Lesbók Morgunblaðsins - 25.03.2006, Blaðsíða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 25.03.2006, Blaðsíða 3
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 25. mars 2006 | 3 Á rannsóknarstefnu um hug- og félagsvísindi í Reykjavík 16. janúar síðastliðinn flutti ungur mannfræðingur, Ólöf Gerður Sigfúsdóttir, framsögu þar sem hún hélt því fram að menningararfur okkar Íslendinga væri í raun- inni óttalegur menningararfi sem okkur bæri að reyta sem mest burt til þess að hann kæfði ekki annan gróður í okkar andlegu jurtagörð- um. Að minnsta kosti skyldum við gæta þess að háma þennan arfa ekki í okkur í óhófi hald- andi að hann væri holl og næringarrík fæða. Ræða Ólafar birtist síðar á Kistunni, og má lesa hana þar undir titlinum „Menningararfur í einskismannslandi“. Ólöf á skilið heiður og lof fyrir að hefja máls á þessu efni. Það er sjálfsagt og nauðsynlegt fyrir okkur að velta þeirri spurningu upp alltaf annað kastið hvers vegna við leggjum sérstaka rækt við menningu okkar, fremur en það besta sem menning heimsins hefur að bjóða, og hvort við eigum yfirleitt að gera það. „Aþþí bara“ er ekkert svar við þessu fremur en öðru. Helsta forsendan fyrir rannsóknum á menn- ingararfi, þegar þær hófust af krafti á 19. öld, var sú að hver þjóð byggi yfir einhverju sér- stöku eðli, þjóðaranda, sem væri hægt, og mik- ilvægt, að uppgötva í menningararfinum. Þessi forsenda er óneitanlega úrelt. Annaðhvort verðum við að finna aðrar forsendur eða end- urskoða gagngert það sem við erum að gera. Útúrdúr um samtímamenningu Raunar er ekki víst að efasemdir Ólafar eigi eingöngu við fornan, sögulegan menningararf. Hvers vegna gefum við Íslendingar út hlut- fallslega margfalt fleiri bækur og sýnum fleiri leikrit eftir Íslendinga en nokkur þjóð önnur? Er það ekki merki um þröngsýni og útúrboru- lega þjóðhverfu? Við erum ekki nema einn tuttuguþúsundasti hluti mannkynsins, kannski einn fimmþúsundasti hluti þess hluta sem býr við nokkurn veginn sams konar menningu og við og framleiðir því list sem við ættum að geta skilið og metið. Hagkvæmnisrök, mætti segja; verk eftir Ís- lendinga liggja fyrir á íslensku, og lesendur vilja fá verkin á íslensku. En ég efast um að þau rök haldi. Ritlaun til útlendra höfunda eru ekki há, og þýðingarkostnaður lágur í sam- anburði við að halda tugum rithöfunda uppi á starfslaunum ár eftir ár. Innlendar samtíma- bókmenntir eru nauðsynleg speglun, greining, túlkun á veruleika okkar sjálfra, mundu marg- ir segja þeim til réttlætingar, og þar kann að skilja á milli þeirra og fornbókmennta okkar. Öll eigum við sjálfsagt margfalt meira sameig- inlegt með almenningi um gervalla Evrópu og Norður-Ameríku en við eigum með Guðrúnu Ósvífursdóttur eða Gísla Súrssyni. „The Past is a Foreign Country“, „Fortíðin er útland“, sagði maður að nafni David Lowenthal í bókartitli, og það er einmitt ekki síst fram- andleikinn sem gerir fortíðina áhugaverða. Ég ætla því ekki að flækja málið með því að blanda samtímamenningunni frekar inn í það. Hins vegar ætla ég að tína fram nokkrar rök- semdir fyrir því að við Íslendingar eigum að hirða um menningararf okkar. Sögumenn heimsþorpsins Hugsum okkur að við værum að spjalla saman í kátum kunningjahópi. Mér dettur í hug saga sem mér finnst passa vel inn í umræðuna; ég held að aðrir þekki söguna ekki en þeim mundi kannski finnast hún góð ef ég segði hana. Ef ég segi söguna, og álit mitt reynist rétt, þá hef ég gert þennan kunningjafund svolítið skemmtilegri og/eða fróðlegri en ella. Ég hef gert umhverfi mínu svolítið gott, gert tilveru fólks þann daginn örlitlu auðugri. Ef ég hins vegar þegi og hugsa: „Ekki skal ég láta standa mig að því að halda að mín