Lesbók Morgunblaðsins - 23.02.2008, Blaðsíða 11

Lesbók Morgunblaðsins - 23.02.2008, Blaðsíða 11
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 23. FEBRÚAR 2008 11 Eftir Þormóð Dagsson thorri@mbl.is Bandaríski metsöluhöfundurinnJames McBride gaf nýverið út skáldsöguna Song Yet Sung þar sem viðfangsefnið er þrælahaldið í Bandaríkjunum um miðja næstsíð- ustu öld. Sagt er frá ambáttinni Lip Spocott sem án þess að átta sig á því hvetur nokkra þræla til flótta úr haldi alræmds þræla- þjófs. Til að komast hjá hefnd þræla- þjófsins leggur Lip sjálf á flótta og í kjölfarið kemst hún í kynni við ýmsar persónur; fyrrum þræla, þrælakaupmenn, þrælaveiðara, þrælahaldara og baráttufólk fyrir frelsun þræla. Í bókinni kafar höf- undur djúpt inn í sagnfræðilegan heim þrælahaldsins sem að margra mati er einn ljótasti blett- ur bandarískrar sögu. James McBride hefur áður sent frá sér metsölubókina Color of Water.    Í handbókinni Sjortarar leitastbreski kynlífssérfræðingurinn Tracey Cox við að aðstoða pör við að efla ástarsambandið með ýmiss konar kynlífsráðleggingum. Undir- titill bókarinnar er Kynlíf fyrir önnum kafið fólk og er hér sumsé að finna margs konar ráðlegg- ingar sem eiga að hressa upp á kynlífið og koma því sem oftast að á annríkum degi. Tracey Cox er heimsþekktur sérfræðingur á þessu sviði og hef- ur t.d. stjórnað ófáum sjónvarps- þáttum í Bretlandi sem sýndir hafa verið um víða veröld. Jafn- framt hefur hún sent frá sér fjölda bóka um kynlíf og sambönd. Á ís- lensku hafa áður komið út eftir hana Súpersex og Súperflört. Sjortarar er gefin út af JPV- útgáfu.    Ofarlega á metsölulistum vest-anhafs situr um þessar mundir ný spennubók eftir James Patterson. Sú ber titilinn 7th Hea- ven suburban og segir frá auð- ugum hjónum sem láta lífið í húsbruna í út- hverfi í Kali- forníu. Rann- sóknarlöggan Lindsay Boxer og aðstoð- armaður hennar Rich Conklin eru fengin til að leysa málið. Áður en langt um líð- ur kviknar í öðru húsi og brennur þar inni annað ríkt par. Og svip- uðum málum fjölgar skyndilega. Hin dularfullu íkveikjumál virðast jafnframt tengjast óleystu mann- hvarfi.    Þetta árið verður bókaverð-launahátíðin The Man Booker Prize haldin í fertugasta sinn og af því tilefni verða veitt sérstök verðlaun til eins af fyrri verð- launahöfum. Sérstök dómnefnd til- nefnir sex bækur sem áður hafa unnið verðlaun á hátíðinni og svo mun almenningur ákveða end- anlegan sigurvegara. Árið 1993, þegar hátíðin fagnaði tuttugu og fimm ára afmæli sínu, hlaut bókin Midnight’s Children eftir Salman Rushdie svipuð verðlaun og tit- ilinn „Booker of Bookers“. Þetta árið munu verðlaunin heita „The Best of the Booker Prize“ og verð- ur sigurvegarinn tilkynntur á bók- menntahátíðinni í London í júlí næstkomandi. Almenningi gefst kostur á að greiða sitt atkvæði á vefsíðu Man Booker þegar tilnefn- ingarnar verða afhjúpaðar í maí. BÆKUR Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is Helgafell er eitt þekktasta kennileiti íbókmenntasögu 20. aldar. Það er for-lagið sem gaf út heildarverk Laxnessum miðja síðustu öld og margt ann- arra ágætra verka. Ragnar í Smára átti þetta á sínum tíma með Kristjáni Jónssyni í Kiddabúð. Helgafell rak líka samnefnda bókabúð, mjó- slegna en þeim mun dýpri, ofarlega á Laugaveg- inum við suðvesturhorn Snorrabrautarinnar. Á árunum kringum 1960 bjó stelpa við þetta horn, Snorrabrautarmegin. Það háttaði þannig til að úr eldhúsglugganum sínum sá hún beint inn á lager og kaffikrók Helgafells. Það var sérstakt við bak- glugga bókabúðarinnar að fyrir þeim voru rimlar. Leiðin í helgidóma Helgafells var þó greið inn um aðaldyrnar Laugavegsmegin og þangað leitaði stelpan oft, stundum með gömlum vini sem gætti hennar á daginn og stöku sinnum ein. Það var ekki amast við stelpum í þessari búð, svo fram- arlega sem þær gerðu ekkert af sér, en þeim var gefið auga, og það nokkuð þungt. Það var kóngur í þessari búð, Búðarmaðurinn, snaggaralegur náungi í gráum jakkafötum með hárið greitt hátt upp af enninu. Hann hét Ingólfur Jónsson. Hann