Réttur - 01.07.1982, Blaðsíða 27
IV
Verklaus — félaus örðugt er að hjara.
Ölmusurnar lítt þó betur fara.
Ströng og guðhrædd leiðsögn lýðsins kjara
lögmál hinnar réttu trúar kann.
Fyrsta boðorð: Þegar þarf að spara,
þá skal ráðist fyrst á öreigann.
Snauðir menn í harmi sínum hœkka,
höndin skelfur, augun dýpka og stækka:
Hví á okkar sultarlaun að lækka?
Litil spurning um sitt skipulag.
— Reiðin vex og villuljósin smœkka:
Verjum okkar hinzta rétt í dag!
Eyrarkarlar, sjómenn flykkjast saman,
sótugir og stormbitnir í framan.
Æðar þrútna: þetta er ekkert gaman!
Þetta er stríðið upp á líf og hel!
Er sem hrynji ryð um róminn staman:
Reynum, hvað þeir duga, — gott og vel!
Eins og fljót, sem farveg sinn ei skilur,
fellur þessi mæddra brjósta hylur.
Lengst, lengst niðri er œskuhjartans ylur,
— yfir svellur þjáninganna flóð.
Aldan þeytist áfram, snögg sem bylur.
ísland kvelst. — Á götunum er blóð.
Þessi stund er þúsund hjartna bragur.
Þetta er fólksins mikli reikningsdagur.
Þessi rauði áll er yfrið fagur,
af því hann er sigur kúgaðs manns.
Minnizt þess og það er yðar hagur:
Það kemst enginn fram hjá lífi hans.