Lesbók Morgunblaðsins - 29.07.2006, Síða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 29.07.2006, Síða 10
10 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 29. júlí 2006 Í kaflanum „Nokkrar gusur um dauð- ann og fleira“ úr Hugástum eftir Steinunni Sigurðardóttur er að finna ljóð sem ég sagði einhvern tíma að væru einskonar óður til dauðans markaður þeirri innsæju kímni sem Steinunni er nærtæk. Samkvæmt ljóðinu er dauðinn mestur að morgni, fyrir dögun „þegar fólk gefst upp fyrir sjúkdómum með latneskum nöfnum sem gætu sómt sér á blómi“ og „Í fyrstu skímu lengist snyrtileg röðin á bakka móðunnar miklu.//Allra þjóða menn hinkra í sudd- anum“ og „skima/eftir ferjumanni“. Þeir segja „sem fæst. Umræðuefnin tæmd og tungu- málaerfiðleikar“. Þessi stórkostlega mynd af dauðanum sem enn einni biðröðinni, enn einni morgunferðinni í fylgd ókunnugra í vinnuna á köldum rigning- ardegi í Reykjavík dregur fram þá sérstöku sýn sem Steinunn hefur á lífið og ljóðið, og kannski umfram allt, dauðann. Dauðinn er algengt viðfangsefni í ljóðum Steinunnar eins og Guðni Elísson rekur í fal- legri grein í Ritinu 3/2003, en dauðinn er einnig ríkt tema í mörgum skáldsagna hennar. Í gagnrýni minni á bókmenntavef Borg- arbókasafnsins sagði ég að nýjasta skáldsaga Steinunnar, Sólskinshestur, væri „einskonar stúdía í dauða; líkamlegum, persónulegum, and- legum, allskonar tegundum útþurrkunar og höfnunar á lífi“. Ég stend við það, en í þessari grein langar mig til að útfæra þessar vangavelt- ur á dálítið annan hátt. Sagan segir frá Lillu sem elst upp í stóru húsi á Sjafnargötu með bróður sínum og foreldrum, Ragnhildi og Haraldi. Það verður fljótlega ljóst að samband foreldra og barna er eitthvað und- arlegt, en foreldrarnir eru bæði önnum kafnir læknar og eru svo upptekin af deyjandi fólki í sínu starfi að þau gefa sér ekki tíma til að sinna eigin börnum. Í staðinn upplifa börnin tengsla- leysi og þögn, persónudauða, sem kallast síðan á við öll deyjandi börnin sem Ragnhildur grein- ir, „díagnósar“, og missir mörg, þó vissulega bjargist mörg einnig. Lilla er sú eina sem sinnir heimilinu, foreldrarnir eru stöðugt utan við sig, þau týna öllum sköpuðum og ósköpuðum hlut- um og læsa sig stöðugt úti og lesandinn fær mynd af þeim ráfandi um húsið eins og draugar, sem hvorki sjá né heyra börnin sem flækjast þögul og athugul fyrir fótum þeirra. Þessi draugsmynd er ítrekuð því Ragnhildur er spír- itisti í ofanálag og heldur miðilsfundi. Þar heyr- ast barnsraddir og þær hlustar móðirin á, en ekki raddir eigin barna. Þessar undarlegu heimilisaðstæður verða til þess að Lilla þurrkar eigin persónuleika út, hún á ekkert líf og því finnur hún sér líf ann- arsstaðar, í hinni ímynduðu vinkonu Dór(u). Dór(a) er dóttir óhamingjukonunnar Nellí sem Lilla kemst í kynni við, en dóttirin var tekin af konunni vegna drykkjuskapar hennar og fá- tæktar. En Nellí er Lillu góð og Lillu dreymir um að vera dóttir hennar, og samsamar sig henni, ímyndar sér að Dór eigi gullfiska í skál og allt það annað sem hana langar til að eiga. En svo eignast Lilla kærasta og hann er sá eini sem sér hana sem persónu sem kemur með- al annars fram í því að hann kallar hana hinu ex- ótíska nafni Lí, með honum eignast hún eitt- hvað sem líkist sjálfsmynd, en það endist ekki lengi því hún segir honum upp. Og auðvitað verður þessi kona, sem aldrei átti neitt líf, að hjúkrunarkonu dauðans, hún sérhæfir sig í líkn- arhjúkrun, starfar við það að sinna þeim deyj- andi. Þegar ég fjallaði um