Tíminn - 15.06.1991, Blaðsíða 14

Tíminn - 15.06.1991, Blaðsíða 14
22 HÉLGIN Laugardagur 15. júní 1991 pi'i'ötmn EFTIR BJÖRN EGILSSON Góðir tilheyrendur! Biskup, prestar og leikmenn! Ég hef fengið tilmæli um að segja lítið eitt frá Goðdalakirkju og þjónum hennar á þessari stund og stað. Það er nú svo um sögu vora að litlar heimildir eru til um all- an almenning, þegar kemur aftur í aldir. Fyrsta allsherjarmanntal á 19. öld var gert 1816. Þar á undan voru fá manntöl og æði slitrótt nema manntalið 1703. Það manntal markaði tímamót í mannfræði hér á landi. Aðrar heimildir eru alþingisbækur og dómsmálabækur en þær ná ekki til almennings. Um aldir voru Goðdalir prestssetur eða til ársins 1904, en með lögum 1907 var Goðdalaprestakall sameinað Mælifelli. Ég ætla nú að segja lítið eitt frá Goðdalaprestum á 18. öld. Árið 1713 fékk Páll Sveinsson Goðdali og hélt þeim til 1736. Hann var sonur Sveins Jónssonar prests á Barði í Fljótum. Séra Sveinn á Barði var talinn lærður vel í guðfræði. Auk þess kunni hann fyrir sér. Af þeirri kunnáttu hans er sagt í þjóðsög- um. Sveinn, sonur Páls Sveinssonar, fékk Goðdali eftir föður sinn 1736 og hélt staðinn til 1757. Á18. öld ferðaðist Lúðvík Harboe um ísland á vegum Dana- konungs eða kirkjunnar til þess að fylgjast með kristnihaldi. Hann yfirheyrði presta og gaf þeim vitnisburði. Harboe lætur ekki mikið yfir lærdómi og gáfum séra Sveins í Goðdölum, en hann var búsýslumaður mikill og stórríkur. Þessi prestur mun þó hafa unnið prestsverk sómasamlega. Ungur að árum lærði ég bæn sem hann átti að hafa flutt af predikunarstóli: ó, drottinn miskunna þú aumum lýð, einkum á Hofi og Bjamastaðáhlíð, Bakkagerði ogAnastöðum. Komdu seinast að Sveinsstöðum. Synir séra Sveins Pálssonar í Goðdölum voru fimm. Meðal þeirra voru Páll silfursmiður á Steinsstöðum, faðir Sveins læknis Pálssonar, og Jón prestur f Goðdölum, er tók við staðn- um eftir föður sinn 1758 og hélt til 1793. Þá höfðu þessir þrír feðgar, Páll, Sveinn og Jón, haldið Goðdalastað 80 ár samfleytt á 18. öldinni. Séra Jóni Sveinssyni er svo lýst að hann hafi verið hraust- menni og eljumaður, af sumum kallaður Grjót- Jón. Hann lét hlaða veggi að kirkjugarðinum að norðan og sunnan um 1770 og til þessarar veggjahleðslu flutti hann stórgrýti ofan úr Hryggjum, sem enn er til sýnis. Það voru erfiðir tímar þegar séra Jón Sveinsson var prestur í Goðdölum. Þá gengu Móðuharðindi yfir og þá var Ábæjarsókn, sjö bæir, öll í eyði í fjögur ár. Elsta minnismerki hér í garðin- um er steinn á leiði séra Jóns Sveinssonar, sem mér fmnst merkilegur. Að ofan á steininum eru nöfn og ártöl en neðst er hauskúpa og til hliðar tré með greinum. Þetta munu vera tákn lífs og dauða. Séra Jón andaðist 1798. Frá 1793 til 1800 var Sigurður Árnason prestur í Goðdölum. Hann var kallaður Reynistaðamágur, því Björg kona hans var dóttir Halldórs klausturhaldara á Reynistað og systir Reyni- staðabræðra, sem úti urðu á Kili. Á19. öld voru merkisklerkar í Goðdölum. Fyrst er að nefna Jón Jónsson prest þar frá 