Lesbók Morgunblaðsins - 07.10.2006, Blaðsíða 10
10 LAUGARDAGUR 7. OKTÓBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ
lesbók
Eftir Rúnar og Helga Vignissyni
rhv@simnet.is
É
g veit ekki hvort saga
mín er nógu mik-
ilfengleg til þess að
vera harmleikur, þó að
margt ömurlegt hafi
gerst. Hún er sannarlega ástarsaga
en hófst ekki fyrr en þetta ömurlega
var hálfnað, en þá hafði ég ekki ein-
ungis misst átta ára son heldur líka
húsið mitt og vinnustofuna mína í
Sydney þar sem ég hafði einu sinni
verið jafn frægur málari og maður
getur búist við að verða í bakgarð-
inum hjá sér.“
Þessar upphafslínur bókarinnar
Theft – A Love Story segja talsvert
um ástandið sem ríkir í hinum nýja
sagnaheimi Peters Careys. Hér er
komin uppskrift að miklu geipi, mikl-
um gný, sem ekki er heiglum hent að
gera röklega grein fyrir því bókin er
á köflum svo óreiðukennd að gagn-
rýnandi Washington Post fann sig
knúinn til að spyrja: „What the hell is
going on?“ Ef ég reyndi samt að gera
ofurlitla grein fyrir atburðarásinni þá
mætti byrja á að segja að bókin fjalli
um miðaldra málara, Michael Boone,
kallaðan Butcher eða slátrara eftir
starfsgrein föður síns. Butcher er
nýfráskilinn og má muna sinn fífil
fegri sem málari.
„Nei, er þetta nú ekki fullmikil ein-
földun hjá þér, Rúnar minn?“
„Rúnar minn, hvað átt þú með að
kalla mig Rúnar minn. Hver ert þú?“
„Ég er hinn lesarinn, Helgi. Mér
finnst að þú gætir verið nákvæmari.“
„Hvað er að því að tala um mið-
aldra málara sem megi muna sinn fíf-
il fegri?“
„Ja, hann má kannski muna sinn
fífil fegri að því leyti að hann er orð-
inn miðaldra, er nýkominn úr fang-
elsi fyrir að reyna að stela málverki
eftir sjálfan sig og er ekki lengur í
tísku, en hann á samt töluvert inni.“
„Ég sagði ekkert um að hann ætti
ekkert inni. Hann málar einmitt nýj-
ar myndir sem eiga eftir að end-
urvekja áhuga á honum. Má ég halda
áfram, yðar náð?“
„Endilega.“
Þjóðargersemi eða skóþurrka?
Eins og Helgi sagði þá hefur mál-
arinn átt við erfiðleika að stríða í kjöl-
far skilnaðar. Og því má skjóta inn
hérna að fyrri eiginkona Careys ku
vera honum ævareið fyrir að hafa
notað sig sem fyrirmynd að fyrrver-
andi eiginkonu málarans en sú er
aldrei kölluð annað en Stefnandinn
og er ekki sérlega geðfelld persóna.
Hvað um það, málarinn hafði stolið
málverki eftir sjálfan sig frá fyrrver-
andi eiginkonu sinni, málverki sem
hún hafði eignast við skilnaðinn, ver-
ið dæmdur í fangelsi og er nýlaus úr
því þegar sagan hefst. Til að bæta
gráu ofan á svart er honum meinað
að umgangast ungan son sinn. Verk
hans eiga ekki lengur upp á pall-
borðið og seljast einungis fyrir brot
af því sem áður var og því er hann
slyppur þegar hann losnar úr fang-
elsi. Hann fær inni hjá eina stuðn-
ingsmanninum sem hann á . . .
