Lesbók Morgunblaðsins - 02.06.2007, Blaðsíða 2

Lesbók Morgunblaðsins - 02.06.2007, Blaðsíða 2
Allt fer þetta einhvern veginn Eftir Sigtrygg Magnason naiv@internet.is H ver er staðan? var spurt í lítilli auglýsingu í Frétta- blaðinu á þriðjudaginn en þá hafði slæðst inn gömul auglýsing frá Vísi um kosn- ingavefinn 2007. Þá rifj- aðist upp fyrir mér að það voru kosningar fyrir nokkrum dögum. Síðan hefur margt gerst: stjórnin hefur haldið, stjórnin hefur fallið, Framsókn hefur unnið, Framsókn hef- ur tapað, Jón Sigurðsson hefur hætt, Guðni Ágústsson hefur vitnað í Njálu, Guðni Ágústsson hefur orðið formaður, Guðni Ágústsson. Ég var spurður um daginn hvort ég sakn- aði þess að vinna ekki á fjölmiðli þegar stjórnarmyndunarviðræður stóðu yfir. Ég sagði nei. Kannski hafði ég bara farið á mis við spennuna í því á þessum árum sem ég starfaði á fjölmiðlum. Reyndar voru aldrei neinar beinar stjórnarmyndunarviðræður, það var bara Sjálfstæðisflokkur og Fram- sókn í ríkisstjórn og R-listinn í borgarstjórn. Einu markverðu hlutirnir sem gerðust í ís- lenskri pólitík áttu sér stað þegar ég fór í frí: Johnsen-málið og þá ekki síður þegar forsetinn neitaði að skrifa undir fjölmiðlalög- in. Hver er staðan? spurði Vísir. Jú, herra Vísir, það er gaman að segja frá því að það er komin ný ríkisstjórn. Það gekk mikið á. Framsókn var sátt og Framsókn var ósátt. Guðni dró meira að segja upp Njálu og líkti sjálfstæðismönnum við Mörð Valgarðsson, fyrsta spunameistara Íslandssögunnar. Þetta er líklega það eina sem framsóknarmenn hafa sagt um menningarmál í 12 ár. Hver var þá Framsóknarflokkurinn í þess- ari Njálufléttu? Líklega Höskuldur Hvíta- nesgoði. Hver var þá Njáll? Hann hlýtur að hafa verið í útlöndum. Æi, þetta er flókið. Kannski var þetta frekar Rauðhetta: Fram- sókn litla trítlar út í skóg að hitta ömmu D. Á leiðinni hittir Framsókn Samúlfinn sem segir henni að slappa bara af og tína blóm handa ömmu D. Skýst svo á undan og étur ömmu. Þá lýkur líka samlíkingunni. Úlfurinn og amma lifa hamingjusöm saman til ævi- loka. Rauðhetta fer á barinn, dettur í það og kynnist veiðimanni. Þau eru saman í fjögur ár. Allavega. Þegar horft verður til baka til þessara stjórnarskipta eru líklega tvær myndir eft- irminnilegastar. Annars vegar er það koss formannanna Geirs Haarde og Ingibjargar Sólrúnar og hins vegar er það myndin af Guðna Ágústssyni í bílnum sínum þar sem hann ræðir við fréttamenn. Kossinn, já, kossinn. Erum við þá ekki komin í annað ævintýri? Fyrir löngu síðan var glæsileg prinsessa sem ríkti í Reykjavík. Síðan kom galdranornin í heimsókn, lagði á hana álög um að hún myndi falla í dásvefn og sofa þar til fagur prins myndi kyssa hana. Þetta var einhvern veginn svona og nornin var minnir mig alveg örugglega Oddsson. Þá kemur til sögunnar ungur og fagur prins, hálfnorskur af því allir prinsar eru hálfnorskir, og brýst yfir þyrnigerðið sem hóf sig hátt. Kyssir prinsessuna. Allt er þetta yndislegt. Hver er staðan? spyr Vísir enn og kosn- ingarnar eru búnar. Staðan er ágæt. Þannig séð. Það er erfitt að vera í pólitík. Fólk þarf bæði að vera klókt og að geta leikið leikinn í fjölmiðlunum. Össur Skarphéðinsson segir Steingrím J. Sigfússon hafa útilokað vinstri- stjórn, meðal annars með því að heimta af- sökunarbeiðni frá Jóni Sigurðssyni vegna auglýsinga ungra framsóknarmanna þar sem hann var í hlutverki netlöggu. Það minnir á enn eina klassíkina í íslenskri menning- arsögu, af því Thorbjörn Egner er sann- arlega íslenskur. Í þessari fléttu er Stein- grímur frænka stödd á heimili Framsóknar en ljónið liggur á fleti sínu. Steingrími var rænt af Framsókn og átti að sinna heim- ilisstörfum en lætur illa að stjórn. Framsókn skilar því Steingrími frænku. En örlögin leiða þau saman að nýju í stjórnarandstöðu því eins og við munum þá giftast Kasper og Soffía. Þetta er fer allt vel. Að lokum. Það er eins með þessa hluti og aðra: allt fer þetta einhvern veginn. Úti er ævintýri. Geir er undir stýri. Guðni úti í mýri. Morgunblaðið/Sverrir Geir og Ingibjörg á Þingvöllum „Hver er staðan? spyr Vísir enn og kosningarnar eru búnar. Staðan er ágæt. Þannig séð. Það er erfitt að vera í pólitík. Fólk þarf bæði að vera klókt og að geta leikið leikinn í fjölmiðlunum.