Fréttablaðið - 07.12.2009, Blaðsíða 22
22 7. desember 2009 MÁNUDAGUR
UMRÆÐAN
Andrés Pétursson og Gunnar
Hólmsteinn Ársælsson skrifa
um Evrópumál
Umsáturskenning Styrm-is Gunnarssonar, fyrrver-
andi Moggaritstjóra og Nei-sinna,
sem hann setur fram í nýrri bók
sinni, Umsátrið, hefur vakið tölu-
verða athygli. Tekið skal fram að
Styrmir er einnig í stjórn samtaka
Nei-sinna hér á landi. En kenning
Styrmis er þessi, eins og hann
orðar „vel“ í viðtali við sitt gamla
blað hinn 30. nóvember sl.:
„[…] á árinu 2008 upplifði ég það
þannig að þessi þjóð hefði verið
umsetin án þess að vita af því
nema tiltölulega fámennur hópur
og það sem fyrir okkur kom hafi
raunverulega verið eins konar
umsátursástand. Seðlabankar
Bandaríkjanna, Bretlands, Hol-
lands, Evrópu, Lúxemborgar og
Norðurlandanna hafi tekið hönd-
um saman um að loka okkur inni
og á sama tíma hafi breska fjár-
málaeftirlitið hafið tangarsókn á
Landsbankann til að stoppa hann
af í sambandi við innlánasöfnun
á Bretlandi. Með þessum hætti
vorum við rekin í fangið á Alþjóða-
gjaldeyrissjóðnum.“
Það eru s.s. hinir vondu
útlendingar sem að þetta er allt að
kenna og þeir ráku okkur í fang-
ið á AGS! Í þessu felst mikil fórn-
arlambshugsun, eða eins og Jón
Baldvin Hannibalsson sagði; þetta
væri svona álíka fórnarlambs-
hugsunarháttur og einkennt hefur
fjölmarga Serba í árhundruð, eins
konar serbneskt heilkenni!
Margir Serbar hafa nefnilega
litið á sig sem fórnarlömb, síðan
bardaginn mikli milli þeirra og
Tyrkja átti sér stað við Kosovo
Polje (Þrastarvelli) árið 1389. Og
vitna óspart til hans, þá helst mikl-
ir serbneskir þjóðernissinnar.
Í lok viðtalsins afhjúpar Styrmir
síðan sína framtíðarsýn fyrir
Ísland 21. aldarinnar. Blaðamaður-
inn, Karl Blöndal, spyr Styrmi
hvernig þjóðin eigi að bregðast
við þessum aðstæðum. Styrmir
svarar:
„Ég held að hún eigi að horfast í
augu við veruleikann og gera sér
grein fyrir að hún skiptir engu
máli í samfélagi þjóðanna. Við
erum ekki nema 300 þúsund manns
hér uppi á Íslandi og við eigum
bara að reyna að byggja hér upp
farsælt og gott samfélag, en reyna
ekki að vera eitthvað annað en við
erum. Hætta þessum leikaraskap,
að halda að við höfum einhverju
hlutverki að gegna á alþjóðavett-
vangi, hætta þessum hégómaskap
í sambandi við samskipti við aðrar
þjóðir, að vera með þjóðhöfðingja,
sem ferðast um allan heim af því að
hann telur sig hafa einhverju hlut-
verki að gegna þar. Við eigum bara
að sníða okkur stakk eftir vexti,
lifa hér því góða lífi, sem hægt er
að lifa í þessu fallega landi, nýta
auðlindir okkar og byggja á þeim,
en hætta að gera okkur einhverj-
ar hugmyndir um að við séum eitt-
hvað annað en við erum. Við erum
fámenn þjóð, sem lifir á fiski hér
í Norður-Atlantshafi. Það er gott
hlutskipti og við eigum að vera sátt
við það.“
Skilaboð Styrmis eru því þessi:
Við lifum í landi, sem skiptir engu
máli! Fyrir komandi kynslóðir
hlýtur þetta að vera mest niður-
drepandi framtíðarsýn sem hægt
er að hugsa sér! Þótt vissulega sé
hægt að taka undir orð Styrmis um
nýtingu auðlindanna. En eigum við
ekki bara að leggjast á hjarnið og
bíða þess að tíminn stöðvist?
Hagfræðingar eru flestir sam-
mála um að Íslendingar gætu
framfleytt sér á fiski ef við værum
ekki fleiri en um 80 þúsund miðað
við þau lífsskilyrði sem við teljum
ásættanleg. Ekki eru miklir mögu-
leikar að auka sókn í núverandi
stofna þannig að ekki er víst hvað
Styrmir vill að hinir 230 þúsund
Íslendingarnir eigi að gera!
Höfundar eru í stjórn Evrópu-
samtakanna.
Framtíðarsýn Styrmis Gunnarssonar
ANDRÉS
PÉTURSSON
GUNNAR
HÓLMSTEINN
ÁRSÆLSSON
UMRÆÐAN
Ágúst Guðmundsson
skrifar um niðurskurð
til menningarmála
Í niðurskurðartillögum mennta- og menningar-
málaráðuneytisins hefur
verið tekin sú stefna að
fara varlega í niðurskurð til
stofnana, en draga þeim mun meira
úr framlögum til hinna ýmsu sjóða.
