Lesbók Morgunblaðsins - 10.11.2007, Blaðsíða 4

Lesbók Morgunblaðsins - 10.11.2007, Blaðsíða 4
Eftir Árna Matthíasson arnim@mbl.is B ubbi Morthens hefur glímt við texta að segja alla ævi og ekki bara dægurlagatexta. Hann hefur lýst því, meðal annars í ævisögu sinni, hvernig skrifblinda gerði honum skólagönguna nánast óbærilega. Þrátt fyrir það náði hann þeim tökum á þeim vanda að hann telst með afkastamestu og helstu textasmiðum íslenskrar rokksögu og gerir enn betur fyrir þessi jól því smá- sagnasafnið Að kasta flugu í straumvatn er að tala við Guð eftir Bubba kemur út um þessar mundir. Bubbi segir að glíman við textann hafi verið lang- vinn og erfið en að hans viti séu erfiðleikarnir að baki. „Það vantar aldrei orð, ég er með allan heimsins orðaforða í hausnum á mér, en vandinn er að skrifa. Ég lít þó ekki á það sem erfiðleika lengur, þetta er bara eins og hvert annað verkefni sem maður þarf að leysa,“ segir Bubbi en bætir við að þó að hann sé bú- inn að ná allgóðum tökum á textaskrifum sé hann þó um fjórum sinnum lengur en meðalmaður að koma texta niður á blað. „Ég þarf að erfiða rosalega, en þetta er ekkert mál í dag, þetta háir mér ekki svo mjög, ég er búinn að koma mér yfir það marga þrösk- ulda.“ Vetrinum bjargað Drög að Að kasta flugu í straumvatn er að tala við Guð segist Bubbi hafa rissað upp í september á síð- asta ári en síðan tók hann til við skriftir í febrúar, lauk við bókina í mars og fór þá með handritið til út- gefanda. Í framhaldinu leitaði hann síðan til Silju Að- alsteinsdóttur sem Bubbi segir að hafi ritstýrt bók- inni. „Ég skrifaði bókina en Silja fór yfir hana fyrir mig og gaf mér ýmis góð ráð um málfar og frágang. Ég fékk mér líka annan góðan íslenskumann sem yf- irlesara, Gísla Pálsson, til að lesa yfir og fékk líka góð ráð frá honum en þetta er mín bók.“ Bubbi segir að það hafi verið æðislegt að skrifa veiðisögur um miðjan vetur, það hafi eiginlega bjarg- að vetrinum, eins og hann orðar það. „Þetta er þó ekki hefðbundin veiðisögubók í skilningi seinni ára. Sá fyrsti sem skrifar veiðisögu á Íslandi er Einar Benediktsson, Lax á færi, sem segir frá veiðiferð sem hann fór með baróninum á Hvítárvöllum, Charles Gauldrée Boilleau. Þar næst kom Björn Blöndal, bóndi og rithöfundur, en þegar hann tók að skrifa veiðisögur kvað við nýjan tón. Bækur Björns um veiði og náttúru eru svo sér á báti fyrir ljóðrænu og ný- rómantískan blæ að þær bera af. Í þeim eru snilld- artaktar og mikill næmleiki, frábærlega vel skrifaðar bækur,“ segir Bubbi, en því má skjóta inn hér að bók sína tileinkar hann minningu Björns Blöndal. Veiðisögur fyrir þá sem veiða ekki „Síðan er það Stefán Jónsson sem skrifar Rauðskinnu og Lífsgleði á tréfæti tvær mjög sérstakar bækur, að vissu leyti kennslubækur fyrir byrjendur. Kristján Gíslason skrifaði líka frábærar bækur með veiðisög- um og vangaveltum um veiði og tilheyrandi. Víg- lundur Möller, sem var lengi ritstjóri Veiðimannsins, skrifar dýpsta textann í sambandi við veiðipælingar,“ segir Bubbi og er þá búinn að þylja upp veiðisagnak- anónuna, en hann staðsetur sjálfan sig utan við þá hefð sem hann er hér að lýsa: „Mín bók er á skjön við þetta. Víst er hún stútfull af veiðisögum en þetta eru fyrst og fremst sögur, veiðisögur fyrir þá