Lesbók Morgunblaðsins - 21.04.2007, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 21.04.2007, Blaðsíða 5
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 21. APRÍL 2007 5 var á þessum tíma í Strengjasveit Ernst Druc- kers og drýgði tekjurnar með því að selja hrein- lætisvörur. Strengjasveitin var eingöngu skipuð gyðingum, og mátti aðeins halda tónleika fyrir aðra gyðinga. Launin nægðu hvergi til að fram- fleyta fjögurra manna fjölskyldu, þrátt fyrir aukapeningana fyrir sápusöluna. Heinz Edel- stein vann því að því öllum árum að koma fjöl- skyldunni í burtu. Haustið 1937 fór Lúðvík Guðmundsson, þá- verandi skólastjóri Handíðaskólans, til Ham- borgar, meðal annars til að svipast um eftir kennurum fyrir skólann. Það gerði hann að beiðni Ragnars í Smára en Ragnar var einn af postulunum tólf sem staðið höfðu að stofnun Tónlistarfélagsins, sem rak í raun Tónlistar- skólann í Reykjavík. Heinz Edelstein var stadd- ur í Hamborg þetta haust og frétti af þessum manni sem héldi uppi spurnum um sellóleikara. Hann skundaði til fundar við hann vopnaður sellóinu sínu og eintaki af doktorsritgerðinni, sem fjallaði um skoðanir Ágústínusar kirkju- föður á tónlistinni. Hann var ráðinn á staðnum – án þess að pakka upp hljóðfærinu, og ritgerðin var ólesin. Ekki mun Edelstein hafa litist á blikuna þeg- ar hann kom hingað í svartasta skammdeginu í desember árið 1937 og hann reyndi hvað hann gat að fá vinnu annars staðar. Hann fór aftur til Þýskalands árið eftir, en ástandið þar hafði heldur versnað en hitt. Hann hélt aftur til Ís- lands og fljótlega sendi hann eftir fjölskyldu sinni, konu sinni Charlotte, sem sjálf var með doktorspróf í hagfræði og sonunum Wolfgang og Stefáni. Fyrst eftir að þau fluttust hingað hokruðu þau í íbúð sem Ragnar í Smára hafði útvegað þeim fullri af sápukössum í húsgagna stað, sem óneitanlega var kaldhæðnislegt fyrir gamla sápusalann. Eins og fyrir kraftaverk tókst systur Charlotte að koma búslóð þeirra í skip og þannig gátu þau fljótlega komið sér upp vistlegu heimili. Edelstein kenndi fyrst um sinn sellóleik og kammertónlist við Tónlistarskólann. Hann varð einnig áberandi sem fremsti sellóleikari þjóð- arinnar og spilaði víða, ýmist í litlum kamm- erhópum eða í hljómsveitum og þá var hann jafnan leiðari sellóanna. Fljótlega fór hann að finna fyrir því að kennslu vantaði fyrir yngri nemendur og undir stríðslok fékkst leyfi Tón- listarfélagsins til að stofna deild við Tónlistar- skólann ætlaða þeim. Upp úr þeirri deild spratt síðan hugmyndin að Barnamúsíkskólanum því aðsókn að þessum tónlistarforskóla var framar öllum vonum. Heinz Edelstein tók þá á það ráð að ferðast til Þýskalands og Austurríkis til að kynna sér svipaða skóla í þessum löndum og hugmyndafræði þeirra. Barnamúsíkskólinn, sem síðar fékk nafnið Tónmenntaskóli Reykja- víkur, var stofnaður árið 1952 af dr. Heinz Edel- stein. Þetta var algert brautryðjandastarf hér á landi. Fyrst um sinn voru aðeins tveir kennarar við skólann, Edelstein og Róbert Abraham Ott- ósson. Þessi skóli var lengi vel eini tónlist- arskólinn ætlaður börnum á Íslandi og stór hluti íslenskra tónlistarmanna og tónlistar- áhugamanna hefur gengið í þennan skóla, sem sonur hans Stefán hefur stýrt með glæsibrag um áratuga skeið. Heinz Edelstein leist ekki á blikuna í upphafi dvalar sinnar hér, en svo fór að hann bast land- inu sterkum böndum. Hann tók upp á því, sem innlendum mönnum hefur líklega sumum þótt einkennilegt, að fara um landið fótgangandi og festi þannig ást á landinu. Honum auðnaðist þó ekki að búa á Íslandi til æviloka, eins og hann þó helst vildi. Af heilsufarsástæðum þurfti hann að flytja í mildara loftslag og árið 1957 fór hann aftur til Freiburg í Þýskalandi. Hann hafði áform um að flytja annaðhvort til baka til Ís- lands eða til Ísraels, en honum entist ekki aldur til þess, lést árið 1959, aðeins 57 ára að aldri. Victor von Urbantschisch – annar doktor í tónvísindum Franz Mixa hafði séð þjóðinni fyrir ótal tónlist- armönnum á meðan hann dvaldi hér og átti eftir að