Lesbók Morgunblaðsins - 10.06.2006, Page 2
2 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 10. júní 2006
!
Um daginn braut ég í fyrsta
sinn þau óskrifuðu lög sem
segja að maður eigi hvorki að
tala við né horfa á ókunnuga í
neðanjarðarlestum. Eins og
aðrir lestarfarþegar hef ég
farið létt með að hlíta þessari
reglu hér í New York í vetur,
en það breyttist þegar ég varð fyrir því
að grípa trékassa sem rann undan fæti
náunga sem var með í fórum sínum
stafla af hljóð-
færakössum sem
virtust tilheyra heilli
götuhljómsveit.
Lestarvagninn var
troðfullur af fólki sem bæði sat og stóð
og venju samkvæmt sagði ekki orð.
Þess vegna fannst mér eins og við
maðurinn stæðum á leiksviði þegar eft-
irfarandi orðaskipti áttu sér stað:
„Þakka þér fyrir. En huggulegt af
þér.“ „Sjálfsagt. Ekkert að þakka.“
Aftur þögn, en núna fann ég hins vegar
fyrir henni og horfði niður. Ég tók eftir
því að kassinn sem ég hafði gripið var
með lúður út úr annarri hliðinni og ein-
hvers konar sveif út úr hinni. „Þetta er
tímavél ef þú varst að velta því fyrir
þér,“ sagði maðurinn þá, stundarhátt
að mér fannst. „Já er það virkilega.
Hvar fékkstu hana?“ „Ég bjó hana til.“
„Hvernig fórstu að því?“ „Ég las mér
til.“
Þegar þarna var komið sögu leið mér
eins og ég væri að debútera sem leik-
kona í mínímalísku stofudrama. Ég var
með klassískan sviðsskrekk, sveitt í lóf-
unum og þurr í munninum. Ég vissi að
allir í lestarklefanum hlytu að vera að
fylgjast með þessu óvenjulega atriði.
Ókunnugt fólk var að tala saman. Hvað
skyldi hann segja næst? En hún? Bún-
ingar og leikgervi voru líka áhugaverð.
Sjálf var ég að koma úr klippingu þar
sem sá sem blés á mér hárið hafði
gerst óvenju metnaðarfullur: „Svona
blástur eftir klippingu á bara að vera
þurrkun en mér finnst svo gaman að
setja krullur í sítt hár og ég hef nógan
tíma … við eigum sko ekki að krulla
nema það sé lagning, en mig langar svo
að prófa aðeins … þú verður svaka
flott, ertu ekki örugglega að fara út í
kvöld …“
Og þarna stóð ég svo, eins og Dolly
Parton ca. 1980, og hann eins lítið til-
hafður og búast má við af manni sem
vinnur sem götulistamaður. Í næstu
þagnarlotu fannst mér hárið á mér
öskra. Áður en við félagi minn stigum á
sviðið hafði mér verið skítsama þótt ég
gæti búið lítilli spörfuglafjölskyldu gott
heimili á kolli mínum, þá var ég líka
ósýnileg eins og allir hinir. Það er góð
og gild ástæða fyrir því að fólk talar
ekki saman í lestinni. Og hvernig í and-
skotanum er hægt að vera leikari?
