Lesbók Morgunblaðsins - 20.05.2006, Blaðsíða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 20.05.2006, Blaðsíða 3
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 20. maí 2006 | 3 H vað er hægt að segja um Sil- víu Nótt, annað en það sem er deginum ljósara og bloddí obbvíus? Menning- arrýnar, bókmenntafræð- ingar og spekingar af öllum sortum eru alltaf þegar of seinir á vettvang og greining þeirra á fyrirbærinu er dæmd til að vera síðbúnar athugasemdir, eins konar eftirmæli. Ekki bara um fyrirbærið Silvíu heldur líka um gagnrýnin fræði sem komast ekki einu sinni með tærnar þar sem hún hef- ur háhælana. Þegar og ef fræðin komast upp að hlið stjörnunnar hverfur hún sam- stundis, leysist upp í frummyndir sínar, farin veg allrar veraldar inn í handanverund eilífra ímynda. Haft er fyrir satt að raunveruleikinn hafi látið á sjá á undanförnum árum. Mörkin milli hans og eftirlíkingar hans eru orðin æði óljós, finnst sumum. Á sama tíma hafa mörk- in milli hins persónulega og hins almenna smám saman þurrkast út; sömuleiðis mörkin milli hins fræðilega og hins alþýðlega, milli kenningar og framkvæmdar. Fjölmiðlarnir leika aðalhlutverkið í þessari þróun og stundum er eins og allt sé að verða að einum allsherjar veruleikaþætti. Poppkúltúrinn ræður ríkjum og nú þegar millistéttin og lágkúran eiga sviðið eru allir orðnir heimspekilega meðvitaðir: Hugtök eins og „hliðarsjálf“, „afbygging“, „ofurveru- leiki“ eru á hvers manns vörum og ekki sak- ar að kunna graut í Freud, (meðvitað eða ómeðvitað) en sjónvarpsþættir og bíómyndir, sérstaklega frá Hollývúdd, eru öflugustu kennslutækin. Margræð og mögnuð Fyrir ekki alls löngu hefði það þótt sæmi- lega róttækt að halda því fram að Silvía Nótt væri holdgervingur „hins póstmóderníska ástands“ (Vá!); núna er það bara tugga sem segir allt og ekkert. Silvía er, eins og allir sjá, menningarlegur samsetningur og marg- vísandi tákn(gervingur). Hún er ekki vitund frumleg. Þvert á móti, hún er hið ófrumlega uppmálað – eða hún er svo ófrumleg að hún er frumleg. Mögnuð mærin er t.a.m. mynduð úr Madonnu, Marilyn Monroe og Marilyn Manson en erkitýpísk frummynd þeirra allra er María mey, í viðsnúinni eða írónískri mynd. Silvía er líka náskyld Frank N’ Furter (úr Rocky Horror Picture Show), sem kom til jarðarinnar frá Transsexjúal Transylvaníu til að frelsa jarðarbúa kynferðislega, kenna þeim að láta undan frygðinni og nautninni. Þarna er stutt yfir til Transilvaníuhéraðs í Rúmeníu sem tengir Dr. Frankenstein, skrímslið hans, og Drakúla greifa en sögur þeirra má líka skoða sem kynferðislegar táknsögur. Eftir undankeppnina í Aþenu (sjálfri viskugyðjunni) hlýtur Silvía sömu ör- lög og kyn(ja)tröllið Frank og er send heim til óralandsins Transilvaníu á Íslandi – Evr- ópa hafnar frjálsum húmor. Hinsegin Silvía Silvía er kynferðislega hlaðið íkon sem inni- heldur í vissum skilningi öll kyngervi – hún er „hinsegin“. Þótt hún dissi „gei næntís ógeð“ í laginu sínu er varla meira mark á því takandi en fullyrðingu hennar um að hún sé „hræn mæ“ – Silvía er margkynhneigð eða alkynhneigð: hún tælir alla – nema þá helst múgæsta og húmorssnauða Evróvisjónbúa. Silvía Nótt („silva“ þýðir „skógur“ – gæti verið Paradís; „transylvania“ merkir „hand- an skógarins“ en Silvía hefur einmitt skilið Ágústu Evu eftir, í skóginum/„paradís“ (hel- víti?) – ég, eins og allir, vona að frumkon- unni reiði vel af í siglingu Silvia Night Int- ernational Superstar í ólgusjó heimsfrægðar) er flókinn kvengervingur: hún er í senn dýr- lingur (ljós heimsins, eins og hún segir) og gála. Hún er ofurstirni sem ber af öðrum en hún er líka misnotuð, kúguð kona – ekki er Romario, þessi augljósi flagari, traustvekj- andi. Rætt hefur verið um aðra Svengala baksviðs sem stýri Silvíu en þótt Silvía sé al- gjör „ljóska“ er hún líka eldklár, a.m.k. þeg- ar Eva bakkar hana upp. Gjörningurinn Silvía Nótt En það þýðir ekki að láta eins og Silvía sé öll þar sem hún er séð: Hún er gangandi skopstæling, nánast á öllu: á Madonnu, Monroe, Maríu, á Paris Hilton. „Silvía Nótt“ felur í sér gagnrýni á yfirborðsmennsku, frægðina, „meikið“ og fræga fólkið, gáluna, klám, klámvæðingu, misnotkun á konum, listmarkaðinn, peningjahyggju, nýríkt