Lesbók Morgunblaðsins - 29.07.2006, Side 16

Lesbók Morgunblaðsins - 29.07.2006, Side 16
16 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 29. júlí 2006 É g hef ekki lagt í vana minn að horfa á kvikmyndir sem blanda saman vísindaskáld- skap og hryllingi. Ég hef séð í þessum myndum síend- urteknar klisjur með fant- asíum um undarlega innréttuð geimskip og af- myndaðar mannverur sem annaðhvort eru til komnar með stökkbreytingum eða eiga rætur á öðrum plánetum og ganga um eins og vélmenni. Það hefur þó hvarflað að mér að þetta stafi af for- dómum, og fyrir skömmu gerðist það að einni slíkri kvikmynd tókst að fanga athygli mína og vekja hjá mér talsverða umhugsun, en það var kvikmyndin Týnda geim- farið (Event Horizon) eftir Paul W.S. Anderson frá árinu 1997, sem Ríkissjónvarpið sýndi föstu- daginn 23. júní sl. Í myndinni fann ég vissulega allar klisjur vís- indaskáldskaparins og hryllingsmyndanna, en það var einhver goðsögulegur undirtónn sem togaði mig að skjánum með stöðugt meiri eft- irtekt: Þetta var mynd sem fjallaði um goð- sögulegt þema sem á sér ævaforna hefð en hef- ur öðlast nýja merkingu í nútímanum. Það er þemað um að fara yfir strikið, að brjóta gegn lögmálinu – eins og í þessu tilfelli, að takast á hendur ferðalag til heljar. Þetta er goðsögulegt þema sem hægt er að rekja aftur til Grikkja til forna og víðar og vísar með margræðum hætti í merkilegan goðsagnaarf. Mér fannst myndin að einhverju leyti færa okkur þennan goðsagnaarf til nútímans og setja hann í samhengi við tækni- menningu okkar tíma. Við getum hafið þessa sögu á tindi Kákas- usfjalla þar sem Prómeþeifur liggur hlekkjaður við klöppina og örninn gæðir sér á lifur hans að fyrirskipan Seifs. Þetta var refsingin sem Seif- ur beitti Prómeþeif fyrir að hafa fært mann- inum eldinn og tæknina, og þar með gert hon- um kleift að framkvæma það sem hann hafði áður þurft að biðja guðina um. Þessi fórn Prómeþeifs til mannanna varð honum sjálfum dýrkeypt um leið og hún markaði tímamót í sögunni. Hún gerði manninum kleift að yf- irstíga þau mörk, sem hinn goðsögulega gríska sýn á heiminn hafði sett, þar sem öll framvinda var sett undir hið órjúfanlega lögmál um hring- rás tímans og eilífa endurkomu hins sama. Tæknin á tímum Æskýlosar átti að vísu langt í land með að ná þeim möguleikum sem síðar urðu til, en gjöf Prómeþeifs opnaði engu að síð- ur nýtt sjónarhorn, rétt eins og geimskipið Event Horizon í samnefndri kvikmynd. Það er eins og Æskýlos og Grikkir til forna hafi áttað sig á hvílíkur forboði fólst í þessum verknaði Prómeþeifs, sem smám saman gerði manninum kleift að gera sér náttúruna undirgefna, að rjúfa hin heilögu mörk hins gríska goðaheims þar sem hugmyndin um framþróun, framfarir og stöðugan vöxt var ekki bara óhugsandi heldur líka brot á grundvallarlögmálum náttúrunnar sem allir skapaðir hlutir voru undir settir. En hvernig tengjast myndin um týnda geim- farið og sagan af Prómeþeifi? Við skulum rifja upp söguþráð myndarinnar: Árið 2047 fer björgunarsveit í geimferðalag til þess að sækja geimskipið Event Horizon sem hafði horfið í geimferð sinni 7 árum áður, en ný- verið birst og gefið upp staðsetningu sína í nánd við plánetuna Neptúnus. Um borð í björg- unargeimfarinu er eðlisfræðingurinn sem hann- aði Event Horizon og skipulagði ferð þess. Í ljós kemur að á bak við Event Horizon var