Lesbók Morgunblaðsins - 30.06.2007, Blaðsíða 13

Lesbók Morgunblaðsins - 30.06.2007, Blaðsíða 13
vart prófanlegar og gildi slíkt hið sama um hag- fræðikenningar almennt. Hagfræðingurinn Mark Blaug segir ástæðuna fyrir þessu vera of- urtrú á stærðfræðileg líkön sem hvergi snerti veruleikann: „No reality please, we’re econom- ists.“ Menn stundi hagfræði hagfræðinnar vegna og verji jafnvel slíka iðju með póstmód- ernískum frösum um að veruleikinn sé hvort eð er ekki til. Hvað sem PM-isma líði þá hafi hag- fræðingar ætlað sér að læra af eðlisfræðingum hvað beitingu stærðfræði varðar en hegði sér sem hreinstærðfræðingar væru. Hrein stærð- fræði hefur ekkert með reynsluheiminn að gera en hagfræði hlýtur að eiga að vera raunvísindi. Blaug segir að frjáls markaður geti aldrei orðið til og bætir við að þetta játi kreddu- hagfræðingar með vörunum. Þeir telji sér trú um að samkeppnin í raunheimum geti verið því sem næst eins og hin fullkomna samkeppni í lík- önunum en þeim láist að segja hve mikill munur sé á raunheimum og líkani og hvernig mæla megi muninn. Blaug gefur í skyn að þetta leiði til þess að frjálshyggjuhagfræðin snerti hvergi jörðina (Blaug (1998a) og Blaug (1998b)). Þetta þýðir að sú kenning frjálshyggjumanna að frjáls markaður sé besta tryggingin fyrir sæmi- legum kjörum hinna efnaminnstu er einfaldlega ekki prófanleg! Hið sama gildir um kenningar þeirra um að frjáls markaður hljóti að skapa efnalega kjörstöðu er til lengdar lætur. Stiglitz segir að ekki sé hægt að tala um frjálsan markað nema allir markaðsgerendur hafi jafn miklar upplýsingar undir höndum en svoleiðis lagað gerist aðeins í draumaheimum líkana. Upplýsingar eru einatt ósamhverfar (asymmetrískar), allir eru jafnir en sumir eru jafnari en aðrir hvað upplýsingar varðar. Þeir sem mestar upplýsingar hafi á tilteknu sviði standi miklu betur að vígi á markaðnum en aðr- ir. Og hvaða menn eru þetta? Hverjir nema hin- ir auðugu og valdamiklu! (Houseman (2006): 52- 62 og Harvey (2005): 68). Kenning þessi kann að vera skýringin á aukinni stéttaskiptingu vest- anhafs, þeir sem mestar upplýsingar hafa geta tryggt sér æ stærri hluta þjóðarkökunnar og ýtt almúganum niður í ræsið. Svo kann upplýsingahagfræði Stiglitz að vera sama marki brennd og aðrar hagfræðikenn- ingar, hún kann að vera illprófanleg. Slíkt hið sama kann að gilda um gagnrýni Paul Krug- mans á Milton Friedman. Hann segir að Fried- man hafi vissulega verið firnasnjall hagfræð- ingur. En peningamagnskenning hans sé ekki á vetur setjandi enda hafi tilraunir til að beita henni við hagstjórn ekki gefið góða raun. Hafi ríkisstjórnir yfirleitt hætt að fara eftir for- skriftum peningamagnshyggjunnar. Til að gera illt verra hafi Friedman gert sig sekan um óheiðarleika í vörn sinni fyrir kenningunni. Krugman bætir því við að fyrir 1976 hafi enginn hlustað á Friedman en á síðustu 30 árum hafa hann og hans nótar haft mikil áhrif á hagstjórn víða um lönd. Og afleiðingarnar? Minni hag- vöxtur og litlu sem engu betri lífskjör en á blómaskeiði ríkisafskipta! Krugman telur þetta áfellisdóm yfir hinni friedmönsku hagstefnu (Krugman (2007)). Víkjum nú að öðru. Hannesi dettur ekki í hug að menn kunni að vera fylgjandi efnalegum jöfnuði vegna andúðar á því sem fornmenn nefndu „ójöfnuð“, þ.e. yfirgang. Með öðrum orðum: Hannes skilur ekki að jafnaðarmenn eru einatt andsnúnir miklum efnalegum ójöfnuði vegna þess að þeir óttast að slíkur ójöfnuður skapi auðvald. Við höfum þegar séð að versn- andi kjör fátækra bandarískra verkamanna hafa gert þá að þrælum auðjöfranna. Hefði lífs- gæðum verið jafnar skipt þar vestra þá hefði samningsaðstaða þeirra gagnvart atvinnurek- endum líklega verið mun skárri. Svo virðist sem markaðsvæðing undangeng- inna ára hafi leitt til samþjöppunar auðmagns, ekki síst á ísa köldu landi, auðvaldsparadísinni miklu. Sagt er að alþjóðleg risafyrirtæki hafi ráð lýðræðisstjórna í hendi sér. Lúti lýðræð- isríkin þeim ekki og bjóði þeim vildarkjör þá flytji þau starfsemi sína einfaldlega til landa sem bjóði betur (Martin og Schumann (1998)). Satt best að segja held ég að stórfyrirtækin ís- lensku hafi hreðjatak á landinu. Ef við breytum ekki eins og þau vilja þá geta þau einfaldlega hótað að flytja sig annað. Þess utan gætu þau keypt stjórnmálaflokka eins og hverjar aðrar sjoppur og þá yrði voðinn vís. Því er rétt að stemma stigu við valdi þeirra og þar með fara þriðju leið hinnar neikvæðu jafnaðarstefnu. Ekki hvarflar að Hannesi að velta því fyrir sér hvort mikill ójöfnuður geti ógnað grundvall- arstoðum samfélagsins. Skilur