Lesbók Morgunblaðsins - 09.02.2008, Blaðsíða 4

Lesbók Morgunblaðsins - 09.02.2008, Blaðsíða 4
Eftir Þröst Helgason throstur@mbl.is T hor Vilhjálmsson er meist- ari í spuna. Þeirri kúnst verða ekki gerð mikil skil í dagblaðsviðtali. Ég hef hitt Thor þrisvar sinnum síðustu tíu mánuði. Fyrsta viðtalið stóð í fjóra klukku- tíma. Ég varpaði fram spurningu: Hvernig byrjaði þetta allt saman? Og Thor svaraði. Og þannig liðu fjórir tímar. Og að endingu sagði Thor: „Já, hvernig byrj- aði þetta? Það er góð spurning!“ Næst var ég með plan um fleiri spurningar og markvissari. Þrír tímar liðu hratt. Og á milli þess sem Thor spann vefinn sagði hann: „Maður reynir að svara þegar þú kemur með svona fínar spurningar.“ Svo er það þriðja heimsókn. Maður er ekki með nein plön. Hlustar bara og skýtur inn orði og orði. Thor er með stóra kaffiskál á stofuborðinu sem honum var gefin í París fyrir löngu. Hann segir ætlast til að hún sé notuð á morgnana, en hann sofi af sér flesta morgna. Kaffið úr henni dugi sér hins vegar vel á nóttunni. „Ég byrja oft að vinna seint á kvöldin og freistast til þess að halda áfram fram á nótt.“ Og fram á morgun jafnvel? „Já, oft.“ Hvað gerir nóttin fyrir þig? „Þá er næði. En reyndar finnst mér ég of mildur á nóttunni. Er ekki nægilega gagn- rýninn á sjálfan mig. Ég byrjaði á þessari næturvinnu þegar ég þýddi Hlutskipti manns eftir André Malraux 1983. Ég byrjaði um miðnætti og þýddi til klukkan átta á morgnana, grófþýddi og sett- ist svo aftur yfir textann á daginn. Mér var í mun að gegna skyldu minni við hann og þjóð- ina. Ég held það sé gott fyrir mann að túlka í fullum trúnaði annars manns hugsun.“ Kemur textinn stundum fullskapaður úr pennanum? „Styttri textar gera það stundum en flest þarfnast pússningar. Og lengri bækur verða auðvitað bara til með mikilli yfirlegu. Á yngri árum þurfti maður að ná þessu strax en það hefur breyst. Aðalatriðið er að koma sér að verki, ekki síst þegar um stórar bækur er að ræða. Sumir kalla það la vía dolorosa, að koma sér að verki. En þegar ég er alveg tómur þá reynist mér vel að hlusta á Bach. Hann er mikill sálu- hjálpari. Þá er líka gott að berjast við ber- serki í Júdófélaginu.“ En þegar eitthvað kemur yfir þig, kallarðu það þá innblástur? „Já, þú átt við einhverjar svona náð- arstundir,“ segir Thor og lyftir annarri hend- inni. „Maður þarf að vinna sig upp í þetta ástand sem kalla má innblástur. Þegar heil bók er skrifuð þarf maður að finna einhvern takt, rím, mynstur, víddir. Stundum eru það bestu dagarnir þegar manni finnst maður al- veg tómur og þarf að hafa mikið fyrir því að byrja en síðan kemur eitthvað á endanum … og allt í einu er herbergið orðið fullt af fólki.“ Hvað ertu að skrifa núna? „Það er af ýmsu tagi. Ég er að reyna að ná hlutum út úr tölvunni, hún er ekki þægileg við mig tölvan, stendur uppi í hárinu á mér, stríðir mér. Mér gengur best að skrifa upp á gamla mátann, rissa.“ Þú gengur um með penna og blað í vas- anum. „Já, ég er alltaf með eitthvað á mér til að skrifa niður punkta. Ég er ekki nógu fingra- lipur til þess að skrifa á tölvu.“ Að mannkynið gæti endað Hvers vegna skrifarðu? Manstu hvernig eða hvers vegna þú byrjaðir? „Ég man ekki hvenær ég byrjaði. En þetta hefur alltaf verið mér brýn nauðsyn.“ Kom ekkert annað til greina? „Ja, ég fór dult með þetta lengi, pukraðist. Ég hafði verið einfari sem barn. Í mennta- skólanum hélt ég skipulega fram hjá náminu. Varði tímanum í lestur á skáldskap. Ég var heppinn að lenda í fangi ofurafla eins og Tolstoi. Hann ætlaði alveg hreint að drepa mann. Maður þorði varla að sofna. Um svipað leyti las ég Dostojevskí. Maður var að reyna að átta sig á sjálfum sér, til hvers maður væri. En ég lærði ekkert í íslensku í Mennta- skólanum, kennslan var ekki góð. En, hvað vakir fyrir manni? Það er erfitt að svara því. Þetta leitar á mann. Einu sinni var ég á leið frá Napólí til Róm- ar í yfirfullri lest, menn stóðu hver utan í öðr- um og sumir héngu utan á lestinni. Ég stóð við glugga og þá kom þetta að mér og ég byrjaði að skrifa í bók sem ég hélt svona upp í loft.“ Thor sýnir hvernig hann heldur bók- inni yfir höfði sér og skrifar. „Síðan tekur bókin að síga hægt og hægt í höndum mér þar til hún situr allt í einu kyrr, og þá sé ég að það kemur auga undan bókinni!“ Thor hlær. „Þetta fannst mér svo fallegt! En ég man að atómsprengjan hafði mikil áhrif á okkur. Ég var að vinna í pakkhúsi við að afferma bíla og annað. Og einn morguninn barst fréttin af sprengjunni og þá rann það upp fyrir okkur að mannkynið gæti endað.