Lesbók Morgunblaðsins - 03.06.2006, Qupperneq 4
4 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 3. júní 2006
Þ
að er ekki hægt að þverfóta fyrir
stjörnum í upphafi 21. ald-
arinnar. Varla má opna tímarit
eða dagblað, kveikja á sjónvarpi
eða jafnvel ganga niður Lauga-
veginn án þess að sjá þeim
bregða fyrir. Flestar verða öllum gleymdar á
nokkrum mánuðum eða árum en nokkrar út-
valdar varðveitast sem myndskreytingar í
sagnfræðiritum. Þá eru ótaldar
örfáar stjörnur – sem jafnvel má
telja á fingrum annarrar handar –
sem hafa öðlast goðsagnakennda
stöðu er virðist hafin yfir tíma og rúm. Þær eru
ímyndir sem allir þekkja og meðal helstu kenni-
leita vestrænnar menningar. Þetta eru Charlie
Chaplin, Elvis Presley, Mikki mús (vissulega
ekki af holdi og blóði en það eru ímyndir hinna í
raun ekki heldur) og Marilyn Monroe – eina
stúlkan í hópnum. Það segir margt um áhrifa-
mátt ímyndar hennar að það er vita vonlaust að
reyna að gera sér hana í hugarlund sem átt-
ræða konu – að hún hafi nokkru sinni verið af
holdi og blóði. Manneskjan hefur löngu vikið
fyrir goðsögninni.
Ljóskan og demantarnir
Söngatriðið fræga, „Diamonds Are a Girl’s
Best Friend“ úr kvikmyndinni Gentlemen Pre-
fer Blondes (1953), kristallar betur en nokkurt
annað atriði ímynd Marilyn. Klædd skínandi
bleikum kjól og skreytt risavöxnum demöntum
syngur hún umvafin karlmönnum við rauðan
bakgrunn að demantar séu bestu vinir stúlkna.
Er það í fullu samræmi við persónuna Lorelei
sem hún leikur í myndinni en sú beitir óspart
kynþokka sínum í leit að ríkum maka. Söng-
konan Madonna endurgerði þetta atriði í mynd-
bandi sínu við lagið „Material Girl“ – enda
vandfundin betri ímynd ljósku í leit að efnis-
legum gæðum. Í þessu myndbandi klæðist Ma-
donna ímynd Marilyn líkt og um grímubúning
væri að ræða. Nicole Kidman gerði svo gott
betur í hinni miklu búningaveislu Baz Luhr-
man, Moulin Rouge! (2001), og söng sambland
af bæði „Material Girl“ og „Diamonds Are a
Girl’s Best Friend.“
Samanburður á atriðunum þremur býður
upp á að útfærslum Madonnu og Kidman sé
hampað sem sjálfsmeðvituðum og póstmódern-
ískum túlkunum á Marilyn (líkt og pop-stúdíum
Andy Warhol af stjörnunni) sem verður í sam-
anburði sjálfgefin og einföld. Eitthvað sam-
bærilegt er uppi á teningnum þegar fólk klæðir
sig upp sem Marilyn (afar vinsæll grímubún-
ingur) í einhvers konar háði sem beinist að leik-
konunni. Hér er aftur á móti um að ræða
grundvallarmisskilning á persónu Marilyn sem
er a.m.k. frá og með Gentlemen Prefer Blondes
skopstæling á eigin ímynd. Kvikmyndin sú ger-
ir ekki svo mikið grín að ljóskunni sem hug-
myndinni um ljóskuna enda veit Lorelei sínu
viti. Umfram það er að finna í myndinni um-
snúning á hefðbundnum kynhlutverkum
söngva- og dansmynda þar sem það eru Mari-
lyn og mótleikkona hennar Jane Russell sem
eru umvafðar danssveinum (og oft æði fá-
klæddum) en ekki karlstjörnurnar umvafðar
dansmeyjum líkt og hefðin segir til um. Svo
ekki fari á milli mála að stjörnupersóna Marilyn
sé hreinn tilbúningur bregður Russell sér í
hlutverk hennar undir lokin með viðeigandi lát-
bragði. Ekki ber að skilja það svo að Marilyn sé
sjálf höfundur ímyndar sinnar en hún er með-
vituð um hana og leikur sér að henni – ímynd
sem var hvorki sjálfsprottin né sjálfgefin.
