Vikan - 25.01.1940, Blaðsíða 4
4
VIKAN, nr. 4, 1940
tolla, eru yfirfullir af girnilegum vörum.
Sveitapiltinum verður strax mjög starsýnt
á þessa glugga. I fyrsta lagi taka þeir
fram öllum gluggum, sem hann þekkir um
allt skraut, hagleik og ljósadýrð. Og svo
er það vöruverðið. Hann miðar allt við af-
urðasölu frá búi föður síns. Lambsverðið
er sá grundvallargjaldmiðill, sem hann
þekkir bezt. I fyrra haust fékk faðir hans
kr. 16.79 til jafnaðar fyrir hvert lamb, sem
hann rak til blóðvallanna. Og hér kostar
ein manchettskyrta, að vísu mjög lagleg
skyrta, kr. 18.85. Pilturinn er skyrtufár
og hann langar til að kaupa þessa skyrtu,
en honum hrís svo hugur við verðlaginu,
að hann getur ekki orða bundist og segir:
„Hún er dýrari en lambhrútur!“
Svo göngum við lengra eftir götunni og
staðnæmumst við annan búðarglugga.
Þar sér hann rykfrakka, sem hann langar
til að eignast, en frakkinn sá kostar 167
krónur. Það er ekkert viðlit. Og hann hefir
samanburðartöluna á reiðum höndum, því
að á liðnu vori hafði á ein í landareign
föður hans verið gerð laxgeng. Þær um-
bætur höfðu kostað 200 krónur, 'ásamt
nökkur þúsund laxaseyðum. Með nokkru
yfirlæti fer hann mörgum orðum um það,
hvernig hann og bræður hans breyttu far-
vegi árinnar, til þess að geta framkvæmt
miklar dynamitssprengingar á klöppum, er
höfðu myndað flúðir í ána, sem laxinum
var ofraun að komast yfir. Og eftir allt
þetta var ekki nema von, að dregnum fynd-
ist frakkinn dýr.
Fram undan okkur er ljósaauglýsing á
þekktri hárgreiðslustofu, ásamt smekkleg-
um sýningarglugga ýmissa snyrti- og feg-
urðarlyfja. Þótt undarlegt megi virðast
hafði þessi piltur aldrei heyrt getið um
hárgreiðslustofur og var alls kostar ófróð-
ur um þýðingu þeirra. Er ég reyndi að
xniðla honum af hárgreiðsluþekkingu
minni, lét hann vanþóknun sína í ljós og
hélt, að þær myndu nú hafa tíma til að
greiða hár sitt þessar ungu stúlkur,
sem hefðu tíma til að labba hér fram
og aftur í fullkomnu auðnuleysi. Auðvitað
spurði hann, hvað það kostaði, að láta
greiða hár sitt, og ég svaraði, að eftir því,
sem ég bezt vissi, þá kostaði permanent-
krullur 20 krónur á síðu hári, en 15 kr.
á drengjakolli, lagning 2.50 og hárþvottur
1 krónu. 1 bili varð drengnum svarafátt.
En þegar hann kom til sjálfs sín aftur,
spurði hann, hvað viðhaldskostnaður eins
konuhöfuðs í Reykjavík væri þá á ári,
og gat ég mér til, að að meðtöldu púðri,
smyrslum, hárvötnum og farða væri lágt
í lagt, að slíkur kostnaður væri 150 kr.
— Já, ekki nema það þó, svaraði dreng-
urinn. — Það er tíu krónum minna, en við
borgum í ársleigu eftir jörðina okkar, jörð
með átján dagsláttatúni, sem gefur af sér
200 hesta í töðu og 400 hesta í útengja-
heyskap.
Við göngum fram hjá skóverzlun og
rennum augunum yfir þær vörur, sem eru
til sýnis í búðargluggunum. Þar eru karl-
mannaskór, og þeir kosta 29 krónur, mínus
Tómas Guðmundsson:
Samtal við drottinn
I gærdag kaus ég helzt að vera horfinn til þín, drottinn,
því hjarta mitt var aldrað og dapurt eins og gengur,
og enginn minna vina hafði tíma til að gleðjast,
svo ég taldi alveg vonlaust að dvelja hérna lengur.
Og það er ekki gaman fyrir þann, sem trúði á lífið
og þóttist bera æskunnar myrtus-krans um enni,
að hafa farið tvítugur að hátta seint að kvöldi,
en hrökkva upp að morgni og vera gamalmenni.
En loks er ég þó viss um, að ég er ungur aftur,
því ennþá finnst mér lífið jafn dularfullt og skrítið,
og ennþá myndi’ ég líklega fagna því að falla
í freistni — og eiga kost á því að hrasa ofurlítið.
Svo á ég líka fjöldamargt eftir hérna megin
til að elska, þrá og dást að, og hóp af góðum vinum.
En auk þess veiztu, drottinn, að ég hefi einatt haft þig
í huga — einkum síðari partinn af mánuðinum.
Og þó ég geti búist við að brostið hafi á það,
að bæn mín væri stundum af nægu trausti sprottin,
þá fannst mér líka árangurinn einatt vera lítill,
svo við urðum báðir leiðir á þessu kvabbi, ó, drottinn!
En jafnvel þó ég feginn vilji fara til þín seinna,
þá finn ég, eins og sakir standa, enga þörf að kvarta,
því hnötturinn, sem þú gafst mér, er sennilega ekki síður
í samræmi við lítið en glatt og jarðneskt hjarta.
En hitt er annað mál, og þú sérð það sjálfsagt líka,
að sízt er það af andúð gegn himnaríki þínu,
þó barn þitt hafi tekið nokkra tryggð við veslings hnöttinn
og treysti sér að dvelja þar um stund að gamni sínu.