bókina á bokmenntir.is, nefndi ég að hún minnti mig dálítið á kvikmynd- ina The Others (Alejandro Amenábar 2001), sem fjallar einmitt um óljós mörk lífs og dauða í stóru húsi. Og nú þegar ég las bókina aftur styrktust þessi tengsl enn frekar og ég sá að í raun og veru er Sólskinshestur gotnesk skáld- saga. Gotneska hefur verið dálítið til umræðu undanfarið, hjá áðurnefndum Guðna Elíssyni sem hefur verið að benda á gotnesk einkenni í æsingaskrifum DV, en það er allt önnur got- neska sem ég hef í huga fyrir Sólskinshestinn. Eitt af einkennum gotnesku skáldsögunnar er húsið, sem verður táknmynd fjölskyldunnar – ein þekktasta útfærsla þessa er saga Edgar Allan Poe, The Fall of the House of Usher, og ég var ekki fjarri því að finna nærveru Poe þarna á Sjafnargötunni. Húsið er þungamiðja skáldsögu Steinunnar, æskuheimilið með sínum undarlegu draugum, húsið sem Lilla flytur út úr en hverfur síðan til aftur og gengur í að end- urbyggja: „Ekki óraði mig fyrir því þennan dag áður en dagurinn byrjaði að hér væri sjálft upphafið að Herbergisárunum, viðgerðum á Sjafnargötu sprungu fyrir sprungu krana fyrir krana slökkvara fyrir slökkvara. Enn síður hefði mig órað fyrir því að þetta gæti verið skemmtun. Að opna sprungur, taka af gólfefni – rífa niður her- bergi og byggja aftur upp út í ósýnileg smáat- riði (mála með skaftlöngum pensli lengst bak við ofn þar sem enginn sér nema kóngulóin og guð).“ (126) Gotneska skáldsagan kom fyrst fram á átjándu öld og varð fljótlega að kvennaformi, það voru aðallega konur sem lásu og skrifuðu gotneskar skáldsögur, en þetta tengist síðan mikilvægi kvenna í því að móta hið nýja form sem skáldsagan var. Á átjándu öld var gotneska skáldsagan fyrst og fremst afþreyingarmiðill, en í lok aldarinnar skrifaði skáldkonan Jane Austen Northanger Abbey, en þar nýtir hún sér form gotnesku skáldsögunnar til að gera mun veigameiri kvenstúdíu en áður hafði sést innan tegundarinnar. Ég man aldrei hver Bronté systra það var sem þoldi ekki Austen en það breytir ekki því að tvær systranna fetuðu í fót- spor Austen um miðja nítjándu öldina og not- færðu sér gotnesku hefðina í skáldsögum sínum Jane Eyre og Wuthering Heights. Af þeim hef- ur Jane Eyre náð meiri femínískri frægð, en persóna úr henni, „brjálaða konan á háaloftinu“, var lykilstef róttækrar femínískrar bókmennta- greiningar Söndru Gilbert og Susan Gubar frá árinu 1979. Síðan þá hefur gotneska skáldsagan þjónað báðum megin víglínunnar milli afþrey- ingar og fagurmenningar, af öðrum þekktum bókmenntaverkum sem komu upp í hugann má nefna nóvellu Henry James, The Turn of the Screw frá 1898 en þar segir einmitt frá börnum sem sjá (kannski) drauga, og The Haunting of Hill House eftir Shirley Jackson frá 1959, en sú saga fjallar um konu sem hverfur, eða jafnvel hverfist, inn í hús. Nú nýlega hefur ung skáld- kona, Sarah Waters, skrifað röð skáldsagna í gotneskum anda, og er viðfangsefnið samkyn- hneigð. Ekki svo að skilja að Sólskinshestur sé á neinn hátt líkur þessum verkum, en gotneska skáldsagan hefur yfirleitt raunsæisyfirbragð, meðan stíll Steinunnar er ljóðrænn sem fyrr og samsetning og bygging sögunnar öll ólík frá- sagnar(of)flæði gotneskunnar. En þó er ekki úr vegi að skoða skáldverkið í þessu samhengi, því þar birtast fjölmörg minni gotneskunnar sem Steinunn færir í nýtt form og gefur nýtt líf í sinni sérstæðu sögu. Eins og áður er sagt er Húsið, með stórum staf, einskonar þungamiðja gotneskra skáld- sagna, kastalinn, ættarsetrið, eða bara heimilið. Og