Morgunblaðið - 03.09.2007, Síða 5
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 3. SEPTEMBER 2007 5
íþróttir
„VIÐ höfum náttúrlega ekki komist í úrslitaleikinn síðan 2003
svo að það er mjög kærkomið að komast þangað núna. Bikarúr-
slitaleikurinn er stærsti leikur sumarsins og að sjálfsögðu ætl-
um við okkur að fara alla leið,“ sagði Heimir Guðjónsson, að-
stoðarþjálfari FH, sigurreifur að loknum leiknum við
Breiðablik í VISA-bikarnum.
„Mér fannst við í sjálfu sér sterkari aðilinn megnið af leiknum
en eftir að við skoruðum markið, skömmu eftir leikhlé, féllum
við kannski of langt til baka og hleyptum þeim inn í leikinn.
Ólafur [Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks] gerði reyndar til-
færslur á liðinu hjá sér sem virkuðu vel, og þeir skoruðu þetta
jöfnunarmark auk þess að fá einhver hálffæri, en í framlenging-
unni fannst mér einflaldlega eitt lið á vellinum. Þá fengum við
fjölda færa og hefðum vel getað skorað fleiri mörk. Betra liðið
vann í dag að mínu mati,“ bætti Heimir við.
„Eitt lið á vellinum
í framlengingunni“
„ÞAÐ var alveg ótrúlega ljúft að skora þetta mikilvæga mark
og eftir að það tókst var ég alveg viss um að við myndum ná því
þriðja,“ sagði Tryggvi Guðmundsson, framherji FH, glaður í
bragði að leik loknum, en með hjálp markanefs síns kom hann
FH yfir í framlengingu þegar hann kom skoraði af markteig
eftir að Casper Jacobsen hafði varið skalla miðjumannsins
Davíðs Þórs Viðarssonar úr góðu færi. „Eigum við ekki að
segja að þarna hafi sést munurinn á varnarsinnuðum miðju-
manni annars vegar og sóknarmanni hins vegar,“ bætti
Tryggvi við glettinn. Honum þótti sigurinn sanngjarn.
„Mér fannst við sem lið miklu betri aðilinn í leiknum og eftir
að okkur mistókst að klára leikinn í venjulegum leiktíma kom
ekki annað til greina en að negla þetta í framlengingunni. Ég
gæti trúað því að við værum einfaldlega í betra formi því í
framlengingunni fannst mér þeir virka svolítið lúnir.“
Tryggvi: Vorum
miklu betri aðilinn
„VIÐ spiluðum erfiðan leik gegn ÍA á fimmtudaginn á hund-
blautum velli og fáum svo tvo daga í hvíld á milli, svo að óneit-
anlega hlýtur að sitja smáþreyta í mönnum,“ sagði Ólafur Krist-
jánsson, þjálfari Breiðabliks, eftir leikinn við FH, en Blikar
virtust ansi þreyttir í framlengingunni og tókst ekki að svara
mörkum FH. „En svo fáum við núna 14 daga frí sem er nátt-
úrlega helvíti gott og þetta er virkilega vel skipulagt,“ bætti
Ólafur við, en líklega gætti smákaldhæðni í rödd hans.
Breytingar Ólafs á leikskipulagi Breiðabliks í seinni hálfleik
glæddu leik liðsins miklu lífi en það dugði ekki til. „Í fyrri hálf-
leik fannst mér FH vera miklu betra liðið og við vorum heppnir
að sleppa frá honum með jafntefli í höndunum. En svo þegar við
skorum markið fannst mér við sýna okkar rétta andlit og við
hefðum vel getað stolið sigrinum í lok venjulegs leiktíma þegar
við fengum tvö fín færi til að skora,“ sagði Ólafur.
„Hefðum getað stolið
sigrinum í lokin“
Þrátt fyrir að engin mörk væru skor-
uð í fyrri hálfleik var mikið líf í leikn-
um og strax á 5. mínútu átti Matthías
Guðmundsson ágætis skalla að marki
Blika sem var varinn. Matthías var
duglegur við að koma sér í færi í fyrri
hálfleik, líkt og hann hefur verið í
sumar, og átti meðal annars tvö önnur
skot í fyrri hálfleik sem Casper Ja-
cobsen í marki Blika sá þó við. Þeir
grænklæddu fengu líka sín færi og til
að mynda átti Árni Kristinn Gunn-
arsson, einn besti maður vallarins í
gær, viðstöðulaust skot utan vítateigs
sem fór rétt framhjá marki FH.