1800 til 1817. Hann var sonur Jóns Teitssonar biskups á Hólum og hann var líka dóttursonur Finns Jónssonar biskups í Skálholti. Af þessum stórættaða klerki fara engar sögur í Goðdölum, en umsögn um hann er þessi: Hann var mikill gáfumaður, and- ríkur kennimaður og skáldmæltur. Séra Einar Thorlacius var prestur í Goðdölum þrjú ár, frá 1819 til 1822, en var lengi eftir það prestur í Saurbæ í Eyja- firði. Hann var talinn gáfumaður, latínuskáld og kenndi pilt- um undir skóla. Faðir séra Einars var Hallgrímur prestur í Miklagarði í Eyja- firði. Um séra Hallgrím í Miklagarði var sagt að hann hefði dulrænar gáfur og segði fyrir um óorðna atburði. Séra Sigurður Jónsson var nokkuð lengi prestur í Goðdölum, frá 1822 til 1838. Kona hans hét Elín Magnúsdóttir, prests- dóttir úr Eyjafirði. Þau hjón áttu einn son er Magnús hét. Hann var alllengi í Bessastaðaskóla og fékk þar viðurnefnið Magnús græni. Magnús Sigurðsson græni tók prestsvígslu og var veitt Reynistaðarþing 1827 og sat á Hafsteinsstöðum. Árið eftir, í september 1828, gerði þessi ungi prestur sér ferð að Goðdölum að heimsækja foreldra sína, en komst ekki alla leið. Hann drukknaði í Svartá hjá Sölvanesi og heitir þar síðan Magnúsarnes er slysið varð. Tveir bændur úr Goðdalasókn voru sendir að tilkynna slysið. Þeim var ráðlagt að tala fyrst við prestsfrúna, því séra Sigurð- ur var stundum hranalegur í orðum. Sendimenn hittu svo á að prestur stóð úti á hlaði þegar þeir komu og urðu þeir að segja honum fyrst hin sorglegu tíðindi. Séra Sigurður fór þá Ræða flutt i Goðdölum eftir messu 31. maí 1991 til konu sinnar og sagði við hana: „Magnús sonur okkar liggur dauður á eyrinni hjá Sölvanesi. Ekki verður hann ellistoðin okkar. Ég ætla að biðja þig að verða nú ekki vitlaus.“ Frúin svaraði: „Verði ætíð sem vill minn Guð, vild hans er æ hið besta." í æviskrám er skrifað um séra Sigurð: „Var vel efnaður og reglubundinn, en lélegur ræðumaður og nokkuð óprestlegur í látbragði." Séra Sigurður fór frá Goðdölum vestur að Staða- stað og varð próventumaður hjá Pétri Péturssyni frá Víðivöll- um, er síðar varð biskup. Séra Jón Benediktsson var prestur í Goðdölum 1838 til 1847. Hann var ættaður af Vestfjörðum, náskyldur Jóni Sigurðssyni forseta. Um hann skrifar Páll Eggert Ólafsson: „Er talinn ásjá- legur maður, snilldarmaður í prestverkum og um mannkosti, var ástsæll mjög í Goðdölum. Hann var mikill vinur Bólu- Hjálmars og Hjálmar orti lofkvæði um hann. Það hefur geymst í minni manna hvað séra Jón Benediktsson var bænheitur. Þegar hann gerði bænir fyrir dauðveiku fólki brá til bata eða það fékk hægt andlát. Þessi snilldarprestur hafði drösul að draga. Kona hans var frá Möðruvöllum í Kjós og henni fylgdi írafellsmóri. Bólu-Hjálmar var skyggn og eitt sinn er hann kom að Goð- dölum sá hann þau Ábæjarskottu og írafellsmóra sitja hlið við hlið undir kirkjugarðsveggnum. Ekki er þess getið að Móri hafi haft umsvif í Goðdölum. Séra Jón Hallsson fékk Goðdali 1847 og hélt staðinn til 1858. Hann hóf prestsskap á Felli í