Lesbók Morgunblaðsins - 02.06.2007, Page 10

Lesbók Morgunblaðsins - 02.06.2007, Page 10
10 LAUGARDAGUR 2. JÚNÍ 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Önnu Björk Einarsdóttur abe3@hi.is Þ að hefur enginn strákur tal- að um mig sem stúlkuna sína. Oh, ég veit allt um femínisma og að konur eru ekki eign mannsins sem þær er\u með og að það er brot gegn jafnrétti að vísa til þeirra sem slíkra. En, Ó! Bara ef einhver (ókei, Michael) myndi segja að ég væri stúlkan hans! (Áfram prinsessa, bls.165). Þar síðasta laugardag birti Lesbókin grein Jóns Yngva Jóhannssonar „…ég er ekki fót- gönguliði“ þar sem nýútkomin bók Sigurðar Gylfa Magnússonar, Sögustríð, var gagnrýnd. Í þeirri grein komu fram áhugaverð viðhorf sem mér finnst ástæða til að fjalla um. Þrátt fyrir að Sigurður Gylfi hafi svarað Jóni Yngva í síðustu Lesbók með greininni „Við erum öll fótgönguliðar…“ þá ætla ég að svara grein Jóns Yngva óháð bók Sigurðar Gylfa og svari hans. Í grein Jóns Yngva komu fram viðhorf til fræða sem eru nokkuð einkennandi fyrir vest- ræna akademíu nútímans, þeirri sömu og Sla- voj Žižek hefur sagt að firri sig allri ábyrgð á eigin gjörðum eða aðgerðarleysi með kaldhæð- inni fjarlægð. Hann vitnar í Karl Marx sem lýsti því hvernig verkalýðurinn vissi ekki að hann ynni gegn eigin hagsmunum en gerði það engu að síður: „Þeir vita ekki hvað þeir gera en þeir gera það samt…“. Eins og er siður Žižeks þá snýr hann Marx á haus og segir að akademí- an, öfugt við verkalýðinn í dæmi Marx, viti vel hvað hún aðhafist, en hún geri það samt. Eins er farið með aðalpersónuna í bókinni Áfram prinsessa sem kom út á íslensku fyrir jólin 2006 og fjallar um fimmtán ára stelpu sem heldur dagbók um reynslu sína af því að vera bæði unglingstúlka í New York og um leið prinsessa í hinu uppdiktaða Evrópulandi Genóvíu. Stelp- an veit allt um femínisma og allt það en ó það er bara svo miklu skemmtilegra að vera prinsessa í bleikum kjól og vera boðið á ballið. Prinsessan veit að hlutverk hennar niðurlægir konur og um leið hana sjálfa sem konu en hún er samt prinsessa og hana langar til að vera það innst inni. Engar ástæður eru gefnar fyrir löngunum hennar og þrám aðrar en þær að allar stelpur langi innst inni að vera prinsessur, sem felur í sér að þær langi til að vera „stúlkur einhverra“ og þannig er það bara, af því bara. Í heimildarmynd sem gerð var um Derrida fyrir nokkrum árum spurði sjónvarpsmaður heimspekinginn hvort Seinfeld og félagarnir á kaffihúsinu væru ekki gott dæmi um afbyggj- endur. Hann spurði sem sé hvort afbygging fælist ekki í því að sitja á kaffihúsi, horfa á heiminn, glotta og segja: „Vá hvað þetta er allt mikið rugl“ en halda svo áfram að sötra kaffi og borða eplaköku eins og ekkert hefði í skorist. Derrida svaraði að hann hefði aldrei séð Sein- feld en það sem sjónvarpsmaðurinn lýsti ætti ekkert skylt við afbyggingu og að hann ráð- legði fólki að lesa meira frekar en að horfa á sjónvarpið. En kannski er ekki nema von að sjónvarpsmaðurinn hafi spurt heimspekinginn að þessu, því afbyggingin í Seinfeld er ef til