Rökkurmyndir
Marilyn hafði leikið í átján myndum áður en
hún sló í gegn fyrir alvöru í Gentlemen Prefer
Blondes. Mikið til voru þetta lítt eftirminnileg
aukahlutverk en þó lék hún á þessu tímabili í
nokkrum mikilvægum myndum. Þótt almennt
loði ljóskuímyndin við hana í þessum myndum
eru þetta fjarri því að vera einsleit hlutverk
enda teygja þau sig frá gamanmyndum yfir í
rökkurmyndir. Eftirminnilegt er fyrsta atriðið
hennar í mynd John Huston, The Asphalt
Jungle (1950). Í hlutverki lögfræðings sem
kominn er á efri ár gengur Louis Calhern inn í
stofu og myndvélin dvelur við andlit hans í nær-
mynd áður en áhorfendur fá að sjá viðfang
augnaráðs hans: Marilyn hálfsofandi í sófa
dreymin á svip. Þau skiptast á nokkrum orðum
og kossum áður en hún heldur til svefn-
herbergis þeirra og horfir svo til áhorfenda í
gegnum rifuna áður en hún lokar hurðinni.
Marilyn er þó ekki tálkvendi í anda rökkurhefð-
arinnar (er saklaus fremur en útsmogin) heldur
fyrst og fremst dýrt „leikfang“ – gefin fyrir
demanta. Eftir að hafa eytt auðæfum sínum í
Marilyn freistast Calhern til að svíkja innbrots-
þjófa um demanta (hvað annað?) sem þeir hafa
komist yfir en allt fer á versta veg og hann
fremur sjálfsmorð undir lok myndarinnar. Ef
Marilyn er orsakavaldurinn er persóna hennar
of einföld og saklaus til að skilja hlutverk sitt.
Upphaf rökkurmyndar Fritz Lang, Clash by
Night (1952), verður að teljast æði óvenjulegt
fyrir Hollywood-mynd. Líkt og um heimild-
armynd væri að ræða birtast myndir af fisk-
veiðum á sjó og verkun í landi. Fyrir samtíma-
áhorfendur er það svo sem þruma úr heiðskíru
lofti þegar Marilyn birtist verkandi fisk við
færibandið – ekkert virðist fjarlægara ímynd
hennar í dag. Annars er þetta áhrifaríkt rökk-
urdrama þótt atburðarásin eigi sér stað í sjáv-
arþorpi en ekki á myrkum strætum stórborgar.
Barbara Stanwyck leikur tálkvendið sem getur
ekki gert upp á milli hins heiðvirða Paul Dou-
glas og óprúttna hörkutólsins Robert Ryan.
Þótt Marilyn dreymi um að yfirgefa þorpið og
reyna fyrir sér í hinum stóra heimi líkt og Stan-
wyck er hún í raun andhverfa hennar. Meðan
Stanwyck er svikul og beisk er Marilyn áreið-
anleg og kát. Í mynd Henry Hathaway, Niag-
ara (1953), leikur hún aftur á móti alvöru flagð,
sem reynir að koma eiginmanni sínum, leiknum
af Joseph Cotton, fyrir kattarnef. Það má þó
kannski segja að Niagara sé á jaðri rökkurhefð-
arinnar, en hún er tekin í æpandi Technicolor-
litum (sem er að vísu hugvitssamlega beitt í æði
stílfærðu rökkuratriði þar sem Marilyn hlýtur
makleg málagjöld) auk þess sem ímynd leik-
konunnar féll ekki sérstaklega vel að tálkvend-
inu. Enda sagði hún með þessu skilið við rökk-
urhefðina; við tók söngur, glens og gaman.
Því fór þó fjarri að hún léki framan af ein-
ungis í glæpa- og rökkurmyndum. Í hinni víð-
frægu All About Eve (1950) lék hún svipað
„leikfang“ og í The Asphalt Jungle, en í þetta
skiptið var það George Sanders sem fór með
hlutverk eldri herramannsins. Þá lék hún ritara
Cary Grant í hinni geggjuðu gamanmynd
Monkey Business (1952) þar sem hann fór með
hlutverk vísindamanns sem tekur eigið ynging-
arlyf og fær þá fyrst verulegan áhuga á ritara
sínum. Má segja að í þeirri mynd hafi ímynd
Marilyn verið orðin fullmótuð. Hún er fyrst og
fremst viðfang kynlífsbrandara sem margir
snúast um einfeldni hennar – erkitýpa ljós-
kunnar.
Tekist á um ljóskuna
Það er áhugavert að bera saman Monkey Bus-
iness og Gentlemen Prefer Blondes, en þær
voru frumsýndar með ársmillibili og báðum
leikstýrt af hinum þaulreynda og fjölhæfa
Howard Hawks. Á yfirborðinu virðist ímynd
Marilyn vera sú sama í báðum myndum en ef
betur er að gáð reynist vera á þeim lykilmunur.
