Heima er bezt - 01.08.1959, Blaðsíða 32

Heima er bezt - 01.08.1959, Blaðsíða 32
borða, en hún sagðist hafa etið kútmaga hjá Stínu gömlu og væri stútfull upp í háls. Kristján fór inn í hjónahúsið og sást ekki, það sem eftir var dagsins. Ásdís spurði, hvort hann myndi vera lasinn. Henni var horfin öll kæti. Geirlaug bjóst við að svo væri ekki. Hann væri það sjaldan. Líldega væri hann þreyttur. „Honum sýndist Stefán nágranni sinn heimta mikið betur en hann sjálfur,“ sagði Leifi. „Þar að auki frétti hann lát hrútsins síns, eftirlætisskepnunnar sinnar.“ „Aáér datt nú ekki annað í hug en að hann gisti á Giljum,“ sagði Ásdís glaðlega. „Þau pabbi og mamma eru orðin svona hálfvegis tengdaforeldrar hans,“ Geirlaug leit glottandi út undan sér til Leifa. Hann hló ískrandi hlátri, en Bogga flissaði: „Hún er bara trú- lofuð strax.“ Þá varð Geirlaug alvarleg og hastaði á hana. Hún mátti ekki láta eins og flón. Næstu daga hentu nágrannakonurnar þetta heimsku- lega glamur Ásdísar á milli sín. Leifi hafði komið því til þeirra. Kristján fór á fætur morguninn eftir, áður en orðið var hálfbjart. Þegar nýja vinnukonan kom út, var hann farinn að þekja flag niður í girðingarhorni. Hún var snör í snúningum og náði sér í torfgaffal inn í skemmu og stikaði ofan eftir til hans. „Þú hefðir átt að láta mig vita, að þú ætlaðir að fara að þekja þetta flag,“ sagði hún. „Ég er nú vanur því að þurfa heldur að ýta kven- fólkinu út en að það komi af fúsum vilja. Það er vana- lega nóg að gera innan bæjar,“ sagði hann. „Ég sé nú ekki, hvað þrjár stúlkur fullorðnar hafa að gera inni við,“ sagði hún og tók rösklega til verka. Kristján horfði á hana, ánægjulegur á svip. Þetta var nú meiri dugnaðurinn. Hún var líkari karlmanni en konu. Ef hún væri svona til allra verka, þá var henni gjaldandi kaup. Það leið ekki á löngu þar til Geirlaug kallaði til þeirra að kaffið væri til. Kristján varð sárfeginn. Hann hafði mátt hafa sig allan við að láta hana ekki vinna af sér. „Við ljúkum við að þekja þetta í dag,“ sagði hún, þegar þau gengu heim túnið. „Það veit ég nú ekki. Það er stutt birtan, en flagið þó nokkuð stórt, þó að ég hafi tekið þau stærri hérna í túninu,“ sagði hann. „Kannske verður þetta síðasta flagið, sem ég tek hérna,“ bætti hann við í lægri róm. „Þú ferð nú líklega ekki að flytja af annarri eins jörð og þessari,“ sagði hún. „Það er ekki gott að vita, hvað fram undan er,“ sagði hann. „Svo er líka leiðinlegt að eiga ekki jörðina, sem maður gerir til góða.“ „Áttu ekki Hof? Hver á það þá, ef Rósa á það ekki?“ spurði hún. „Hún á fjórðapartinn í jörðinni. Það er allt og sumt.“ „Ég er nú bara aldeilis hissa. Ég hélt að þú ættir alla jörðina.“ Leifi sat við borðið í maskínuhúsinu og drakk kaffið í rólegheitum. „Mikil bölvuð vinnukergja er í þér. Ég hélt að þú hefðir verið búinn að fá nóg af réttarraginu eins og ég í gærkvöldi, en þá rýkurðu upp með hröfnunum og ferð að þekja flag. Það er gott að vera ungur og ódrep- inn. Það lítur líka út fyrir að þú sért búinn að fá með- hjálp, sem þér líkar,“ bunaði Éeifi, þegar Kristján kom inn. „Ég er nú ekki eins rólegur í tíðinni og þú,“ anzaði Kristján og þurrkaði sveitt ennið á skyrtuerminni. „Hún ætlar að velgja þér, þessi drós.“ „Ég hef verið lánsamur með vinnukraft í sumar. Þau voru bráðdugleg, kaupahjúin, enda hefði ég heyjað vel, ef tíðin hefði ekki brugðizt,“ sagði Kristján. „Færðu nokkuð fyrir að þræla í þessum jarðabót- um?“ spurði nú Leifi. „Það er heldur lítið, nema að ég fæ meira af sléttun- um en þúfunum og svo ánægjuna af að sjá túnið fríkka.“ „Það er nú létt upp á vasann.“ „Við megum nú sætta okkur við það, sveitabænd- urnir, að taka ekki gjald fyrir hvert handarvik,“ sagði Kristján, „en flagið þarf ég helzt að hafa þakið í dag. Á morgun rek ég í kaupstaðinn.“ „Ég fer nú líklega með þér,“ gall í Ásdísi. „Ég hef stúlku mér til hjálpar. Ég vil heldur að þú þekir það, sem eftir kann að verða af flaginu, því að við höfum það ekki af í dag,“ sagði hann, og svo minnti hann Geirlaugu á að baka lummur handa þeim, sem í flaginu væru. Það hafði Rósa alltaf haft fyrir sið, að koma með kaffið til hans, hreinleg til fara, og með drenginn hoppandi við hlið sér. Svo hafði hún setið hjá honum og horft á hann vinna. Henni þótti vænt um að sjá þúfumar hverfa en iðgrænar sléttur koma í þeirra stað. Kristján forðaðist að horfa á Ásdísi, ógreidda og illa til fara, þegar svona fallegar myndir svifu fyrir í huga hans. Slíkt var óskemmtilegt til samanburðar. Daginn eftir, þegar sláturdraslið kom heim og Gerða með því, spurði Ásdís Geirlaugu, hvað eiginlega þessi manneskja væri að gera þangað. Hún væri strax farin að leysa upp baggana. „Hún ætlar að sjóða slátrið. Það hefur hún gert á hverju hausti,“ svaraði Geirlaug. „Hélt Kristján kannske að ég kynni ekki að sjóða slátur,“ spurði Ásdís og var mikið niðri fyrir. „Mér virðist það nú ekki vera mikill vandi.“ „Jú, það er mikill vandi, ef það á að gera það vel,“ sagði Geirlaug, „en Gerða var ráðin hingað áður en nokkrum datt í hug að þú kæmir hingað.“ Ásdís gerði hnykk á höfuðið og setti upp merkissvip: „Ég læt það óumtalað í þetta sinn, en slíkt læt ég ekki viðgangast oftar,“ sagði hún. „Það er engu líkara en að þú sért þegar orðin hús- móðir hér á heimilinu,11 sagði Geirlaug kuldalega. 288 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.