Lesbók Morgunblaðsins

Ulloq
Ataaseq assigiiaat ilaat
Saqqummersitaq pingaarneq:

Lesbók Morgunblaðsins - 10.06.2006, Qupperneq 10

Lesbók Morgunblaðsins - 10.06.2006, Qupperneq 10
10 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 10. júní 2006 But I can’t think for you You’ll have to decide Whether Judas Iscariot Had God on his side. Helstu persónur guðspjallanna hafa öldum saman verið notaðar til margra hluta. Einatt fylgja menn þá eftir þeirri kaþólsku hefð að heita á helga menn sér til fulltingis – eins og þegar þeir leggja sig fram um að sýna og sanna að postular Krists eða aðrar helgar per- sónur hafi í lifanda lífi heimsótt þeirra land og borið þar beinin. Til dæmis fann einhver snjall biskup í Suður-Frakklandi upp á því á elleftu öld að koma Maríu Magdalenu fyrir í helli ein- um í sínu umdæmi og láta hana iðrast þar synda sinna í þrjátíu ár. Þar fékk hún að vera í friði allt til þess að reyfarahöf- undurinn Dan Brown gerði hana að barns- móður Krists og dæmi um að illkynjað sam- særi karla í kaþólsku kirkjunni hefði þaggað niður heimildir um að konur hefðu skipt miklu máli í frumkristni. Þessari kenningu hafa margir lesendur Da Vinci-lykilsins tekið með fögnuði eins og kunnugt er, ekki síst konur. Júdasarguðspjallið og hefðin Þessi sókn í Biblíupersónur er auðskiljanleg – þær hafa öldum saman verið hinn stóri sam- nefnari, það fólk sem allir þekktu og því upp- lagt að hafa þær til þess að fá staðfestu á ósk- um sínum eða skilningi á merkum hlutum. Því stendur slagur ekki aðeins um hinar jákvæðu persónur heldur og þær sem andstyggileg- astar hafa verið taldar – eins og til dæmis Júd- as þann er „þrjátíu peninga þáði, því sveik hann herrann Krist“ eins og Hallgrímur Pét- ursson kvað. En Júdas er nú kominn fast upp að Maríu Magdalenu í fjölmiðlum vegna þess, að loks hefur tekist að ráða í og gefa út æva- fornt rit sem kallað er Júdasarguðspjall og snýr flestu á hvolf sem hinn kristni heimur hefur hugsað um þann erkisvikara, sem Dante kemur fyrir í neðsta pytti Helvítis og lætur Satan sjálfan japla á honum um eilífð alla. En í þessu undarlega riti, sem talið er skrifað á annarri öld e.Kr., er Júdas sannur vinur Krists, sá postuli sem fleira veit en aðrir og hefur ekki gert annað með „svikum“ sínum en framfylgja vilja Krists svo báðir mættu eilíft lof hljóta. Kristur er látinn segja við Júdas í þessum texta: Þér verður úthýst úr félagsskap hinna tólf en þú verður síðar meir settur yfir þá alla. Það er flókið mál að rekja af átökum milli einstakra safnaða og strauma í frumkristni hvernig á því stendur að einhverjir hafa kosið að gera hin mestu drottinssvik að afreki í guð- rækinni hlýðni eins og gert er í þessum forna texta. Enda skal það ekki reynt hér – heldur minnt á hitt, að fjölmörg skáld hafa fyrr og síð- ar lagt út af Júdasarsögunni – og sum og það nýlega, með svipuðum hætti og gert er í Júdasarguðspjallinu. Hjá kristnum höfundum þarf vissulega ekki lengi að leita að mælskri útmálun á örlögum höfuðsyndara eins og Júdasar. Í hefðbundinni túlkun þeirra er mest gert úr ágirndinni sem honum í glötun steypti: Hallgrímur Pétursson notar tækifærið til að staðhæfa hiklaust að: Undirrót allra lasta ágirndin talin er. Auk þess gerir Hallgrímur Júdas að hroka- gikki sem ekki tekur áminningum síns meist- ara, „tilsögn hataði hreina“, segir í Passíu- sálminum um Júdasar