“ „Fantasiförbjud“ Og árin og áratugirnir sem tóku við voru um- byltingarsamir. „Þegar við komum Birtingi á fót hér heima 1955 þá töluðu Svíar mikið um að það væru ekki til nein skáld og rithöfundar heldur bara „kulturarbetare“. Og þeim var líka illa við hugarflug og töluðu um „fantasiförbjud“. Það mátti ekkert standa í bók sem lesandinn vissi ekki fyrir. Það gæti farið í fínu taugarnar. Þeir höfundar voru bestir sem sögðu manni strax í upphafi hvert þeir ætluðu í bókinni. Það átti líka að hlusta eftir „fólkinu“ sam- kvæmt sovétboði en það var hugtak sem þeir sömdu á kontórum, einstaklingar rúmuðust ekki í því. Samkvæmt þessari pólitík átti líka að fara fram stöðug endurskoðun en sú hug- mynd komst aldrei til framkvæmda, menn áttu bara að vera trúir og hlýðnir og búa til vígorð sem var dengt á andstæðingana. En vígorðin geta orðið að sannleika fyrir þeim sem eru fátækir innra með sér. Og þá fer allt til fjandans. Og fór. Einhverjir verða að hjálpa fólki að dreyma. Svíarnir og reyndar kommarnir höfðu rangt fyrir sér.“ Mitt Sturm und Drang Hvernig orkaði sjöundi áratugurinn á þig og þessar hræringar sem kenndar hafa verið við ’68? Var þetta orkumikill tími? „Það er alltaf mikil orka, maður verður bara að skynja hana og virkja. Löngu áður en ég vissi hvað ég ætti að gera af mér í lífinu var mikil orka innan í mér. Og hún fann sér farveg í skrifum. En síðan fór allt á fleygiferð á þessum árum. Svíarnir gáfu meira að segja fantasíuna eftir. Þeir höfðu þá setið um hana í tíu ár. Í maí ’68 var ég á Feneyjatvíæringnum. Ég man ég stóð á Markúsartorginu. Þar voru þrjú hundruð fjölmiðlamenn og vígasveit lög- reglumanna með hjálma sem huldu augu þeirra og prik sem þeir lömdu í lendar sínar. Svengdarlegir stúdentar stóðu uppi á kirkju- tröppum og hrópuðu slagyrði. Ég lenti mitt á milli þeirra og lögreglunnar. Og þar sem ég trúi ekki á heróisma þegar hann hefur enga merkingu þá hljóp ég af stað í átt að stórri grænni hurð sem þrír strákar voru að reyna að opna. Ég fékk eitthvert afl frá forverunum og ýtti upp hurðinni. Þar inni stóðu stað- armenn sem voru á móti þessari truflun á túrismanum og skömmuðu strákana. Ég fór aftur út og þá blasti við myndhöggvari sem heitir Emilio Vedova, en Vedova þýðir eig- inlega ekkja. Hann veifaði rauðri dulu framan í mótmælendurna eins og spænskur matador og þá komu þeir hlaupandi og ég þurfti aftur að taka á rás og hljóp inn í súlnagöng og smeygði mér inn á veitingastað sem var verið að loka með járnhliði. Fyrir innan voru dúkuð borð og rauðvín í karöflum. Ég tók mér kar- öflu og settist. Næstu daga varð maður meira var við myndlistarmenn, allir með þennan sérstaka svip sem myndlistarmenn settu upp á þeim tímum og höfðu áunnið sér – núna getur hver sem er verið myndlistarmaður og sett upp svip. En það var mikið hlaupið þetta ár og það var eins og menn héldu að hugmyndir að betra heimi myndu birtast þeim á hlaup- unum. Og þá átti enginn maður yfir þrítugu að vera marktækur, nema Marcuse sem var rúmlega áttræður. Einhverjir verða að hjál Fjörutíu ár eru liðin frá því að fyrsta skáldsaga Thors Vilhjálmssonar, Fljótt fljótt sagði fugl- inn, kom út 1968. Bókin var lykilverk í bylgju módernískrar skáldsagnagerðar hérlendis. Síð- an hefur Thor markað mörg djúp spor í íslenska bókmenntasögu. Fyrir réttum tuttugu árum hlaut hann Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir Grámosinn glóir og fyrir tíu árum hlaut hann Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Morgunþulu í stráum. Á síðasta ári var Thor tilnefndur til ítölsku bókmenntaverðlaunanna Nonnino og Grámosinn kom út í spænskri þýð- ingu. Í þessu viðtali er Thor spurður hvenær hann skrifar, hvernig og hvers vegna, hann er inntur eftir byltingum sjöunda áratugarins, uppreisnarandanum, viðtökunum og þróun skáld- skaparins. 4 LAUGARDAGUR 9. FEBRÚAR 2008 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Í HNOTSKURN »Skáldsögur Thors eru Fljótt fljóttsagði fuglinn (1968), Óp bjöllunnar (1970), Folda (1972), Fuglaskottís (1975), Mánasigð (1976), Turnleikhúsið (1979), Grámosinn glóir (1986), Náttvíg (1989), Tvílýsi (1994), Morgunþula í stráum (1998), Sveigur (2002). »Smásagnasöfn Thors eru Maðurinner alltaf einn (1950), Dagar mannsins (1954), Andlit í spegli dropans (1957), Skuggar af skýjum (1977). »Ferðasögur Thors eru Undir gervi-tungli (1959), Regn og rykið (1960), Svipir dagsins, og nótt (1961), Hvað er San Marinó (1973). »Ljóðabækur Thors eru Ljóð mynd(1982), Sporrækt (1988), Snögg- færðar sýnir (1995), Stríðsmenn andans (1997).

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.