Lesbók Morgunblaðsins - 07.10.2006, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 07.10.2006, Blaðsíða 5
Með lögunum voru gerðar grundvallarbreyt- ingar á barna-, gagnfræða- og mennta- skólastiginu sem miðuðu að auknu jafnrétti til náms. Ein helsta breytingin var sú að skóla- skyldan var lengd um eitt ár, hún hafði náð frá sjö ára til fjórtán ára aldurs en eftir samþykkt fræðslulaganna náði hún til fimmtán ára aldurs. Í lögunum var kveðið á um að þjóðfélaginu væri skylt að starfrækja barnaskóla í öllum skóla- hverfum landsins, en áður var einungis kveðið á um að foreldrar ættu að láta börn sín sækja skóla. Jafnframt var þjóðfélaginu gert skylt að veita þeim börnum sem þurftu á því að halda fjárstyrk til að ljúka skólaskyldunni, en í þágild- andi lögum var tekið fram að hreppsnefndir ættu að taka ákvörðun um hvort styrkja ætti börnin. Í greinargerð milliþinganefndarinnar sem fylgdi frumvörpunum var þessi þjónusta við nemendur kölluð ,,hin frumstæðustu mann- réttindi“. Milliþinganefndin vildi auka jafnrétti til náms á barna- og unglingafræðslustiginu með því að tryggja að allir lykju skólaskyldunni. Unglingar gátu tekið landsprófið er þeir voru á sextánda ári. Ef þeir fengu meðaleinkunnina 6.00 á prófinu áttu þeir kost á að fara í mennta- skóla. Nefndin vildi koma landsprófinu á til að tryggja að allir nemendur hefðu jafna mögu- leika á að komast í menntaskólanám óháð þjóð- félagsstöðu sinni. Eitt frumvarpið var mikilvægast af þeim fjór- um sem milliþinganefndin samdi og lögð voru fyrir Alþingi: það hét Frumvarp um skólakerfi og fræðsluskyldu. Samþykkt þess fól í sér að einnig þyrfti að samþykkja hin frumvörpin. Einungis tveir þingmenn af ellefu greiddu at- kvæði gegn því í efri deild: Jónas frá Hriflu og Gísli Jónsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Jónas frá Hriflu var sá þingmaður sem barð- ist hvað mest gegn frumvörpunum því hann taldi þau „… gera það að verkum að slíta kerfi það, sem íslenska þjóðin hefur menntað börn sín við í þúsund ár“. Hann hélt langar ræður gegn þeirri auknu skólaskyldu sem fólst í frum- vörpunum, því hann taldi hana ráð kommúnista til að leggja sveitir landsins í eyði: „Ég held að ef að þetta frv. verður framkvæmt, sem verður raunar ekki, þá muni sveitirnar leggjast í eyði. Það verður ekkert nema gamla fólkið eftir, og þegar það deyr, þá deyr sveitalífið líka.“ Að hans mati miðaði frumvarpið að því að öll börn, hvar sem þau byggju á landinu, ættu að geta keppst um að komast í menntaskóla og myndu þau þá flytjast á mölina. Ef frá eru talin andmæli Jónasar frá Hriflu voru frumvörp milliþinganefndarinnar ekki gagnrýnd mikið á Alþingi. Orðin sem Bjarni Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði þegar hann greiddi atkvæði með Frum- varpinu um skólakerfi og fræðsluskyldu eru kannski lýsandi fyrir þann hug sem þingmenn báru almennt til frumvarpanna: Bjarni taldi það lýsa „góðri hugsun“. Frumvörp milliþinganefndarinnar urðu að lögum árið 1946 og var þá byrjað að taka nem- endur inn í menntaskólann með landsprófinu. 