iðrun. Annar hákristinn höfundur, miklu nær okkur í tíma, hinn herskái franski kaþólikki Paul Claudel, er mjög á sömu buxum í „Dauða Júdasar“, stuttri sögu þar sem Júdas rekur feril sinn áður en hann hengir sig (birtist í Figures et Paraboles 1936). Júdas Claudels hefur gengið til liðs við Jesú af forvitni og ævintýraþrá. Hann er hrokafullur (ég var betur að mér og betur sið- aður en hinir lærisveinarnir), ágjarn einnig (hafði áður dregið sér fé af sameiginlegum sjóði Jesúhreyfingarinnar: maður verður að vera vel til fara og á ekki að vinna fyrir ekki neitt!). Júdas Claudels er þó fyrst og fremst alltof venjulegur maður – hann kann ekki við skáldlega vanvirðingu Krists á heilbrigðri skynsemi, hefðum, lögum, rétti og hófsemd, óttast að menn hljóti að missa fótanna í óreiðu og upplausn í þeim heimi sem hann boðar. Þessi Júdas virðist ganga í snöruna einkum vegna þess, að honum sárnar að þeir sem kaupa hann til svikanna skuli ekki meta að verðleikum þarflegt framlag hans til hins óbreytta ástands. Hinn pólitíski Júdas Þeir höfundar sem taka Júdas út úr guðspjöll- unum fjórum og koma honum fyrir í pólitísk- um veruleik síns tíma fara í rauninni ekki langt frá túlkun hefðbundinna kristinna skálda. Þeir breyta sögunni en svikin eru söm við sig. Nefnum tvö dæmi sem íslenskir les- endur þekkja. Annað er kvæði eftir norska skáldið Nils Collett Vogt (1864–1937) sem Magnús Ásgeirsson þýddi. Í því er Júdas ábyrgur borgari sem snýr baki við hættu- legum byltingarforingja og hlýtur góð laun fyrir – enda er það ekki annað en „kristilegur rógburður“ að hann hafi iðrast og hengt sig, nei: „ég kastaði aldrei peningum frá mér góðir menn!“ Þessi Júdas kunni vel á fjárfestingar og: dó í hárri elli frá auði, sæmd og sonum mér sárnar mest að þeir skuli trúa á róginn enn. Norska skáldið tekur Júdas með sér inn í stéttabaráttuna á öndverðri síðustu öld. En í Meistaranum og Margarítu setur rússneski rithöfundurinn Mikhail Búlgakov hann inn í aðstæður sem bæði ríkja í Rómarveldi til forna og í Evrópu hinna miklu einræðisherra hans tíma. Júdas er í hans sögu (eða Jesúsögu innan skáldsögunnar) ekki lærisveinn heldur spíón sem fær Jesú til að segja að allt vald sé af hinu illa – og þorir Pílatus ekki annað en dæma slík- an stjórnleysingja til krossfestingar. Júdas Búlgakovs fær makleg málagjöld eins og fyrir- mynd hans; hann er sjálfur leiddur í gildru og drepinn sem leiksoppur í pólitísku tafli Pílatusar við Kaífas æðstaprest. Júdas – fremstur lærisveina Allt annað verður svo uppi hjá þeim rithöfund- um sem hafa hver með sínum hætti lagt út af þeim erfiðu spurningum sem Júdasarsagan hefur lengi vakið og ganga þá þvert á rótfesta túlkun. Júdas er samkvæmt hefð holdtekja hins illa – en ef hið illa er partur af ráðagerð almáttugs og algóðs Guðs, hver er þá ábyrgð þess sem illvirkin fremur? Einkum ef illvirkið er ætlað til góðra hluta: Júdas framselur Jesú til krossfestingar og mannkynið eignast sinn lausnara. Guðspjöllin sjálf ýta líka undir það að ímyndunaraflið bregði á leik með þann möguleika að ekki sé allt sem sýnist á yfir- borðinu um svik Júdasar. Í Jóhannesarguð- spjalli er Jesús látinn segja það beinlínis að „sá sem ég fæ þennan bita“ mun svíkja mig og þá „fór Satan í hann“ þ.e.a.s. Júdas, sem Jesús segir svo við: „Það sem þú gjörir gjör þú skjótt.