heimilið á sér alltaf tvær grundvall- arskírskotanir: annarsvegar tengist það kon- unni og hinsvegar tengist það leyndarmálum. Það þarf ekki að rifja upp Freud og kenningu hans um ókennileikann – das unheimliche – til að sýna fram á að heimilinu hefur alltaf fylgt ára einskonar ókennileika: það sem fer fram á heimilum fer fram fyrir luktum dyrum, frið- helgi einkalífsins og allt það. Og það er þetta leyndarmál heimilislífsins á Sjafnargötu sem gegnsýrir líf Lillu og skaðar samband hennar við kærastann. „Sá sem er alinn upp á Sjafn- argötu verður einkennilega duglegur að leyna“ (162). Lilla er stöðugt að passa upp á að fólk frétti ekki af hinum undarlegu heimilishögum og flokkar fólk eftir því hvort það er spurult eða ekki. Konan í búðinni er ekki spurul þó hún sé alltaf hjálpleg, en Nellí er spurul og stelpan ótt- ast að hún gæti komist á sporið með að það sé hún sem þvær þvottinn. Fyrstu árin býr þýsk fóstra hjá krökkunum og er þeim sem móðir, auk þess sem hún sér um heimilishaldið. En einn daginn fer hún og krakkarnir vita ekkert hversvegna – þögn hússins er alger og þar er óviðeigandi að ræða praktíska eða persónulega hluti: „við töluðum aldrei um hana og gerum ekki enn frekar en hún hafi aldrei verið til“ (29). Lilla tekur húsverkin yfir og systkinin hörfa uppá háaloft og leika sér þar í dauða og drauga- leikjum, auk ósýnilega leiksins, en nöfn leikj- anna endurspegla greinilega stöðu þeirra í hús- inu og gagnvart foreldrunum. Háaloftið er með tígulglugga og börnin finna upp á því að stafla púðum á stóla til að geta setið við hann. „Við lékum okkur ósýnileg, og það var það sem við vorum, ósýnileg. Aldrei varð ég vör við að vegfarandi eða pósturinn sæi tvö barnsandlit í tígulglugganum undir rjáfri á steingráa hús- inu. Útlendingur tóku mynd af húsinu einhvern tímann þegar við vorum í glugganum. Ég ímynda mér að tvö lítil andlit séu til á myndinni úti í heimi framkölluð eins og móða á rúðu.“ (27) Lilla er eins og draugur í eigin húsi en slepp- ur þaðan um stund í krafti kærastans, en þegar hún segir honum upp óttast hún að komast ekki þaðan aftur: „Ég hélt innst inni að öll sund úr Sjafnargötu væru lokuð, að ég yrði á mishröðu róli í herbergjunum þangað til ég fyndist dauð á einhverju gólfinu eða í kóma“ (80). Hún sam- samar sig húsinu eins og kemur fram í síðari hluta bókarinnar þegar hún er komin aftur, en þar er langur ljóðrænn texti sem lýsir því hvernig hún gengur herbergi úr herbergi og minningarnar streyma fram og kalla beinlínis fram líkamleg viðbrögð: „Í eldhúsinu tárak- irtlar, / hvort sem laukur var skorinn eða ekki laukur / á Haraldarkjötsúpudeginum“ (119). Því er það svo að þegar kærastinn rífur hana um stund lausa frá húsinu er hann að rífa hana frá henni sjálfri, kljúfa hana: „Það góða við kær- astann var ekki bara það að ég skyldi taka á mig mína mynd og verða að sjálfri mér heldur líka það að ég fékk að fara frá mér en ég hafði fram að því hvorki komist lönd né strönd í herbergj- unum“ (63). Klofinn persónuleiki eða tvífarar (þetta er yfirleitt túlkað sem svipað fyrirbæri) eru klassískt tema gotnesku sögunnar og birtist hér með áhrifamiklum hætti. Lilla er kölluð Lí af kærastanum og með honum verður hún önn- ur. Í raun verður hún fyrst til í krafti hans eins og kemur fram í orðunum „taka á mig mína mynd og verða að sjálfri mér“, því sjálf er hún engin, hún á engan persónuleika né líf, og því finnur hún sér enn annað sjálf í Dór. Þannig má segja að hún sé einmitt dæmi um konur í bók- menntum