1946–1953: Fleiri efnalitlir nemendur í menntaskólanám Á fyrstu sjö árunum eftir að landsprófið var tekið upp komust fleiri börn efnalítils fólks inn í skólann en áður. Ég miða tímabilið við þessi sjö ár því árið 1953 var þriðji menntaskóli landsins stofnaður á Laugarvatni. Börn faglærðra iðnaðarmanna og annarra í svipuðum störfum mynduðu stærsta einstaka hópinn sem komst inn í skólann árin 1946–1953, þau voru rúm 26 prósent af heildarfjöldanum. Tímabilið á undan höfðu börn manna úr þessari stétt verið tæp 14 prósent af þeim sem tekin voru inn í skólann. En börnum verkamanna, sjómanna og ann- arra í svipuðum störfum fjölgaði hins vegar enn meira hlutfallslega á milli tímabila, því á ár- unum 1928–1946 voru þau 2,5 prósent af heild- arfjölda þeirra sem tekin voru inn í skólann, en 11,5 prósent eftir upptöku landsprófsins. Af þessum 11,5 prósentum voru 7,5 prósent börn verkamanna, en engin einstök starfsstétt átti eins mörg börn sem komust inn í skólann á fyrstu sjö árunum eftir upptöku landsprófsins, og jafnframt var enginn einstakur hópur sem stækkaði eins mikið hlutfallslega á milli tíma- bila. Á árunum 1928–1946 höfðu einungis tvö börn verkamanna, eða 0,46 prósent af heild- arfjölda, komist inn í skólann eftir inntökupróf, en 54 börn verkamanna komust inn á fyrstu sjö árunum eftir að landsprófið var tekið upp. Börnum verkamanna fjölgaði því um rúm 7 pró- sentustig á milli tímabila. Á sama tíma og börnum iðnaðarmanna og verkamanna fjölgaði mikið á milli tímabila fækkaði börnum opinberra starfsmanna og há- skólagenginna manna sem komust inn í skólann eftir landspróf um tæp 12 prósentustig, fóru úr tæpum 34 prósentum af heildarfjölda niður í rúm 22 prósent. Börnum atvinnurekenda fækk- aði einnig mikið því þau fóru úr því að vera tæp 18 prósent niður í rúm 9 prósent. Afleiðingar landsprófsins: Réttlátt skref Af tölunum um stéttarstöðu þeirra nemenda sem komust inn í Menntaskólann eftir lands- próf á árunum 1946–1953 sést að hlutfallsleg fjölgun barna úr efnaminni stéttunum var svip- uð og hlutfallsleg fækkun úr efnuðustu stétt- unum, á meðan hlutfall barna úr öðrum stétt- um: börn bænda og börn þjónustu-, verslunar- og skrifstofumanna, sem komust inn í skólann var svipað á milli tímabila. Mestu breytingarnar á nemendafjöldanum úr einstökum stéttum, áður en landsprófinu var komið á og eftir það, voru bundnar við þær stéttir sem reikna má með að hafi verið efn- aðastar og efnaminnstar í þjóðfélaginu. Þess vegna má segja að eitt af markmiðum laganna, að auka efnahagslegt jafnrétti til náms á Íslandi með lagasetningu, hafi náðst með fræðslulög- unum árið 1946. Inntökufyrirkomulagið inn í menntaskóla á Íslandi varð sanngjarnara með landsprófinu því niðurstöðurnar í rannsókninni sýna fram á að fleiri nemendur úr efnaminni stéttunum komust inn í menntaskóla eftir að Alþingi setti sam- ræmdar reglur um inntöku nemenda í þá, regl- ur sem meðal annars voru settar fram með þetta markmið í huga. Áður var Menntaskólinn nánast lokaður þessu fólki. Túlkun mín á þessum niðurstöðum er sú að fræðslulögin 1946 og landsprófið hafi gert skólakerfið á Íslandi réttlátara en það var fyrir samþykkt laganna. Þegar ég segi „réttlátara“ styðst ég við skilning Þorsteins Gylfasonar heimspekings á hugtakinu réttlæti: „Réttlæti er það sem manni ber, það sem hann á skilið.