„Fær inni er nú ekki sérlega ná-
kvæmt, því honum er ætlað að vera
eins konar húsvörður í afskekktu
húsi sem stuðningsmaðurinn á ein-
hvers staðar í uppsveitum New So-
uth Wales og þar tekst honum að
svíkja út liti og léreft og málar í kjöl-
farið þessi risastóru verk sín. Og ekki
gleyma því að hann er þarna með
Hugh bróður sínum, þessum skerta
gaur sem minnir svolítið á hinn
þroskahefta Benjy í The Sound and
the Fury eftir William Faulkner.“
„Já, ég ætlaði einmitt að koma að
því að sagan er sögð af bræðrunum
til skiptis, þeim heilbrigða og þeim
heilabilaða, sem minnir reyndar líka
svolítið á Fish Lamb í skáldsögunni
Cloudstreet eftir landa Careys, Tim
Winton. Bæði Hugh og Fish virðast
hafa hlotið heilaskaða eftir að hafa
lent í vatni. Það má velta fyrir sér til
hvers hann er að blanda Hugh í
þetta, hverju hann sé bættari með
því. Þessir kaflar Hughs eru erfiðir
aflestrar, sundurlausir og oftar en
ekki skrýtnir eins og Hugh sé hálf-
gert frík.“
„Rúnar og Helgi, verður ekki ann-
ar að vera fríkið? Er þetta ekki bara
eins og hjá Shakespeare? Vitleysing-
urinn er sá eini sem líðst að segja
eitthvað af viti. Hugh sýnir stundum
ótrúlega glöggskyggni þótt hann sé
ekki með allar heilastöðvar í lagi.
Manstu ekki hvernig hann greinir
stöðu bróður síns sem listamanns?
Einn daginn sé hann þjóðargersemi,
næsta dag skóþurrka, allt eftir því
hvernig vindurinn blæs.“
„Þarna kemurðu reyndar að lyk-
ilatriði. Þessi bók er að miklu leyti
ádeila á listaheiminn. Og það er ein-
mitt mjög rökrétt að Carey fjalli um
duttlunga listaheimsins, maður sem
hefur helgað sig hverfulum veruleika
í skrifum sínum. Hann hefur skapað
persónur sem éta hver aðra, sem
hverfa, sem deyja nokkrum sinnum í
sömu bókinni eða eru vel á annað
hundrað ára gamlar. Hann hefur líka
verið upptekinn af persónum sem
reyna að skilja eitthvað eftir sig
hérna megin grafar, eins og lista-
menn reyna einatt, báðar Booker-
verðlaunabækurnar hans eru til
dæmis því marki brenndar. Í bókinni
Oscar and Lucinda reyna aðal-
persónurnar að koma glerkirkju inn í
land og í True History of the Kelly
Gang endurskrifar Carey sögu þjóð-
sagnahetjunnar Neds Kelly, lætur
okkur trúa því að við séum að lesa
bréf sem Kelly lét eftir sig.“
„Já, en listaheimurinn er ekki bara
duttlungafullur: Í honum er ekki til
neinn endanlegur sannleikur. Þar er
allt byggt á sandi, þar er ekkert
bjarg að standa á. Þess vegna býður
listaheimurinn meðal annars upp á að
óprúttnir listaverkasalar reyni að
framleiða einhvern sannleika, að þeir
steypi eitthvert bjarg undir skjól-
stæðinga sína til að auka verðgildi
þeirra. Sjáðu bara niðurlag bók-
arinnar: „Hvernig veistu hvað þú átt
að borga mikið ef þú veist ekki hvers
virði það er?“ Þetta er goðsagna-
heimur eins og sá sem rithöfund-
urinn Peter Carey hrærist í.“
Ástkona eða tálkvendi?
Einmitt þegar Butcher er að hamast
við að mála ný verk bankar upp á
fönguleg kona og biður um aðstoð.
Þar reynist vera kominn helsti ör-
lagavaldur bókarinnar, manneskjan
sem titillinn vísar öðru fremur á. Það
er Marlene Leibovitz, listaverkasali
sem er gift syni frægs listamanns,
Jacques Leibovitz, en eiginmaður
hennar hefur erft réttinn til að skera
úr um hvort verk föður hans séu ekta
eða ekki þótt hann hafi ekkert vit á
því. Butcher fellur kylliflatur fyrir
Marlene.