að hætti Gilbert og Gubar, en þær gerðu einmitt mikið úr því að allar konur ættu sér „brjálaða konu á háaloftinu“, væru klofnar í, í það minnsta, tvær persónur. Endurnýjun hússins verður því afar mik- ilvæg í þessu samhengi, ekki síst það að sparsla í sprungur og mála bakvið ofna þar sem enginn sér nema kóngulóin og guð. Hér mætti ætla að konan sé að ná sambandi við sjálfa sig aftur, bókstaflega endurbyggja sig sem heilsteypta manneskju. En öfugt við Jane Eyre sem losnaði við brjáluðu konuna á háaloftinu og fékk að vera með sínum heittelskaða tekst Lillu ekki að verða Lí, því hún er, líkt og önnur fræg kven- hetja Steinunnar, dæmd til að farast. Bygging sögunnar endurspeglar persónu- klofninginn og hið gotneska andrúmsloft, en sagan flakkar hingað og þangað í brotakenndu samspili fortíðar og nútíðar, og virkar stundum eins og allt of stórt hús á Sjafnargötu, þar sem lesandi er leiddur herbergi úr herbergi, látinn þreifa fyrir sér og reyna þannig að ná tilfinn- ingu fyrir þessu húsi, án þess að verða fangi þess. Sjálfu er húsinu til dæmis ekki lýst að ut- an fyrr en á síðu 123, þegar tveir þriðju hlutar sögunnar eru búnir, og lítur að sjálfsögðu allt öðruvísi út en ég hafði gert mér í hugarlund. Það má hugsa sér að þetta komi til af þeirri sterku nærveru bernskunnar sem einkennir alla frásögnina, fyrir innilokað barn sem er draugur í eigin húsi eru úthliðar þess merking- arlausar. Þegar við sjáum svo húsið að utan er það með augum konunnar sem er komin aftur heim, og leggur í hið mikla viðhald. Það að Steinunn opni nýja sýn á kunnugleg bókmenntaform er svo sem ekkert nýmæli, en í áhugaverðri grein Öldu Bjarkar Valdimars- dóttur, „„Á tímum VARANLEGRA ÁST- ARSORGA“: Ástin, dauðinn og lesandinn í þremur skáldsögum eftir Steinunni Sigurð- ardóttur“, í Skírni vor 2006, er meðal annars fjallað um notkun Steinunnar á ástarsöguform- inu. Alda nefnir þar Sólskinshest, Ástina fiskanna og Hundrað dyr í golunni, en fyrsta og líklega þekktasta ástarsögustúdía Steinunnar var í Tímaþjófinum. Hvað önnur form varðar má nefna vegasöguna í Hjartastað, ævintýrið í Ástin fiskanna og revíuna í Jöklaleikhúsinu, og svo auðvitað minningargreinar í Síðasta orðið. Skáldsagan Sólskinshestur sver sig í ætt við all- ar þessar, sagan er öðrum þræði ástarsaga, hún fjallar um samband mæðgna sem var aðalstefið í Hjartastað og kemur einnig við sögu í Jökla- leikhúsinu, en hún er einnig óvenjuleg í höfund- arverkinu, því eins og margir gagnrýnendur og lesendur bentu á hefur bernskan ekki fyrr leik- ið svo stórt hlutverk í skáldskap Steinunnar. Og það er einmitt þessi þrúgandi bernska sem skapar þessa sérstæðu gotnesku stemningu, eða réttara sagt ekki-bernska, því bókin fjallar jú um hvernig bernskunni er stolið af stúlkunni og því fær hún aldrei að öðlast sjálfstæðan per- sónuleika. Það eina sem hún á eftir er dauðinn, og dauðinn, hann er svo heimilislegur að „það tekur oftast nær sama tíma að deyja endanlega og það tekur að skúra þrjú gólf, með því að líka sé farið í horn“. (101) Heimilislegur dauði: eða ósýnilegir leikir á háalofti Morgunblaðið/Árni Sæberg Hús og draugar „Í raun og veru er Sólskinshestur gotnesk skáldsaga.“ Nýjasta skáldsaga Steinunnar Sigurð- ardóttur, Sólskinshesturinn, kemur stöðugt á óvart. Steinunn sýnir á sér nýjar hliðar í þessari fallegu ástarsögu fullri af feigð og ókennilegum framandleika. Eftir Úlfhildi Dagsdóttur varulfur@simnet.is Höfundur er bókmenntafræðingur.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.