Ég ræddi þetta atvik við skólasystur
mínar sem höfðu nokkra innsýn í mál-
ið. Þær sögðu það mesta misskilning að
fólk væri ósýnilegt í lestinni þrátt fyrir
að enginn horfði né talaði og bentu á
helstu smáauglýsingavefsíðu borg-
arinnar máli sínu til sönnunar. Þar er
sérstakur flokkur sem kallast „missed
encounters“ þar sem borgarbúar reyna
að hafa uppi á fólki sem það hefur hitt
á förnum vegi en veit engin frekari
deili á. Þessar auglýsingar eru stund-
um krúttlegar – þú sem varst í gulri
peysu og talaðir við mig í röðinni á
Starbucks í morgun – og stundum
vafasamar – þú sem gengur alltaf eftir
fjórða stræti klukkan hálfníu, þú virtist
óvenjuþung á brún í morgun. Algeng-
asti vettvangur þess að fólk sjáist og
týnist á þennan hátt virðist svo einmitt
vera neðanjarðarlestin. Fólk sér ein-
hvern í lest, heldur jafnvel að viðkom-
andi hafi tekið eftir sér líka, greinir svo
frá því á netinu hvar og hvenær við-
komandi kom inn eða fór út. Lestarf-
arþegar eru því óhjákvæmilega persón-
ur í allskonar leikritum hvað sem líður
öllum þagnarbindindum og grillum um
að maður sé bara sýnilegur þá sjaldan
maður hefur upp raust sína. Nei, mað-
ur er það víst alltaf; þegjandi, talandi,
dottandi, syngjandi, 9–5.
Leikrit
í lest
Eftir Birnu Önnu
Björnsdóttur
bab@mbl.is
Er mikilvægt að ríkisútvarp og rík-issjónvarp hafi eins marga áheyr-endur og áhorfendur og mögulegter? „Public service“ er orðasamband
sem heyrst hefur í umræðunni sem þó hefur
ekki rist djúpt. Hægt er að útleggja orða-
sambandið sem almannaþjónusta á íslensku.
Hve mikilvæg er hún á
tímum breytts fjölmiðla-
landslags?
Í Svíþjóð kvartar
menningarritstjóri Göte-
borgs-Posten, Gabriel
Byström, yfir ónógri umræðu um almannaþjón-
ustuhlutverk ríkisfjölmiðla. Hann fjallar um af-
leiðingar þess að ríkismiðlar verði æ markaðs-
væddari og almannaþjónustuhlutverkið falli í
skuggann. Ýmislegt í greinum hans vekur til
umhugsunar um íslenska ríkisútvarpið en
margt er sambærilegt á milli þessara tveggja
landa.
Það er ákveðin klemma í því fólgin að reka
fjölmiðil á afnotagjöldum. Um leið og almanna-
þjónustuhlutverkinu er sinnt, t.d. með innlendri
dagskrárgerð, menningartengdu efni og vönd-
uðu barnaefni, þarf að hugsa um að halda greið-
endum góðum og viljugum með því að hafa
einnig á dagskrá vinsælt efni sem e.t.v. fellur
ekki undir almannaþjónustuskilgreininguna.
Ríkisfjölmiðlar sem reyna af öllum mætti að
fjölga áhorfendum og hlustendum munu því
þróast í þá átt að hafa vinsælt efni á boðstólum.
Afleiðing þess er að erfitt verður að lokum að
skilja að ríkisfjölmiðla og einkamiðla. Sérstaðan
tapast og þar með réttlætingin á rekstri rík-
isfjölmiðils, sem og viljinn til að greiða afnota-
gjöld.
Það sem enn eykur á þessa hættu er sú þróun
að dagskrárgerðin færist út fyrir stofnanirnar
sjálfar, þ.e. í hendur framleiðslufyrirtækjum
sem starfa við það að koma með hugmyndir að
þáttum sem líklegir eru til vinsælda. Fyr-
irtækin vinna nú jöfnum höndum við að fram-
leiða þáttahugmyndir og þætti fyrir einkastöðv-
ar og ríkisstöðvar. Hvaða áhrif hefur það? Gera
má ráð fyrir að fæstar hugmyndirnar hjá einka-
fyrirtæki sem hugsar um auglýsingar og gróða
falli undir almannaþjónustuefni. Þetta á a.m.k.
við um Svíþjóð þar sem raunveruleikaþættirnir
flæða hver um annan þveran á öllum stöðvum.
