Lesbók Morgunblaðsins - 20.05.2006, Blaðsíða 8

Lesbók Morgunblaðsins - 20.05.2006, Blaðsíða 8
8 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 20. maí 2006 Á rið 1995 kom út bókin La frontera de cristal eða Glerlandamærin eftir mexíkóska rithöfundinn Carlos Fuentes. Bókin hefur að geyma níu sögur sem allar tengjast á einhvern hátt landa- mærum Mexíkó og Bandaríkjanna. Inngangs- saga bókarinnar hefst á eftirfarandi setningu: „Í Campazas er bókstaflega ekkert áhugavert fyr- ir ferðamenn.“ (11). Þetta les ein persóna sögunnar frá Mexíkóborg í leið- söguriti þegar hún er að nálgast landamæraborgina Campazas, en Campazas er dulnefni fyrir borgina Ciudad Juárez, sem ásamt Tijuana er annar tveggja stærstu þéttbýlisstaða landamæranna. Setn- ingin endurspeglar hugmyndir margra um heim þann sem landamærin hafa að geyma. Mexíkóbúar frá syðri héruðum landsins tala gjarnan um landamærin og norðurfylkin sem annars flokks Mexíkó þar sem bandarísk áhrif hafa spillt mexíkóskum anda. Sömuleiðis að borgir og bæir landamæranna séu uppfullir af vændi og spilavítum og túrismi sé þar allsráð- andi. Má segja að sögusögnin myrka um landa- mærin eða la leyenda negra, sem kom upp kringum bannár Bandaríkjanna 1918, loði enn við svæðið. Samkvæmt henni byggðust þétt- býliskjarnarnir við landamærin upp kringum skemmtanaþarfir fólksins í norðri sem flykktist suður yfir landamærin til að stunda drykkju, veðreiðar, spilavíti og vændishús. Á síðari tím- um hefur smygl á eiturlyfjum og fólki bæst við sögnina. Þessari ímynd fylgir einnig sú hug- mynd að landamærin séu í dag ein allsherjar stoppistöð fyrir ólöglega innflytjendur sem koma frá syðri héruðum landsins til að freista gæfunnar í landi vonar og tækifæra norðan landamæranna. Til að kóróna allt saman er „norðrið“ hrjóstrugt eyðiland þar sem barbar- ískar flökkuþjóðir hafa löngum átt heimkynni sín – illtamdar flökkuþjóðir sem Spánverjum tókst aldrei að leggja undir sig. Í stuttu máli, jaðarsvæði sem raunverulega hefur aldrei fylli- lega tilheyrt Mexíkó. Þetta eru hugmyndir sem hafa þróast í landi þar sem miðstýring hefur verið alls ráðandi gegnum tíðina, en segja má að norðurhéruðin sem og landamærin hafi löngum tilheyrt útjaðri þeirrar miðstýringar. Þegar fyrrnefnd sögupersóna frá Mexíkóborg í bók Fuentesar virðir fyrir sér kirkjuna á ryk- ugu torginu í Campazas verður henni að orði: „Barokkstíllinn náði hingað, já alveg út á hjara eyðimerkurinnar. Það er líka allt og sumt.“ (17). Þessi ummæli hnykkja enn frekar á sögusögn- inni myrku um landamærin sem áður var minnst á. Þar hefur aldrei skapast nokkur menning. Landamærin eru eyðilönd í orðsins fyllstu merkingu. Eitthvað kann að vera hæft í þeirri mynd sem hefur verið dregin upp en íbúar norðurfylkja Mexíkó og landamæranna eru ósáttir við hana og kvarta sáran undan vanþekkingu og þeirri miðstýringu sem þeir þurfa að búa við. Þeir álíta að mörg vandamál sem þeir glíma við megi ein- mitt rekja til miðstýringarinnar að sunnan. Samtímis stæra þeir sig af sögu sinni og mikil- vægu hlutverki norðanmanna í sögu landsins, einkum mexíkósku byltingunni 1910. En nokkr- ir upphafsmenn hennar s.s. Francisco I. Madero og sjálf byltingarhetjan, Francisco Villa, voru frá norðurfylkjunum. Þar að auki benda íbúarn- ir á að sumar borgir landamæranna laði nú til sín fólk sem vill setjast þar að, t.d. Tijuana, sem er orðin að menningarborg norðursins ásamt Ciudad Juárez, þaðan sem margir rithöfundar, ljóðskáld og listmálarar koma um þessar mund- ir. Hins