Lesbók Morgunblaðsins - 25.03.2006, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 25.03.2006, Blaðsíða 10
10 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 25. mars 2006 R étt fyrir jólin 2003 veikist einkadóttir banda- rísku rithöfundanna Johns Gregorys Dunne og Joan Didion af sjúkdómi sem virðist í fyrstu vera sakleysisleg flensa, elnar í lungnabólgu en endar sem allsherjar sýking svo halda þarf dótturinni sofandi á sjúkrahúsi dögum saman. Kvöldið fyrir gamlársdag, þegar þau hjónin setjast að snæðingi eftir heimsókn á spítalann, verður John Gregory bráðkvaddur. Það gerist svo snögglega að Joan heldur í fyrstu að hann sé að spauga. Samt vissi hún auðvitað að hann var hjartveikur og hafði sjálfur spáð fyrir um það með hvaða hætti hann mundi deyja. Lygileg atburðarás sem átti þó eftir að verða enn lygilegri En eins og rithöfundum er tamt vann Joan Didion úr þessum áföllum með því að skrifa um þau. Hún settist niður tæpu ári síðar og reyndi að greiða úr hugsunum sínum. Úr varð bók með glæstum titli, The Year of Magical Thinking, sem vísar til þeirra töfrahugsana sem áföllin kölluðu fram í höfundinum. Didion lýs- ir tilganginum með skrifunum fremst í bókinni: „Þetta er tilraun til þess að átta mig á tímanum sem fór í hönd, vikum og síðan mánuðum sem brutu upp allar fastmótað- ar hugmyndir sem ég hafði haft um dauðann, um sjúkdóma, um líkur og heppni, um lán og lánleysi, um hjónaband og börn og minni, um sorg, um það hvernig fólk fæst og fæst ekki við þá staðreynd að lífinu lýkur, um það hvað geðheilsan má við litlu, um lífið sjálft“ (7). Bókin hreppti The National Book Award í nóvember sl. og hefur setið á metsölulistum auk þess sem hún hefur verið seld til margra landa. Þannig gerist það aftur og aftur að eins dauði verður annars brauð, ekki síst þegar rithöfundar eiga hlut að máli, enda eru þeir eins konar endurvinnslustöðvar veruleikans og ná sér oft best á strik þegar mikið liggur við. Sú spurning vaknar gjarnan hvort rithöfundar séu þar með afætur, þeir lifi á óförum annarra, en Didion virðist ekki vera upptekin af því. Hún virðist uppteknari af því að miðla mennsku sinni og gerir þannig lesendum, sem allir verða jú fyrir missi einhvern tíma á lífsleiðinni eins og John Gregory bendir á, kleift að samsama sig annarri syrgjandi manneskju sem e.t.v. gerir sorgina ögn létt- bærari fyrir okkur öll. Frægt par John Gregory Dunne og Joan Didion höfðu lengi verið þekkt par í bandarísku menningarlífi og um þau lék viss glamúrslikja. Þau kynntust þegar hann var blaðamaður á tímaritinu Time og hún á Vogue og giftu sig árið 1964. Þau voru og eru bæði þekktir rithöfundar, hún sló í gegn með skáldsögunni Play It as It Lays árið 1970, hann sló í gegn með skáldsögunni True Confessions árið 1981 sem síðar var kvikmynduð. Bæði þóttu góðir greina- smiðir, skrifuðu um bókmenntir, stjórnmál og menningarmál al- mennt, en einna þekktust voru þau fyrir samvinnu sína fram í rauðan dauðann og þá ekki síst að gerð kvikmyndahandrita. Til þess var tekið að þau fóru gjarnan til Honolulu til að ljúka krefj- andi verkefni. Meðal kvikmynda sem þau rituðu handrit að má nefna A Star is Born með Barbra Streisand (1976) og Up Close and Personal með Robert Redford og Michelle Pfeiffer (1996). John og Joan voru því augljóslega hágírað bókmenntapar og sagan segir að þau hafi dregið fram það besta hvort í öðru. Þau unnu undir sama þaki lengstum og Joan segist aldrei hafa sent neitt frá sér án þess að hann læsi það yfir. Það hlýtur þess vegna að hafa verið mikið áfall fyrir hana, bæði sem einstakling og rit- höfund, að missa mann sinn og það á sama tíma og dóttirin Quintana lá fárveik á sjúkrahúsi. Sorgarferlið í stílnum En Joan Didion tókst að ljúka við nýja bók þrátt fyrir þessi áföll, skrifaði uppkastið