Vikan


Vikan - 07.12.1939, Síða 9

Vikan - 07.12.1939, Síða 9
Nr. 49, 1939 VIKAN 9 Nýjar bækur. l>órður Kristleifsson: Tónlistarmenn, I. Útgefandi ísafoldarprentsmiðja h.f. Þessi bók er, að því er höfundurinn segir í formála, „upphaf tilraunar, sem miðar að því að tengja hugi manna á hollan og eðli- legan hátt við göfuga hljómlist með hjálp sögulegra fræða“. Af þessum orðum og titli bókarinnar má ráða, að hér sé aðeins um að ræða fyrsta bindi stærra rits um tónlistarmenn. Það er mála sannast, að full þörf er á slíku riti á íslenzka tungu, því að bæði eru bókmenntir vorar furðu fátækar af vís- dómi um þessi efni og ekki er það heldur að efa, að sögulegur fróðleikur um líf og störf tónsnillinga er vel til þess fallinn að glæða eftirtekt, skilning og áhuga almenn- ings fyrir listinni. En mikið veltur á því, að sá fróðleikur sé vel fram borinn, ef hann á að koma að þeim notum sem skyldi, og þegar setja skal fram ævisögur mikil- menna í stuttu máli, er það ekki heiglum hent að velja og hafna — skera úr því, hvað telja skuli aðalatriði og hvað auka- atriði. —- Ævisögu Beethovens er þröngur stakkur skorinn á 40 blaðsíðum, og það er heldur ekki rúmt um þau Johannes Brahms, Jenny Lind, Bernhard Pfannstiehl og Enrico Caruso á þeim 70 bls., sem eftir eru af bókinni, þegar þættinum af Beet- hoven sleppir. Þetta verður að sjálfsögðu að hafa í huga, þegar um bókina er dæmt. En þó verður því ekki neitað, að bókarhöfundi hefir ekki tekizt, eins og æskilegt hefði verið, að gera greinamun stórra atburða og lítilvægra í lífi söguhetja sinna. Á Breuning-f jölskylduna í Bonn er t. d. ekki minnzt í frásögninni um Beethoven, enda þótt þar væri athvarf hans, þegar ósköpin á heimili foreldra hans keyrðu úr hófi, og er jafnvel sagt, að þar hafi hann dvalið daga og nætur, ef svo bar undir. — Það er ekki ósennilegt, að samúð og umhyggja þessarar fjölskyldu hafi átt nokkurn þátt í því að gera bærileg hin dapurlegu æskuár hans og mýkja þau óblíðu áhrif, sem sífelld vandræði heima fyrir höfðu á viðkvæmt geð hans og hann bjó að alla ævi. — Með Beethoven og Stephan Breuning tókst vinátta, sem ent- ist meðan þeir lifðu báðir, og var sú vin- átta Beethoven mikils virði, þegar sjúk- dómur hans og aðrir erfiðleikar sóttu hann fastast. Af ástmeyjum Beethovens er aðeins nefnd ein, sem sé Giulietta Guicciardi, en ekki minnzt á æskuvinkonu hans, Eleonore von Breuning, systur Stephans, sem nefnd- ur var hér að ofan, ekki heldur Therese Brunswick né allar þær konur aðrar, sem Beethoven hefir verið bendlað við með réttu og röngu. — Bréfið til „hinnar ódauð- legu“ („die unsterbliche Geliebte") nefnir höf. heldur ekki, og gæti það þó orðið til stuðnings þeirri skoðun, sem hann virðist telja rétta, að Giulietta Guicciardi hafi ver- ið „la femme“ (,,konan“) í lífi Beethovens. Auk þess er þetta bréf fyrir margra hluta sakir eitthvert hið merkasta plagg, sem Beethoven lét eftir sig. Þessi tvö atriði, sem hér hafa verið tínd til af handa hófi, eru bæði mjög merkir þættir í lífi Beethovens, og virðist mér, að vel hefði mátt ætla þeim nokkurt rúm. Það veldur að jafnaði miklum örðugleik- um öllum þeim, sem ræða eða rita um tón- list á íslenzku, að finna sæmilegar íslenzk- ar þýðingar á útlendum og alþjóðlegum tónlistarheitum, og hefir höf. þessarar bók- ar sýnilega rekið sig á það. Sjálft nafn þessarar listgreinar veldur vandræðum. Bókin heitir „Tónlistarmenn“, en í henni er hvað eftir annað talað um ,,hljómlist“. — Er hér einhver hárfínn merkingarmun- ur — eða baxa venjuleg ringulreið og ruglingur orða? — I formála bókarinnar stendur þessi setning: „Helztu tónlistar- fræðingar okkar tíma halda því fram, að sögulegur fróðleikur um hljómlist . . . .