hann að ekkert samfélag fær staðist nema borgurunum finnist þeir eiga eitthvað sameiginlegt og eiga þátt í samfélaginu? En verði ginnungagap milli hinna ríku og hinna fátæku þá er voðinn vís, ekki er hægt að útiloka alvarleg átök í slíku samfélagi. Ef fram heldur sem horfir verða tvær þjóðir á Íslandi, auðþjóðin og restin. Andri Snær Magnason dregur upp napra mynd af mögu- legri framtíð þar sem auðjöfrarnir búa í víggirt- um hverfum meðan strákaskríll úr fátækra- hverfum reynir að brjótast inn og læsa klónum í góssið (Andri Snær (2006)). Hinum örfátæku finnst þeir ekki eiga þátt í samfélaginu og gefa því reglum þess langt nef. Lausn vandans er sú að fara fjórðu leið neikvæðrar jafnaðarstefnu, jafna kjörin til að koma í veg fyrir sundrung og úlfúð. Lokaorð Hvað um það, ekki verður séð að kjör manna hljóti að batna bara ef markaðsfrelsið eykst. Þeir verst stæðu búa vart við betri kjör í mark- aðsfrjálsum samfélögum en í velferðarríkjum. Það er heldur engin ástæða til að ætla að öfund ein valdi því að menn fylgi jafnaðarstefnu, jafn- aðarmenn vilja jafna kjörin, ekki metin. Skynsamur jafnaðarmaður vill láta dreifa lífsgæðum jafnar til að koma í veg fyrir vald- níðslu hinna ofurríku. Hann vill þéttriðið vel- ferðarnet til að koma í veg fyrir ónauðsynlegar þjáningar. Hann veit að það er að öllu jöfnu rétt að stuðla að efnahagslegum jöfnuði þótt fara beri gætilega í sakirnar. Ofurjöfnuður getur skaðað efnahagslífið og ekki er skárra að búa við ríkisforsjá en auðvald. Bæði eru af hinu illa.  Andri Snær Magnason (2006): Draumalandið. Sjálfs- hjálparbók handa hræddri þjóð. Reykjavík: Mál og menning. Jo Blanden, Paul Gregg og Stephen Machin (2005): Int- ergenerational Mobility in Europe and North America. Lond- on: Centre for Economic Performance. Mark Blaug (1998a): „Disturbing Currents in Modern Econo- mics“, Challenge, maí/júní. Mark Blaug (1998b): „The Problems with Formalism. Int- erview with Mark Blaug“, Challenge, maí/júní. Greg J. Duncan og fleiri (1997): „No Pain, No Gain? Inequa- lity and Economic Mobility in the United States, Canada and Europe“, í N. Keilmann J. Lyngdstad, H. Bjer og I. Thomsen: Poverty and Economic Inequality in Industrialized Western Societies. Oslo: Scandinavian University Press. Barbara Ehrenreich (2001): Nickled and Dimed. On (not) getting by in America. New York: Metropolitian Books. Anthony Giddens (1998): The Third Way. The Renewal of Social Democracy. London: Polity Press. David Harvey (2005): A Brief History of Neoliberalism. Ox- ford: Oxford University Press. Hannes Hólmsteinn Gissurarson (2007a): „Baráttumál frjáls- hyggjunnar: Jöfnuður“, Lesbók Morgunblaðsins, 24, mars. Hannes Hólmsteinn Gissurarson (2007b): Réttlæti, jöfnuður og öfund. Skírnir, vor. Gerald Houseman (2006): „Joseph Stiglitz and the Critique of Free Market Analysis Challenge“, Vol. 49, No. 2, mars/apríl 2006. John Kay (2000): dálkur án heitis í The Financial Times, 30. ágúst. Paul Krugman (2005): „Losing Our Country“, New York Tim- es, 10. júní. Paul Krugman (2007): „Who was Milton Friedman?“, New York Review of Books, 15. febrúar. Hans-Peter Martin og Harald Schumann (1998): Globaliser- ingsfellen (þýðing úr þýsku), Ósló: Gyldendal. Óþekktur (2006): „The Rich, the Poor and the Growing Gap Between Them“, The Economist, 17. júní. Karl Popper (1962): The Open Society and its Enemies. Vol- ume II. Princeton, N.J: Princeton University Press. J.J.C. Smart (1973): „An Outline of a System of Utilitarian Et- hics“, í Smart og Bernard Williams: Utilitarianism: For and Against. Cambridge: Cambridge University Press. Joseph Stiglitz (2002): Globalization and its Discontents. Harmondsworth: Penguin Books. Charles Taylor (1996): „Why Democracy needs Patriotism“, Cohen og Nussbaum (ritstjórar): For Love of Country. Boston: Beacon Press. Wieland Wagner, Andreas Lorenz (2007): „Die Rotchina A.G.“, Der Spiegel , nr. 3, 15/1. Þorvaldur Gylfason (2007): „Evrópa: Minni vinna, meiri vöxtur“, Skírnir, vor. http://en.wikipedia.org/wiki/List of countries by infant morta- lity rate (2005). jafna metin Reuters »En jafnvel þótt allt væri í himnalagi með hagvaxtarmælingar þá bjargar það ekki tilgátu Hannesar um að hagvöxtur aukist að öllu jöfnu í réttu hlutfalli við aukið markaðsfrelsi. Sú kenning skýrir ekki hvers vegna Suður-Kórea hinna miklu ríkisafskipta iðnvæddist hraðar en nokkuð annað land í sögunni. Höfundur er prófessor í heimspeki. MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 30. JÚNÍ 2007 13

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.