á 88 dögum haustið 2004, og út kom bókin í október síðastliðnum. Þetta er heillandi lesning af mörgum ástæðum, en ég er samt ekki viss um að bókin sé endilega vel skrifuð í hefðbundnum skilningi, til þess er hún fulltætingsleg. Didion fer ekki þá leið að skrifa yfirvegaða og útpælda bók um þetta erfiða viðfangsefni. Hún ákveður þess í stað að láta formið hæfa efninu og gerir bókina hráa og endurtekningasama til að endurspegla líðan sína á þessum tíma eða það sjúkdómsástand að syrgja, eins og hún hefur eftir einum sálgreinandanum. Texti Didion ber satt að segja ýmis merki þess að höfundurinn sé í losti, hún tönnlast á sömu hugsunum aftur og aftur, enda ennþá í sorgarferlinu miðju þegar hún skrifar bókina. Og það gerir bókina sérstaka, hún er ekki skrifuð löngu seinna eins og svo margar sorgarsögur, þegar höfundurinn er búinn að vinna úr hinni erfiðu reynslu og getur fjallað um hana á settlegan og vits- munalegan hátt. Didion vildi beinlínis skrifa hana sem fyrst til að ná „the crazy part“ eins og hún segir í viðtali við dagblaðið USA Today. The Year of Magical Thinking er því bæði að formi og efni rannsókn á sorgarferlinu. En þó að bókin fjalli um grafalvarleg efni er hún ekki niðurdrepandi, leiðinleg eða beinlínis sorgleg, því hún er á sinn hátt spennandi vegna þess hvernig Didion rað- ar efninu upp. Auk þess sver stíll Didion sig í ætt við ísjaka- kenningu Hemingways, margt leynist á milli línanna, sem gerir að verkum að bókin verður ekki væmin og skilur mátulega mik- ið eftir handa lesandanum. Þetta er heldur ekki bara einkafrá- sögn hennar, því hún gefur hugrenningum sínum um líf og dauða almennari og víðari skírskotun með því að heyja sér efni víða úr heimsbókmenntunum, jafnt skáldskap sem fræðum, fornum og nýjum, en ungri var henni einmitt kennt að lesa sér til þegar vandi steðjaði að. Tilvitnun í Sir Gawain and the Green Knight er eins konar leiðarstef í bókinni, endurtekin hvað eftir annað. Grafinn lifandi Slysin gera ekki boð á undan sér, segjum við oft í okkar menn- ingarsamfélagi. Didion lýsir einmitt undrun sinni, og reyndar annarra líka, yfir því að dauðann skyldi bera að garði á venju- legum degi, í hennar tilfelli þar sem John Gregory sat við eldinn inni í stofu og bjóst til að snæða kvöldverð. Maður sest að snæð- ingi og er svo farinn, segir Didion oftar en einu sinni. Hún hefur líka eftir öðrum að hamfarir og dauða hafi iðulega borið að á fögrum degi þegar sól skein í heiði, kannski á venjulegum sunnudagsmorgni, eins og þegar ráðist var á Pearl Harbor í seinni heimsstyrjöldinni. Þessi undrun Didion segir margt um afstöðu okkar vestrænna manna til dauðans, við virðumst ekki líta á hann sem eðlilegan hluta af lífinu og reynum að láta sem minnst fyrir honum fara í hversdeginum til að vera ekki minnt of óþyrmilega á hann. Við notum alls kyns myndmál um hann eins og til þess að forðast að horfast í augu við hann. En auðvit- að er dauðinn jafn hversdagslegur og lífið eins og lesa má úr dagbók húsvarðarins þar sem hann segir frá því í einni færsl- unni að sjúkrabíll hafi komið eftir hr. Dunne og í þeirri næstu að pera sé farin í lyftunni. Kannski er þessi bæling drepin úr dróma í öllum ofbeldis- myndunum þar sem dauðinn virðist oft ekki hafa neinar tilfinn- ingalegar afleiðingar. En hvað gerist í raunverulegri manneskju þegar ástvinur fellur frá? spyr Joan í þessari bók. Ef marka má lýsingar hennar fer allt á tjá og tundur í tilverunni og veröldin fær nýja merkingu. Hversdagslegir hlutir fara allt í einu að kalla á mann af endurnýjum krafti og gleymdir munir stökkva fram í dagsljósið, jafnvel út úr skúmaskotum. Minningar fá aukna dýpt sökum þess að viðfang þeirra er nú glatað um aldur og ævi. Við köllum þetta sorgarferli nútildags og í því felst það sem Joan Didion