Siéttuhlíð, en síðar var hann á Miklabæ og síðast í Glaumbæ. Séra Jón var fésýslumaður mik- ill og varð einn af ríkustu mönnum í héraðinu. Þegar hann féll frá laust eftir 1890 hafði hann átt 13 jarðir auk annars. Vafalaust hefur hann grætt í Goðdölum. Á síðustu árum sín- um kvað séra Jón Hallsson: Úti á Felli undi ég best, hjá unnar bláum sölum. Goðdalir mér gáfust best, gott er fólk í dölum. Séra Snorri Norðfjörð varð prestur í Goðdölum eftir séra Jón Hallsson og var þar 12 ár, 1858 til 1870. Séra Snorri var fátæk- ur en þess er ekki getið um neinn Goðdalapresta á undan hon- um. Símon Dalaskáld kvað: Snorra klerkinn kunna lerka hungur. Höklaálfur illt með skap í nautkálfínn stökk og drap. Þá máttu prestar ekki moka flór eða aflífa skepnur. Séra Snorri var ættaður sunnan af Vatnsleysuströnd. Hann fékk Reynisþing í Mýrdal og fluttist þangað frá Goðdölum með fólk sitt og fénað um Kjalveg. Það hefur verið erfiður búferla- flutningur. Sagt var að hann hafi látið smíða járn undir naut- gripina, sem hann fór með. Séra Hjörleifur Einarsson hélt Goðdali frá 1869 til 1876. Hann hafði stórbú og var vinnuvíkingur mikill. Hann sat í vef- stól að vetrinum en stundaði veggjahleðslu á sumrum. Hann var góður kennari og kenndi piltum undir skóla. í Goðdölum kenndi hann Einari syni sínum og Jónasi á Tunguhálsi er síðar varð prestur á Hrafnagili. Eitthvað munu þessir piltar hafa ort til Símonar Dalaskálds, því hann kvað: Einar ogJónas eru flón að kveða. Ata skjöl með amarleir í Goðdölum kálfar tveir. Fyrri kona séra Hjörleifs, Guðlaug Eyjólfsdóttir, var búsýslu- kona mikil. Eitt sinn kom mikill jarðskjálfti og prestur skipaði fólkinu að fara út úr bænum. Þegar út var komið vantaði prestsfrúna. Hún fór ekki út, stóð inni í búri og studdi rjóma- trogin. Á síðasta fjórðungi 19. aldar voru merkismenn prestar í Goð- dölum, séra Zophonías Halldórsson, séra Hálfdán Guðjónsson, síðar vígslubiskup, og séra Vilhjálmur Briem. Síðasti prestur í Goðdölum var séra Sveinn Guðmundsson. Hann var síðar prestur í Árnesi á Ströndum. Kona séra Sveins var Ingibjörg Jónasdóttir prests á Staðarhrauni af Skeggja- staðaætt. Móðir frú Ingibjargar var Elinborg sýslumannsdóttir frá Skarði á Skarðsströnd. Frú Ingibjörg var gæðakona. Hún hafði læknishendur og ferðaðist um prestakallið til þess að hjúkra sjúkum. Synir hennar og séra Sveins voru hinir nafnkunnu læknar, Jónas og Kristján augnlæknir. Ekki er annað vitað en Goðdalakirkja hafi staðið í kirkjugarð- inum miðjum í aldanna rás. Árið 1886 var timburkirkja reist á þeim grunni er hún stendur nú. Árni Jónsson snikkari frá Haugsstöðum í Vopnafirði byggði þessa kirkju. Hann hafði verið við nám í Kaupmannahöfn og unnið þar eftir að námi lauk. Árni snikkari var fyrri maður Guðrúnar Þorvaldsdóttur á Stóra- Vatnsskarði og faðir Jóns Árnasonar bankastjóra. Árni var bóndi í Borgarey í Vallhólmi þegar hann byggði kirkjuna og andaðist þar tveimur árum síðar. Þessi kirkja fauk í desem- ber 1903 í sunnan ofsaveðri og brotnaði í spón. Á næsta ári 1904 var kirkjan endurreist í því formi sem hún er nú. Yfirsmiður var Þorsteinn Sigurðsson kallaður kirkju- smiður. Hann byggði margar kirkjur í Húnavatns- og Skaga- fjarðarsýslum og fór til Ameríku 1907. Goðdalakirkja átti bækur og muni eins og aðrar kirkjur. Árið 1959 fór fram viðgerð á kirkjunni. Þá var altaristaflan tekin niður. Á bak hennar er skráð: „Þessa altarisbrík lét séra Sigurður Jónsson gera í Kaup- mannahöfn 1837.