vill ekki svo ósvipuð þeirri sem menntamenn beita gjarnan. Hina vestrænu, vinstrisinnuðu, frjáls- lyndu póstmódern-akademíu nútímans ein- kennir nefnilega þessi sama kaldhæðna fjar- lægni og gerði Seinfeld að einu af táknum Clinton-tímans, tíunda áratugarins, og um leið afar vinsælan. Með kaldhæðnu glotti fjarlægist akademían það sem hún í raun ástundar, firrir sig ábyrgð á því hvernig hún styður opinberar hugmyndir, hefðir og strúktúra í verki með því að þykjast gagnrýna þær á öðru plani með ein- hverskonar dólgaútgáfu af afbyggingu, útvatn- aðri og bitlausri. Þessi kaldhæðna afstaða er það sem gerir fólki mögulegt að halda áfram þrátt fyrir að vita betur og hún gegnir afar mikilvægu hlutverki í að viðhalda óbreyttu ástandi. Akademískar prinsessur Gott dæmi um kalhæðni akademíunnar eru fræðimenn sem játa því hiklaust að yfirlitsrit séu nú oft ekki merkilegur pappír og að bók- menntagagnrýni í Kastljósi, það er þrettán og hálf stjarna á fimm mínútum, eigi lítið skylt við bókmenntir og bókmenntafræði, en gangast engu að síður við því „bókmenntaformi“ sem þeim er boðið. Þá gætu þeir allt eins verið sam- mála því að í raun sé fáránlegt að keppa í bók- menntum en sitja samt í dómnefndum bók- menntaverðlauna og að það sé enn fáránlegra að sitja í nefndum sem taka sér það vald að velja þá rithöfunda sem eiga skilið að fá laun fyrir vinnu sína næstu mánuði eða ár, en sitja samt í úthlutunarnefnd ritlauna. Þeir taka þátt í að skrifa yfirlitsrit, gefa stjörnur í sjónvarpi, dæma rithöfundum laun og öðrum ekki, sitja í verðlaunadómnefndum af því að þannig er það bara, eða af því það er svo miklu skemmtilegra. Því eins og allar stelpur langar bara að fá að vera prinssessur þá vilja allir bókmenntafræð- ingar fá svolitla athygli og kannski pínu laun fyrir vinnuna sína. Þá vill almenningur fá stjörnugjöf í jólabókaflóðinu og yfirlitsrit í fermingarpakkana og bókaútgefendur vilja verðlaunamiða á bækurnar sínar og svo þarf að standa fræðilega að úthlutun ritlauna o.s.frv. Dólgaafbyggingin, eða afsökun fræðimannsins, felst þá í því að afbyggja fyrirfram hlutverk sitt, segja að það sem skipti máli sé að leika sér með hlutverkin, fara inn í þau og vinna með þau, afbyggja þau innanfrá. En þrátt fyrir alla kaldhæðnina, afbygginguna, glottið og fyr- irvarana standa afurðirnar eftir, stjörnur og yf- irlit, bleikur kjóll og glitrandi skór, verðlaun og skrum. Þeir vita hvað þeir gera en gera það samt. Ástæðan er, af því bara, þannig hefur það alltaf verið. Á þennan hátt verður afbygging að afsökun fyrir aðgerðarleysi. Afbygging hugmynda eða afhelgun eða hvað maður vill kalla það, ætti nefnilega að felast í því að rekja sig aftur eftir sögu þeirra, átta sig á því hvernig þær hafa orðið til, hvaða vald þær hafa yfir okkur til þess að hægt sé að losna undan því valdi en ekki svo hægt sé að halda áfram eins og ekkert hafi í skorist. Ef fræðimaður gerir sér fulla grein fyrir þeim annmörkum sem einkenna yfirlits- ritin, skilur að þau eru oftast einfaldanir á flóknum hlutum og að flest loka þau frekar en opna fyrir