“ (Jóhs. 13.26.27) Er nema von að menn spyrji: eru þeir Júdas og Jesús ekki í samsæri um ákveðna „hönnun atburðarásar“ – svo mikið er víst að aðrir lærisveinar virðast ekki skilja neitt. Það nýútgefna „Júdasarguðspjall“ sem fyrr var getið fylgir slíkum grun um samsæri eftir með svo róttækum hætti að Júdas er gerður traustasti trúnaðarvinur Krists. Það skrýtna er, að þessi túlkun raunverulegs forntexta eins og hermir eftir lítilli sögu eftir þann argent- ínska furðumann Jorge Luis Borges. Sagan heitir „Þrjár túlkanir á Júdasi“ (1944) og þyk- ist vera lærð greinargerð fyrir hugmyndum bráðskarps og sérviturs sænsks guðfræðings, Nils Runebergs, sem hefur lesið Júdasarsögu Nýja testamentisins upp á nýtt og komist að þeirri niðurstöðu, að einmitt Júdas sé aðal- hetja Píslarsögunnar. Fyrst krossfestingin er nauðsynleg til að spádómar rætist og mann- kyn frelsist þá er hlutverk Júdasar ekki smærra en Krists – enda var hann til þess út- valinn fyrir allar aldir (eins og María til að verða Guðs móðir) að gegna hinni hræðilegu skyldu svikarans, sem hann og gerði til að bæði krossfestingin og síðan upprisan mættu eiga sér stað. En munurinn er sá, að meðan Jesús og fylgismenn hans ríkja á himnum í sælu lofi hlýtur Júdas að gista Helvíti og bera formælingar og fyrirlitningu ótal kynslóða. Júdas hefur lagt allt í sölurnar án vonar um umbun og einmitt sá sem stærstu fórn hefur fært, hann hlýtur í rauninni að vera bjargvætt- ur mannkynsins, „Frelsarinn í felum“ eins og höfuðrit Nils Runebergs er látið heita! Franski rithöfundurinn Eric–Emmanuel Schmitt, sem Íslendingar þekkja m.a. af leik- ritunum um Abel Snorko og Gestinn sem heimsótti Sigmund Freud, er á svipuðum slóð- um í skáldsögu sem hann nefnir Pílatusarguð- spjallið ( L’Évangile selon Pilate) og út kom árið 2000. Sagan er að meginhluta frásögn sem lögð er í munn Pílatusi og hefst á því, að Jesús hefur verið krossfestur en líkið er horfið. Pílatus tekur að rannsaka málið og er látinn ganga í gegnum öll andmæli sem um aldir hafa verið höfð við upprisusögunni (að líkinu hafi verið stolið, að Jesús hafi aldrei dáið á kross- inum o.s.frv.). Hann finnur aðeins vísbend- ingar sem að lokum þröngva honum til að „trúa því ómögulega“ – það er að segja uppris- unni. En á undan frásögn Pílatusar er lesandinn leiddur inn í Getsemane þar sem Jesús bíður í angist eftir því sem verða vill og rifjar upp fer- il sinn. Þar er vikið í mörgu frá guðspjöllunum eins og venja er í Jesúskáldskap seinni tíma – en þó einkum að því er varðar Júdas. Júdas er hjá Schmitt eftirlætislærisveinn Jesú, sá eini sem skilur hann til fulls og hefur óbifandi trú á hans hlutverki. Jesús sjálfur hefur fundið í djúpum kærleikslindum sálar sinnar eitthvað sem „er meira en ég“ og telur sig um margt hafa beinan aðgang að Guði sjálfum – en hann veit samt ekki hver hann er. Það er Júdas sem tekur að sér, bæði með lærdómi og innsæi, að sannfæra Jesú um að hann sé sá „sem koma skal“. Það er Júdas sem hefur alla spádóma á reiðum höndum, hann einn skilur að ríki Krists er ekki af þessum heimi (en pólitíska óvini á Jesús í öllum herbúðum, bæði meðal þeirra sem óttast að hreyfing hans leiði til uppreisnar gegn Rómverjum og þeirra sem láta sig dreyma um slíka uppreisn). Það er Júdas sem brýnir það fyrir Jesú að hann verði að fara til Jerúsalem, þar verði hann kross- festur en muni rísa upp á þriðja degi og „ég tek á móti þér fagnandi“. Bara að ég