Lesbók Morgunblaðsins - 27.10.2007, Blaðsíða 13

Lesbók Morgunblaðsins - 27.10.2007, Blaðsíða 13
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 27. OKTÓBER 2007 13 saga húsanna Eftir Halldóru Arnardóttur h.a@ono.com Þ að var árið 1965 að ung hjón, Ragnheiður og Hafsteinn með fjögur börn, höfðu samband við arkitektinn Högnu Sigurð- ardóttur til að biðja hana um að hanna nýtt hús fyrir fjölskylduna. Hún hafði verið mikill fjöl- skylduvinur Hafsteins á æskuárum en nú var hún búsett í París, starf- andi sem arkitekt en þó með verk- efni bæði á Íslandi og í Frakklandi. Eftir að hafa skoðað hús í Reykjavík eftir Högnu sannfærðust hjónin enn frekar um kosti arkitektsins. Þetta hús var allt öðruvísi en þau höfðu áður kynnst, með steyptri innrétt- ingu í eldhúsi og inndregnum skúff- um úr gleri, innisundlaug á jarðhæð sem virtist vera hluti af húsgögnum íbúanna, hægt var að ganga lóðrétt í gegnum húsið upp í þakgarð o.s.frv. Hafsteinn og Ragnheiður voru mjög móttækileg fyrir þessum nýjungum og báðu hana um að teikna hús fyrir sig. Þau gáfu henni algjörlega frjáls- ar hendur að öðru leyti en því að helst vildu þau ekki búa við tóm og einmana herbergi þegar synir þeirra flyttu að heiman. Að byggja á trausti Aðstæðurnar voru því sérstakar strax við upphaf hönnunar hússins árið 1965. Högna hafði stundað arki- tektanám við listaháskólann Ecole Nationale Superieure des Beaux Arts í París og lokið þaðan prófi árið 1960 með viðurkenningu skólans fyrir lokaverkefnið sitt, verðlaun sem styrktu stöðu hennar og veittu henni fullgild starfsréttindi í Frakk- landi. Fljótlega opnaði hún arki- tektastofu í París, í borg sem var tákn um frjálslyndi í listum og andóf gegn alræði. Þaðan vann hún að öll- um sínum verkefnum, á Íslandi og í Frakklandi. Þessi andi sem sveif yfir borginni hafði ugglaust áhrif á Högnu þó listaskólinn sjálfur hefði haft orð á sér að vera fastheldinn og rótgróinn. Frá upphafi starfsferils síns var hún því tilbúin til að vinna með umhverf- inu og húsbyggjandanum á öllu hönnunarferlinu, mótun teikning- anna og úrvinnslu þeirra. Til að ná þessu fram voru samræður og bréfa- skipti leiðir sem hún hélt á lofti allt þar til verkinu lauk, jafnvel þó hún byggi handan hafsins. Á hinn bóginn voru Hafsteinn og Ragnheiður reiðubúin að fylgja þessum vinnu- brögðum og að kynna sér teikning- arnar það vel að þau gætu haft yf- irumsjón með byggingu hússins þegar Högna væri erlendis. Hún vann því teikningarnar frá París sem voru mjög skilmerkilegar, iðn- aðarmennirnir höfðu sjaldan eða aldrei unnið eftir slíkri nákvæmni en áhugi þeirra var ákaflega mik- ilvægur. Stoðir hefðarinnar og tjáskipti manneskjunnar Lóðin sem hjónin, þá ungur tann- læknir og hún metnaðarfullur lista- maður, höfðu keypt af sveitarfé- laginu Garðakauptúni var staðsett á Flötunum og hallaði það lítillega nið- ur brekku. Út frá þeim útgangs- punkti kom Högna með þá hugmynd að teikna húsið inn í hól. Þar sem lóðin var mishá byggði hún húsið inn í brekkuna en lækkaði gólfið enn frekar í miðju rýminu til þess að ná fram áhrifunum um skjól og hlý- leika. Stallinn, sem myndaðist þar af leiðandi, notfærði hún sér til að móta innbyggðan sófa. Til þess að ná fram þessum hug- hrifum er húsinu búið ákveðið bæj- arstæði á lóðinni, sem minnir óneit- anlega á fyrirkomulagi gamla torfbæjarins á túninu. Gengið er að húsinu upp heimreiðina og undir skyggnið. Þegar komið er inn úr for- stofunni opnast hins vegar eitt stórt, en jafnframt bjart og hlýtt, rými með tilkomumiklu frístandandi eld- stæði á miðju gólfi, sem er stoðin fyrir burðarbita hússins. Fyrir ofan þetta eldstæði vaxa burknar og fá þeir birtu frá þakglugganum sem umlýkur reykháfinn. Eiginleikar birtunnar eru leiðandi fyrir hvers konar efnisval inni í húsinu, þ.e. hvernig efnin taka við og