“ Í túlkuninni gef ég mér þá forsendu að efnahags- legt jafnrétti til náms sé réttlátt því allir menn í lýðræðislegum þjóðfélögum eigi skilið að fá tækifæri til að mennta sig óháð stéttarstöðu sinni, ef þeir á annað borð geta það og vilja. Þessi forsenda er eitt af grundvallaratriðum pólitískrar hugsunar í mörgum þjóðfélögum nú- tímans sem hafa lýðræðislegt stjórnarfar, til dæmis í okkar þjóðfélagi. Með túlkun minni heimfæri ég þennan nútímalega skilning á rétt- lætishugtakinu upp á fortíðina. Forsendan fyrir þessari ályktun er sú skoðun að við getum búið yfir hlutlægri þekkingu á réttlæti sem við styðj- umst við þegar við fellum gildisdóma um að- stæður í nútímanum, en einnig þegar við gerum það um fortíðina. Til að mynda þegar við segj- um að kynþátta- eða kynjamismunun sé, eða hafi verið, óréttlát í nútímanum sem og í fortíð- inni, og eins þegar við segjum að efnahagslegt misrétti til náms sé, og hafi verið, óréttlátt, óháð því hvaða tímabil mannkynssögunnar á í hlut. Niðurstöður ritgerðarinnar benda því til þess að þingmenn hafi komið sér saman um að taka skref í réttláta átt þegar þeir samþykktu lögin sem fólu í sér landsprófið. Síðan hafa þau rétt- indi til náms sem fólust í fræðslulögunum árið 1946 verið lögbundin á Íslandi. Og enn er notast við svipaða aðferð og landsprófið við inntöku nemenda í menntaskóla, aðferð sem á að tryggja að efnahagsstaða barna komi ekki í veg fyrir að þau geti menntað sig. En niðurstöðurnar í rannsókninni sýna einn- ig fram á að ekki er rétt að stéttaskiptingin í ís- lensku þjóðfélagi á fyrri hluta tuttugustu ald- arinnar hafi verið lítil, ef verið er að vísa til þessa tímabils þegar sagt er að stéttaskipting hafi almennt verið fremur lítil hér á landi í gegnum tíðina. Stéttarstaða þeirra sem komust inn í Menntaskólann í Reykjavík á árunum 1904–1946 bendir þvert á móti til að hún hafi verið mikil.  Heimildir: Alþingistíðindi. Guðjón Friðriksson. Dómsmálaráðherrann: Saga Jónasar Jónssonar frá Hriflu. II bindi. Reykjavík, 1992. Heimir Þorleifsson. Saga Reykjavíkurskóla III: Skólalífið í Menntaskólanum 1904–1946. Reykjavík, 1981. Menntamál 8, 1935. Skólaskýrslur Menntaskólans í Reykjavík 1904–1953. Reykja- vík, 1904–1953. Tíminn 26. maí 1928. Þorsteinn Gylfason. Réttlæti og ranglæti. Reykjavík, 1998. Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon Vígð inn í skólann Enn er notast við svipaða aðferð og landsprófið við inntöku nemenda í menntaskóla, aðferð sem á að tryggja að efnahagsstaða barna komi ekki í veg fyrir að þau geti mennt- að sig. Myndin er tekin í október 1961 af busavígslu í Menntaskólanum í Reykjavík við Lækjargötu. Í HNOTSKURN » Börn verkamanna, sjómanna ogannarra í svipuðum störfum voru 3% í Menntaskólanum í Reykjavík árin 1904–1927. »Þegar Jónas frá Hriflu varð ráð-herra kennslumála 1927 vildi hann koma í veg fyrir að börn efnaðra Reyk- víkinga einokuðu skólann og kom á svo- kallaðri 25 manna reglu og veitti Gagn- fræðaskólanum á Akureyri leyfi til að útskrifa stúdenta. »Aðgerðir Jónasar nægðu ekki til aðkoma á jafnrétti til náms og árið 1947 var því landsprófinu komið á að til- stuðlan Pálma Hannessonar, rektors Menntaskólans. »Fyrstu árin eftir upptöku lands-prófsins voru börn verkamanna, sjó- manna og annarra í svipuðum störfum 11,5% af nemendum Menntaskólans. MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 7. OKTÓBER 2006 5 Höfundur er sagnfræði- og heimspekinemi.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.