Vikan


Vikan - 07.12.1939, Blaðsíða 14

Vikan - 07.12.1939, Blaðsíða 14
14 VIKAN Nr. 49, 1939 Hann lagðist í rúmið, og hún hjúkraði honum allan daginn og varð reið, þegar hún gat ekki fengið hann til að borða. Um kvöldið var hann með óráði. Hún sat við rúmið hans mest alla nóttina. Næsta dag leið honum mun betur. Hvorugt þeirra minntist á ,,lækni“. Næsta kvöld versnaði honum aftur, og hún sat aftur þá nótt við hvílu hans. Um morguninn hvíslaði Denry lágt: — Mamma, þú verður að senda eftir honum. — Lækninum? spurði hún. Og allt í einu fannst henni, að það væri sitt hvað inflúenza og kvef. — Nei, sagði Denry. — Sendu eftir Lauton. — Lauton? hrópaði hún. — Hvað á hann að gera hingað? — Ég á eftir að gera erfðaskrá, svar- aði Denry. — Svei! hrópaði hún. En hún var dá- lítið hrædd og lét senda eftir dr. Stirling. Dr. Stirling, sem var feitur maður, skoð- aði frú Machin og Denry líka. — Þér verðið að fara í rúmið strax, sagði hann. — Hann liggur í rúminu, hrópaði frú Machin. — Það eruð þér, sem ég á við, sagði dr. Stirling. Hún var alveg máttlaus af þreytu, og öruggasta merkið um það var, að hún hafði ekki krafta til þess að slást við dr. Stirling. Hún fór í rúmið. Skömmu síðar fór Denry á fætur. Síðan tók Rose Shudd, hin dug- lega og laglega ekkja, við störfum í hús- inu. Frú Machin komst á fætur eftir viku, alhress, borgaði Rose og lét hana fara án þess að þakka henni. En þrátt fyrir allt og allt gat frú Machin ekkert sett út á það, sem Rose hafði gert í húsinu. Skömmu síðar fékk frú Machin tvö bréf einn morguninn. Þessi bréf skutu henni skelk í bringu. Annað var frá húseigand- anum, sem tilkynnti henni, að hann hefði selt húsið, sem hún bjó í, hr. Wilbraham frá Lundúnum, og framvegis yrði hún að borga honum eða fulltrúa hans húsaleig- una. Hitt var frá firma í Lundúnum með tilkynningu um, að hr. Wilbraham hefði keypt húsið, og leigúna átti að borga um- boðsmanni einum. — Hamingjan góða! hrópaði frá Machin og sýndi Denry bréfin. — Nú, svo að hann hefir keypt þau, sagði Denry. — Já, ég hafði heyrt þetta. — Þau! hrópaði frú Machin. — Hvað hefir hann keypt annað? — Ég hugsa, að hann hafi keypt þau öll fimm. Sannaðu til, að hinir leigjendurn- ir fá bréf líka. Þú veizt, að Wilbraham- fjölskyldan átti einu sinni öll húsin hér við götuna. Þú hlýtur að muna það, mamma ? — Er hann frá Mellport? — Já, auðvitað. — Ég hélt, að Cecil hefði verið hinn síð- asti, og hann fór til Ástralíu og dó af drykkjuskap. Þetta var altalað. — Já, hann fór til Ástralíu, en hann dó ekki. Hann hvarf, og þegar hann hafði grætt dálitla upphæð, skaut honum aftur upp í Sidney. Ég hefi heyrt, að hann ætli að setjast hér að. Að minnsta kosti kaupir hann mörg hús, sem Wilbraham-f jölskyld- an átti einu sinni. Ég hélt, að þú hefðir heyrt þetta, sem er á hvers manns vörum. — Nei, ég hefi ekki heyrt það, sagði frú Machin. — Mér finnst þetta ósvífni. Henni gramdist, að lögin skyldu leyfa húseigendum að selja hús, sem sömu leigj- endurnir höfðu búið í í 30 ár. Hún komst að því, að Denry hafði á réttu að standa. Hinir leigjendurnir höfðu fengið alveg sams konar bréf og hún. Tveim dögum síðar kom Denry heim með mikla fregn. Hr. Cecil Wilbraham hafði verið í Bursley og heimsótt Denry. Hann hélt, að Denry væri ennþá húsaleigu- rukkari og bað hann að rukka fyrir sig. — Hvað sagðir þú? spurði frú Machin. — Ég sagði já. — Hvers vegna? — Mér fannst, að það yrði bezt fyrir þig, sagði Denry í öðrum tón. — Annars virðist þetta geta orðið anzi gaman. Hann er undarlegur maður. — Undarlegur? — Já, hann hefir það stærsta yfirskegg, sem ég hefi nokkum tíma séð. Þar að auki er eitthvað að honum í vinstra auganu, og ég held, að hann sé hálfvitlaus. — Vitlaus? — Já, svona smáskrítinn. Hann ætlar að byggja svo hlægilegt hús við Bleak- ridge. Hann virðist leggja mikið upp