan árið 1942. Nú fyrst bjuggu þau hjón á eignarjörð sinni, þótt 20 ár væru liðin frá giftingu þeirra og fyrsta búskaparári. Þau hjón héldu uppi fyrri rausn á heim- ilinu og oft var þar margt af fólki. Húsbóndinn kunni því vel að hafa margt hjúa við búskapinn og var góður verkstjóri, enda vanur því frá fyrri árum. Jenný, húsmóðirin á heimilinu, laðaði alla að sér með sínu hlýja viðmóti og góðum viður- gerningi. Af þessu má sjá að þau hjón voru mjög hjúasæl. Margt gesta var oft á Eyjólfsstöðum í sambandi við opinber störf sem Bjarni hafði allmörg á hendi. Einnig komu margir sem þekktu þessi heiðurshjón eða höfðu dvalið hjá þeim og bundið tryggð við heimilið. En alltaf var sömu rausninni að mæta. Bjarni var óvinnufær allmörg síð- ustu ár ævi sinnar, en dvaldi oftast heima. Þá kom það ekki síst í Ijós hve mikið gæfuspor hann steig þeg- ar hann giftist eiginkonu sinni Jen- nýju, sem nú sýndi honum slíkan kærleika og fórnfýsi að sjaldgæft má telja. Bjarni andaðist þann 22. des- ember 1982 á 86. aldursári. Þau eru orðin mörg árin síðan ég man fyrst eftir Jennýju frænku minni. Enda koma nú við leiðarlok- in margar minningar fram í huga minn allt frá því að ég var barn að aldri. Allar þessar minningar eru mér mjög kærar. En of langt yrði að rekja þær hér. Ég get þó ekki látið hjá líða að minnast þess að það var lengst af árviss siður hjá þeim systr- um, móður minni og Jennýju, að heimsækja hvor aðra með fjölskyld- ur sínar. Þetta var alltaf mikið til- hlökkunarefni. Sérstaklega er mér minnisstætt þegar við vorum að heimsækja Jennýju og við eldri börnin vorum farin að geta setið ein og óstudd á hesti, en þau yngri þurfti að reiða. Stundum varð að fara yfir óbrúað vatnsfall. Þetta voru meiriháttar ævintýri, sem ekki gleymast. Örlögin höguðu því svo til að ég bjó í næsta nágrenni við Jennýju og hennar góða fólk í 40 ár. ÖII voru þau samskipti á einn veg, aldrei bar þar skugga á. Ég og fjölskylda mín sendum börn- um Jennýjar og öðrum ástvinum hennar hjartanlegar samúðarkveðj- ur, um leið og við þökkum langa og góða samfylgd og biðjum Guð að blessa hana á nýrri vegferð. Hallgrímur Guðjónsson frá Hvammi. Á fyrsta degi þessa árs 1991 kvaddi þennan heim Jenný Jónsdóttir, fyrr- um húsfreyja að Hvammi í Vatnsdal og síðar á Eyjólfsstöðum í sömu sveit, komin á tíræðisaldur, fædd 1898. Eftir langan og oft erilsaman dag mun þessi aldna heiðurskona hafa orðið hvfldinni fegin og mun ekki hafa kviðið neinu, því hún var trúuð og heilsteypt að allri gerð, vildi öllum vel en lét til sín taka ef henni fannst hallað réttu máli eða einhver hafður útundan. Þannig minnist ég þessarar prúðu og næstum hlédrægu konu við fyrstu kynni, en það var stutt í glað- lyndið og gæðin. Ég var vinnumað- ur sem kallað var hjá þeim ágætu hjónum Jennýju og Bjarna Jónas- syni (hann er látinn fyrir nokkrum árum) þegar þau voru búendur á Hvammi sem verið hefúr tvíbýlis- jörð um 60-70 ára skeið, eitt af höf- uðbólum þessa lands og sýslu- mannssetur fyrri tíma. Ég kom á haustdögum 1933 eða fyrir 57 ár- um, þá aðeins 17 ára og var hjá þeim í tvö og hálft ár. Ég minnist veru minnar þar sem eins besta hluta ungdómsára minna. Ég þroskaðist þarna að viti og vexti í skjóli þessa góða fólks. Börn þeirra þrjú voru þá að vaxa öll innan við fermingu, Lillý, Nonni og Hanna, eins og þau voru kölluð. Öll voru þau mér góð. Það var margt í heimili og húsmóð- irin hafði í mörgu að snúast, sjaldan færri en tíu og oft fleira fólk, fyrir utan gesti og gangandi sem var mik- ið í þá daga. Á hinu búinu var svipað margt þar sem þau ágætu hjón bjuggu Theódóra Hallgrímsdóttir og Steingrímur Ingvarsson ásamt fjórum börnum sínum og hjúum. Síðan voru foreldrar Jennýjar, Ingi- björg og Jón Baldvinsson, ásamt fósturdóttur sinni Ingu Níelsdóttur í húsmennsku sem kallað var. Þarna var glaðværð og gott samneyti. Ég minnist þess hvað var gott að leita til Jennýjar þegar við krakkarn- ir vildum eitthvað gera okkur til gamans. Hún var verndari okkar í leik og ærslum sem ungum er svo nauðsynlegt. Ef henni fannst úr hófi keyra sussaði hún á okkur og ég minnist þess aldrei að ekki væri hlýtt og það strax. Hún naut virð- ingar og trausts allra sveitunga sinna og annarra sem til þekktu. Ég læt ekki hjá líða að minnast eins atviks sem skipti mig sköpum. Ef- laust var ég ódæll strákur, en alltaf hlýddi ég Jennýju og reyndar þeim hjónum báðum, því Bjarni var mér afar góður og kom inn hjá mér metnaði við leik og störf. „Stattu þig, strákur," sagði hann stundum og þá var brosið glettið. En ég var að fara í langa ferð, vestur á land, og þegar Jenný bjó mig til þessarar ferðar kom hún að morgni burtfar- ardags og vakti mig með þessum orðum: „Hérna eru ný prjónanærföt sem þú ferð í, annars færð þú ekki að fara þessa ferð.