sem veiða ekki. Mig langaði að skrifa um veiði fyrir þá sem hafa gaman af veiðum og líka fyrir þá sem hafa ekki hundsvit á veiðum en hrífast vonandi af,“ segir hann og bendir á að ekki þurfti maður að hafa áhuga á hvalveiðum til að hrífast af Moby Dick sem sé þó upp full af fróðleik um þau mál og þó að Gamli maðurinn og hafið sé veiðisaga þá sé hún líka miklu meira en það. „Að kasta flugu í straumvatn er að tala við Guð fjallar um fólk við allskonar aðstæður, segir frá manni sem er dauðvona úr krabba og ákveður að fylla vasana af grjóti, fjallar um konu sem lax frelsar og verður til þess að hún ákveður að skilja við mann sinn, birtir mynd af veiðifíkli sem klúðrar hjónabandi sínu og svo má telja.“ Veiði er saga Bubbi segir að hann hafi sankað að sér efni úr ýmsum áttum, sumar sögur hafi hann heyrt, aðrar hafi hann lifað og enn aðrar hafi hann samið upp úr smáfréttum eða setningum sem hann hafi rekist á. „Það gildir um allar góðar veiðisögur og um sögur almennt; saga getur aldrei orðið góð ef hún er þurrleg upptalning á staðreyndum,“ segir hann og bætir svo við eftir smá- þögn: „Svona myndi Svejk hafa sagt þetta við Lukás,“ og skellir upp úr, bætir svo við af meiri alvöru: „Veiði er saga og allt umhverfi hennar er hluti af þeirri sögu. Þó að maður fari með öðrum í veiðina er maður einn þegar maður veður útí, þegar maður byrjar að kasta er það bara maður og vatn og maður er bara í núinu, algjörlega í núinu og ef maður ofbýður ekki sjálfum sér í veiðinni þá er þetta besta endurnýjun sem völ er á.“ Eftir allt tal um íslenskar veiðisögur og veiðibækur berst talið að erlendum bókum; fyrstu veiðibókinni, Treatyse of fysshynge wyth an Angle, eftir nunnuna Juliana Berners, sem kom út í lok fimmtándu aldar, og þeirri nafntoguðustu, The Compleat Angler eftir Izaak Walton, sem kom út á sautjándu öld. Bubbi er þó með á hreinu hver sé stærsta veiðisagan og hún er öllu eldri: „Nýja testamentið er stærsta veiðisagan og það þarf eiginlega ekki að útskýra, það liggur svo beint við. Þar fer hópur manna á veiðar og sá sem hefur mesta trú á aðferðinni veiðir mest,“ segir Bubbi og kímir. „Þetta var ekki að veiða og sleppa, þeir hirtu allan aflann,“ segir hann og hlær við en bætir svo við af meiri alvöru: „Þegar maður les Nýja testa- mentið og þessi symmetrísku ljóð Jesú, fjallræðuna og faðirvorið, allt sem hann setur fram er til þess að veiða. Þegar hann tekur svo postulana með sér einn af öðrum og hvernig það vindur upp á sig allt til okk- ar daga, við erum ekki búnir að bíta úr nálinni með það. Það má segja að stærsti veiðimaðurinn á þessu sviði í dag sé Gunnar í Krossinum; hann er duglegastur að sækja,“ segir Bubbi og við ræðum stuttlega um hina lútersk-evangelísku þjóðkirkju sem honum finnst óttalega leiðinleg þó að hann sé trúaður maður. Ég bendi honum á að það hafi verið eitt höfuðmarkmið Marteins Lúters að gera messuhaldið sem leiðinlegast og Bubbi segir að það hafi vissulega tekist. „Hvers vegna er ekki dúndrandi stemning í kirkjunni, músík og fjör?