Í þeirri fyrrnefndu er háðinu beint gegn henni,
en í þeirri síðarnefndu er það hún sem hæðist
að ímynd ljóskunnar. Það er því ekki nóg með
að Gentlemen Prefer Blondes geri Marilyn að
stjörnu heldur eiga sér stað umskipti á persónu
hennar sem byggja á meðvitund hennar um
ljóskuna. Líkt og þegar hefur verið bent á
missa skopstælingar á Marilyn oft marks þar
sem þær eru ómeðvitaðar um að skotspónninn
sé sjálfur skopstæling.
Erfitt er að fullyrða um hvað olli þessum
straumhvörfum. Kvikmyndafræðingurinn
Richard Dyer bendir á í bók sinni, Heavenly
Bodies, að Marilyn hafi verið einkar meðvituð
um ímynd sína og átt í margvíslegri baráttu þar
að lútandi. Í greininni „Athugasemd um höf-
undarverk“, sem nýlega birtist í íslenskri þýð-
ingu Öldu Bjarkar Valdimarsdóttur, skoðar
Dyer þessi átök eins og þau birtast í Gentlemen
Prefer Blondes:
Monroe hristir upp í kvenlegum heimi Hawks, en
hann skiptir jafnan kvenpersónum sínum í kvenlegar
daðurdrósir og geðþekkar karllegar (eða ókvenlegar)
konur. Monroe gerir aftur á móti Lorelei að kynferð-
islegum sakleysingja sem misnotar ekki verulegt að-
dráttarafl sitt. Þessa sköpun Monroe má rekja til
grundvallarþátta í ímynd hennar, en hún er á önd-
verðum meiði við Lorelei eins og [handritshöfund-
urinn Anita] Loos skrifaði hana.
Hawks getur hæðst að Lorelei eftir Loos en ekki að
Lorelei eins og hún er leikin af Monroe. […] Monroe
neitar, sem Lorelei, að renna frekari stoðum undir
þessa karllegu uppbyggingu á hinu kvenlega.“1
Ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki síst
með því að draga athygli að sjálfri ímynd ljós-
kunnar – ljóskunni sem ímynd – sem Marilyn
verst þeim karllegu gildum sem reyna að
njörva hana niður í Hollywood. Fleira kemur þó
til. Hún tekur að leika nær eingöngu í gaman-,
söngva- og dansmyndum sem búa allajafna yfir
meiri sjálfhverfni en aðrar kvikmyndagreinar,
og vekja þannig oft athygli á miðlinum sjálfum.
Og sem skærasta stjarna sjötta áratugarins
vinnur hún ennfremur gegn innlifun áhorfenda
í frásögn kvikmyndarinnar – þeir sjá ekki per-
sónuna sem hún leikur heldur stjörnuna Mari-
lyn.
Gullaldarárin
Fyrir kvikmyndaverinu 20th Century Fox sem
hafði Marilyn á samningi var hún einfaldlega
aðalstjarna þess sem reynt var að selja á hæsta
mögulega verði með því að beita ljósku- og
demantaformúlunni aftur og aftur. Titillinn á
næstu mynd hennar, How to Marry a Mill-
ionaire (1953), segir allt sem segja þarf en í
Marilyn Monroe: Að vera
ljóska eða vera ekki ljóska
Marilyn Monroe hefði orðið áttræð fyrsta
júní síðastliðinn hefði hún lifað. Líkt og venja
er á stórafmælum hennar keppast nú fjöl-
miðlar um heim allan við að rifja upp litríka
ævi hennar: þrjá eiginmenn, Playboy-
myndir, lyfja- og áfengismisnotkun, framhjá-
hald með Kennedy-bræðrum og dularfullan
dauðdaga. Ekki er það þó markmiðið með
þessu greinarkorni heldur að skoða kvik-
myndirnar sem hún lék í um ævina og hafa
fallið í skuggann af goðsögninni og æv-
intýralegu lífshlaupi hennar.
Eftir Björn
Norðfjörð
bn@hi.is
Síðasta myndin Clark Gable og Marilyn í hlut-
verkum sínum í The Misfits, en hún reyndist
vera síðasta mynd þeirra beggja.
Ímynd Marilyn „Söngatriðið fræga„Diamonds Are
a Girl’s Best Friend“ úr kvikmyndinni Gentle-
men Prefer Blondes (1953) kristallar betur en
nokkurt annað atriði ímynd Marilyn.“