samræður, eins og umræðan um Ís- lensku bókmenntasöguna hefur sýnt svo ekki verður um villst, hvernig rökstyður hann þá þátttöku sína við ritun slíks rits? Í stað þess að taka afstöðu til yfirlitsrita fylgir Jón Yngvi þeirri lensku sem gegnumsýrir akademíuna þessa dagana og segir að vel sé hægt að vinna innan „yfirlitsformsins“ og að það geri höf- undar „best í því að gera sér takmarkanir þess og möguleika ljósa án þess að láta það stýra skrifum sínum algerlega…“ (Lesbók, 11.11.06). Og þá vaknar spurningin til hvers að gera sér grein fyrir takmörkunum og möguleikum yf- irlitsritsins ef það á ekki að hafa nein grund- vallar áhrif á yfirlitsritin, ef þeir vita vel að þeir skrifa yfirlitsrit en gera það samt? Hver er munurinn á yfirliti sem gerir sér grein fyrir takmörkunum sínum og möguleikum og því sem gerir það ekki? Eru til yfirlit sem gera sér ekki grein fyrir takmörkum sínum og mögu- leikum? Þetta sama afstöðuleysi birtist í nýrri yf- irlitsgrein Jóns Yngva um íslenskar skáldsögur ársins 2006 í Tímariti Máls og menningar. Þar fjallar hann meðal annars um ritdeilu sem átti sér stað á síðum Lesbókar Morgunblaðsins, Kistunnar og á heimasíðu Eiríks Arnar Norð- dahls, rithöfundar. Jón Yngvi kýs hins vegar að taka hluta hennar úr samhengi, þ.e. eina grein eftir mig og aðra eftir Viðar Þorsteinsson, út- gáfustjóra Nýhil og dæma út frá því. Að vanda heldur Jón Yngvi því fram að þarna sé ekkert nýtt á ferðinni, hann hafi heyrt þetta allt áður, viti það allt. Hann svarar gagnrýni minni á samstarf Nýhil og Landsbankans á þá leið að „þar birtist gömul deila í búningi sem var ekki sérlega nýstárlegur…“, að þetta sé „kunnugleg gagnrýni“, gamalkunnugt stef um tengsl pen- inga og lista (TMM, bls. 73). Hann segir svo að honum falli betur hugmyndir Viðars um að taka þátt en vita í hverju það felst. Jón Yngvi fjallar aftur á móti ekkert um svar mitt við grein Viðars þar sem ég gagnrýndi Nýhil fyrir svipaða hluti og ég gagnrýni Jón Yngva hér, ekki fyrir að taka við peningum frá banka, heldur fyrir að gera það á forsendum bankans, fyrir að taka þátt í leiknum, leika sér með hlut- verkið en alltaf innan formsins, að reyna ekki á þanþol þess, eða eins og Viðar segir: „„spila með“ öflum markaðarins“ og „smygla [sér] inn með lestinni sem brunar á forsendum sem eru ekki [þeirra]“, átta sig á þeim vandkvæðum sem felast í því að taka þátt í auglýsingu fyrir banka, en gera það samt (Kistan, 01.11.06). Að humma og ha-a er tilgangslaus gagnrýni Í kjölfar útgáfu síðustu binda Íslensku bók- menntasögunnar fór af stað umræða um inni- hald þeirra, aðallega hvað væri ekki í þeim. Um það leyti skrifaði Jón Yngvi Lesbókargrein þar sem hann lýsti aðferð sinni við ritun hennar og þar kom fram að hann teldi „hæpið að humma og ha-a og fullyrða sem minnst um ekki neitt“ og að verkefni yfirlita sé „að taka af skarið, fella dóma og taka afstöðu“. Þótt Jón Yngvi taki af skarið, felli dóma og taki afstöðu til verka og höfunda í Bókmenntasögunni þá tek- ur hann ekki afstöðu til yfirlita sem slíkra. Þess í stað hummar hann og ha-ar, talar um að