Lesbók Morgunblaðsins - 24.05.2008, Page 4

Lesbók Morgunblaðsins - 24.05.2008, Page 4
4 LAUGARDAGUR 24. MAÍ 2008 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Arnar Eggert Thoroddsen arnart@mbl.is H ugmyndin að tónleikunum er ekki beint út í bláinn en í ár eru liðin 100 ár frá fæðingu Steins auk þess sem fimm- tíu ár eru síðan þessi helsti brautryðjandi íslenskrar nú- tímaljóðlistar lést. En Jón er eldri en tvævet- ur í Steins-bransanum. „Fyrir tíu árum var mér falið að búa til plötu fyrir Steinar Berg,“ rifjar Jón upp þar sem við sitjum inni í heimahljóðveri hans og súpum eins karlmannlega og okkur er unnt á berjatei. Kaffivélin er biluð. „Þetta er platan Heimurinn og ég. Þar voru samin nokkur ný lög við kvæði Steins og ein- hver eldri endurútgefin. Þar hóf ég að semja við Stein Steinar og hann fór ekki svo glatt í burtu. Fyrir tveimur árum gerði ég mér svo grein fyrir því að hundrað ára afmælið nálg- aðist óðfluga. Mér datt þá í hug að það gæti verið gaman að setja upp tónleika með þess- um lögum en Steinn er það ljóðskáld íslenskt sem hefur oftast verið viðfang lagahöfunda. Ég athugaði þetta einu sinni hjá STEF og dæmi eru um sjö, átta lög við eitt og sama kvæðið. Það er því ekki sérstaklega frumlegt að vera að leggja sig eftir þessu en um leið er einhver rík ástæða fyrir því að Steinn höfðar svona sterkt til tónlistarmanna. Það er mikið rokk í honum … þessir textar eru svo meitl- aðir og kjarnyrtir, myndirnar svo flottar og ljóðlistin eiginlega mjög músíkölsk.“ Bjólan Jón ýtti verkefninu svo af alvöru úr vör fyrir ári, sótti um styrki og slíkt. „Ég hef ekki mikið nýtt mér þá sjóði sem okkur tónlistarmönnum standa til boða en bæði Glitnir og Baugur ákváðu síðan að styrkja mig til góðra verka. Ég gat því ein- hent mér í verkið og fór að semja fullt af lög- um. Ég fékk Sigurð Bjólu með mér og hann endaði á að leggja fjögur lög í púkkið og vinna þetta með mér. Við vorum að vinna saman í myndinni hans Baltasars, Brúðgumanum, auk þess sem við þekkjumst frá fornu fari en hann tók okkur í Nýdönsk upp í gamla daga. Ég ber mikla virðingu fyrir honum og hans skoð- unum.“ Platan kemur út í næstu viku á vegum út- gáfunnar Sagna ehf. Eftir tónleikana í Óp- erunni ætlar Jón svo út á land með sömu efn- isskrá. „Steinn Steinarr er til á hverju einasta ís- lenska heimili og mér fannst bara eitthvað „rétt“ við það að fara með þetta víðar. Þannig að við erum á leiðinni til Ísafjarðar, Akureyr- ar og Austfjarða. Það er samt rétt að taka það fram að Sögur standa að þeim tónleikum, Listahátíð sér um Reykjavíkurtónleikana og ég fæ í rauninni leyfi frá hátíðinni til að halda áfram með verkefnið. Auk þess er mikið fyr- irtæki að fara með tólf manns út á land og allt þetta ferli; samning laganna, plötuútgáfan og meðfylgjandi tónleikar hefðu aldrei orðið að veruleika ef ýmis fyrirtæki hefðu ekki komið að þessu sem styrktaraðilar.