“ o. s. frv. Ástæðulaust virðist vera að taka upp nÝ3a þýðingu á tónlistarheitinu „Symfoni", sem hingað til hefir oftast verið þýtt með orðinu „hljómkviða". Hljómkviða er gott orð og vel íslenzkt og tekur, að mínum dómi, langt fram orðinu „samhljóma", sem bókarhöf. notar, auk þess sem það hefir þegar fengið nokkra hefð. Hafi hann hins vegar ekki getað fellt sig við það, hefði honum verið vorkunnarlaust að skrifa rétt og slétt „symfónía", og með það hefði hann getað farið á sama hátt og orðið ,,melódía“ (í kaflanum um Caruso), er hann talar um sál melódíunnar (!!) Orðasambandið er í sannleika ekki smekklegt, þótt meining- una sé ekki að lasta. — Höf. gerir sig víðar sekan um smekkleysur í máli, t. d. þar sem hann talar um „upptypping- inn“(!!) á Egyptalandi (síðast í kaflanum um Beethoven). Hver skyldi gera sér í hug- arlund, að „upptyppingur" er sama og pýramídi, ef Egyptaland væri ekki nefnt í sömu andránni? Ég minnist að hafa heyrt eða séð þetta fáránlega orð einhvern tíma áður, en hitt hafði mér aldrei komið til hugar, að það yrði notað í riti, sem annars er alvarlegs efnis, og það án gæsalappa! Þrátt fyrir þetta er það ekki að efa, að þessi bók verður lesin — og lesin mikið, enda á hún það skilið fyrir margra hluta sakir. Alþýðu manna fýsir alltaf að kynn- ast einkalífi og æviferli þeirra, er fram úr skara og frægðar njóta ■— og það jafnvel þótt þeir hafi minna til frægðar sinnar unnið en það fólk, sem hér um ræðir. — Það er hins vegar ókostur á bókinni, ef þessari útgáfu verður haldið áfram, sem vafalaust verður, að þeim mönnum, sem ritið f jallar um, skuli ekki frá upphafi vera raðað eftir réttri tímaröð. Hefði safnið við það orðið miklu skipulegra og heillegra, og ekki þarf að óttast, að það hefði sómt sér á nokkurn hátt ver, þótt byrjað hefði verið á þeim Bach og Hándel og öðrum braut- ryðjendum þeirrar tónlistar, sem nú er mest og almennast tíðkuð. Jón Þórarinsson. Rudyard Kipling: Litli fílasmalinn. Útgef.: Heimdallur. Sögur eftir Rudyard Kipling hafa allir ánægju af að lesa, jafnt ungir sem gaml- ir. Nú er nýlega komin út í íslenzkri þýð- ingu barnabók eftir hann, Litli fílasmal- inn, í ágætri þýðingu — en þýðandinn mun vera Gísli Ásmundsson. Þetta er saga um fíla — tamda fíla, sem eru í þjónustu Indversku stjómarinn- ar og hjálpa til við að veiða villta fíla og Toomai, litla filasmalann, sem hefir svo gaman af að búa í tjaldbúðum, flakka úr einum stað í annan, en þó sérstaklega af fílum. — Nafnið Fíla-Toomai hafði langafi hans borið á undan honum, en það nafn fékk litli Toomai fyrir að sjá það, sem engin mannleg augu höfðu séð áður — næturdans fílanna. Þetta er skemmtilegt kver, prýtt mörg- um, stórum og fallegum myndum. Sigríður Eyjaf jarðarsól. Úr þjóðsögum Jóns Ámasonar. Útgefandi: ísafoldarprentsmiðja. Myndir eftir Jóhann Briem. ísafoldarprentsmiðja hefir nýlega gefið út eina af þjóðsögum Jóns Árnasonar, Sigríði Eyjafjarðarsól, prýdda fallegum myndum eftir Jóhann Briem. Þessa bók hafa áreiðanlega öll börn gaman af að eiga — ísíenzka þjóðsögu með myndum eftir íslenzkan mann. Og það er gleðilegt til þess að vita, að útgefendur skuli hafa opn- að augun fyrir því, að börn eru líka vand- fýsnir lesendur, sem gera sínar kröfur til smekklegra bóka. Vonandi eiga sem allra flestar þjóðsögur okkar og ævintýri eftir að koma út með mörgum og fallegum myndum, börnunum til yndis og ánægju. Andvökur Stephans G. Stephanssonar, með formála eftir prófessor Sigurð Nordal, nýkomnar út. Mál og menning.

x

Vikan

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.