“ Það er árið áður en séra Sigurður fór frá Goðdölum. Kvöldmáltíðarmyndin er sem kunnugt er eftirlík- ing af heimsfrægu málverki eftir Leonardó da Vincy. Altaris- klæði kirkjunnar er með ártali 1763 og því jafngamalt Hóla- dómkirkju. Enginn veit hver bjó til þennan merkilega kirkju- grip, en tilgáta er um að Steinunn, kona séra Jóns Sveinsson- ar, hafi saumað það. Hún var dóttir Ólafs stúdents og lögréttumanns í Héraðsdal. í vísitasíu prófasts 1908 er skráð: Bækur kirkjunnar, sem taldar eru í úttektargjörð 13. júní 1904, eru enn til og skulu af þeim nefndar sem sérstaklega verðmætar: Guðbrandarbiblía, útgefin á Hólum 1584 og Summaría yfir það Gamla testa- menti, íslenskað af Guðbrandi biskupi Þorlákssyni 1589. Sóknarnefndin felur hinum setta prófasti að leitast fyrir um sölu á fornbókum þessum. Árið 1942 var Guðbrandarbiblía seld séra Helga Konráðssyni á Sauðárkróki fyrir 200 kr. samkvæmt reikningi kirkjunnar. Verðið var ekki hátt en á það ber að líta að eintakið var gallað. Það vantaði átta blöð. Nokkru síðar kom Summaría í Ieitirnar í skjölum kirkjunnar. Formaður sóknarnefndar leit svo á að þessi bók ætti að fylgja Guðbrandarbiblíu og með barnalegri samviskusemi afhenti hann séra Helga bókina án endurgjalds. Einhverjum árum síð- ar varð uppi fótur og fit og blaðaskrif um Summaríu frá Goð- dölum. í þessum blaðaskrifum kom fram að ekki voru nema fjögur eintök til af Summaríu. Háskóli íslands átti gallað ein- tak. Davíð Stefánsson skáld átti eitt eintak og Möðruvalla- kirkja í Hörgárdal og Goðdalakirkja sitt eintak hvor, áður en eintak Goðdalakirkju gekk úr eigu hennar. Það var tekið fram að eintakið frá Goðdalakirkju var gott. Það út af fyrir sig er loflegur vitnisburður um kirkjuhús í Goðdölum að altarisskápurinn skyldi vera músheldur um ald- ir. Þorsteinn sýslumaður Dalasýslu átti merkisafmæli. Sjálf- stæðisflokkurinn keypti Summaríu frá Goðdölum fyrir fimm þúsund krónur og gaf honum. Dalasýslumaður var þó ekki bókarlaus fyrir það, því hann átti tíu eða tólf þúsund bindi. Það kom til orða að bókasafn Þorsteins sýslumanns yrði selt úr landi en það varð ekki sem betur fór. Þetta mikla bókasafn fór í Skálholt og þar er Summaría frá Goðdölum geymd. Goðdalakirkja sómir sér vel á Goðdalagrundum, hvar sem til hennar er litið, hvort sem farið er um dalinn eða horft til hennar af fjallabrúnum. Ef kirkja þessi fyki öðru sinni mundi hún tafarlaust verða endurbyggð, því fólkið í Skagafjarðardöl- um er svo gott að það getur ekki án þess verið að eiga kirkju. Björn Egilsson

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.