“ spyr hann og það er fátt um svör. Bandið hans Bubba Glíma Bubba við orð er ekki bara glíma við að skrifa þau á blað, heldur hefur hann líka skorið upp herör gegn ensku, berst fyrir því að menn syngi á íslensku eins og má meðal annars sjá í þáttaröðinni Bandið hans Bubba. Í þeirri röð keppa ungir söngvarar um að komast í hljómsveitina hans Bubba og fá að laun- um fé og frama, plötusamning og peninga. Bubbi segir að kveikja að þáttunum hafi verið er hann var meðal dómara í hinni svonefndu Idol-keppni. Hann segir að sér hafi ofboðið að nánast allir sem komu í prufur fyrir þáttinn hafi sungið á ensku, það hafi verið hending er einhver tók íslenskt lag. Þegar við bætist að það sé því líkast að velflestar hljóm- sveitir sem nú eru starfandi heiti enskum nöfnum og syngi á ensku sé mikilvægt að spyrna við fótum. Rokkbylgjan sem hófst 1980 var um margt þjóðern- isleg hreyfing og byltingin fólst ekki síst í því að nú áttu allir að syngja á íslensku um íslenskan veruleika. Bubbi segir að víst hafi margir textanna verið inni- haldsrýrir, eiginlega ekki um neitt, en það hafi þó fleiri sungið á íslensku á þeim tíma en í dag, það séu kannski tvær plötur á íslensku á móti hverjum fimm- tán sem sungnar séu á ensku. Ekki nóg að komast í blöðin „Ég les þetta sem svo að þeir sem syngja á ensku ætli sér allir að ná heimsfrægð eða í það minnsta að meika það, svo ég sletti,“ segir Bubbi, „en þeir eru langt frá því, það er ekki nóg að koma plötu út og komast í blöðin. Ég efast til dæmis um að Hafdís Huld og Emil- íana Torrini lifi af tónlistinni þó að Sigur Rós og Björk geri það. Mugison berst í bökkum við að láta hlutina ganga upp, Pétur Ben og Lay Low. Ég er ekki að kasta rýrð á þá sem syngja á ensku, en við þurfum á því að halda að menn syngi á íslensku, það skiptir íslenska menningu miklu máli. Það er hægt að gefa út á íslensku hér heima og snúa því svo á ensku fyrir er- lendan markað,“ segir Bubbi og rifjar upp að Frelsi til sölu var gefin út í Skandinavíu á ensku undir nafn- inu Serbian Flower. Ef Arnaldur getur skrifað á íslensku og samt selt milljónir bóka af hverju er það ekki hægt í tónlist- inni?“ spyr Bubbi og svarar sér sjálfur: „Jú, það er hægt, sjáðu Sigur Rós, þar sem samið er á íslensku,“ segir Bubbi og er mikið niðri fyrir. Vont að syngja á íslensku „Nú er staðan orðin þannig að íslenskan er nær því en nokkurn tímann áður að hverfa úr dægurtónlist- inni – sumir söngvaranna sem komið hafa í prufur fyrir Bandið hans Bubba hafa sagt við mig að þeim finnist vont að syngja á íslensku. Ég óttast það að ungum krökkum sem eru að byrja í músíkinni finnist það út í hött að syngja á íslensku, finnist það hallær- islegt.“ Það er alltaf til góðs ef fjallað er um tónlist og frá því sjónarhorni var Idol-keppnin íslenska mjög gagn- leg og vel heppnuð. Hún skilaði þó minni árangri en menn kannski bjuggust við og söngvarar sem náðu langt í henni urðu jafnvel frekar alræmdir en frægir þó að dæmi sé um tónlistarmann sem náði að fóta sig að loknum útsendingunum. Í því ljósi kviknar spurn- ingin hvort hæfileikafólk skili sér alltaf hvort eð er og keppni eins og Idol, nú eða Bandið hans Bubba, skili ekki nýju hæfileikafólki í sviðsljósið. Þegar þetta er borið undir Bubba segir hann að reynsla hans af prufum fyrir þáttinn hafi sannað að það sé fullt af hæfileikafólki sem ekki hafi komið sér á framfæri fyr- ir einhverjar sakir. Íslenska fyrir innlendan markað Lagavalið segir Bubbi að hafi komið sér á óvart, ekki síst í ljósi þess hvernig fór