„Þar er nú ekki allt sem sýnist,
Rúnar. Þetta er tálkvendi sem svífst
einskis til þess að ná markmiðum sín-
um, sem reyndar er ekki alveg ljóst
hver eru en virðast helst tengjast
markaðssetningu listaverka. Hún
birtist sem frelsandi engill, eins og
fyrir tilviljun, en ég hef enga trú á að
um tilviljun hafi verið að ræða.“
„Þetta virðist þó vera alvöru ást-
arsamband.“
„Það er spurning, hún verður nú
ansi leið þegar maðurinn hennar
kemst að öllu saman og ákveður að
skilja við hana. Og þó að þau séu sögð
elskast ótt og títt er engin erótík í
frásögninni, okkur er sagt að þau séu
elskendur en við fáum voða litla til-
finningu fyrir því.“
„Hún ráðskast vissulega með
Butcher, en hún virðist líka vera að
vinna í þágu hans með því að koma í
kring sýningu á verkum hans í Japan
og fá auðugan listaverkasafnara til
þess að kaupa hana upp. Það er hún
sem endurhæfir hann í rauninni.“
„Þú gleymir því að hún er glæpa-
maður, kona sem stelur listaverki og
tekur þátt í svikum og prettum til
þess að skrúfa upp söluverð lista-
verka sem hefur verið átt við, dag-
setningar þeirra færðar aftur til þess
tíma þegar Leibovitz þótti vera upp á
sitt besta. Þar að auki gerir hún
Butcher að falsara.“
„Já, málin gerast býsna flókin þeg-
ar kemur að svikum sem tengjast
verkum Jacques Leibovitz og erfitt
að gera grein fyrir þeirri atburðarás
allri í stuttu máli, enda er Carey
sjálfur að basla við það í nokkrum
köflum og tekst ekki betur upp en
svo að virtir gagnrýnendur fórna
höndum.“
„Það er eins og Carey hafi vísvit-
andi sett þetta allt á flot svo að við
yrðum ringluð, ja nema kannski þeir
innvígðu, eins og annar hvor bræðr-
anna segir í sögunni. Sagan verður
jafn óreiðukennd og listaheimurinn
sem fáir utanaðkomandi virðast átta
sig á. Reyndar virðist Butcher sjálfur
ekki átta sig almennilega á honum
heldur. En allt hlýtur þetta að þjóna
þeim tilgangi að sýna okkur hvaða
lögmálum listaheimurinn lýtur, að
þar ráða skraddararnir úr Nýju föt-
um keisarans oftar en ekki ríkjum.“
Flúr eða flím?
Því verður ekki neitað að Peter Ca-
rey er mikill stílisti. Það hefur hann
sannað æ ofan í æ með sínum marg-
slungnu verkum þar sem hann
bregður sér í ýmissa kvikinda líki.
Sumir kaflarnir í Theft eru sann-
arlega kynngimagnaðir og maður les
þá allt að því dáleiddur án þess þó
endilega að hafa hugmynd um hvert
Carey er að fara í textanum. Hann
býr meira að segja til orð eða öllu
heldur orðskrípi.
„Þetta er gott og gilt hjá þér, en . .
.“
„Heyrðu, Helgi, vilt þú ekki bara
skrifa þessa grein fyrst þú ert með
þetta allt á hreinu?“
„Hva, það þýðir ekkert að vera fúll,
Rúnar, þú getur ekki drottnað yfir
sannleikanum eins og einhver Mar-
lene Leibovitz. Það sem ég vildi
benda á er að það er ekki endilega
nóg að hafa tungumálið og stílfimina
á valdi sínu.“
„Það hlýtur þó að vera ákveðið
grunnatriði fyrir rithöfund.“
„Auðvitað, en það er ekki nóg að
geta látið gamminn geisa. Það verður
líka að vera hægt að búa til persónur
af holdi og blóði.“
„Ja, í þeim ævintýralega heimi
sem Carey býr til er ekki endilega
gerð krafa um að persónurnar
stökkvi í fangið á manni eins og í
hreinræktuðu raunsæi. Hér er rými
fyrir staðlaðar týpur eins og beiska
listamenn, tálkvendi og afstyrmi.“
„Bækur Faulkners eru goðsagna-
kenndar en samt nær hann að dæla
svo miklu blóði í persónur sínar að
þær verða dýpri en guð má vita hvað.