halda því áfram löngu eftir að hann hvarf héðan. Einn þeirra var Victor von Urbantsch- isch, doktor í tónvísindum og hljómsveitarstjóri, sem fluttist hingað árið 1938. Eiginkona hans, Melitta, sem einnig var hámenntuð kona, var af gyðingaættum og því var vistin í Austurríki að verða óþolandi. Hann tók því fegins hendi boð- inu um stöðu fjarri evrópska brjálæðinu. Þegar hingað kom tók hann við störfum Mixa á öllum vígstöðvum tónlistarinnar, kennslunni í Tónlist- arskólanum og hljómsveitarstjórn, en auk þess varð hann fljótlega organisti og kórstjóri við Landakotskirkju og gegndi þeirri stöðu til dauðadags. Hann var auk þess tónskáld, en hér á landi hafði hann lítinn tíma til að sinna því og því eru flest verka hans frá árunum fyrir 1938. Victor von Urbantschisch breytti rithætti á nafni sínu fljótlega eftir komuna til Íslands í Victor Urbancic, til að innfæddir ættu auðveld- ara með að lesa úr því og bera rétt fram. Urbancic hafði lokið doktorsprófi aðeins 22 ára gamall og lokaritgerð hans um són- ötuformið í verkum Brahms er enn talin und- irstöðurit um efnið þótt langt sé um liðið. Eftir að hann lauk námi gegndi hann stöðu hljóm- sveitarstjóra við ýmis fræg óperuhús, í Mainz í Þýskalandi, í Belgrad í Serbíu og Graz í Aust- urríki. Hann kenndi auk þess píanóleik og hljómfræði við Tónlistarháskólann í Graz. Ekk- ert benti því til annars en að hans biði glæstur ferill á hinum ýmsu sviðum tónlistarinnar í Austurríki, þegar fótunum var kippt undan þessu öllu með nasismanum, því þótt Urbancic væri sjálfur kaþólskur var kona hans Melitta af gyðingaættum. Það var sérstök gæfa fyrir okkur að fá hann hingað, enda gekk hann strax í öll möguleg störf í tónlistinni, rétt eins og Fanz Mixa fyr- irrennari hans hafði gert. En óneitanlega leitar stundum á mann hvernig líðan þessara spren- glærðu kúltúrmanna hefur verið hér á landi fyrst eftir komu þeirra hingað. Hér var ekkert til, ekki almennileg hljómsveit, ekkert tónleika- hús og raunar ótrúlegt að það skuli fyrst núna standa til bóta, nærri 70 árum síðar. Sjálfur átti hann þátt í að koma hljómsveitinni til manns. Þegar Victor Urbancic kom til landsins var nærri engin hefð fyrir blönduðum kórum á Ís- landi. Ákaflega sterk karlakórahefð olli því að varla fékkst nokkur karlmaður í blandaðan kór en vandamálið gjarnan leyst með því að manna karlaraddir á síðustu stundu með heilu karla- kórunum; t.d. voru karlaraddir Þingvallakórs- ins á Alþingishátíðinni 1930 fengnar með því að karlakórinn Fóstbræður gekk til liðs við hann í heilu lagi. Þessu breytti Urbancic. Fyrsta stóra verkefni hans eftir komuna hingað var að stjórna Hljómsveit Reykjavíkur ásamt rúmlega 50 manna kór á hátíðartónleikum á 20 ára full- veldisafmæli landsins 1938. Tíminn til æfinga var mjög stuttur og efnisskráin var að miklu leyti verk eftir íslensk tónskáld, sungin á ís- lensku. Hann þurfti því bæði að læra verkin og framburð tungumálsins. Þarna lagði hann grunninn að því sem koma skyldi og hann átti eftir að æfa og flytja ótrúlegustu verk. Árið 1943 æfði hann stytta útgáfu af Jóhann- esarpassíunni eftir J.S. Bach og í ofanálag fékk hann þá snjöllu hugmynd að setja Passíusálma Hallgríms Péturssonar og sálma ýmissa ann- arra íslenskra 17. aldar skálda við verkið. Það hefur verið ærin vinna að fella textana að verk- inu, auk þess að skrifa út alla parta, en þetta gerði Urbancic allt saman og vann við það fá- heyrt þrekvirki. Hann stjórnaði fyrstur manna ótrúlega mörgum perlum tónbókmenntanna með kór og hljómsveit hér á landi. Þetta gerði hann allt með lítilli og ófullkominni hljómsveit og fyrstu árin með alls óvönu söngfólki. Og hafði auk þess fulla kennslu við Tónlistarskól- ann. Árið 1953 var Urbancic ráðinn kór- og hljóm- sveitarstjóri Þjóðleikhússins nýja en hafði áður stjórnað tónlistarflutningnum í Nýjársnóttinni við opnun þess 1950 og frægri uppfærslu á Rigoletto Verdis 1951. Þetta var gert í óþökk Tónlistarfélags Reykjavíkur, sem hafði staðið fyrir komu hans til landsins 15 árum áður og vildi sitja eitt að kröftum hans. Um