Á yfirborðinu kann þetta að virðast
eðlileg stefna, en hún er ekki öll þar
sem hún er séð.
Nú er rétt að taka það strax fram
að öllum er ljós nauðsyn þess að
draga úr útgjöldum ríkisins, og þar
eru listamenn engar undantekn-
ingar. Það er hins vegar eðlilegt að
fólk hafi mismunandi skoðanir á því
hvernig að því skuli staðið, og vita-
skuld er öllum ofarlega í huga að
samdrátturinn skapi sem minnstan
atvinnumissi og útiloki ekki fram-
kvæmdir, t.d. á mikilsverðum svið-
um menningarlífsins.
Það má ekki gleymast að úthlut-
anir úr ýmsum sjóðum halda uppi
mikilli starfsemi fyrir tiltölulega
lítið fé. Um allan menningargeirann
er mikið að fást fyrir lítið. Dæmi má
taka af Bókmenntasjóðnum, sem
einkum veitir framlög til þýðinga.
Þýðendur eru ekki hátekju-
fólk, en ómissandi þegar
kemur að kynningu á
verkum íslenskra höfunda
– sem raunar hafa verið að
draga að sér athygli víða
um lönd og varpa þar með
jákvæðu ljósi á Ísland í
augum útlendinga. Tillagan
er að Bókmenntasjóðurinn
minnki um 15%, og sama
niðurskurð mega sjálf-
stæðu leikhúsin þola, en líklega fæst
hvergi jafnöflug starfsemi út úr
framlagi ríkisins en einmitt þar. Það
er raunar spurning hvort tap ríkis-
ins verði ekki meira ef listafólkið,
sem þar hefur unnið fyrir stórskert
laun og stundum engin, neyðist til
að þiggja atvinnuleysisbætur. Við
þetta má bæta sama niður skurði
á Tónlistarsjóði, sem hefur m.a.
stutt við kynningu á íslenskri tón-
list erlendis. Lagt er til að verkefnið
Tónlist fyrir alla minnki um fimmt-
ung, sömuleiðis Kynningarmiðstöð
íslenskrar myndlistar, árið sem
íslenskur listamaður slær í gegn í
Feneyjum svo um munar.
Mestur er svo niðurskurðurinn
hjá Kvikmyndasjóði, og ástæður
þess eru óljósar, svo ekki sé meira
sagt. Framlög til kvikmynda virðast
í augum sumra vera styrkur, jafnvel
ölmusa, en reynast við nánari skoð-
un vera skynsamleg og beinlínis
arðbær fjárfesting fyrir ríkið. Og af
hverju er litið á Kvikmyndamiðstöð
sem sjóð en ekki stofnun? Af því að
orðið Kvikmyndasjóður kemur fyrir
í lögunum?
Fleiri dæmi má nefna um sjóði
sem gjarnan mætti veita góðan
stuðning, en einn er sjóðurinn
ónefndur sem nær þó líklega að
vera þeirra stærstur. Sá heitir því
hógværa nafni Safnliður fjárlaga-
nefndar og veitir styrki til ýmissa
málefna, einkum úti á landi. Víst
er um það að mörg þeirra málefna
eru stuðningsins verð og jafnvel
sjálfsögð, ekki síst þau sem lúta
að menningu og listum, en sjálft
fyrirkomulagið er gagnrýnivert.
Stjórnmálamenn eiga að leggja
línurnar, veita fé í sjóði, en ekki
standa sjálfir í úthlutunum. Í sem
flestum tilfellum á að leggja slíkt
í hendur faglegra sjóðstjórna.
Þannig er því t.d. háttað með
starfslaun listamanna, og hefur
gefist vel.
Listir eru velferðarmál, mun
Tage Erlander einhvern tíma hafa
sagt. Við þurfum að standa vörð um
velferðarmálin. Ekki gleyma listun-
um – og mikilvægi hinna ýmsu sjóða
sem halda uppi bráðnauðsynlegri
starfsemi.
Höfundur er kvikmyndagerðar-
maður.
Sjóðir eða stofnanir?
ÁGÚST
GUÐMUNDSSON
UMRÆÐAN
Karl V. Matthíasson
skrifar um kynbundið
ofbeldi
Ég sá í fréttum um dag-inn að nokkrar konur
í Súdan voru hýddar fyrir
það eitt að mæta í buxum
á veitingastað. Í kjölfarið
varð mér hugsað til þess
misréttis og jafnvel þeirra glæpa
sem konur verða fyrir bæði hér á
landi og annars staðar.
Við hljótum að spyrja hvernig
við getum upprætt nauðganir,
mansal, rán á stúlkum, vændi,
kvennakúgun og kvenfyrirlitn-
ingu.