saga sé eitthvað betri en sögurnar sem hinir eru að segja,“ þá er ég bara leiðindagaur, fýlupoki, og geri eng- um manni gott. Eitthvað hliðstætt gerist á markaðstorgi heimsþorpsins. Þangað mætir hvert samfélag, ekki bara til að versla heldur einnig til að skiptast á reynslusögum. Það samfélag sem auðgar heiminn að sögum gerir hann örlitlu skemmtilegri en ella, og það er hlutverk þess, jafnvel skylda, að gera það. Nú gæti Ólöf Gerður Sigfúsdóttir auðvitað bent á að það eru ekki endilega Grikkir sem segja sögur af Forn-Grikkjum, ennþá síður Egyptar sem segja sögur af Forn-Egyptum (enda allt önnur þjóð) eða indíánar sem segja sögur af frumbyggjum Ameríku. Kræst, eru sögurnar ekki öllum aðgengilegar á prenti? mætti segja. Það er óþarfi að vera sífellt að grúska í þeim í handritum í Árnagarði. Ókei, svara ég, ekki höfum við á móti því að útlendingar leggist í sögurnar okkar. En við sem erum alin upp á íslensku höfum afskap- lega mikið forskot á þessu sviði vegna þess hvað tungumál okkar stendur nærri máli sagnanna. Og okkur sem fáumst við þessi fræði finnst að umheimurinn hafi tekið minna eftir þeim en skyldi. Við þykjumst luma á sögu sem skemmtilegt gæti verið að segja heimin- um. Því skyldum við ekki prófa að gera það og vera svolítið góð með okkur þegar við finnum að einhver tekur eftir? Áhugasamasti áheyrendahópur okkar er væntanlega fræðaheimurinn; miðaldafræði okkar eiga greiðastan aðgang að miðaldafræð- um heimsins. En stærsti hópurinn er ferða- menn sem koma til Íslands. Því er rétt að taka fram að ég er ekki að tala um að selja túristum menningararfinn. Menning hefur eigið gildi og því þarf ekki að skipta henni yfir í peninga til að sjá verðmæti hennar. Hún hefur hins vegar ekki skiptagildi vegna þess að hún eyðist ekki þótt við veitum öðrum hlutdeild í henni. Menn- ingarsamskipti eru viðskipti af því tagi þegar hvorugur aðilinn lætur neitt af hendi, annar bara sýnir hinum í hendi sér, og um slík við- skipti hefur hagfræðin líklega lítið að segja. Afstæðið í heimssýn okkar Samt er það vissulega satt að við leggjum rækt við íslenskan menningararf, meira en annarra þjóða fólk, ekki eingöngu til þess að miðla honum til annarra, heldur af því að okk- ur finnst hann koma okkur meira við en ann- arra þjóða arfur. Við finnum til svolítillar eign- argleði þegar við tökum eftir því einu sinni enn hvað Laxdæla er frábær saga, þó að höfundar- rétturinn sé löngu fallinn úr gildi og skynsemi okkar trúi því ekki að við séum umtalsvert skyldari söguhöfundinum en hver annar íbúi í New York eða Moskvu. Þessa staðreynd má túlka á ólíkan hátt, en ég held að fróðlegast sé að benda á að við sjáum heiminn í perspektívi; það sem er nær okkur skynjum við sem stærra og mikilvæg- ara en það sem er fjær. Augljóst virðist að fé- lagsverur geti ekki lifað án þess að skynja heiminn svona. „Alþjóðrækni er hverjum manni of stór,“ sagði Stephan G. Stephansson réttilega. „Ég elska allan heiminn,“ sagði aftur á móti dótturdóttir mín ein, meðan enn var mikið af Guði í henni, eins og meistari Þór- bergur hefði sagt, en það var sjálfsagt sagt af því að hún vissi svo lítið hvað heimurinn er stór. Samt er auðvitað engin lausn í því að halda fram að við eigum að sinna því sem standi okk- ur næst vegna þess að við höfum einfaldlega eðli til þess. Það getum við prófað með því að þrengja sjónarhornið enn meira. Einu sinni fyrir mörgum árum heyrði ég sagt frá því að einkarekin sjónvarpsstöð á Ólafsfirði væri vin- sælasta stöðin þar í bæ; er það ekki nokkuð langt gengið í grenndaráhuga? Sömuleiðis fyndist okkur frekar þröngsýnt að vilja helst ekki lesa skáldsögur sem gerðust annars stað- ar en í Vesturbænum í Reykjavík eða kaupa helst