var meiriháttar en búðarstúlk- urnar sem stundum voru þar við afgreiðslustörf, voru minniháttar. Þannig var það í augum stelp- unnar, sem sá, að það var hann sem stýrði pen- ingakassanum. En búðarstúlkurnar voru öfunds- verðar, sérstaklega ein, sem af öðrum bar. Draumar stelpunnar stóðu til þess að verða í framtíðinni eins og þær og fá að eyða öllum dög- um í að pakka inn bókum, rífa pappír af stórri rúllu undir afgreiðsluborði og límband af lím- bands-standara. Bækur voru einmitt svo vel til þess fallnar að pakka þeim inn. Sléttar og felldar og hvergi neinar misfellur. Í fimum handtökum þessara kvenna við bækur og bleiktan mask- ínupappír kviknaði þráin djúpa, að verða búð- arkona. Bókabúðin Helgafell var sérkennileg í laginu. Hún var sem fyrr segir mjó og djúp, en hún var eins og vaff, víðust fremst og mjókkaði eftir því sem innar dró. Þetta var á margan hátt táknrænt. Fremst í búðinni voru barnabækur og dönsku- blöðin, og það sem nú yrði kallað bækur almenns efnis, og var ekki jafnstór hluti þess sem í boði var og er í dag. Þó voru þar afar merkilegar lista- verkabækur, sem Helgafell gaf út. Bókin um Jó- hannes Kjarval var sérstaklega falleg, og svo fór að vinurinn gamli keypti bókina handa stelpunni. Þá gerðist það að Ingólfur pakkaði sjálfur inn. Þeir þekktust víst að austan. Um miðbik verslunarinnar tók veröldin á sig annan og alvarlegri blæ. Á hægri hönd þegar inn var komið var Laxness og hin skáldin öll í löngum röðum, andspænis löngu og mjóu afgreiðsluborð- inu þar sem Ingólfur stóð við kassann. Bak við borðið voru ritföng og spilastokkar, dagatöl og möppur og svart og blátt blek fyrir lindarpenna. Innst í djúpi búðarinnar voru stærstu bækurnar sem vísast var að innihéldu mestan fróðleikinn. Þar voru líka seldar skóla- töskur á haustin. Á sérstöku borði stóðu staflar af bókum sem voru sérkennilegri en aðrar, í ein- hvers konar pappabandi, sennilega kiljur síns tíma. Það var ryklykt af þeim og það var ekki hægt að fletta þeim. Kaupandinn þurfti sjálfur að gera á þeim uppskurð til að frelsa síðurnar úr örk- inni. Þetta var spennandi inngangur að því að lesa bók. Úr þessum stafla fékk stelpan Þjóðsagnasafn Guðna Jónssonar. Það var einatt erill í Helgafelli. Það var ekki á hreinu hvort Búðarmaðurinn eða bækurnar sköp- uðu þennan eril, sennilega blanda af hvoru tveggju. Það kom á daginn að Búðarmaðurinn hafði sambönd á við mafíós og gat útvegað fólki bækur um nánast hvað sem var svo framarlega sem þær voru til. En hann var líka til viðræðu um bækur og allt sem að þeim sneri og það voru margir sem leituðu til hans. Mjög margir. Þeim sem voru í sérstöku vinfengi við Búðarmanninn Ingólf, eins og vini stelpunnar, var stundum boðið inn í innsta helgidóminn, herbergið sem var bæði lager og kaffistofa. Þar tók við spjall um allt ann- að en bækur; dægurmálin, heimsmálin og nýjustu fréttir að austan. Það er eftirsjá að búðum eins og Helgafelli, sem var samfélag bóka og fólks, samfélag þeirra sem þangað sóttu. Höfuð samfélagsins var Búðarmað- urinn Ingólfur sem kunni þá list að vera bóksali. Helgafell » Á sérstöku borði stóðu staflar af bókum sem voru sérkenni- legri en aðrar; í einhvers konar pappabandi, sennilega kiljur síns tíma. Það var ryklykt af þeim og það var ekki hægt að fletta þeim. Kaupandinn þurfti sjálfur að gera á þeim uppskurð til að frelsa síðurnar úr örkinni. Þetta var spennandi inngangur að því að lesa bók. Erindi Eftir Þormóð Dagsson thorri@mbl.is H öfundurinn Gunnar Karlsson segir í inngangi að tilgangur ritsins sé að vera „fróðleiks- náma handa þeim sem vilja hugsa um íslenska miðalda- menningu, kanna hana hvort sem er sjálfum sér til skemmtunar eða til að birta um hana rannsóknir.