Hvenær mun sá dagur renna að
karlar og konur munu sjá hvort
annað sem jafningja? Svona hljót-
um við að spyrja vegna þeirrar
óhugnanlegu kúgunar og fram-
komu við konur, þar sem karl-
menn eru oftast gerendurnir.
Hvað er til ráða? Samþykkt hafa
verið lög og reglur sem banna
þetta ofbeldi. Allt er það til bóta
en við verðum að gera betur og
sækja á fleiri mið í þessari bar-
áttu því ekki nægir að grípa ein-
göngu til refsinga.
Við verðum að auka umræðu
og skapa viðhorfsbreytingu
sem felur í sér að þolinmæði og
umburðarlyndi samfélagsins fyrir
hvers kyns kúgun kvenna og kven-
fyrirlitningu verði engin.
Ein leið til þess er að markviss
jafnréttisfræðsla verði tekin upp í
leikskólum, grunnskólum og ekki
síst framhaldsskólum og að sú
fræðsla verði skyldunámsefni.
Er ég sat á Alþingi árið 2003
lagði ég fram ásamt nokkrum
öðrum jafnaðarmönnum þings-
ályktunartillögu um gerð náms-
efnis um ólíkt hlutskipti kvenna
í heiminum. Í tillögunni var gert
ráð fyrir að menntamálaráðherra
sæi um framkvæmdina.
Fram kom í greinargerðinni að
alþekkt væri hér á landi hversu
mikill munur hafi verið á réttind-
um kvenna og karla. Þetta kæmi
meðal annars í ljós þegar litið
væri til sögu kosningalöggjafar og
menntamála. Og jafnvel þó að lög
um jafnrétti kynjanna væru góðra
gjalda verð væri nauðsynlegt að
allir fái inngróna tilfinningu fyrir
því að konum bæri sama
staða og körlum í sam-
félaginu.
Þessi ályktun hlaut ekki
náð fyrir augum Alþingis
og kom mér á óvart
hversu fáir lögðu eitt-
hvað til málanna , þrátt
fyrir aukna umræðu um
nauðganir, vændi, klám
og kynferðislegt ofbeldi
gegn konum. Þá var bent
á að tilkoma netsins ætti
nokkurn þátt í því að virðing fyrir
lífi og líkama annarra hafi farið
þverrandi og einnig að kærleiks-
ástin njóti ekki sömu viðurkenn-
ingar samfélagsins og fyrr.
Við þessu ber að sporna af
alefli. Það verður helst gert
með viðhorfsbreytingu og gæti
gerð námsefnis verið lóð á vogar-
skálarnar. Slíkt myndi líka vera
vel til þess fallið að auka kærleika
barna og unglinga í garð hvers
annars og benda þeim á ábyrgð
hvers og eins við að skapa betri
heim í krafti þeirra eigin hegðun-
ar og betri framkomu.
Ég ákvað að fylgja þessum
málum eftir á Alþingi árið 2007 og
gerði það á vettvangi Vest norræna
ráðsins en ég var formaður þess
árið 2007 til 2008. Á aðalfundi
ráðsins í ágúst 2007 lagði ég fram
sambærilega tillögu og heim-
færði hana upp á aðstæður hinn-
ar norðlægu víddar. Það vakti mér
gleði að finna hvað tillögunni var
vel tekið og ekki síst hvað græn-
lensku þingkonunum fannst þetta
skipta miklu máli sem innlegg í
jafnréttis baráttuna.
Í tillögunni var skorað á stjórn-
völd Íslands, Færeyja og Græn-
lands að gera með sér samkomu-
lag um gerð skyldunámsefnis
fyrir unglinga um ólík kjör og
hlutskipti kvenna á norðurslóð-
um og mannréttindi. Markmið
þess yrði að auka umræðu um
jafnréttismál og skilning á því
að kvenréttindi eru mannrétt-
indi óháð menningu, sem og að
auka þekkingu á ólíkum kjörum
og hlutskipti kvenna á norður-
slóðum. Samhljóða tillaga var
svo samþykkt hinn 15. maí 2008
á Alþingi. Auk þess samþykktu
þjóðþing Grænlands og Færeyja
sambærilega tillögu.
Nú er ekkert annað að gera en
að ganga í þetta verk og þróa þetta
námsefni sem yrði gott verkfæri í
baráttunni fyrir bættum og betri
heimi. Við skulum ekki gleyma
því að lengi býr að fyrstu gerð.
Ef við ætlum að koma raunveru-
legum breytingum á í þessum
efnum þá verðum við að koma
okkur úr þeirri dapurlegu varn-
arstöðu sem við erum nú í yfir í
sóknarstöðu þar sem karlar taka
frá upphafi þátt í því að uppræta
kvennakúgun og ofbeldi.
Höfundur er prestur.
Stöðvum kyn-
bundið ofbeldi
KARL V.
MATTHÍASSON
Hvenær mun sá dagur renna
að karlar og konur munu sjá
hvort annað sem jafningja?
Svona hljótum við spyrja
vegna þeirrar óhugnanlegu
kúgunar og framkomu við
konur, þar sem karlmenn eru
oftast gerendurnir.