leynd- ardómur, því geimfar þetta átti að geta farið hraðar en ljósið fyrir tilverknað þyngdarafls- hverfils sem það bar með sér og gat búið til ný svarthol. Með því að beina geimfarinu inn í eigið svarthol var hægt að yfirvinna alla mótstöðu tíma og rýmis í alheiminum og því átti það að geta farið hvert sem var um alheiminn. Allt samband við Event Horizon hafði rofnað þegar það hvarf í svartholið, og var sagt að það hefði sprungið. Áhöfn björgunarleiðangursins fær fyrst að vita um leyndarmálið eftir að lagt er af stað. Eftir að björgunarleiðangurinn hefur fundið geimskipið og tengst því kemst hann að því að Event Horizon fór í raun í gegnum svartholið og kom til baka eftir skelfilega reynslu. Geim- skipið reynist mannlaust, en gefur þó frá sér torkennileg skilaboð um að enn sé lífsmark um borð. Inni í geimskipinu ríkir kuldi og algjört þyngdarleysi en víða má sjá blóðslettur og ann- að sem gefur til kynna að voveiflegir atburðir hafi átt sér stað. Í stjórnklefa finnst geisla- diskur með skelfilegri lýsingu sem gefur til kynna að skipið hafi lent í eins konar helvíti full- kominnar óreiðu þar sem áhöfnin hafi orðið vit- stola við aðstæður sem minna á ýmsar mið- aldalýsingar á helvíti. Á diskinum greinir björgunarsveitin ákall skipstjórans: Liberate me ex inferis! – Bjargið mér úr helvíti! Á þess- ari stundu var skipstjóri Event Horizon orðinn sturlaður af skelfingu og búinn að missa augun úr augntóftunum. Þegar björgunarsveitin nálgast þyngdarafls- hverfilinn, sem er margbrotinn hnöttur með tveimur hringjum sem snúast umhverfis hann inni í miðju skipsins, þá fer hann í gang, eins og hann skynji líf. Björgunarmaðurinn sem nálg- ast hverfilinn sér eins konar spegil fyrir framan sig sem reynist vera úr vökvakenndri leðju, og hann sogast inn í hana með miklum hamförum sem ganga eins og jarðskjálfti um bæði skipin, sem eru samtengd. Félögum björgunarmanns- ins tekst að draga hann meðvitundarlausan út úr þessari segulleðju. Þar sem björgunarskipið laskaðist mjög við þennan atburð neyðast allir leiðangursmenn til að flytja inn í Event Hori- zon. Þeim tekst að koma á þyngdarafli og líf- vænlegum aðstæðum en hafa aðeins súrefni sem endist í 20 klukkustundir í þessu nýja skipi. Inni í skipinu fara nú að gerast dularfullir at- burðir, þar sem leiðangursmenn sjá skelfilegar ofsjónir og virðast sveiflast til í tíma og rúmi án fyrirvara. Vísindamaðurinn sem hannaði skipið sér konu sína, sem hafði framið sjálfsmorð, end- urtaka athöfnina með því að skera sig á púls í baði. Áhafnarkona sér son sinn sleginn illum kaunum og ýmsir óhugnanlegir atburðir eiga sér stað, auk þess sem blóðslettur og líkams- leifar fyrri áhafnar sjást. Svo virðist sem skipið hafi sjálfstæðan vilja og stefni að því að sturla björgunarfólkið. Vísindamaðurinn sem hannaði skipið segir skipstjóra sínum að hann hyggist eyðileggja það, en þá verður hann setinn af anda skipsins og sturlast fullkomlega. Hann upplifir sjálfsmorð konu sinnar á ný og rífur úr sér augun og verður að afmyndaðri ófreskju um leið og hann segir við skipstjórann: „Við erum að fara, við þurfum ekki lengur augu til að sjá!“ Í stað þess að eyðileggja Event Horizon eyði- leggur vísindamaðurinn björgunarskipið og al- gjör glundroði skapast. Vísindamaðurinn reynir að drepa leiðangursstjóra sinn en honum tekst að komast undan í gegnum eitt af hliðum geim- farsins. Vísindamaðurinn brennur hins vegar upp í vítislogum við þetta og kallar til leiðang- ursstjórans á meðan: „Þegar það fór í gegn var það bara skip, þegar það kom til baka var það orðið lifandi!