“ Hópurinn sem fer með Jóni út á land og tekur þátt í tónleikunum sem og plötugerð- inni eru söngvararnir KK, Ellen Kristjáns- dóttir, Helgi Björnsson, Þorsteinn Einarsson (Steini í Hjálmum), Hildur Vala og Svavar Knútur. Hljómsveitin er svo skipuð þeim Jóni, Guðmundi Péturssyni, Helga Svavari Helga- syni, Valdimari Kolbeini Sigurjónssyni, Hrafnkeli Orra Egilssyni og Unu Sveinbjarn- ardóttur. Töff Jón sagðist hafa eyrnamerkt Listahátíð sem samstarfsaðila strax í upphafi. „Mér fannst þetta vera eitthvað sem ætti heima þar. Steinn Steinarr. Ný íslensk tónlist o.s.frv. Ég vildi líka halda þetta í Óperunni, mér finnst það virka vel sem tónleikahús.“ Hin fræga mynd af Steini Steinari, sem Jón Kaldal tók, sýnir skarpeygðan grafalvarlegan mann, hálfpartinn sorgmæddan. En auk þess er töffarabragur yfir myndinni, það er ein- hver einarðleiki í gangi og maðurinn á mynd- inni var efalaust skeytingarlaus um álit ann- arra á eigin kveðskap – þótt það hafi kannski reynt á. „Steinn átti fremur erfitt líf og varð ekki gamall,“ segir Jón. „Hann er oft bitur í kvæð- unum. En þegar rýnt er í kvæðin sjá menn fljótt hvað þetta er „töff“ hjá honum. Svo þeg- ar tónlist er sett við orðin er það eitthvað svo eðlilegt. Menn eru ekkert að hoppa um með orf og ljá í ljóðunum hans, það eru engir þrestir að syngja. Það er hins vegar auðvelt að heimfæra kvæðin yfir á nútímann og auð- velt að samsama sig þeim á ýmsa vegu.“ Jón talar um hversu mikið rokk sé í Steini í þessu samhengi, og það er í annað skipti sem hann nefnir þann eiginleika. En hvernig þá rokk? „Það er bara einhver djús í orðavalinu og frösunum sem kveikir í manni einhverja gleði. Þetta eru bara töff línur og sumir eru bara með þetta og sumir ekki. Hann er t.d. aldrei væminn þótt hann sé að yrkja um sínar dýpstu tilfinningar. Svona orkar þetta á mig í öllu falli. Svo er hann svo opinskár, á auðvelt með að leggja sál sína á borðið og segja: „Svona er ég.“ Í „Hudson Bay“ notar hann t.d. orð eins og „ókey“ sem hefur sjálfsagt far- ið fyrir brjóstið á mörgum þegar kvæðið kom út (Ég byggði mér hús við hafið/og hafið sagði ókey). Þetta er eins og Megas, sem slettir í textunum sínum en enginn myndi nokkurn tíma efast um að hann kunni íslensku.“ Enginn Trójuhestur Jón hefur nú unnið að tveimur plötum með Stein Steinar sem viðfang og útkoman er æði misjöfn. „Núna er allt efni nýtt, samið af tveimur mönnum. Síðast leitaði ég til ýmissa lagahöf- unda. Svo fór ég ekki jafnvarfærnum höndum um kvæðin í þetta sinnið. Fyrir tíu árum réð óttablandin virðing ríkjum hjá mér. Þannig að sú plata er vissulega áheyrileg en sennilega án nokkurrar áhættu. Í þetta skipti sleppti ég öllu slíku og kýldi bara á hlutina. Lét kvæðin ráða för. Ég nálgaðist þessa plötu með „rétt- ara“ hugarfari að mér finnst. Ég hef t.d. tekið inn í þetta verkefni fólk sem ég hef lítið sem ekkert unnið með áður. Það var partur af því plani mínu að mér myndi ekki líða of vel eða vera of öruggur í vinnunni. Það varð að vera einhver ögrun til staðar.