end- urspegla birtuna þannig að jafnvægi megi ríkja milli styrkleika áferðar og skugga. Viður er í lofti, burð- arbitum og rennihurðum, steinn á gólfi, hraun (rauðasteinsmöl blönduð við steypuna) og sjónsteypa á veggj- um og stöplum húsgagna, nautshúð í handföngum eldhússkápanna og mosagrænt flauelsáklæði á setbekk. Öll taka þessi jarðefni við dagsbirt- unni og breiða úr henni og mýkja á vetri sem sumri í gegnum hina ýmsu loftglugga, gluggaræmur við loftið í stofunni og gler í hurðum. Líkt og í gömlu baðstofunni er fé- lagslegt rými hússins – eldstæði, eldhús, borðstofa, leiksvæði, stofa og bókakrókur – sem eitt. Húsgögnin teiknuð af Högnu, eins og innbyggði setbekkurinn, taka þátt í að móta þetta umhverfi. Hann þræðir með- fram föstu borðstofuborðinu og inn stofuna þannig að hann beinir íbúan- um að eldstæðinu og um leið þjónar hann þeim sem vilja taka sér bók úr bókaveggnum. Út frá pallinum fyrir ofan set- bekkinn liggja svefnherbergin. Svefnherbergi drengjanna liggja næst eldhúsi og borðstofu, tvö og tvö saman með sameiginlegu leiksvæði fyrir framan þau. Í þessum her- bergjum eru fastir veggir aðeins tveir, hinir eru færanlegir og geym- ast meðfram hliðum fataskápanna. Þessi sveigjanleiki gerði það að verkum að svefnherbergin hurfu þegar börnin fluttu að heiman. Þau sameinuðust félagslegu svæði heim- ilisins og skáparnir endurnýtast nú fyrir þarfir þess og eldhússins. Þannig uppfyllti arkitektinn óskir húseigenda. Herbergi hjónanna er aftur á móti í hinum enda hússins til móts við stofuna, og inniheldur fata- herbergi, snyrtingu og aðgangi að þvottaherbergi. Auk þessa er flísa- lögð baðlaug til hliðar við rúmið með innbyggðri sturtu felld niður í gólfið um tvö þrep en loftgluggi hleypir mjúkri birtunni niður. Eiginleikar þessara mismunandi svefnherbergja eru þannig hugsaðir út frá notagild- inu og til framtíðar. Tíminn fær að vera hluti af innivið hugmynd- arinnar sem mótar rýmin og gefur þeim þar af leiðandi annað líf. Það sem einkennir þetta einbýlis- hús, „byggt inn í hól“ og sem býður íbúunum að halla sér upp að úti- veggjum þess, er sveigjanleiki í rým- um, áferð birtunnar og mismunandi dýptir sem augað fær að leika sér að, hvort sem það er inni eða úti. Við að- komu hússins er tilfinningin sterk fyrir því að ganga í bæinn. Þegar inn er komið opnast nýr heimur mann- legs samfélags og hlýrrar birtu. Nýr heimur mannlegs samfélags Það er skemmtilegt að hugsa til þess að lítil hugmynd getur getið af sér stóra úrlausn. Hugmynd ungra hjóna um að svefnherbergi barnanna myndu endurnýtast og verða hluti af félagslegu rými húss- ins þegar þau flyttust að heiman, umbreyttist í höndum arkitektsins og varð að húsi sem nú er talið eitt af merkustu húsum 20. aldarinnar í N-Evrópu. Nú nýverið, 21. sept- ember, hlaut höfundur þessa húss, Högna Sigurðsdóttir, Heiðursorðu Sjónlistarverðlaunanna 2007 á Ak- ureyri fyrir einstakt æviframlag sitt til íslenskrar nútímabygging- arlistar. Baðstofan Í opnu miðrými heimilisins örlar á tilfinningunni fyrir gömlu baðstofunni, eldstæðið á miðju gólfi þar sem fólkið situr í kring og svefnherbergin þar fyrir innan, sem nú eru hluti af félagslegu rými heimilisins. Höfundur er listfræðingur. Ljósmynd/Kristján Magnússon Inn í hól Húsið situr inni í brekkunni og býður íbúunum að halla sér upp að sér. Einbýlishús í Garðabæ eftir Högnu Sigurðardóttur Grunnmyndin af Bakkaflöt 1 Myndin sýnir hvernig frjálsræði og sveigj- anleiki móta og virkja lífshætti íbúanna: 1 anddyri, 2 snyrting, 3 stofa, 4 eldstæði, 5 borðstofa, 6 eldhús, 7 bókakrókur, 8 hjónaherbergi, 9 baðlaug, 10 fataherbergi, 11 þvottur, 12 barnaherbergi, 13 leik- svæði, 14 bakdyr, 15 geymsla, 16 hiti, 17 vinnustofa, 18 blómareitur. Ljósmynd/Kristján Magnússon

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.