“ Hann gefur þarna til kynna að þetta sköpunarverk hans hafi tekið eðlisbreyt- ingum við að fara inn í svartholið og hafi öðlast sjálfstæðan vilja. Þótt vísindamaðurinn brenni í logum þá deyr hann samt ekki og hann segir við yfirmann sinn: „Helvíti er bara orð, raunveru- leikinn er miklu verri.“ Honum tekst að sprengja Event Horizon í tvennt, og sogast annar helmingurinn með hluta áhafnarinnar inn í aðdráttarafl Neptúnusar, en hinn helming- urinn með Vísindamanninn og leiðangursstjór- ann innanborðs sogast inn í svartholið og þar með til heljar. Í lok myndarinnar er gefið í skyn að annar helmingurinn af Event Horizon hafi bjargast, en um leið að sá illi vilji sem tók sér bólfestu í því sé enn til staðar. Myndin skilur þannig eftir margar spurningar sem er ósvarað. Það liggur nokkuð beint við að líta á þessa mynd sem eins konar dæmisögu um stöðu tækninnar á okkar tímum, og sú refsing sem vísindamaðurinn í myndinni fær, þar sem hann lýtur fyrir eigin sköpunarverki og hafnar í þeim „veruleika sem er verri en helvíti“, verður þá sambærileg kvölum Prómeþeifs, þar sem hann liggur hlekkjaður á fjallstindinum og örninn nagar lifur hans allt til enda veraldar. En hver er sekt þeirra? Fyrir hvað er þeim refsað? Í stuttu máli er þeim refsað fyrir að fara yfir strikið, brjóta lögmálið, rjúfa þau bönd sem hafa verið talin heilög. Prómeþeifur færir manninum eldinn og tæknina og verkmenn- inguna og rýfur þannig þau tengsl sem voru á milli guða og manna, vísindamaðurinn sem er hönnuður Event Horizon fer yfir mörk rúms og tíma og sendir geimfar sitt á vit hins óþekkta sem reynist vera verra en helvíti. Á þessu tvennu virðist í fljótu bragði vera nokkur munur, en þegar betur er að gáð verða tengslin kannski augljósari. Þau byggja á þeim leyndu tengslum sem liggja á milli þriggja heima: heims goðafræðinnar, trúarinnar og tækninnar. Þessi tengsl eru rakin skilmerkilega í gagnmerkri bók ítalska heimspekingsins Um- berto Galimberti, þar sem hann greinir meðal annars náin tengsl milli tækni og trúar, og að það hafi í raun verið hin gyðinglega/kristna trúarhefð sem leysti Prómeþeif úr fjötrum sín- um og gaf tækninni lausan tauminn. Það sem hér fer á eftir byggir að stórum hluta á þeirri bók. Til þess að skýra málið vill Galimberti gera skýran greinarmun á goðsögulegri hugsun og trúarlegri. „Goðsögnin er rannsókn á upprun- anum, endurtekningu hans og endursköpun,“ segir hann. „Trúin boðar hins vegar frelsun, myndir hennar eru vonin og trúin á framtíðina“. Þannig lítur goðsagan alltaf til fordæmis þess sem var í upphafi, á meðan trúin horfir fram á við til þess sem koma skal. Hin goðsögulega hugsun lítur á samtímann sem endurtekningu þess sem var í upphafi, trúin lítur á nútímann sem bið eftir því sem koma skal, sem er frelsun og endurlausn. Þessi ólíki skilningur goðsögulegrar hugs- unar og trúarlegrar á tímanum birtist í öðrum myndum þegar kemur að því hvaða skilning við leggjum í sársaukann og dauðann, náttúruna og söguna og síðast en ekki síst tæknina, sem verð- ur með húmanismanum, upplýsingunni og iðn- byltingunni helsta tæki mannsins til frelsunar. Samkvæmt hinum