“ Áferð laganna er á köflum angurvær, nokk- uð sem Jón fellst á. Það er línuleg stemning allt í gegn, hljómur er til að mynda einkar hlýr og sterkur en lögin fá síðan sérkenni sín í gegnum hina mismunandi söngvara. „Það er vissulega munur á milli kvæða en það er sannarlega lítið um gamanvísur. Yf- irbragðið allt er að því leytinu til ljúfsárt. Svo notum við selló og fiðlu með rokkbandinu og það gefur lögunum melankólískan blæ. Þá hugmynd fékk ég eftir að hafa hlustað nokkuð rækilega á Antony and the Johnsons. Ég lagði líka áherslu á að fá söngvara sem eru ekki dæmigerðir poppsöngvarar, flestir a.m.k., og ég passaði mig líka á breiddinni, þannig að það væri hægt að dýrka upp mismunandi stemningu á milli laga. Og svo varð þetta líka að vera fólk sem væri skemmtilegt að hanga með úti á landi!“ Jón, hvers heimahagar eru popp- og rokk- tónlist, lítur ekki á sig sem einhvern Tróju- hest gagnvart Listahátíð. „Maður er ekki að sleikja sig upp við hinar háu listir eða eitthvað svoleiðis eða að sækjast eftir hanastélum. Ég á heldur ekki mikið af jakkafötum inni í skáp … nei nei … það er alls ekki þannig og þvert á móti sýna þessir tón- leikar hversu opin og fordómalaus þessi listahátíð er orðin. Ég mun nálgast þetta eins og hverja aðra rokktónleika – það verður jafn- hátt í gítarmagnaranum og á öðrum tón- leikum. Helsta breytingin er kannski sú að maður er óvanur því að sjá minnst svona oft á atburð sem maður er að fara að halda í fjöl- miðlum.“ Haugur af tónlist Jón segir þetta tiltekna verkefni standa nokk- uð utan við önnur „hefðbundnari“ verkefni sem hann hefur sinnt í gegnum tíðina. „Þetta er gott dæmi um verkefni sem mað- ur fer í af hreinum áhuga, frekar en eitthvað annað. Ég hugsaði „hvað langar mig til að gera?“ og svo þegar hugmyndin fæðist þarf að koma henni í einhvern farveg, selja hana, svo maður geti komið henni í verk. Ef maður er ekki duglegur að kokka eitthvað svona upp sjálfur þá stendur maður endalaust við færi- bandið. Verkefni sem eru, jú, allt í lagi … salt í grautinn og allt það … en slíkt tekur eðlilega tíma frá gæluverkefnum eins og þessu. Eftir að ég fór að gera þessar sólóplötur mínar ákvað ég að einbeita mér að svona vinnulagi, vera fyrri til með hugmyndir í stað þess að sitja og bíða eftir verkefnunum. Og þannig er að síðan 2003 ca. er ég búinn að semja haug af tónlist og það er auðvitað það sem stendur hjarta mínu næst.“ Morgunblaðið/G.Rúnar Djús í Steini „Það er bara einhver djús í orðavalinu og frösunum sem kveikir í manni einhverja gleði,“ segir Jón Ólafsson um Stein Steinarr. Í næstu viku, fimmtudag og föstudag, fara fram tónleikar í Íslensku óperunni þar sem kvæði Steins Steinars verða til grundvallar. Yfirskriftin er Ferð án fyrirheits, en það var og nafn á dulúðugri ljóðabók sem Steinn sendi frá sér árið 1942. Listahátíð í Reykjavík stendur að tónleikunum en hugmyndasmiður er Jón Ólafsson, sem hefur jafnframt unnið að samnefndri plötu í félagi við Sigurð Bjólu. Blaðamaður ræddi við Jón um rokkarann Stein og ástæður þess að dægurtónlist- armenn hafa sótt grimmt í smiðju hans í gegnum tíðina – og gera greinilega enn. » „Svo þegar tónlist er sett við orðin er það eitthvað svo eðlilegt. Menn eru ekkert að hoppa um með orf og ljá í ljóð- unum hans, það eru engir þrestir að syngja. Það er hins vegar auðvelt að heimfæra kvæðin yfir á nútímann og auð- velt að samsama sig þeim ein- hvern veginn.“ „Það er mikið rokk í honum …“

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.