vegar fellur þessi einfaldaða mynd fljótt um sjálfa sig þegar betur að er gáð, því landa- mærin eru flóknari en svo að á þeim mætist ein- ungis tvær þjóðir, Engilsaxar og Mexíkóar – valdamesta þjóð heims og önnur valdalítil. Þau hafa löngum einkennst af fjölþjóðlegum straumamótum með tilheyrandi mannlífsflóru. Landamærin Landamærin sem skilja Mexíkó og Bandaríkin að eru með þeim lengstu í heiminum, eða tæp- lega 3.200 kílómetrar og ná allt frá Kyrrahafi til Mexíkóflóa. Þriðjungur þeirra liggur um þurr og hrjóstrug svæði, þ.e. eyðimerkurnar Sonora og Chihuahua. Fljótið Rio Bravo, sem kallast Río Grande norðanmegin, skilur síðan löndin að um 2/3 hluta landamæranna eða ríflega 2.000 km. Burtséð frá fljótinu Río Bravo/Grande er eng- inn landfræðilegur tálmi sem gefur aðskilnað til kynna. Stór hluti landamerkjanna er, eins og sagði, dreginn í miðri eyðimörk á hrjóstrugum og óbyggðum svæðum. Þegar staðið er þarna utan þéttbýlis er harla einkennilegt að virða þetta fyrir sér. Beggja vegna gaddavírsgirð- inga, sem enn er notast við allvíða í eyðimörk- inni til að skilja löndin að, blasir sama eyðimörk- in við – sunnan og norðan markanna vex sami kaktus- og þyrnigróðurinn. Landfræðilegir far- artálmar s.s. ár og fjallgarðar liggja til norðurs og suðurs og virðist ekkert frá náttúrunnar hendi réttlæta línu dregna í austur og vestur. Má einna helst líkja þessu við að girðingu væri komið upp þvert yfir hálendissanda Íslands frá austri til vesturs. Landamærin – eða línan eins og íbúar svæð- isins kalla þau – eru tiltölulega ung en þau voru dregin 1848 (og lagfærð 1854) þegar Mexíkó seldi Bandaríkjamönnum liðlega helming lands síns og Guadalupe-samningurinn (El Tratado de Guadalupe) var undirritaður. Reyndar er sú saga nokkuð flókin og verður ekki tíunduð hér. Bandaríkjamenn eignuðust þá landsvæðið sem nú eru fylkin Arizona og Nýja-Mexíkó, hluti af Texas, Kolorado, Utah og syðri hluti Kaliforníu. Eins og gefur að skilja var þetta gífurlegur missir fyrir unga þjóð sem enn var að koma undir sig fótum (fékk sjálfstæði 1821). Fjöldi Mexíkóa hefur aldrei viljað viðurkenna þennan samning eins og sést á viðhorfum mexíkóskra innflytjenda sem eru búsettir í suðvesturríkjum Bandaríkjanna. Þeir álíta margir hverjir að þeir séu aðeins að endurheimta gamla ættlandið sem var hrifsað af þeim. Sama má segja um chic- anóa, þ.e. Mexíkó-Ameríkana – afkomendur þeirra Mexíkóa sem bjuggu á því landsvæði sem í einni svipan varð bandarískt 1848 og þeir í kjölfarið bandarískir borgarar. Sumir þeirra telja að þeir hafi aldrei yfirgefið föðurland sitt, að landið hafi alltaf tilheyrt þeim og í raun aldrei orðið fullbandarískt. Byggð og íbúar landamæranna Það sem einkennir þéttbýli landamæranna í dag eru svokallaðar systra- eða tvíburaborgir og bæir. Oftast standa borgirnar og bæir fast upp við landamærin sjálf, múrana og rimlaverkin sem skilja þéttbýlin að – einkum að sunn- anverðu. Þéttbýlisstaðirnir við Río Bravo/ Grande standa á sama hátt á bökkum þess. Nefndar borgir og bæir mynduðust á ólíkum tímum og við misjafnar aðstæður. Reyndar voru þetta ekki þéttbyggð svæði fyrir komu Spán- verja, og voru þau allra síðustu til að byggjast upp á nýlendutíma Nýja- Spánar enda þótti norðrið hrjóstrugt, auk þess var stöðugur ótti við árásir innfæddra á þessum slóðum. Upphaf sumra borganna má rekja til trúboðs- og varðstöðva sem voru reistar á 17. og 18. öld. Aftur á móti byggðust önnur þorp upp sem ný- lendur strax frá upphafi, einkum þau sem standa við