goðsögulega/gríska skiln- ingi á náttúrunni þá er hún hringrás lífs og dauða, sköpunar og tortímingar, og hvorugt getur án hins verið. Dauðinn verður þannig jafnnáttúrulegur og fæðingin, og sársaukinn sem birtist manninum í tortímingu náttúrunnar er hluti af hinu eðlilega hringferli og því laus við alla sekt eða refsingu. Það er ekki sekt okkar sem kallar yfir okkur sársauka, heldur getur hinn náttúrulegi sársauki, sem er hluti af harm- leik mannsins, stundum gert hann hugstola og þar með sekan. Þetta er kjarni hins gríska harmleiks. Menn þjást ekki fyrir sekt sína, heldur gerast þeir sekir þegar sársaukinn svipt- ir þá vitinu og dómgreindinni, þannig að þeir fremja glæp. Samkvæmt hinum gyðinglega/kristna skiln- ingi er tíminn ekki hringferli, heldur á hann sér endanlegt markmið frelsunar og endurlausnar í öðrum heimi. Tíminn er því línulegt ferli, sem verður saga sem hefur merkingu og markmið, en saga er ekki til í sama skilningi þar sem um hringferli er að ræða. Sagan verður þá fyrst til þegar merkingin og tilgangurinn hafa verið inn- rituð í tímann og þegar biðin eftir hinu fyr- irheitna hefur gefið sögunni merkingu sína. Trúin afneitar ekki náttúrulögmálinu, en hún lítur á það sem tjáningu á vilja Guðs, sem skap- aði hana. Þetta felur í sér að þegar jörðin verður viðskila við þann vilja Guðs sem skapaði hana, þá er hún glötuð. Því þarf stöðugt að frelsa jörð- ina, því hún getur ekki staðið á eigin fótum. Guð skapaði jörðina úr engu, ex nihilo, og hún mun óhjákvæmilega verða að engu án vilja Guðs. Það er því mjög róttæk tómhyggja fólgin í hin- um kristna skilningi á jörðinni, segir Galim- berti. Þessi tómhyggja nær ekki bara til náttúr- unnar, heldur einnig til mannsins, sem hefur orðið til við það að brjóta gegn vilja Guðs með erfðasynd sinni. Það er þessi upprunalega sekt sem er orsök sársaukans í hinum kristna/ gyðinglega heimi, andstætt hinum goðsögulega heimi þar sem sársaukinn er saklaus. Það er sektin sem hefur gert manninn viðskila við Guð, og því þarf hann á frelsun að halda. Það er ekki hægt að frelsast undan náttúrunni, en það er hægt að frelsast undan sektinni í gegnum biðina samkvæmt gyðingdómi og í gegnum fórn Krists samkvæmt hinni kristnu hefð. Dauði Krists fel- ur í raun í sér rof á því náttúrulögmáli sem var talið órjúfanlegt og heilagt í hinum grísk- rómverska goðsöguheimi. Í stað þess að líta á dauðann sem eðlilega og óhjákvæmilega for- sendu lífsins, þá er dauðinn „uppsvelgdur í sig- ur“ og hið forgengilega mun „íklæðast ófor- gengileikanum“ eins og Páll postuli orðaði það í bréfi sínu til Korintumanna. Með hugmyndinni um ódauðleika mannsins og fyrirheit um vist í öðrum heimi verður jarðvistin að bið sem geng- isfellir jarðlífið en gerir um leið hinn gríska harmleik marklausan, því þjáningin er ekki lengur saklaus, heldur innlegg á reikning eilífr- ar endurlausnar. Kristindómurinn hefur gefið heiminum fyr- irheit um heim án sársauka, og það var kannski þetta fyrirheit sem varð til þess að menn köst- uðu hinum forna sið þar sem sársaukinn og dauðinn voru hluti af náttúrunni og lögmáli hennar. En það er fyrst með tilkomu húm- anismans sem maðurinn gengst sjálfur í ábyrgð fyrir eigin frelsun, og tæknin tekur smám sam- an við hlutverki trúarinnar sem helsta tæki mannsins til frelsunar. Galimberti segir að það hafi verið Galileo Galilei sem þýddi