Heilt yfir voru FH-ingar þó sterk-
ari aðilinn í fyrri hálfleik og sama
staða var uppi á teningnum í byrjun
þess seinni. Sókn FH bar svo loks ár-
angur á 52. mínútu þegar Ásgeir
Gunnar Ásgeirsson, sem nýlega var
valinn í íslenska landsliðshópinn fyrir
leikina við Spán og N-Írland, hélt
uppteknum hætti frá því í deildar-
leiknum við KR á dögunum og skor-
aði mark með þrumuskoti úr mark-
teignum.
Blikar voru fljótir að svara
Ólafur Kristjánsson þjálfari skipti
skömmu síðar þeim Guðmanni Þór-
issyni og Magnús Páli Gunnarssyni
inn á og færði Nenad Petrovic úr mið-
verði og á miðjuna, og við það náði
Breiðablik betri tökum á leiknum.
Jöfnunarmarkið kom reyndar strax í
kjölfarið, og það hefur ef til vill gefið
liðinu aukinn kraft því það sem eftir
lifði venjulegs leiktíma voru Blikar
ívið betri aðilinn og meðal annars átti
Srdjan Gasic skalla rétt yfir FH-
markið eftir hornspyrnu, og Nenad
Zivanovic skaut slöku skoti úr góðri
stöðu í vítateignum eftir frábæran
undirbúning Árna Kristins. FH hefði
þó allt eins getað stolið sigrinum í lok
venjulegs leiktíma þegar Tryggvi
Guðmundsson slapp í gegn vinstra
megin og vippaði yfir Casper, en bolt-
inn fór framhjá markinu.
„Aldrei spurning
í framlengingunni“
FH sýndi mátt sinn og megin í
framlengingunni gegn þreytulegu
Blikaliðinu og skoraði tvö góð mörk
auk þess að fá fjölda færa eftir að
Blikar færðu liðið sitt framar. Verð-
skuldaður sigur FH því staðreynd.
Ásgeir Gunnar lék á miðjunni hjá
FH mestan part venjulegs leiktíma
en var skipt út af áður en framleng-
ingin hófst. Hann sagði það vissulega
ekki hafa verið auðvelt að fylgjast
með utan vallar. „Það var náttúrlega
gaman að horfa á restina utan vallar
fyrst að við unnum leikinn, en það er
samt miklu erfiðara að bíða stress-
aður fyrir utan í svona leik,“ sagði Ás-
geir Gunnar.
„Mér fannst við vera betri framan
af og allt þangað til við komumst yfir,
en eftir að þeir jöfnuðu þá var meira
jafnræði með liðunum til loka venju-
legs leiktíma. En í framlengingunni
fannst mér í raun aldrei spurning
hvernig þetta myndi fara. Ég veit
ekki hvort það var þolið eða viljinn
sem var meiri hjá okkur, en mér
fannst bara meiri kraftur í okkur þá,“
bætti Ásgeir Gunnar við.
Líkt og flestallir í liði FH átti hann
góðan leik og sinn þátt í að koma lið-
inu í úrslitaleik keppninnar, en þang-
að hafa FH-ingar ekki komist síðan
árið 2003, þegar þeir töpuðu 1:0 fyrir
ÍA, þrátt fyrir að liðið hafi orðið Ís-
landsmeistari þrjú síðustu ár. Breiða-
blik verður hins vegar enn að bíða
þess að komast í úrslitaleikinn, en
þangað hefur liðið einu sinn áður
komist, fyrir 36 árum síðan.
„FH-liðið betri aðilinn“
Árni Kristinn Gunnarsson átti sem
áður segir frábæran leik í stöðu hægri
bakvarðar hjá Breiðabliki, og hann
var að vonum svekktur í leikslok.
„Það er náttúrlega alltaf ömurlegt að
tapa, hvort sem maður spilar vel eða
illa, en ef ég á að vera alveg hreinskil-
inn þá fannst mér FH-liðið betri að-
ilinn í dag,“ sagði Árni Kristinn eftir
leikinn. „Engu að síður fannst mér að
eftir að við gerum breytingarnar á lið-
inu, og erum þá komnir með það lið
sem við höfum spilað á lengst af í
sumar, værum við betri aðilinn fram
að framlengingu. Þar voru FH-ing-
arnir sterkari og áttu skilið að vinna.