Það er að vísu ekki sams konar blóð
og rennur í æðum þínum!“
„Ég er ekki viss um að heimur
Faulkners og heimur Careys lúti
sömu lögmálum þó að báðir séu upp-
teknir af fortíðinni í nútíðinni. Það er
meiri leikur í verkum Careys.“
„Carey notar nú fræg einkunn-
arorð frá Faulkner í Kelly-sögunni.“
„Ég sé ekki hvað Faulkner kemur
þessu við. Það væri nær að bera hann
saman við ástralska höfundinn Pat-
rick White sem sjálfur skrifaði bók
um málara og var eins og Carey afar
upptekinn af því hvað það þýddi að
vera Ástrali. Ef þér væri sama þá
ætla ég freista þess að ljúka við þessa
grein, yðar náð.“
„Reyndu það bara án mín.“
Meining eða upplifun?
Það er erfitt að átta sig á því hvað
Carey vill með þessari sögu. Hér hef-
ur hann búið til söguþráð sem hefði
sómt sér í sakamálasögu, með þjófn-
aði, svikum og meira að segja morði,
en reynir jafnframt að reiða fram flúr
fagurbókmenntanna. Hvað vill hann
eiginlega með þessu öllu? Er þetta
einhver persónuleg þörf listamanns-
ins fyrir að gera grein fyrir starfs-
aðstöðu sinni? Það hefur jú verið
bent á að sumt sé sjálfsævisögulegt í
þessari sögu, svo sem fæðing-
arstaður Butchers í Bacchus Marsh,
aldur hans, skilnaðurinn, staða hans
sem listamanns og mælskan, svo ekki
sé minnst á hugleiðingarnar um
menningarlega stöðu Ástralíu, minni-
máttarkenndina og heimóttarskap-
inn.
„Að mínu mati þarf höfundur ekki
að vilja neitt sérstakt með sögu sinni.
Ég þarf enga sérstaka meiningu með
sögu, frekar upplifun. Stíllinn einn
getur dugað.“
„Upplifun. Þá þarftu að vera á
sömu bylgjulengd og Carey og mig
grunar að hún sé ekki allra. Allar
þessar furður, allar þessar flækjur, ja
ég varð bara ringlaður á þessu oft á
tíðum. Fannst eins og þetta væri allt
saman svo gervilegt, skrautlegar um-
búðir utan um frekar hversdagslega
hluti.“
„Allar bækur eru tilbúningur. Öll
list er gervi. Það er verið að búa til
einhvers konar eftirlíkingu af veru-
leikanum.“
„Sumir skrumskæla hann nú,
framandgera hann eins og það heitir í
fræðunum.“
„Já, en þeir eru samt háðir veru-
leikanum. Hann er rásmarkið.“
„Þá finnst mér Carey oftar en ekki
vera að skrumskæla veruleikann án
þess að vilja nokkuð meira með því
en línudansari sem fer með tilþrifum
eftir línunni í stað þess að ganga
rösklega yfir.“
„Nei, hættu nú, Carey er meistari
sjónhverfinganna og sjónhverfingar
eru áhugaverðar út af fyrir sig, þær
þurfa ekkert innihald, engan boð-
skap, enga útpælda meiningu.“
„Skiptir þá engu máli hvort það er
eitthvert vit í því sem Carey segir?“
„Ja, það má nú sjá að hann hefur
aflað sér upplýsinga karlinn. Hann
passar sig á að þakka öllum innvígðu
spekingunum, heil síða aftast þar
sem hann telur þá upp svo við höld-
um nú ekki að þetta sé bara vel skrif-
að bull.“
Ástarsaga eða listasaga?
Peter Carey hefur sent frá sér nýja
skáldsögu, Theft – A Love Story, og
hefur enn á ný verið tilnefndur til
Booker-verðlaunanna. Í þessari
nýju sögu er listaheimurinn við-
fangsefni hans og eins og fyrri dag-
inn er textinn fullur af furðum.
Reuters
Peter Carey Nýja bókin hans, Theft – A Love Story, er á köflum svo óreiðukennd að gagnrýnandi Washington Post
fann sig knúinn til að spyrja: „What the hell is going on?“ Myndin var tekin þegar Carey hlaut Bookerinn 2001.
Höfundar fást við ritstörf
og bóklestur.
» „Þá finnst mér Ca-
rey oftar en ekki vera
að skrumskæla veru-
leikann án þess að vilja
nokkuð meira með því
en línudansari sem fer
með tilþrifum eftir lín-
unni í stað þess að
ganga rösklega yfir.“