hina miklu bók náttúrunnar yfir á mál stærðfræðinnar. Galilei hélt því jafnframt fram að þótt þekking Guðs væri umfangsmeiri en þekking mannsins, þá væri hún í eðli sínu hin sama, því sannleik- urinn væri ódeilanlegur. Og þar sem maðurinn hefði öðlast þekkingu sambærilega við þekk- ingu Guðs, þá gæti hann gert sjálfan sig að mælikvarða á rétt og rangt. Þannig gerist það aftur sem gerðist í sögunni af Prómeþeifi að þekkingin fer frá Guði/Seifi til mannsins, og þar með er lagður grundvöllur að alræðisvaldi vísindanna og tækninnar. Iðnbylt- ingin fól í sér veraldarvæðingu trúarinnar, en hún tók líka í arf hina kristnu hugsun um sekt, frelsun og endurlausn sem gefur sögunni merk- ingu sína. Þar birtist fortíðin sem hið illa, vís- indin sem frelsun og framfarirnar sem end- urlausn. Sú tæring sem á sér stað í kristindóminum með tilkomu iðnbyltingarinnar og vísindanna viðheldur þeirri hugsun að jörðin og maðurinn séu eitthvað sem þarf á frelsun að halda. Í augum vísindanna er hið illa það sem er handan takmarka þeirra, hið óþekkta sem þarf að uppgötva. Með sambærilegum hætti líta ver- aldarsinnaðir byltingarmenn á hið illa sem virkt afl í þjóðfélaginu sem þurfi að umbylta til að koma á reglu og valdi hins góða. Í báðum til- fellum er endurlausnin fólgin í framtíðinni, því sem koma skal. Þau náttúrulögmál sem Grikkir til forna töldu ófrávíkjanleg öllum mönnum tóku á sig nýja mynd með kristindóminum, þar sem þau voru tengd við vilja Guðs út frá sköpunarsög- unni. Með þróun vísindanna hefur sköp- unarsagan orðið víkjandi í skilningi okkar á náttúrunni og þar með hefur verið grafið undan tengingunni á milli lögmáls náttúrunnar og vilja Guðs. Jörðin lýtur ekki lengur vilja Guðs, held- ur vilja mannsins. Þar með hafa þau lögmáls- bundnu takmörk sem manninum eru sett smám saman gufað upp. Vísindin viðurkenna ekki lengur önnur takmörk á rannsóknum sínum en þau sem eru til staðar á hverjum tíma í raun og veru. Tæknin á sér ekki lögmálsbundin tak- mörk lengur og hefur tekið sér dómsvald um að skapa heiminn. Við þessar aðstæður hefur orðið grundvall- arbreyting, sem maðurinn stendur ráðþrota gagnvart nú á dögum. Tæknin á sér engin mannleg markmið. Hún byggir á endalausri og takmarkalausri útvíkkun og vexti, sem réttlæt- ist einungis af sjálfum sér. Fyrir tækninni er náttúran bara viðfangsefni, ekki sköpunarverk eða óforgengilegt lögmál. Tæknin er ekki frels- andi í sjálfri sér, hún veitir ekki endurlausn. Það eru ekki minni líkur á því að tæknin tortími jörðinni en að hún frelsi hana. Í þessum skiln- ingi er tæknin orðin eitt stærsta og erfiðasta vandamál sem mannkynið hefur staðið frammi fyrir. Það er undirliggjandi ótti við tæknina sem liggur til grundvallar öllum vísindaskáld- skapnum og hryllingsmyndunum um ferðalög út í geiminn eða út yfir þau mörk sem þekkingin og tæknin búa við á okkar tímum. Í Týnda geimfarinu var stigið yfir mörkin. Vísindamaðurinn sendi geimfar sitt út í óviss- una og „fann veruleika sem var verri en helvíti“. Það var boðskapur Pauls W.S. Andersons í Event Horizon. Illur sjóndeildarhringur Á leið í svartholið „Helvíti er bara orð, raunveruleikinn er miklu verri.“ Eftir Ólaf Gíslason olg@simnet.is Hugleiðingar út frá kvikmyndinni Týnda geimfarið eftir Paul W.S. Anderson Höfundur er listfræðingur

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.