Mér fannst við eiga í talsverðum
erfiðleikum með að spila okkar venju-
lega fótbolta í þessum leik og ég held
að það sé að stórum hluta vegna þess
að framherjinn okkar gat illa haldið
boltanum enda fengu hafsentar FH-
inga að komast upp með alveg fárán-
lega hluti. Ég veit ekki hversu oft það
var hangið aftan í Prince en dómarinn
hefði mátt flauta miklu oftar að mínu
mati,“ sagði Árni. Auk hans átt Ca-
sper stórgóðan leik í markinu og varði
á tíðum mjög vel auk þess að vera
vakandi fyrir því að grípa inn í fyr-
irgjafir FH-inga.
Morgunblaðið/Sverrir
Erfiður Tryggvi Guðmundsson var drjúgur fyrir FH-inga í gær og hér eru Arnar Grétarsson, Nenad Petrovic og Gunnar Örn Jónsson með hann í sigtinu.
FH nálgast bikarinn
BREIÐABLIK sýndi það í Kapla-
krika fyrr í sumar að liðið stenst
þreföldum Íslandsmeisturum FH
ágætlega snúninginn, og það sann-
aðist aftur í gær þegar liðin áttust
við í undanúrslitum VISA-bikars
karla í knattspyrnu. Eftir til-
tölulega jafnan leik reyndust FH-
ingar orkumeiri í framlengingu og
unnu loks sanngjarnan 3:1 sigur.
Eftir Sindra Sverrisson
sindris@mbl.is
Tvö mörk í framlengingu komu FH-ingum áfram í úrslitaleik en Blikar sitja eftir
1:0 52. Eftir fyrirgjöfTommy Nielsens frá
hægri og mistök hjá Nenad
Petrovic, varnarmanni Breiða-
bliks, barst boltinn til Ásgeirs
Gunnars Ásgeirssonar sem
þrumaði honum upp í þaknetið,
rétt utan markteigs.
1:1 65. Árni KristinnGunnarsson átti skot
utan vítateigs sem Prince Raj-
comar stoppaði innan teigs.
Hollendingurinn lagði boltann
fyrir sig og skoraði neðst í
vinstra markhornið.
2:1 100. GuðmundurSævarsson gaf fyr-
irgjöf af hægri kantinum og
Davíð Þór Viðarsson átti hör-
kuskalla að marki sem Casper
Jacobsen varði. Tryggvi Guð-
mundsson náði þá til boltans og
skoraði af harðfylgi.
3:1 120. Tryggvi Guð-mundsson fékk send-
ingu inn fyrir vörn Blika og
sótti upp vinstra megin. Hann
gaf svo boltann fyrir markið
þar sem Atli Guðnason skoraði
auðveldlega úr markteignum.
FH 3
Breiðablik 1
Laugardalsvöllur, bikarkeppni KSÍ, VISA-
bikar karla, undanúrslit, sunnudaginn 2.
september 2007.
Mörk FH: Ásgeir Gunnar Ásgeirsson 52.,
Tryggvi Guðmundsson 100., Atli Guðnason
120.
Mark Breiðabliks: Prince Rajcomar 65.
Markskot: FH 20 (10) – Breiðablik 17 (6).
Horn: FH 10 – Breiðablik 6.
Rangstöður: FH 3 – Breiðablik 5.
Skilyrði: Stillt og gott veður. Völlur góður.
Lið FH: (4-3-3-) Daði Lárusson – Guð-
mundur Sævarsson, Sverrir Garðarsson,
Tommy Nielsen, Freyr Bjarnason – Davíð
Þór Viðarsson, Dennis Siim, Ásgeir G. Ás-
geirsson (Sigurvin Ólafsson 81.) – Matthías
Guðmundsson (Atli Guðnason 109.), Matt-
hías Vilhjálmsson (Arnar Gunnlaugsson
91.), Tryggvi Guðmundsson.
Gul spjöld: Nielsen 109. (brot)
Rauð spjöld: Engin.
Lið Breiðabliks: (4-4-2) Casper Jacobsen –
Árni K. Gunnarsson, Srdjan Gasic, Nenad
Petrovic, Arnór S. Aðalsteinsson – Gunnar
Örn Jónsson, Arnar Grétarsson, Olgeir
Sigurgeirsson (Guðmann Þórisson 63.),
Nenad Zivanovic (Kristján Óli Sigurðsson
100.) – Kristinn Steindórsson (Magnús Páll
Gunnarsson 63.), Prince Rajcomar.
Gul spjöld: Kristján Óli 114. (mótmæli),
Arnar 115. (mótmæli), Prince 117. (mót-
mæli).
Rauð spjöld: Engin.
Dómari: Garðar Örn Hinriksson, Stokks-
eyri.
Aðstoðardómarar: Sigurður Óli Þórleifs-
son og Áskell Þór Gíslason.
Áhorfendur: 2.221.