með Idol-keppnina þar sem hver söngvarinn af öðrum, tugir söngvara, mætti fyr- ir dómnefnd og söng á ensku. „Mér fannst þetta stórundarlegt og fór strax að pæla í því hvort ekki væri hægt að gera þátt, skemmtiþátt, með íslenskum lögum, þar sem allir yrðu að syngja á íslensku fyrir innlendan markað,“ segir Bubbi og bætir við að það hafi komið sér skemmtilega á óvart hvað lögin komu úr ólíkum áttum, „allt frá ævagömlum íslenskum dægurlögum, sem sum hafa ekki heyrst í áratugi, í gommu af Bubbalögum og nýrri lögum. Það komu líka margir með frumsamin lög og ekki síst það var hending ef einhver kom og var ekki með hljóðfæri, það voru allir með hljóðfæri, allt frá píanói í gítar. Þetta voru allt aðrir krakkar en tóku þátt í Idol- keppninni,“ segir Bubbi og bætir við að þrír söngv- aranna sem fram koma í þáttunum séu slíkir að þeir séu betri en þeir sem mest heyrist í í dag og þar af tvær frábærrar rokkraddir. Að auki hafi hann heyrt tvö til þrjú frumsamin lög sem eigi eftir að ná vin- sældum. Bandið hans Bubba er hugarfóstur Bubba, hann fékk hugmyndina, þróaði hana áfram og kom henni í sjónvarp. Hann fékk aðra hugmynd sem ekki hefur gengið eins vel að selja sjónvarpsstöðvum, ljóða- samkeppni sem yrði áþekk og Bandið Hans Bubba eða Idol-keppnin og gengi út á það að keppt yrði í skáld- skap og hann tekst allur á loft þegar hann lýsir þætt- inum, Orð fyrir alla, sem hann kallar svo. „Mér finnst þetta brilljant hugmynd og sé það fyrir mér að þetta gæti orðið spennandi þáttur þar sem skólar myndu keppa og landshlutar, að þjóðin myndi kjósa skáldið; ég er klár á því að þetta gæti orðið frábært sjón- varpsefni og grátlegt að sjónvarpsstöðvar skuli ekki taka við sér – það er bullandi áhugi fyrir tungumál- inu.“ Enginn hreintungumaður Í ljósi þess að samtal okkar hefur snúist að nokkru um sjónvarpsþætti sem Bubbi hefur smíðað spyr ég hann hvort Bubbi sé hér með að hefja nýtt líf sem hugmyndasmiður fyrir sjónvarp, en hann þvertekur fyrir það. „Þetta snýst allt um íslenskuna, það er það eina sem vakir fyrir mér, að spyrna við fótum gagn- vart enskunni. Ég er enginn hreintungumaður, ég kann íslensku ekki nógu vel til þess, en það þarf að koma því inn hjá ungu fólki að íslenskan er skemmti- leg, það þarf ekki að óttast hana, það þarf ekki að kunna rím eða vita hvað stuðlar og höfuðstafur sé, ekki frekar en maður vill. Aðalmálið er að nota tungumálið, að vera ekki hræddur við það. Ef menn forðast að syngja á íslensku vegna þess að búið er að gera málið að ókleifu fjalli þá deyr það, svo einfalt er það.“ Það snýst allt um íslenskuna FRÁ barnsaldri hefur Bubbi Morthens glímt við orð, lengst af orð til að syngja, en fyrir stuttu kom út fyrsta smásagnasafn hans, veiðisagnasafn. Tónlistin er honum enn þó ofarlega í huga og hann hefur skorið upp herör gegn því að íslenskir tónlistarmenn syngi á ensku fyrir Íslendinga enda óttast hann að ella muni fara illa fyrir tungunni. » Bubbi „Það gildir um allar góðar veiðisögur og um sögur almennt; saga getur aldrei orðið góð ef hún er þurrleg upptalning á staðreyndum,“ segir hann og bætir svo við eftir smá- þögn: „Svona myndi Svejk hafa sagt þetta við Lukás,“ og skellir upp úr. 4 LAUGARDAGUR 10. NÓVEMBER 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.