“ Mér þótti vont að vera í prjónaskyrtu, en ég sá að hús- móður minni var svo mikil alvara að ég vogaði ekki að óhlýðnast, enda reyndist það hollráð, því í þessari ferð villtist ég á Steingrímsfjarðar- heiði í einn og hálfan sólarhring og lenti í frosti og byl. Komst þó til byggða af sjálfsdáðum, þá var ekki hlaupið til að leita að fólki fyrr en mátti til. Ekki er ég í nokkrum vafa um að prjónafötin urðu mér til lífs. Ég lét mér þetta að kenningu verða og síð- an hef ég notið þessa klæðnaðar og geri enn. Þannig voru verk þessarar konu sem starfaði í kyrrþey og hugs- aði um velferð allra sem í kringum hana voru og ekki síst til fæðis og klæðis. Blessuð er minning hennar. Börn- um hennar og öllu venslafólki votta ég samúð mína og virðingu. Leópold Jóhannesson. Kveðja frá Lillý, Guðlaugi og dætr- um Við minnumst þín, Jenný, frá mörgum góðum stundum á Eyjólfs- stöðum. Heimili þitt var fallegt og hlýtt og gaf frá sér birtu og styrk. Þú varst svo sáttfús og friðelskandi að maður naut þess að vera í návist þinni. Þú vannst störf þín í kyrrþey og krafðist aldrei meira af öðrum en þú gast sjálf látið í té. Dætur okkar voru mörg sumur hjá þér og köll- uðu þig Jenný ömmu. Yngsta dóttir okkar minnist þess oft þegar þú komst í búið hennar í graslautinni fögru í brekkunni fyrir ofan túnið og tókst þátt í gleði hennar er hún sýndi þér kindur sínar, kýr og hesta, sem að sjálfsögðu voru leggir, kjálk- ar og skeljar. Þannig gladdir þú barnssálina og ýttir undir sköpunar- gleði hennar og starfslöngun. Við þökkum þér fyrir allar sam- verustundirnar sem minna okkur á ljósið sem lýsir og vermir. Guð blessi minningu þína. Jóhannes Bogason Fæddur 19. desember 1892 Dáinn 1. janúar 1991 Á fyrsta degi hins nýja árs lést vin- ur minn og fyrrverandi nágranni Jó- hannes Bogason bóndi, Brúarfossi. Andlát hans kom ekki á óvart, hann var maður orðinn háaldraður og heilsuveikur. Jóhannes var fæddur 19. desember 1892. Foreldrar hans voru Bogi Helgason, bóndi á Brúarfossi, og kona hans Guðbjörg Jóhannesdóttir. Jóhannes var næstyngstur fjögurra barna þeirra hjóna, en þau voru Helgi, Teitur, Jóhannes og Soffía. Öll eru þau systkini nú látin. Jóhannes ólst upp á Brúarfossi og vandist snemma allri venjulegri sveitavinnu. Hann var alla tíð sérst- saklega viljugur maður og ósérhlíf- inn. Þessir eiginleikar hans komu ekki hvað síst fram þegar hann þá roskinn maður missti sjónina, en vann þó flest verk sín áfram og fór allra sinna ferða án aðstoðar. Ég átti því láni að fagna að alast upp í nágrenni við Jóhannes og systkini hans tvö, þau Teit og Soffíu. Jóhannes og þau systkini voru alltaf reiðubúin til að rétta foreldrum mínum hjálparhönd og mér er minnisstætt að Jóhannes sagði ein- hverju sinni að jafnt skyldi yfir heimilin bæði ganga. Árið 1928 tók Jóhannes við búi á Brúarfossi ásamt Teiti og Soffíu. Á Brúarfossi var símstöð og pósthús og var því oft gestkvæmt á heimil- inu af þeim sökum. Einnig var svo áður en bflvegir komu og bflar urðu algengir að Brúarfoss var áfanga- staður manna sem voru á leið í kaupstað og úr. Mátti heita á þeim tímum væri á Brúarfossi rekinn gististaður. Ætíð var gestum tekið vel á Brúarfossi, enda systkinin glað- sinna og skemmtileg. Þegar Helgi bróðir þeirra missti fyrri konu sína frá þrem ungum börnum tóku þau systkini tvö þeirra til sín, þau Guðbjörgu og Boga, og reyndust þeim sem bestu foreldrar. Einnig ólst upp hjá systkinunum Jón Örn Gissurarson. Jóhannes giftist árið 1960, Margr- éti Þorvaldsdóttur. Margrét er látin fyrir allmörgum árum. Jóhannes dvaldist síðustu árin á Dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi. Þar leið hon- um vel og var þakklátur starfsmönn- um heimilisins fyrir velvild í sinn garð. Nú eru þau öll látin systkinin á Brúarfossi. Þau voru öll góðar og heiðarlegar manneskjur sem gott var að þekkja og eiga að vinum. Ég vil þakka þeim tryggð þeirra og vin- áttu við foreldra mína, okkur systk- inin og fjölskyldur okkar. Blessuð sé minning systkinanna á Brúar- fossi. Hallbjöm Sigurðsson -------------------------------------------------------. Þökkum innilega samúð og hlýhug við andlát og útförföður míns, tengdaföður, afa og langafa Eyþórs Erfendssonar ftá Helgastöðum f Biskupstungum Eria Eyþórsdóttir Brynjólfur Ásmundsson bamaböm og bamabamaböm

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.