hríð stóð nokkur styr um þetta milli þjóðleikhússtjóra og Tónlistarfélagsins og tók sinn toll af Urbancic, því hann mun hafa tekið þetta nærri sér. Hann hafði starfað við virt óperuhús í Evrópu áður en hann kom hingað og greinilegt að hann hafði ást á listforminu og einlægan áhuga á að starfa hjá húsinu. Ekki verða þessar deilur raktar hér frekar, en þær virðast hafa verið nokkuð harðar og stóryrði fuku á báða bóga. Victor Urbancic varð ekki langlífur maður. Hann lést fyrir aldur fram á föstudaginn langa árið 1958 eftir tuttugu ára veru hér á landi, að- eins 54 ára gamall og hafði þá skilað drjúgu ævi- verki. Breytingarnar sem urðu við komu þessara þriggja manna voru gagngerar. Allt í einu var kennaralið Tónlistarskólans aukið með þremur hámenntuðum tónlistarmönnum og skólinn því skyndilega orðinn eins og þýskur tónlist- arháskóli i hæsta gæðaflokki, því auk þeirra þremenninganna bættist Björn Ólafsson í hóp- inn haustið 1939 og Árni Kristjánsson var einn af helstu píanókennurum skólans. Íslenskir tón- listarmenn á miðjum aldri hafa allir notið góðs af kröftum þessara snillinga. Öll upprennandi tónskáld þjóðarinnar sóttu tíma í tónsmíðum, tónfræði og/eða tónlistarsögu hjá annaðhvort Victori Urbancic eða Róbert Abraham eftir að hann fór að kenna við Tónlistarskólann. Heinz Edelstein æfði hljóðfæraleikarana í kamm- ertónlist auk þess sem hann kenndi á selló, og sá svo til þess að næsta kynslóð fengi menntun við hæfi frá blautu barnsbeini. Strax eftir síðari heimsstyrjöldina fóru síðan að koma hingað menn sem voru á annars konar flótta. Evrópa var í rústum eftir stríð og þá sér- staklega hin þýskumælandi lönd. Hér var hins vegar mikil uppbygging á öllum sviðum og Ís- land líka einn helsti áningarstaður allra sem flugu yfir Atlantshafið. Hér héldu því margar af skærustu stjörnum tónlistarheimsins tónleika. Við munum skoða þessi ár nánar í næstu grein.  Bjarki Bjarnason: Tónlist og tónlistarmenn á Íslandi, Sin- fóníuhljómsveit Íslands, Saga og stéttartal, Reykjavík: Sögu- steinn, 2000. Bjarki Sigurbjörnsson: Tónlist á Íslandi á 20. öld: Árin 1930– 60, http://www.ismennt.is/not/bjarki/Phd/Sidur/11– 26.html. Eggert Þór Bernharðsson: Saga Reykjavíkur, Borgin, 1940– 1990, Fyrri hluti, Reykjavík: 1998. Félag íslenzkra hljómlistarmanna 50 ára, Tónamál, nr. 15, Reykjavík: 1982. Guðrún Egilson: Spilað og spaugað: Rögnvaldur Sigurjónsson leikur af fingrum fram, Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1978. Guðjón Friðriksson: Saga Reykjavíkur, Bærinn vaknar, 1870– 1940, síðari hluti, Reykjavík: Iðunn, 1994. Gunnar Egilson: Saga Sinfóníuhljómsveitarinnar: sjá vef hljómsveitarinnar; http://sinfonia.is/de- fault.asp?page_id=2047. Páll Kr. Pálsson: Tónlistarsaga, ágrip. Hafnarfjörður, 1983 Úr greinasafni Morgunblaðsins: Árni Heimir Ingólfsson: Á flótta undan hakakrossinum 1. hluti, Victor Urbancic, Les- bók Morgunblaðsins, 7.7. 2001. Á flótta undan hakakrossinum 2. hluti, Heinz Edelstein, Les- bók Morgunblaðsins, 14.7. 2001. Á flótta undan hakakrossinum 3. hluti, Róbert Abraham Ott- ósson, Lesbók Morgunblaðsins 21.7. 2001. Victor Urbancic; minningargreinar 10. apríl og 27. nóvember 1958. Heinz Edelstein, minningargrein 8. nóvember 1959. Róbert Abraham Ottósson, minningargrein 20. mars 1974. Hávar Sigurjónsson: Tónmenntaskóli Reykjavíkur 50 ára; 16. apríl 1992. Þór Jónsson: Á valdi örlaganna: Æviminningar maestro Sig- urðar Demetz óperusöngvara. Reykjavík: Iðunn, 1995. Heinz Edelstein Victor Urbancic Róbert Abraham OttóssonLjósmynd/Jón Kaldal hámenning » Íslendingar högn- uðust vel á því stríði sem nefnt hefur verið heimsstyrjöldin síðari og háð var á árunum 1939– 1945. Hins vegar er ekki víst að allir geri sér grein fyrir því hversu fjöl- breyttur sá gróði var né hinu að hann tók að ber- ast hingað nokkru fyrir stríð; hingað komu þrír hámenntaðir tónlist- armenn, allir á flótta und- an vitfirringu nasismans á síðustu árunum fyrir stríð, og auðguðu íslenskt tónlistarlíf stórkostlega.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.