kallar „töfrahugsanir“. Ástandið sem Joan vísar hér til er svipað og í bókum töfra- raunsæishöfundanna þar sem látið er sem yfirnáttúruleg fyrir- bæri séu raunveruleg. Joan veit mætavel að John Gregory er látinn en tilfinningalíf hennar er ekki á því að viðurkenna það. Hún les ekki minningargreinar um mann sinn, gefur ekki fötin af honum og alls ekki skóna því á þeim þarf hann að halda ef hann snýr aftur. Hún heldur líka áfram að segja honum eitt og annað, fær bara engin viðbrögð lengur. Töfrarnir felast sumsé í því að mánuðum saman getur hún ekki hugsað rökrétt og lætur sem John sé ennþá á lífi. Og það sem meira er, henni líður eins og hann hafi verið grafinn lifandi. Heilinn bregst því við erfiðum sannleika með því að afneita honum að vissu marki. Joan reynir auk þess að lýsa því hvernig sorgin hellist yfir. Hún komi í bylgjum, gjarnan í grátkviðum. Fyrstu dagana kom- ist hún þó ekki að vegna allra praktísku atriðanna sem tengjast andláti. Og ákvarðana sem þurfi að taka: Má kryfja John Greg- ory? Vill hún gefa líffærin úr honum? – En hvernig á hann að geta snúið aftur ef hann hefur engin líffæri. Og enga skó? Hugs- anir og gjörðir eru iðulega í mótsögn: Í sama mund og hún gætir þess að hafa allt til reiðu fyrir endurkomu eiginmannsins lætur hún brenna líkið og setja öskuna í duftker. Dóttirin Það er út af fyrir sig nóg að fást við alvarleg veikindi barns eða dauða maka, að fást við hvort tveggja í senn er trúlega fullmikið af því góða á friðartímum. Quintana vaknaði ekki úr dáinu fyrr en rúmum hálfum mánuði eftir að faðir hennar lést og eitt það fyrsta sem hún heyrði þá var að faðir hennar væri látinn. Það var svo ekki fyrr en seinnipartinn í mars sem hún var orðin nógu hress til þess að hægt væri að gera útförina, næstum þremur mánuðum eftir að hann lést. Tveimur dögum síðar flýg- ur hún til Kaliforníu ásamt eiginmanni sínum og hnígur niður af völdum heilablóðfalls við komuna þangað. Hvert stóráfallið rekur annað og Didion reynir hvað hún get- ur að gera þeim skil í frásögn sinni. Hún vísar jöfnum höndum til atburðanna og þess sem fræðingar hafa sagt um sambærileg atvik og reynir þannig að hjálpa sjálfri sér og lesandanum að fást við þá. Þannig eru bæði bókin og sorgin til marks um það hve miklu máli annað fólk, já og menningarsamfélagið sem við hrærumst í, skiptir okkur. „Við höfum misst eina manneskju og veröldin er eitt stórt tóm,“ hefur Didion eftir Philippe Ariès. Sjúkrasaga Quintönu hélt áfram eftir að The Year of Magical Thinking fór í prentun og skömmu áður en bókin kom út lést þessi unga kona eftir erfiða baráttu við sýkingar. Læknar sögðu að ónæmiskerfið hefði veikst af völdum þeirra. Við þessar nötur- legu aðstæður kom bók Didion út en hvort sá harmleikur muni hafa frekari bókmenntaafrek í för með sér verður að koma í ljós. Töfrandi hugsanir um missi Sorgarferli Joan Didion skrifaði bók í kjölfar dauða eiginmanns síns og veikinda dóttur sinnar. Eftir Rúnar Helga Vignisson rhv@simnet.is Höfundur er rithöfundur. Þekktur bandarískur rithöfundur, Joan Didion, sendi í fyrra frá sér bók um tvíþættan persónulegan harmleik, alvarleg veikindi dóttur og dauða eiginmanns. Bókinni, sem hún skrif- aði í sorgarferlinu miðju, var afar vel tekið, hún hlaut ein virtustu bókmenntaverðlaun Bandaríkjanna og hefur setið á metsölulistum. En erfiðleikum höfundarins er ekki lokið. ’Þannig gerist það aftur og afturað eins dauði verður annars brauð, ekki síst þegar rithöfundar eiga hlut að máli, enda eru þeir eins konar endurvinnslustöðvar veruleikans og ná sér oft best á strik þegar mikið liggur við. Sú spurning vaknar gjarnan hvort rit- höfundar séu þar með afætur, þeir lifi á óförum annarra, en Didion virðist ekki vera upptekin af því.‘

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.