Hugmynd Tobias Krantz, þingmanns sænska
þjóðarflokksins, hefur ekki hlotið mikinn stuðn-
ing hér í Svíþjóð en er þó athygli verð fyrir rót-
tækni. Hann vill leggja niður ríkisreknar sjón-
varps- og útvarpsstöðvar í núverandi mynd og
stofna í staðinn almannaþjónustusjóð sem fengi
fjármagn frá sölu ríkisfyrirtækja og af fjár-
lögum. Sjóðurinn stæði fyrir framleiðslu barna-
efnis, fréttaþátta og fleiri þátta sem gætu talist
í þágu almennings. Þetta rímar a.m.k. við það
að ríkisfjölmiðlar úthýsa dagskrárgerðinni í
auknum mæli.
Framkvæmdastjóri sænska ríkissjónvarps-
ins SVT segir í GP að stærsta ógnin við al-
mannaþjónustu í framtíðinni séu erfiðleikarnir
við að ná til yngri kynslóðanna. Sænska rík-
isútvarpið rekur fjórar útvarpsstöðvar þar sem
ein hefur markhópinn unga hlustendur. Hún
trekkir ekki nægilega og kannanir hafa sýnt að
það getur verið að fjölbreytnin sé of mikil, mið-
að við t.d. einkastöð með sama markhóp. Á rík-
isstöðinni hljómaði sama lag að meðaltali fjór-
um sinnum á ári en á einkastöðinni 127 sinnum.
Endurtekning vekur sem sagt fremur vinsældir
útvarpsstöðvar en fjölbreytni.
Fjölmiðlalandslagið er í stöðugri þróun. Fólk
getur horft á sjónvarp hvar og hvenær sem er,
tekið upp með nýjum aðferðum og m.a. sloppið
við auglýsingar, horft á ntinu o.s.frv. Auðvitað
þarf að ræða almannaþjónustu og hvernig
landslagið horfir við markaðnum, fjölmiðlafólki
og almenningi.
Eins og í Svíþjóð er eins og umræðurnar nái
engri dýpt á Íslandi og hvorki gangi né reki í
hvaða átt sem fara skal. Nú hefur afgreiðslu
frumvarps um Ríkisútvarpið verið frestað og úr
fjarlægð virðast umræðurnar ekki hafa verið
mjög miklar um það sem máli skiptir, meira
eins og hefðbundið karp stjórnmálaflokka.
Raunar eru sænsku ríkisfjölmiðlarnir þegar
reknir sem hlutafélög þannig að um það þarf
ekki að karpa, heldur almannaþjónustu-
hugtakið sem er afar loðið í báðum þessum
löndum. Það liggur líka fyrir að afnotagjöld rík-
issjónvarps eru hæst á Íslandi af öllum Evr-
ópulöndum.
Sænska ríkissjónvarpið stendur sig þó mun
betur í almannaþjónustu-, menningar- og
fræðsluhlutverkinu en hið íslenska verð ég að
segja. Innlend dagskrárgerð er mun stærri
hluti af dagskránni ef borin er saman dagskrá
einn miðvikudag í júní. Allt barnaefni er t.d.
bandarískt þennan miðvikudag á RÚV en kem-
ur úr ýmsum áttum á SVT. RÚV sendir út á
tímabilnu 17.05–00.35 en SVT1 sendir út allan
sólarhringinn. Ef borin er saman dagskráin á
útsendingartíma RÚV kemur í ljós að átta af
tólf dagskrárliðum SVT1 eru sænskir: barna-
þáttur, fréttir, náttúrulífsþáttur, mat-
reiðsluþáttur, fréttir, menningarfréttir og
hönnunarþáttur. Átta af sextán dagskrárliðum
RÚV eru íslenskir: táknmálsfréttir, vík-
ingalottó, fréttir, kastljós, tíufréttir, íþrótta-
kvöld, formúlukvöld og kastljós endurtekið.
Dæmi hver fyrir sig um almannaþjónustugildi
og gæði.