fljótið Rio Bravo/Grande og enn aðr- ar byggðir spruttu upp í kjölfarið á Guadalupe- samningnum. Í þeim tilvikum þar sem þéttbýlið hafði verið norðan fljótsins fyrir tilkomu landa- mæranna mynduðust ný þorp sunnan þess þeg- ar Mexíkóar, sem ekki vildu gerast bandarískir þegnar, fluttu sig suður yfir nýju mörkin og reistu þar byggðir. Norðan markanna reistu Bandaríkjamenn varðstöðvar til að gæta nýju landamæranna og mynduðust þéttbýli þar í kring. Á síðari árum hafa byggst upp litlir bæir sunnanmegin sem gera út á „þarfir“ nágrann- ans í norðri. Þangað sækja bandarískir ellilíf- eyrisþegar og svokallaðir „vetrarfuglar“ (ellilíf- eyrisþegar frá norðlægum fylkjum Banda- ríkjanna sem flytjast til suðlægari fylkja yfir vetrartímann) í ódýr lyf, læknis- og tann- læknaþjónustu. Ógerlegt er að fá nákvæmar upplýsingar um íbúatölu þéttbýliskjarnanna á landamærunum. Samkvæmt opinberum tölum búa á bilinu 15-20 milljónir við landamærin beggja vegna. Síðustu áratugi hefur fjölgunin verið mjög ör og flestar borgirnar, einkum sunnanmegin, vanbúnar að taka við slíkum fjölda enda mörg óskipulögð fá- tækrahverfi þar sem skortir vatn, rafmagn og allt innra skipulag. Sem dæmi um þessa öru fjölgun má nefna Tijuana; í dag eru íbúar borg- arinnar um ein milljón en þeir voru ekki nema 16.000 árið 1940. Svipað gildir um aðrar borgir. Er einkum fernt sem hefur ýtt undir þessa þró- un. Í fyrsta lagi má nefna mexíkósku byltinguna 1910-1917 þegar fólk hvaðanæva af landinu flýði til norðurfylkjanna og yfir landamærin. Eftir að byltingunni lauk sneru margir aftur heim og settust þá að í byggðunum sunnanmegin mark- anna. Í öðru lagi má nefna bannárin í Bandaríkj- unum 1918-1933 sem minnst var á hér fyrr. Á þeim tíma spruttu upp í ýmsum þéttbýlisstöð- unum s.s. í Tijuana og Mexicali fjöldi hótela, kráa og spilavíta; einnig varð nautaat, veðreiðar, hanaat og box vinsælt. Sóttist fólk úr norðri eft- ir slíku suður yfir landamærin og allt skapaði þetta atvinnu. Það er upp úr þessu að Tijuana fær heitið sin city eða syndaborgin, og loðir sú nafngift við hana enn þann dag í dag. En það sem hefur ekki hvað síst haft áhrif á fólksfjölgun á landamærunum var Bracero- samningurinn sem var í gildi milli Mexíkó og Bandaríkjanna árin 1942-1964. Á stríðsárunum, í byrjun fimmta áratugarins, þegar skortur varð á vinnuafli í Bandaríkjunum gerðu þjóðirnar tvær með sér nefndan samning. Kvað hann á um að Mexíkóar mættu fara óáreittir yfir landa- mærin og vinna tímabundið í Bandaríkjunum, einkum á ökrum, í námum og við lagningu járn- brauta. Talið er að meira en fjórar milljónir mexíkóskra karlmanna hafi tekið þátt í þessum tímabundna samningi. Í kringum 1960 þegar ekki var lengur þörf á vinnuaflinu voru þessir menn sendir til síns heima (sbr. The Repatria- tion), en margir þeirra höfðu verið þarna í hart- nær tvo áratugi (ásamt fjölskyldum sínum) og áttu raunar að engu að hverfa í Mexíkó. Sumir reyndu að dvelja áfram í Bandaríkjunum, aðrir fóru ýmist sjálfviljugir eða voru fluttir nauðugir yfir landamærin, og varð endastöð margra þeirra þéttbýlisstaðirnir sunnanmegin mark- anna. Í seinni tíð er það einkum tilkoma svokallaðra maquiladora-verksmiðja sem hefur haft áhrif á fólksfjölgunina. Þetta eru eins konar verk- smiðjur þar sem aðfluttir hlutir eru settir sam- an, allt frá fatnaði til hátæknibúnaðar og síðan fluttir aftur úr landi, aðallega á Bandaríkja- markað. Allflestar eru þær í eigu erlendra aðila og eru á tollfrjálsu svæði. Fyrstu maquilador- urnar voru