gera sér grein fyrir takmörkunum og möguleikum slíkra rita. Í orðum Jóns Yngva sjálfs, sést vel það öngstræti sem dólgaafbygging leiðir til. Menn afsaka gjörðir sínar fyrir fram en fram- kvæma þær samt. Sé afbygging aftur á móti tekin alvarlega getur hún verið stórhættuleg stofnunum á borð við háskóla, bókmennta- stofnun og yfirliti. Það ætti nefnilega ekki að vera hægt að halda áfram að skrifa yfirlitssögu, að minnsta kosti ekki án þess að sú saga yrði óþekkjanleg á eftir, hvort sem það er saga bók- mennta eða annarra fyrirbæra, hafir þú áttað þig á þeim vandkvæðum sem því fylgja. En eins og raun ber vitni þá er það lítið mál með kaldhæðnina að vopni. Það er þetta sem Žižek á við með kenningum sínum um hlutverk kald- hæðninnar fyrir virkni hugmyndafræðinnar í dag. Fólk veit vel hvað það gerir en gerir það samt. Af því bara, þannig hefur það alltaf verið, virðist vera eina ástæðan. Allir eru óskaplega meðvitaðir um að það sem þeir gera er umdeil- anlegt, segir Žižek, en það sem máli skiptir er að allir eru samt að gera það. Það er hins vegar tilgangslaust að gagnrýna yfirlistrit með það að markmiði að gera þau betri, að gagnrýna þau fyrir hvað vanti í þau eins og hefð er fyrir hér á landi. Það er til- gangslaust að gagnrýna yfirlit fyrir að vera yf- irlit. Það er jafn fáránlegt og að gagnrýna bók- menntaverðlaun á þeim forsendum að margar góðar bækur hafi ekki verið tilnefndar eða að gagnrýna fegurðarsamkeppnir fyrir að í raun og veru sé ungfrú Ísland ekki sætasta stelpan á Íslandi, það sé ein miklu sætari í Árbænum. Þetta er allt vita gangslaus gagnrýni. Yfirlit eru yfirlit af því að það vantar í þau hitt og þetta, bókmenntaverðlaun eru bókmennta- verðlaun af því að besta bókin fær þau aldrei og sætasta stelpan vinnur aldrei fegurð- arsamkeppnina. Við þurfum ekki bókmennta- sögu svo við getum hafist handa við að gagn- rýna hana frekar en við þurfum fegurðarsamkeppnir til að vita að þær eru óþarfi og ættu ekki að vera til. Umkringjum vatnaskóg núna Skátar eru þykjustuhermenn. Þeir fara ekki í stríð heldur þykjast bara, þeir binda hnúta, fara í útilegur og raula gamalkunna lagstúfa við varðeld á kvöldvökum. Menningarskátar, eins og Jón Yngvi, fara ekki heldur í stríð, þeir forðast öll átök, hvetja til samræðna og spjalls innan hefðbundinna bókmenntaforma. Eins og hann segir er ekkert sjálfgefið þegar menn velja sér frásagnarform en í forminu geta búið ákveðnar hugmyndir, kvíar og flokkadrættir. Á sama hátt og stríðsyfirlýsing Sigurðar Gylfa gefur til kynna átök (þótt hann gangist ekki við því sjálfur) eru flokkadrættir og kvíar einkenn- andi fyrir Bókmenntasöguna nýju. Þar eiga sér hvorki stað samræður né átök, þrátt fyrir að höfundar komi úr ólíkum áttum, skrifi ólíkan texta o.s.frv. Aðalástæðan er sú að forminu er aldrei gefið langt nef. Menn halda sig innan þess vegna þess að þeir gera sér svo vel grein fyrir þanþoli þess og fara þess vegna aldrei út fyrir það, reyna aldrei á mörkin. Svipaða sögu er að segja af femínisma sam- tímans sem Dagný Kristjánsdóttir, sem merki- legt nokk er ein af höfundum Bókmenntasög- unnar, gerir að umræðuefni í greininni „Ljúft er að láta sig dreyma“. Þar fjallar hún um kyn- gervakenningar og hvernig þær eru nýttar í af- þreyingarmenningu. Hún tekur dæmi af kyn- gervaleikjum sjónvarpsþáttanna Beðmál í borginni og spyr hvort paródían sem átti að einkenna umfjöllun þáttanna á kynferð- ismálum gangi nokkurn tímann „lengra en buddunni gott þykir?