Sýningar frá heimsmeistaramótinu í fótbolta
flokkast eiginlega sem almannaþjónusta í Sví-
þjóð þótt enginn segi það berum orðum. Það
eru ríkisstöðvarnar og ókeypis stöðin TV4 sem
sjá um útsendingarnar frá keppninni sem óum-
deilanlega dregur marga að skjánum. Örvænt-
ing greip um sig í fjölskyldunni þegar uppgötv-
aðist að hún verður ekki stödd í heimalandi
jafnaðarmennskunnar þegar HM nær hámarki
og úrslitaleikurinn fer fram, heldur á fóst-
urjörðinni. Á Íslandi teljast útsendingar frá fót-
boltaviðburðinum ekki almannaþjónusta heldur
eru leikirnir sýndir í skiptum fyrir fjórtánþús-
undkall ef mér skjöplast ekki? Og Sýn hefur lát-
ið loka fyrir erlendar stöðvar á meðan. Er þetta
leyfilegt?
Almannaþjónusta
Fjölmiðlar
Eftir Steingerði
Ólafsdóttur
steingerdur@mbl.is
’Og Sýn hefur látið loka fyrir erlendar stöðvar á meðan.Er þetta leyfilegt? ‘
I Minningargreinar Morgunblaðsins hafa ver-ið í sviðsljósinu undanfarnar vikur sem er
ekkert skrýtið því að þær eru stórmerkilegur
hluti af íslenskri menningu. Fyrir tveimur vik-
um skrifuðu þrír fræðimenn grein í Lesbók sem
fjallaði um einkavæðingu minningargreinanna.
Þar var því haldið fram að breytingar í minn-
ingargreinaskrifum síð-
asta áratuginn væru
hluti af stærra ferli
einkavæðingar á Íslandi, þar sem stjórnun
sjálfsmyndar einstaklinga og persónulegra
tengsla er eitt helsta einkenni nýfrjálshyggj-
unnar. Í dag ritar síðan Annadís Gréta Rúd-
ólfsdóttir, sem er með doktorspróf í minning-
argreinum Morgunblaðsins, um það hvernig
karlar og konur birtast með ólíkum hætti í þess-
um skrifum en það endurspeglar þær hug-
myndir sem Íslendingar hafa haft um hlutverk
og stöðu kynjanna síðustu áratugi.
II Óvænt umfjöllun um minningargreinarMorgunblaðsins er síðan í nýútkomnu sagn-
fræðiriti, Frá endurskoðun til upplausnar, sem
fjallað var um í Lesbók fyrir skömmu. Ritið
fjallar um hræringar í aðferðafræði íslenskra
sagnfræðinga undanfarna áratugi en í eftirmála
þess, sem ritaður er af ritstjórum verksins, Sig-
urði Gylfa Magnússyni, Jóni Þór Péturssyni og
Hilmu Gunnarsdóttur, er fjallað um hvernig
Tryggva V. Líndal, skáldi og þjóðfélagsfræð-
ingi, hefur tekist að koma skáldskap sínum á
framfæri í Morgunblaðinu eftir krókaleiðum
eða með því að skrifa minningargreinar um fólk
sem hann þekkti lítið sem ekkert og birta þar
skáldskap og þýðingar eftir sjálfan sig. Raunar
gerði Tryggvi gott betur því að inn í hverja og
eina þessara greina laumaði hann líka minning-
arorðum um móður sína sem var sömuleiðis
skáld og mun, samkvæmt eftirmálanum, hafa
mátt sæta þöggun valdamikilla fjölmiðla eins og
sonurinn. Í eftirmálanum segir: „Með gjörningi
sínum fetaði hann í fótspor þeirra sem nota
kviksögur til að sporna við hugmyndinni um
heiminn, hugmynd sem alltaf er valdatengd og
beitt í þágu einhverra afla. Hann óttaðist ekki
að brjóta múra, að deyja og lifna við aftur í nýju
formi. Tryggvi hefur stokkið inn í ríki dauðans
með það í huga að halda lífi og stuðla þannig að
