Heima er bezt - 01.08.1959, Qupperneq 30
GUÐRÚN FRÁ LUNDI
TUTTUGASTI HLUTI
„Ég hef hugsað mér að kasta úr þessum sátum áður,“
sagði Aslaug, merkileg á svip.
„Það er engin meining að fá sér ekki kaffi. Þú verður
varla lengi að |n'í,“ svaraði Kristján.
Þá skálmaði Aslaug heim til bæjar.
Geirlaug bauð hana velkomna: „Mér þótti heldur
vænt um, þegar ég sá að Kristján hafði fengið einhverja
hjálp til að koma heyinu inn. Þvílíkt öngþveiti, sem er
að verða á þessu heimili,“ sagði hún.
„Kristján talaði ekki um að hafa mig lengur en þar
til heyið væri komið inn, en ég sagði honum, að ég yrði
að sjálfsögðu hjá honum þangað til konan hans kæmi
heim,“ svaraði Asdís.
„Það er nú víst erfitt að segja um, hvenær það verð-
ur,“ andvarpaði Geirlaug.
„Hann segir að hún komi fljótlega.“
„Jæja, það er ágætt ef svo verður„“ sagði Geirlaug.
Asdís var ekki lengi að súpa kaffið.
Geirlaug hafði gætur á vinnubrögðunum. Henni
fannst vera unnið rösklega. Þetta ætti nú sjálfsagt við
Kristján, að svona væri hamazt við heyskapinn.
„Áttu ekki eitthvað af þessu heyi þarna suður á mýr-
unum? Mig minnir, að þær heyri Hofi til,“ spurði Ás-
dís, þegar þau höfðu lokið við að dreifa.
Hann játaði því.
„Maður reynir líklega að kippa því heim fljótlega.
Það er lítið vit í að hafa það í engjunum, þegar komið
er fast að göngum og féð væntanlegt heim. Það rifi það
fljótlega í beðjur,“ sagði hún.
„Auðvitað bind ég það heim fyrir göngurnar,“ sagði
Kristján, hrifinn af þessari duglegu meðhjálp, sem hann
var allt í einu búinn að fá. Hann var ekki vanur því, að
vinnuhjúin sýndu mikinn áhuga fyrir heyskapnum.
Það var rifjað allan daginn í blásandi sunnanhlýju og
glaðasólskini. Næsta dag myndi kannske verða hægt að
taka saman og koma einhverju inn í hlöðu, ef sama veð-
ur héldist, bjóst Ásdís við. Það var hún, sem lagði ráðin
á, og það gekk eftir. Þá var sjálfsagt að fara að binda úr
engjunum. í fyrstu ætlaði hún að svífa á sáturnar og
binda þær, en Kristján sagðist vera einfær um það, hún
skyldi setja á með Boggu. Hún sagðist vera alvön því
að reyra sátu og láta hana til klakks.
„En hér þarftu þess ekki. En það er þá bezt að ég
biðji þig að fara á milli, því að strákurinn getur ekki
tekið ofan og er svo lengi að hleypa niður,“ sagði Krist-
ján.
„En þau hafa varla undan að setja á, strákurinn og
Bogga. Mér sýnist hún nú heldur hægfara,“ sagði Ásdís.
„Það er engin von til þess að þau geti það, Þetta er
svo stutt að flytja. Þú hjálpar þeim þá, þegar þú kemur
aftur,“ sagði hann.
Kristján sagði Geirlaugu það um kvöldið, að aðra
eins konu hefði hann aldrei haft í verki með sér.
Það var búið að koma öllu heyinu inn í hlöður fyrir
göngur.
Þá talaði Ásdís um það að karlgreyið á Bala ætti hey
úti í Bakkaengjum. Það væri sjálfsagt að binda það heim
fyrir hann, áður en féð kæmi heim.
Það hnussaði í Kristjáni. Hann sagðist ekki vera vanur
að vinna leiguliðum sínum.
„Þá get ég gert það,“ sagði hún. „Það er slæmt að láta
heyið hans fara í skepnurnar. Er þetta ekki allur útheys-
skapur þessa vesalings?“
„Það má víst heita svo,“ anzaði Kristján. „Eitthvað
er þó víst komið í tóft hjá honum. Jóhann á Bakka
hjálpaði honum við það. Líklega bindur hann þetta
líka fyrir hann,“ svaraði Kristján þurrlega.
Stína gamla hafði verið að þvælast á Hofi daginn
áður og hefði sjálfsagt verið að væla framan í stúlk-
urnar, eins og hennar var vani.
„Þetta kalla ég nú hálf stirðbusalagt,“ sagði Ásdís.
„Það er varla von að svona menn séu vinsælir,“ bætti
hún við, þegar húsbóndi hennar var farinn út.
„Kristján er nú einn af þeim, sem þiggur að aðrir
vinni honum, en gerir lítið að því að vinna þeim,“ sagði
Geirlaug.
Á laugardagskvöldið hljóp Bogga suður að Þúfum
286 Heima er bezt