“ Hvort þættirnir séu ekki einmitt „kynblandaðir á forsendum tísku- og afþreyingariðnaðar“ og hún segir: „Þetta er alvörumál. Hvað varð um paródíuna og upp- reisnina?“ (Ritið, bls. 56-58). Já, þetta er al- vörumál. Hvar er paródían í Íslenskri bók- menntasögu eitt, tvö, þrjú, fjögur og fimm, hvar er leikurinn? Ég finn hann hvergi. Að sama skapi saknaði ég paródíunnar, leiksins og sprellsins, sem fram að því hafði einkennt Ný- hili þegar þeir gerðu samning við banka og létu mynda sig í bak og fyrir, brosandi með Björg- ólfi. Jóni Yngva fannst hins vegar nóg að gera sér grein fyrir því að sá gjörningur vekti upp spurningar. Jón Yngvi spyr hvort verði stríð og ætli það ekki bara. Ætli ég noti ekki tækifærið og lýsi hér með yfir stríði við bókmenntafræði, eða fræði yfir höfuð, sem bugta sig og beygja fyrir markaði, stjórnvöldum og hefðum. Það er að minnsta kosti ekki jafn drepleiðinlegt og þessi kaldhæðna „ég veit þetta allt“ afstaða sem nú tröllríður öllu. Þeir bókmenntafræðingar sem sitja í dómnefndum, gefa stjörnur í Kastljósi og skrifa í yfirlitsrit eru ekki í mínu liði.  Heimildir Meg Cabot, Áfram prinsessa, þýð. Anna Lilja Jónsdóttir (Reykjavík 2006). Dagný Kristjánsdóttir, „Ljúft er að láta sig dreyma: Um fem- ínisma og fantasíur“ Ritið 2/2002, bls. 37-59. Jón Yngvi Jóhannsson, „Enn á öld glæpsins. Um skáldsögur á markaði árið 2006“ TMM 2/2007, 72-87. Jón Yngvi Jóhannsson, „Er einhver heima?“ Lesbók Morg- unblaðsins 11.11.06. Jón Yngvi Jóhannsson, „Ég er ekki fótgönguliði… Sögustríð eða samræða?“ Lesbók Morgunblaðsins 19.05.07. Viðar Þorsteinsson, „Gluggaþvottur í glerhúsum“ Kistan.is, 01.11.06. Slavoj Žižek, Did Somebody Say Totalitarianism? Five Int- erventions in the (Mis)Use of a Notion (London 2001). Slavoj Žižek, The Sublime Object of Ideology (London 1989). …nei, ég er ekki fótgönguliði, ég er skæruliði „Þeir bókmenntafræðingar sem sitja í dóm- nefndum, gefa stjörnur í Kastljósi og skrifa í yfirlitsrit eru ekki í mínu liði,“ segir grein- arhöfundur í þessu svari við gagnrýni Jóns Yngva Jóhannssonar á bók Sigurðar Gylfa Magnússonar, Sögustríð, hér í Lesbók. Grein- arhöfundur gagnrýnir harðlega kaldhæðna afstöðu fræðimanna sem segjast gagnrýnir á hlutina en gera þá samt sjálfir. Íslenska-akademían Hina vestrænu, vinstrisinnuðu, frjálslyndu póstmódern-akademíu nú- tímans einkennir nefnilega þessi sama kaldhæðna fjarlægni og gerði Seinfeld að einu af tákn- um Clinton tímans, tíunda áratugarins, og um leið afar vinsælan. Með kaldhæðnu glotti fjar- lægir akademían sig því sem hún í raun ástundar.“ Höfundur er bókmenntafræðinemi. Stríð eða kaldhæðni?

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.