“ FJÖLMIÐLAR » Í þessari fléttu er Stein- grímur frænka stödd á heimili Framsóknar en ljónið liggur á fleti sínu. Steingrími var rænt af Framsókn og átti að sinna heimilisstörfum en lætur illa að stjórn. Framsókn skilar því Steingrími frænku. En örlögin leiða þau saman að nýju í stjórnarandstöðu því eins og við munum þá giftast Kasper og Soffía. 2 LAUGARDAGUR 2. JÚNÍ 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Gunnar Hersvein gunnars@hi.is ! Nýtt og betra er algengt slagorð í auglýsingum. Nýtt og betra tjald! Nýtt og betra appelsín, ný og betri bifreið, ný og betri verslun, nýr og betri sími! Nýtt og betra kerfi! Nýtt og betra líf! Nýjasta nýtt er ný og betri ríkisstjórn sem boðar nýtt hug- arfar, ný vinnubrögð og segir að breyttir tímar kalli á nýjar lausnir. Ný og betri rík- istjórn boðar stöðugleika, gæði, sveigj- anleika, fjölbreytni og að gera gott sam- félag enn betra. Nýir þingmenn eru með nýtt og betra mjöl í pokahorninu! Slagorð- inu nýtt og betra er í raun stefnt gegn endurtekningunni og kyrrstöðunni. Á nýju og betra Alþingi á fimmtudaginn tókust nýir þingmenn á í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra undir nýjum tjöldum og mátti þar greina rökræðu um hvort sáttmáli ríkisstjórnarinnar væri nýr og metnaðarfullur eða gömul lumma. Kyrrstöðustjórn sagði einn ræðumanna. Sannleikurinn er sá að við vitum ekkert um hvert Sjálfstæðisflokkurinn og Sam- fylkingin eru að fara sagði formaður Framsóknarflokksins og bætti við að Sjálfstæðisflokkurinn væri á breyting- arskeiði. En er ekki bara gott að breytast? Sex af hverjum tíu kjósendum í nýrri könnun líst a.m.k. vel á nýja ríkisstjórn! Stjórnarliðar kepptust í umræðunum um stefnuræðuna við að varpa ljósi á nýja frjálslynda umbótastjórn og nýmæli í um- hverfismálum og jafnréttismálum. Rætt var um nýsköpun, ný svið í samkeppni við önnur markaðssvæði, nýtt matskerfi á ör- orku, ný tækifæri til náms, nýjan sæ- streng og nýja hornsteina í íslenskri utan- ríkisstefnu. Nýjar og betri siðareglur. Stjórnarandstæðingar töluðu hins vegar sumir um gamalt vín á nýjum belgjum. Stjórnarandstæðingurinn Guðni sagði að engar sögulegar sættir hefðu átt sér stað milli Sjálfstæðisflokks og Samfylk- ingar eins og Ingibjörg heldur fram. Hann sagði að Ingibjörg hefði aðeins étið saltan grautinn sinn. Samfylkingin gafst upp sagði Steingrímur en meginmark- miðið er að skapa samfélag þar sem fólki líður vel sagði Geir. Spyrja má hvort umræður á Alþingi verði nýjar og betri? Umræðan var fyr- irsjáanleg sagði Jóhanna Vigdís frétta- maður eftir umræðuna. Og þó! Greina mátti nýjan tón hjá nokkrum nýjum þing- mönnum eins og Guðfríði Lilju Grét- arsdóttur sem flutti einarða ræðu um um- hverfismál og vitnaði í Jóhönnu Jóhannsdóttur í Haga en Þjórsá rennur fyrir neðan túnið hennar í Þjórsárdal. Einnig má nefna nýja fulltrúa eins og Ólöfu Nordal, Guðbjart Hannesson, Höskuld Þórhallsson og Katrínu Jak- obsdóttur sem vitnaði í John Stuart Mill og minnti á virðingu fyrir skoðunum ann- arra. Ef til vill verður þetta bæði ný og betri ríkisstjórn og stjórnarandstaða – þrátt fyrir gamalkunna takta í umræðunum. Það felst mikil ábyrgð í því að vera stjórn- málamaður og huga að heill og hamingju almennings. Að geta lyft sér yfir stund- arhagsmuni! Ingibjörg nefndi t.d. að Ís- land ætti að vera friðflytjandi í samfélagi þjóðanna og Þórunn að landið eigi að vera í fararbroddi þjóða heims í umhverf- ismálum. Nýja og betri tóna mátti því þrátt fyrir allt greina undir yfirborðinu í umræðun- um um stefnuræðuna. Ný og vonandi betri ríkisstjórn og stjórnarandstaða er tekin við! Nú verða betri fjölmiðlar að standa sig á kjörtímabilinu og gæta hags- muna almennings. Umfram allt þurfa nýir og betri kjósendur að láta að sér kveða, taka þátt í lýðræðislegri umræðu og mót- mæla ef þeim er misboðið! Nýtt og betra Alþingi UPPHRÓPUN Lesbók Morgunblaðsins Hádegismóum 2, 110 Reykjavík, sími 5691100, Útgefandi Árvakur hf. Ritstjórnarfulltrúi Þröstur Helgason, throstur@mbl.is Auglýsingar sími 5691111 netfang augl@mbl.is Bréfsími 5691110 Prentun Prentsmiðja Morgunblaðsins

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.