hefði trú Júdasar, hugsar Jesús – og þegar hann vegna eigin kraftaverka (upprisa Lasarusar) hefur slegið af efasemdum sínum um réttmæti orða Júdasar, þá ákveður hann að hann verði að láta einmitt Júdas svíkja sig. Jesús vill forða lærisveinum sínum frá því að þeim verði refsað eins og honum, en hann vill ekki gefa sig fram (þá væri hann að viður- kenna vald dómstóla yfir sér). Því telur hann nauðsynlegt að „einn ykkar svíki mig“. Í skáldsögunni opinberar Jesús Júdasi þennan vilja sinn ekki fyrr en við síðustu kvöldmáltíð – Júdas skilur af orðum og augnaráði Jesú að það er aðeins af honum, kærasta lærisvein- inum, sem hann getur krafist svo geipilegrar fórnar. Júdas játast undir sitt skelfilega hlut- verk en hvíslar að meistara sínum, að hann verði ekki til staðar á þriðja degi að fagna hon- um upprisnum: „fyrst þú ætlar að láta kross- festa þig, get ég eins hengt mig“ segir hann. Og þetta er það sem Jesú fellur einna þyngst meðan að hann bíður í Getsemane eftir að Júd- as fylgi þangað handtökusveitinni. Til hvers? Ástæður fyrir því að skáld finna hjá sér hvöt til að gera svikarann Júdas að lærisveininum sem Jesús elskaði mest eru margvíslegar. Ant- hony Burgess segir í formála að bók sinni Maðurinn frá Nazaret að erfitt sé að skrifa skáldsögu um Jesú og hina fyrstu kristnu menn án þess að reyna að koma fólki á óvart með því að brjóta helgimyndir. Það er skiljan- legt: til hvers að ítreka bara það sem áður kemur fram í guðspjöllunum alþekktu og hefð- bundinni túlkun sálmaskálda? Til dæmis ligg- ur beint við að kalla sögu Borgesar ögrandi leik að viðhorfum þeirra sem treysta textum, útsmogna útfærslu á því hve varnarlausar ritningar eru gangvart einbeittum og lærðum túlkunarvilja sem kýs að horfa í nýjar áttir. En meiru veldur sjálfsagt – einkum um túlkun manna eins og Schmitts, sem er bersýnilega vinsamlegur kristinni hefð, að svik Júdasar eru ráðgáta. Frásagnir af þeim eru fullar með eyður sem er freistandi að reyna að fylla upp í – án þess höfundur sé endilega að reyna að hreppa sem mesta hneykslun og athygli. Höf- undur eins og Schmitt er ekki að taka upp þráðinn frá fornum texta eins og Júdasarguð- spjalli (sem kemur út fimm árum síðar en skáldsaga hans). Þar voru villumenn í andófi við höfuðbiskupa kirkjunnar á annarri öld að koma sínum sérskilningi á framfæri. En bæði þeir og rithöfundar okkar tíma geta komist að svipaðri niðurstöðu þegar menn sleppa hefðar- valdi og taka sér frelsi og rétt til að finna í trúarlegum ráðgátum samhengi sem þeir vilja sjálfir sætta sig við. Júdas – vinur Krists Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon Jorge Louis Borges „Sagan heitir „Þrjár túlkanir á Júdasi“ (1944) og þykist vera lærð greinargerð fyrir hugmyndum bráðskarps og sérviturs sænsks guðfræðings, Nils Runebergs, sem hefur lesið Júdasarsögu Nýjatestamentisins upp á nýtt og komist að þeirri niðurstöðu, að einmitt Júdas sé aðal- hetja Píslarsögunnar.“ Myndin er tekin á Hótel Loftleiðum 1976. Hverjar eru ástæður fyrir því að skáld finna hjá sér hvöt til að gera svikarann Júdas að lærisveininum sem Jesús elskaði mest? Hér eru skoðuð nokkur skáldverk sem fjalla um Júdas, meðal annars eftir Borges og Eric- Emmanuel Schmitt. Höfundur er rithöfundur. Eftir Árna Bergmann arnilena@simnet.is Um túlkun skálda á svikaranum versta

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.