ekki aðrar bækur en þær sem væru gefn- ar út af Vestfirska forlaginu. Stundum hef ég haldið því fram að sögu- menntun, sú menntunargrein sem ég hef lengi fengist við, gangi einmitt út á að víkka út þann hóp fólks sem nemendur segja „við“ um, og það gerir önnur menntun og uppeldi sjálfsagt oft líka. – Þess vegna er ég tortrygginn á að kenna börnum mikið af sögu barna og hef allt- af horfið frá þeirri hugmynd, sem hefur vissu- lega hvarflað að mér, að það ætti að skrifa sér- staka kvennasögu fyrir stúlkur og karlasögu fyrir stráka í skólum. – Í frumbernsku hefur barnið sjálfsagt hugmyndina „við“ eingöngu um sig og móður sína; svo bætist fjölskyldan við, skólafélagar, þorpið, landið, „hinn vest- ræni heimur“, „alþjóðasamfélagið“, þó án þess að perspektívið hverfi nokkurn tímann. Auðvitað er ekkert sjálfgefið að samstöðu- hugmynd okkar eigi að staðnæmast við þjóð- ríkið; það var umfram allt evrópsk þjóðernis- hyggja 19. aldar sem sló föstu að svo skyldi vera. En það merkir ekki að þjóðríkið myndi eitthvað verri eða óraunverulegri mörk um til- veru okkar en hver önnur. Þvert á móti er sú eining þjóðmenningar og ríkis sem var lög- helguð á 19. öld gríðarlega sterk og á margan hátt vel fallin til að vera skoðuð sem heild í hvers konar menningarfræðum. Þjóðríkið fékk óorð á sig eftir heimsstyrjaldir 20. aldar vegna þess að hugmyndinni um það var kennt um ófriðinn. Hvað sem um það má segja sýnist mér að á 21. öld sé hugmyndin um algildan rétt hins vestræna, lýðræðislega, tjáningar- frjálsa heims meiri ógnun við heimsfriðinn. Oft er sagt að herforingjar búi sig sífellt undir að sigra í síðasta stríði fremur en því næsta. Ég held að þeir sem berjast gegn þjóðríkishug- myndinni séu að reyna að hindra síðasta stríð. Við sem sýslum við menningaruppeldi streitumst við að víkka sjónarhorn fólks út, en það getum við aðeins gert ef við höfum skiln- ing á því að okkur er eiginlegt að sjá heiminn í perspektívi. Ef við áttum okkur ekki á því get- ur farið fyrir okkur eins og borgfirska bóndan- um sem komst að þeirri niðurstöðu að flug- vélar flygju alls ekkert hratt. Hann hafði miðað hraða flugvélar við hraða kaupakonu sinnar á gangi í sömu átt úti á túni, og flugvél- in dró varla neitt fram úr konunni. Jafnvægið Aðalatriði þessa máls held ég að sé að við tök- um ekki trú á að neitt eitt sé rétt, viðeigandi viðfangsefni menningarfræða okkar. Ég mæli fyrir jafnvægi hins heimalega og heimslega, allt frá fjölskyldunni til veraldarinnar. Ég er sammála Ólöfu Gerði Sigfúsdóttur þegar hún stingur upp á að „mannkynssagan eigi að fá jafnmikið vægi [í skólakerfinu] og Íslands- sagan“. Og það vill svo vel til að þannig mun það vera nokkurn veginn í raun. Þegar ég gekk í skóla, í kringum miðja 20. öld, var lík- lega heldur meira um mannkynssögu en Ís- landssögu í skólunum. Síðan mun Íslands- sagan hafa sótt frekar á, og nú með síðustu námskrá var tekið að blanda saman Íslands- sögu og veraldarsögu í grunnáföngum fram- haldsskólans. Það tel ég ágæta nýjung, því nemendur læra þá að líta á Ísland sem hluta umheimsins. Við Ólöf Gerður erum því líklega nokkurn veginn sammála að því er varðar sög- una og getum bæði verið ánægð, er það ekki? Þannig held ég að því sé kannski farið á sviði annarra menningarfræða okkar líka, að fréttir af alveldi hins þjóðlega séu stórlega orðum auknar. Við og menningararfurinn Greinin er skrifuð í tilefni af grein Ólafar Gerðar Sigfúsdóttur er birtist á www.kist- an.is Menningararfi Við skyld- um gæta þess að háma þennan arfa ekki í okk- ur í óhófi haldandi að hann væri holl og nær- ingarrík fæða. Eftir Gunnar Karlsson gunnark@hi.is Höfundur er prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.