reistar snemma á sjöunda áratugn- um í borginni Ciudad Juárez; þær eru nú orðnar um 3.000 talsins og má finna í flestum borgum og bæjum sunnan landamæranna. Þangað hefur fólk streymt frá ýmsum syðri fylkjum Mexíkó í leit að vinnu í umræddum samsetningar- smiðjum. Einkum er þó sóst eftir ungu kven- fólki sem þykir henta best samsetningarstarf- inu. Þetta hefur haft í för með sér félagsleg vandamál og að mörgu leyti snúið við hefð- bundnum venjum; oft situr nú eiginmaðurinn heima við og gætir barna meðan konan er úti- vinnandi. Starfsfólkið endist þó oftast í stuttan tíma, að jafnaði í 3-9 mánuði, vinnan þykir erfið og einhæf, oft eru eiturefni meðhöndluð og sjaldnast gefinn gaumur að heilsuspillandi þátt- um. Ekki er hægt að segja annað en að fjölþjóðleg straumamót einkenni þetta ríflega 3.000 km langa svæði og hefur fólk af ólíkum uppruna sest þar að gegnum tíðina. Auk frumbyggja svæðisins sem og afkomenda spænskra og mexíkóskra „landnema“ má nefna mixteca og zapoteca sem eiga uppruna sinn í suðurhluta Mexíkó, tarahumara-fólk frá fjöllunum í Chihuahua, afkomenda Kínverja, sem komu þangað í byrjun 19. aldar til að vinna á baðmull- arekrum, mennonítafólk af rússnesk-þýskum uppruna, Þjóðverja, gyðinga og þeldökka sem- ínóla (oft kallaðir svartir indíánar, afkomendur blökkuþræla og Flórídaseminóla) og svo mætti lengi telja. Það fólk sem heyrist þó hvað minnst af og vert er að minnast sérstaklega á eru uppruna- legir íbúar svæðisins. Margir þjóðflokkar sem bjuggu á þessu svæði fluttu sig um set eftir komu Spánverja eða hreinlega þurrkuðust út en þeir sem urðu hvað verst úti við Guadalupe- samninginn er tohono Óodham-fólkið. Það hefur um aldaraðir átt heimkynni sín á svæðinu sem nú á dögum heitir Sonorafylki í Mexíkó og Arizonafylki í Bandaríkjunum. Þegar landa- mærin voru dregin á skrifstofu í Wash- ingtonborg árið 1848, í tæpra 4.000 km fjarlægð, vildi ekki betur til en svo að línan klauf land tohono Óodham-fólksins í tvennt með þeim af- leiðingum að stór hluti íbúanna bjó nú á banda- rísku umráðasvæði, en hinn hlutinn áfram í Mexíkó. Þetta hefur markað alla sögu þessa fólks síðustu 150 árin. Í dag býr meiri hluti fólksins norðan við mörkin á verndarsvæði sem gerir þá að „viðurkenndum indíánum“ á eigin landi, en sunnanmegin fyrirfinnst ekki slíkt kerfi verndarsvæða og hefur fólkið því dreifst og sest að í nærliggjandi bæjum. Annar hópur innfæddra sem hefur nokkra sérstöðu eru kikapúar. Þeir eru upprunalega frá Stóru-Vatnasvæðunum í Bandaríkjunum, hröktust þaðan til Kansas og Oklahoma og að lokum alla leið til suðurhluta Texas og Coahuila- fylki í Mexíkó. Það sem gerir stöðu þeirra sér- staka í dag er að þeir hafa leyfisbréf, sem bandaríski herinn afhenti þeim á 19. öld, þess efnis að þeir geti farið óáreittir yfir landamærin, Línan Landamæri Mexíkó og Bandaríkjanna Landamæri Mexíkó og Bandaríkjanna eru flóknari en svo að á þeim mætist einungis tvær þjóðir, Engilsaxar og Mexíkóar – valdamesta þjóð heims og önnur valdalítil. Þau hafa löngum einkennst af fjölþjóðlegum strauma- mótum með tilheyrandi mannlífsflóru. Miklar umræður fara nú fram í Bandaríkjunum um ólöglega innflytjendur frá Mexíkó en svo virð- ist sem Bush Bandaríkjaforseti ætli að herða gæslu við landamærin og viðurlög á hendur ólöglegum innflytjendum. Eftir Kristínu Guðrúnu Jónsdóttur krjons@hi.is Landamærin Bandarískir landamæraverðir nota meðal annars fjórhjól til þess að fylgjast með því að engin

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.