úr því að búa einn, og hann hefir fundið upp eitt og annað til þess að þurfa ekki að hafa vinnukonur. — Hann er þá ekki mikið vitlaus, sagði frú Machin með fyllstu samúð. Sjálf sagði hún, að minnsta kosti einu sinni í viku, að — hún gæti ekki hugsað sér að hafa vinnukonu. — Hann er þá ókvæntur, bætti hún við. — Hann segist nú vera ekkjumaður í þriðja sinn og hann er barnlaus. — Hamingjan góða, hvíslaði frú Machin. Denry var sá eini í bænum, sem kynnt- ist hr. Wilbraham. Hann hafði einn góðan veðurdag komið til Bursley, talað við Denry og farið aftur. — Síðan var farið að byggja hið dásamlega hús undir eftir- liti Denry, en teikningar og þess háttar kom allt frá Lundúnum. Þar sem Denry hafði þekkt Cotterill-fjölskylduna síðan í Llandudno fékk Cotterill vinnu við fyrir- tækið. Bæjarbúar gátu ímyndað sér auð- æfi og álit hr. Wilbrahams, þar sem eins auðugur maður og Denry gerði svo lítið úr sér að vera umboðsmaður hans. En Wilbrahams-f jölskyldan hafði líka talizt til heldra fólks í Bursley, þar til hún fór á hausinn. Bæjarbúa langaði mikið til að sjá þetta mikla yfirskegg og skrítna augað. Fyrir utan Denry hafði aðeins ein mann- eskja séð hinn skrítna mann, en það var Nellie Cotterill, sem hafði einn sunnudag- inn verið að skoða húsið með Denry, en hinn skrítni hafði horfið strax aftur. Hús- ið jók vináttu Denry og Cotterill. Samt geðjaðist Denry ekki að Cotterill, og hann treysti honum heldur alls ekki. En skyndilega fékk frú Machin bréf frá Lundúnum, þar sem henni var sagt að flytja strax. Hún var reið við Denry fyrir kæruleysið. Það var skylda hans sem rukk- ara hr. Wilbrahams að vernda móður sína gegn öllum óþægindum. Hún tók eftir því, að honum brá, þegar hann las bréfið, og hann fullvissaði hana um, að hr. Wilbra- ham hefði ekki minnzt á þetta við sig. Hann skrifaði til Lundúna og spurði, hverju þetta sætti. Það svar kom, að hr. Wilbraham ætlaði að rífa húsin niður og byggja ný hús. — O, svei, sagði Denry. — Vertu róleg. Ég skal lagfæra þetta. Hann kemur hing- að bráðum, því að húsið hans er að verða búið, og þá skal ég tala við hann. En hr. Wilbraham kom ekki, og það var áreiðanlega af því, að hann var vitlaus. Loksins var Denry beðinn að hitta hr. Wilbraham í nýja húsinu eitt kvöldið. Til allrar óhamingju fékk frú Machin bréf sama dag, þar sem henni var sagt, að hún yrði að vera farin úr húsinu innan sólar- hrings. Aldrei hafði nokkur heiðvirð kona verið eins smánuð og frú Machin. Denry játaði það, að hann væri alveg ráðalaus. En þetta sýndi, að hr. Wilbra- ham var ekki með réttu ráði. Um kvöldið sagði hann móður sinni, að hún yrði að koma með sér og tala við hr. Wilbraham. Þetta gengi áreiðanlega allt. Denry sagði móður sinni, að sérhver ensk kona væri húsbóndi á sínu heimili, og enginn ætti með að ganga á rétt hennar. Hið eina, sem hr. Wilbraham gæti gert væri að byr ja á hús- inu að utanverðu . .. og hann hefði gaman af að sjá hann gera það! Og þau héldu til Bleakridge. Það var glaða tunglsljós. Húsið stóð eins og dökk- ur, ferstrendur kassi í tunglsljósinu. — Það er ekkert mjög stórt, sagði frú Machin. — Nei, hann kærði sig ekkert um það, sagði D’enry og hringdi dyrabjöllu, en eng- inn kom til dyra. Þau biðu. Frú Machin leið illa, en henni var ekki kalt, þökk sé selskinnskápunni. — Þetta eru skrítnar tröppur, sagði hún til að segja eitthvað. — Þær eru úr marmara, sagði Denry. — Hvers vegna? — Það er betra að hreinsa þær, sagði Denry. — Þær eru að minnsta kosti nógu óhreinar núna. Það voru þær. — En það er enginn vandi að hreinsa þær, sagði Denry og beygði sig niður. — Maður skrúfar bara frá þessum krana. Farðu frá. Hann skrúfaði frá krananum og tröpp- urnar urðu hreinar á augabragði. — Hvers vegna rýkur úr vatninu? spurði frú Machin.

x

Vikan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.