“ Segir hann jafnframt að í bókinni sé leitast við að skrifa þannig að hún geti nýst „algerum byrjendum“. Miðaldahugtakið Þeir eru ábyggilega fáir sem búa yfir álíka reynslu og Gunnar Karlsson við að miðla íslensk- um miðaldafræðum en heilmikil skrif um efnið liggja eftir hann. Mætti t.d. nefna námsbókina Samband við miðaldir sem kom út árið 1989 og auk þess hefur hann kennt fjölda áfanga um ís- lenska miðaldasögu við Háskóla Íslands. Í hinu nýútgefna bindi skoðar Gunnar ítarlega hina fræðilegu umgjörð utan um viðfangsefnið og fer t.d. ítarlega í miðaldarhugtakið sjálft. Fyrri tímamörkin sem íslensk miðaldasaga hefur gjarn- an verið miðuð við eru við lok þjóðveldistímans (930-1262) og þau síðari tengjast siðaskiptunum um miðja sextándu öld þegar Jón Arason og synir voru hálshöggvnir. Þessi rammi er þó engan veg- inn bindandi í riti Gunnars en yfirlitið nær allt aft- ur til landnáms. Samkvæmt grófgerðri áætlun höfundar, sem hann útskýrir stuttlega í innganginum, er mein- ingin að endanlegt yfirlitsritið telji í það heila sex bindi. Samkvæmt þeirri áætlun á annað bindið að fjalla um landnámið, það þriðja um samfélagsgerð íslenskra miðaldamanna, fjórða um íslenska þjóð- veldið og það fimmta um trú og kirkju. Sjötta og síðasta tekur síðan fyrir stjórnkerfi og stjórnmál eftir lok þjóðveldis. Metnaðarfullt verkefni Það er því ljóst að með þessu inngangsbindi hefur Gunnar Karlsson lagt af stað með gífurlega metn- aðarfullt verkefni sem vonandi verður fullkomnað. Fyrsta bindið er í það minnsta sérlega ítarlegt og mikið, alls 386 blaðsíður, og gefur vísan og góðan inngang inn í íslensk miðaldafræði. Þarna er t.d. vísað á leiðir til að finna rit um þetta viðfangsefni og farið er yfir rannsóknarsögu og birt stutt yfirlit yfir evrópska miðaldasögu. Megnið af bókinni fer undir yfirlit um heimildir íslenskrar miðaldasögu – fornleifar, sögur, lög, skjöl og annála. Loks er gerð grein fyrir mælieiningum og tímatali mið- aldafólks. Þó svo að ritið heiti inngangsbindi að sex binda yfirlitsriti er ljóst að höfundur hefur lagt áherslu að það geti staðið eitt og sér. Bindið er jafnframt frágengið þannig að það ætti að gagnast nem- endum á framhaldsskólastigi, háskólanemum jafnt sem sjálfstætt starfandi fræðimönnum og áhugamönnum. Gunnar hefur óneitanlega sterkar skoðanir á söguritun og þeim aðferðum sem notast er við inn- an fræðigreinarinnar. Í inngangi bókarinnar segir höfundurinn að eiginleg og ánægjuleg sagnfræði sé „ferðin frá heimildum til sögulegra ályktana, hvorki hinar einstaklingsbundnu sögur sem fylla heimildirnar né áfangastaðurinn að ferðinni lok- inni.“ Slík söguritun hefur verið nefnd „opið form sögu“ og eru það slík formerki sem Gunnar skrif- ar sitt verk undir. Myrkrið lýst upp Ljósmyndin sem prýðir kápu bókarinnar, tekin af Guðmundi J. Guðmundssyni, hentar efni hennar mjög vel en þar getur að líta grjóthlaðinn göngu- stíg sem leiðir að opnum dyrum miðaldarlegs torf- bæjar. Þannig má líta á þennan grjóti hlaðna inn- gang að torfbænum sem eiginlegan inngang að íslenskum miðöldum og heildarritverki Gunnars Handan við dyrnar sést ekkert nema myrkrið svart en hugsanlega birtir þar eitthvað til við lest- ur bókarinnar. Í formála bókarinnar talar höfundur á gam- ansömum nótum um ýmsa einstaklinga sem gefið hafa út vegleg fyrstu bindi af ritverkum en fátæk eða engin framhaldsrit. Segir hann svo í framhaldi að hann fari sjálfur af stað með þetta fyrsta bindi í „bjartsýnni von um að koma út framhaldi þess, en enginn veit hvernig til kann að takast um það.“ Það er alla vega ljóst að Gunnar á mikið og göfugt verk fyrir höndum en byrjunin lofar góðu. Yfirlitsrit um íslenskar miðaldir Lagt hefur verið af stað með fræðilegt yfirlitsrit um íslenska miðaldasögu en inngangsbindið leit nýverið dagsins ljós. Ber það einfaldlega heitið Inngangur að miðöldum - Handbók í íslenskri miðaldasögu I og það er Gunnar Karlsson, kandídat í íslenskum fræðum og doktor frá Heimspekideild Háskóla Íslands, sem er höf- undur verksins. Útgáfan er í höndum Háskóla- útgáfu en ætlunin er að endanlegt yfirlitsritið telji í það heila sex bindi. Morgunblaðið/Sverrir Metnaður „Það er því ljóst að með þessu inngangsbindi hefur Gunnar Karlsson lagt af stað með gífurlega metnaðarfullt verkefni sem vonandi verður fullkomnað,“ segir greinarhöfundur.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.