Ís- land, menningarsnauð athafnaskáld, karl- veldið – og nú síðast er skotspónninn Euro- vision söngvakeppnin og sú klámfengna yfirborðsmennska sem hún stendur fyrir (svo maður taki nú upp þykkjuna fyrir SN) og um leið karlveldið gjörvallt í Evrópu. Silvía er nefnilega feminískur gjörningur… Feminískur gjörningur!? Er Silvía holl fyrirmynd stúlkubarnanna okkar? Eiga kon- ur að vera svona og eru það góð skilaboð til drengja? Var ekki gáluáróðurinn ærinn fyrir, með fylgjandi dræsufatnaði (eins og glöggt sést í Söngvakeppninni)? Jú, þrátt fyrir allt er ekki annað hægt en að líta á gjörninginn „Silvia Night“ sem róttæka gagnrýni á allt klabbið. En að skilgreina Silvíu Nótt er auð- vitað eins og að skvetta vatni á gæs. Silvía Nótt er ádeila á allt og alla, og hún er það ekki – allt skrumskælist í hennar höndum. Hún er í senn hið góða og hið illa. Hún er saklaust hliðarsjálf sem eins og frelsarinn ætlar að „bjarga okkur“ eins og hún tönnlast á, en hún er líka and-kristur sem býður hverjum og einum það sem hann vill – hún er Fríða og Dýrið. Söluvaran Ekki má gleyma því að „Silvia Night“ er ekki bara listrænn viðburður heldur fyr- irtæki sem ætlar og þarf að græða, og það hratt, áður en neyslutími vörunnar rennur út. Silvía er því ekki bara grúpía heldur Gro- up – Silvía Night Group – harð(s)vírað fyr- irtæki eldklárra fagmanna með sterka bak- hjarla sem kaupa vörumerkið Silvía Nótt í auglýsingar sínar. Ádeiluna verður líka að skoða í því ljósi. [Eins og öll Group þarf Silvia Night að rása út: kannski er Júróvísíjónóvild Dana í garð Silvíu Night einmitt vegna íslensku út- rásarfaranna sem fóru á undan henni og ku hafa verið nærri því að leggja Danaveldi, gamla nýlenduherrann, undir sig: Búúú Ís- land! sagði ágæt dönsk leikkona í Eurovisi- onþætti um framlag Frónbúans og talaði fyr- ir hönd svívirtrar þjóðar. Hremmingar Silvia Night í Söngvakeppn- inni og höfnunin (sem er í sjálfu sér sigur og undirbygging fyrir næsta þátt í Silvia Night) byggjast auðvitað á tómum misskilningi. Þótt Silvíu hafi verið meinað að nota ljóta f- orðið í keppninni er þó líklegt að annað hafi farið enn meira í taugarnar á Evrópubúum: Að hringja í guð og kalla hann hund getur varla heitið annað en guðlast. En var raun- verulega um djöfullegan viðsnúning á „God“ yfir í „dog“ að ræða? Var ekki heilsan sak- laus vísun í Kalla kanínu sem heilsar kump- ánlega: „Eh, what’s up, Doc?“ Ljóta orðið breyttist í lokaútgáfunni í kvenlega fróun eða „frigging“ sem er annað heiti á „fuck- ing“.] Nauðsynleg útrás Silvía Nótt er skilgetið afkvæmi samtímans og endurspeglar í margræðni sinni þann tví- skinnung sem við stöndum öll frammi fyrir í kapítalísku neyslusamfélagi. En þegar öllu er á botninn hvolft er varla um annað að ræða en að viðurkenna vanmátt sinn og falla fram og dást að Silvíu Nótt. Hún fyllir mann óstjórnlegri kátínu í hvert sinn, hversu ósvíf- in eða hversu pólitískt rangþenkjandi hún virðist vera. Ástæðan fyrir því að Silvía Nótt gleður okkur svo óumræðilega er auðvitað dirfska hennar og botnlaus ósvífni. Hún er tákn fyr- ir allt sem við viljum og þráum. Hún gerir það sem okkur langar öll til að gera; að sleppa okkur, tala eins og börn, hreyfa okk- ur frygðarlega, ulla með tungunni, gefa skít í allt og alla – hún er andsetið barn og af- hjúpar þá duldu þrá okkar og samfélagsins alls að verða ábyrgðarlaust, sjálfselskt barn sem stýrist af hvötunum einum saman. Okk- ur langar til að varpa hinu samfélagslega fyrir róða. – En Silvía Nótt tekur af okkur smáborgurunum ómakið: Hún er eins manns karneval sem veitir okkur útrás svo að við megum þola útrásandi stórfyrirtæki sem í samráði og að ríkisvaldinu nánast gengnu véla um líf okkar og heilsu. Og það er bæði gott og vont. Morgunblaðið/Eggert Höfnun Silvíu „Hremmingar Silvia Night í Söngvakeppninni og höfnunin (sem er í sjálfu sér sigur og undirbygging fyrir næsta þátt í Silvia Night) byggjast auðvitað á tómum misskilningi.“ Transilvíanísk Nótt – eftirmæli „Allt þetta mun ég gefa þér, ef þú aðeins fellur fram og tilbiður mig“ Eftir Geir Svansson geirsv@internet.is Höfundur er bókmenntafræðingur.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.