Heima er bezt - 01.10.1958, Blaðsíða 31
„Þú hefðir aldrei átt að láta þau koma hingað norður.
Ég veit, að fólk hlær að þeim og þykir þau leiðinleg,“
sagði hún, en fann þó til þess, að hún var hræðilega
miskunnarlaus við hann.
„Hefði þér þótt það fallegra, ef ég hefði skammazt
mín svo fyrir þau, að ég hefði bannað þeim að koma?“
spurði hann. „Mér stendur svona nokkurn veginn á
sama, hvað það rausar um þau, hyskið hérna í sókninni."
Hann var áreiðanlega orðinn reiður.
„Það er nú bara ekkert hyski hér, skal ég segja þér,“
sagði hún. „En nú skal ég spila uppáhaldslagið okkar.
Og þú tekur undir, ef þú ætlar ekki alveg að tína niður
að syngja.“
„Þú varst svo hláleg við mig, en samt skal ég syngja.
Svo skulum við fara að hátta. Það er þó alltaf bezt að
enda daginn með því. Ég hef ekki séð þig í rúminu hjá
mér í mörg kvöld. Bara fundið, að þú svafst í myrkrinu.
Ég er ekki vel ánægður með það,“ sagði hann í léttari
tón en áður.
Það voru allir háttaðir og sofnaðir í baðstofunni,
þegar þau komu inn. Rósa hélt á ljósinu.
Þó hvæsti Hartmann gamli út undan sænginni: „Ég
var farinn að halda, að ég fengi aldrei að sofna fyrir
hávaðanum í ykkur.“
„Það hefur þó ekki verið mjög leiðinlegt að heyra
orgelspil og söng gegnum svefnmókið,“ sagði Kristján
glaðlega.
„Ég segi nú bara: Svei attan!“ rausaði gamli maður-
inn.
Rósa flýtti sér inn í húsið.
Það fyrsta, sem Rósa heyrði morguninn eftir, var
rifrildið í tengdaföður hennar utan af hláðinu. Það var
út af því, að Bleikur var hvergi sjáanlegur.
„Hann hlýtur að hafa rölt eitthvað út í hagann, þó
að strákfíflið geti hvergi komið auga á hann. Þetta
hefur ekki nema hálft vit, strákurinn meina ég, en ekki
klárinn.11
„Þú getur þá setið á gráa klárnum, ef þú þykist ekki
geta gengið hérna upp að Brekkukoti,“ sagði Kristján.
„Ég sagði þér í gærkvöldi, að konunni minni væri illa
við að Bleikur fengi aldrei hvíld.“
„Kannske hún hafi þá falið hann einhvers staðar.
Gaman að vita, hvort hann er í pilsvasa hennar,“ sagði
gamli maðurinn.
Þá heyrðist Leifi í Garði bjóða góðan daginn.
Kristján tók stuttaralega undir við hann. Hann hafði
ætlað að fá hann til að flytja heim móinn daginn áður,
en þá var hann úti á Eyri að róa.
„Hvað kemur til að þú heldur þig ekki í skiprúminu?
Mér heyrðist það á konu þinni í gær, að það væri held-
ur arðvænlegra að vera við sjóinn, en að taka nágranna
sínum handarvik,“ sagði Kristján.
„Já, auðvitað er flest betra en svoleiðis snatt, en það
er ekki gott að fara á sjó á sex manna fari, þegar ekki
fást nema þrír hásetarnir. Það eru allir í sláturstússi,
sem eitthvað eiga til að slátra.“
„Já auðvitað. Komdu bara inn og fáðu þér kaffisopa
með okkur. Kerlingin er líklega búin að hella á könn-
una, þykist ég vita,“ sagði Hartmann gamli. „Ég sé það
á þér, að þú segir eitthvað í fréttum.“
„Það er víst heldur lítið annað en það, sem þið eruð
sjálfsagt búnir að heyra,“ sagði Leifi dræmt.
„Jæja, komdu inn samt, við eigum morgunsopann til
góða,“ sagði Hartmann. „Þá liðkast málbeinið á þér,
lagsi. Þú ert eini maðurinn, sem hægt er að toga orð
úr hér á bæjunum, og konan þín, hún er ágæt.“
Rósa flýtti sér inn og var farin að raða pörunum á
borðið, þegar karlmennirnir komu inn.
„Leifi í Garði drekkur víst kaffi í þetta sinn,“ sagði
hún við Geirlaugu.
„Hvað er hann eiginlega að þvælast?“ hnussaði í
Geirlaugu.
„O, ætli hann eigi nokkurt erindi," sagði Rósa.
„Það eru sama og engar kleinur til,“ sagði Geirlaug.
„Þá gefum við þeim bara molakaffi,“ sagði Rósa.
Karlmennirnir komu inn og buðu góðan dag. Leifi
hafði orðið: „Hartmann sagði, að þú værir víst búin
að hella upp á könnuna, svo að ég slangraði inn með
þeim til að smakka á kaffinu. Annars átti ég ekkert
erindi nema að segja Kristjáni, að nú viti ég með vissu
að hann sé orðinn landsdrottinn minn. En náttúrlega
hefur hann vitað það, þó að hann.hafi ekki viljað segja
það.“
„Það er vel líklegt að maður viti, hvernig þau rétt-
látu skipti fóru fram,“ gall í Hartmanni gamla. „En
Kristján skrifaði þessum myndarlega mági sínum og
fór fram á leiðréttingu á því, auðvitað eftir minni til-
lögu.“
Geirlaug hellti kaffinu í bollana.
„Hvernig var þessu svo skipt?“ spurði hún forvitin.
„Hver fékk Hof?“
„Ja, Hof fá þær allar, mæðgurnar. Maddaman á helm-
inginn. Með öðrum orðum: Jörðinni var skipt í tvennt,
eins og flatköku, og svo var annar helmingurinn skor-
inn í tvennt. Það verða tveir fjórðupartar. Þeir koma
í hlut systranna.“
Það var Leifi, sem útskýrði skiptin fyrir henni með
því að grípa flatköku út úr skápnum og skera hana
sundur í þrjá parta.
„Svona svona, nú hlýturðu þó að skilja.“
„Það hefur víst ekki verið hægt að skipta betur,“
sagði Rósa.
„Ekki það!“ hrópaði tengdafaðir hennar og gleypti
kaffið svo stórkostlega, að hann fékk hóstahviðu. „Þetta
segir þú, flónið þitt, sem þó átt að búa á jörðinni,“ sagði
hann, þegar hann gat talað skýrt.“ Heldurðu, að það
hefði ekki verið heldur betra fyrir þig að fá hálfa jörð-
ina en systir þín hjáleigurnar, sem ekkert hefur með
þær að gera annað en að hirða eftirgjaldið.“
„En er þá eins mikið eftirgjaldið af öllum hjáleigun-
um og af hálfu Hofi?“ spurði Rósa.
„Það veit fjandinn en ekki ég,“ sagði Hartmann. „Þú
ættir að vita það, sem ert uppalin hérna.“
„Það er nú víst heldur lítið, sem ég veit um það,“
sagði Rósa.
Heima er bezt 357