endanlegri upplausn formsins.“
III Í Morgunblaðinu í gær birtist síðan óvæn-tasta umfjöllunin af öllum þessum skrifum
um minningargreinar blaðsins. Þar tók Tryggvi
sjálfur til máls í höfuðstöðvum þöggunarvalds-
ins. Greinin, sem hefur þann frábærlega marg-
ræða titil Minning dauðans, samanstendur af
stuttum inngangi að langri tilvitnun í umrædd-
an eftirmála þar sem fjallað er um innbrot
Tryggva í Morgunblaðið og svo stuttu niðurlagi
þar sem segir: „Síðan eru endurprentaðar þar [í
eftirmálanum] 18 minningargreinar eftir mig. Í
heild er þar margt fallegt sagt um mig á þeim
40 blaðsíðum af 445 sem bókin spannar. Get ég
nú aðeins óskað Morgunblaðslesendum og sjálf-
um mér til hamingju, og vonað að lestur þessa
sagnfræðirits um hugmyndastrauma síðustu
áratuga verði svo viðvarandi, að það dugi til að
halda minningu skáldskapar míns á lofti; nú
þegar sagnfræðistofnun HÍ virðist vera orðin
máttugra tæki til að tryggja skáldi framhaldslíf
en sjálf bókmenntastofnun þess skóla.“
Neðanmáls
Hallgrímur Helgason, rithöfundur og málari, ritaði grein sem birtist í mið-vikudagsútgáfu Fréttablaðsins undir yfirskriftinni Alltaf kaus ég Framsókn.Í henni reynir hann að gera grín að Framsóknarflokknum með því að fella
alla stuðningsmenn hans í sama mót, gera þá að stereo-týpum. Flóttamenn úr sveit-
unum er merkimiðinn sem hann hengir á þá. [...]
Þegar ættir Íslendinga eru rannsakaðar kemur í ljós að þeir eiga tvennt sameig-
inlegt. Í fyrsta lagi geta flestir rakið ættir sínar til Jóns Arasonar Hólabiskups. Og í
öðru lagi eru þeir komnir af bændum. Íslendingar voru að langmestu leyti bændur og
búalið allt fram að aldamótunum 1900. Meira að segja embættismenn landsins, prest-
ar, lögmenn og læknar, allt voru þeir bændur. Lifðu á keti og mjólk, gengu um í fötum
úr ull, léku sér börn með leggi og skel. Það voru bændur og búalið sem fóru í verið á
veturna og þeir sem bjuggu þurrabúðarlífi í verstöðvum allt árið höfðu líka kindur og
kýr til búsílags. Þjóðin lifði á þessu og ef vanhöld urðu á skepnum, t.d. ef ekki náðist
nægur heyfengur, var hallæri í landinu. [...] Hallgrímur Helgason skildi kannski ekk-
ert í því að það væri mikilvægt að hirða hey áður en það rigndi í það, en ég get lofað
ykkur því að langalangalangafi hans og langalangalangamma skildu það mætavel.
Á vissan hátt má segja að með því að reyna að draga upp grínmynd af bændum sé
Hallgrímur Helgason að gera grín að öllum Íslendingum í gegnum tíðina. […] Með
grein sinni er hann einfaldlega að hrækja framan í forfeður sína og formæður.
Og hversu stórir eru menn orðnir þegar það eina sem þeir hafa til málanna að
leggja er að hrækja framan í forfeður sína?
Jón Einarsson
Tíminn www.framsokn.is/timinn
Kominn af bændum
Morgunblaðið/Rax
Í sveitinni.
Lesbók Morgunblaðsins Kringlunni 1, 103 Reykjavík, sími 5691100, Útgefandi Árvakur hf. Ritstjórnarfulltrúi Þröstur Helgason, throstur@mbl.is Auglýsingar
sími 5691111 netfang augl@mbl.is Bréfsími 5691110 Prentun Prentsmiðja Morgunblaðsins