Heima er bezt


Heima er bezt - 01.09.1959, Qupperneq 27

Heima er bezt - 01.09.1959, Qupperneq 27
kominn alveg til hennar, og þau nema bæði staðar. Jónatan í Vesturhlíð réttir Lilju brosandi hönd sína: — Sæl og blessuð, Lilja, gleðilega hátíð. — Sömuleiðis, Jónatan, komdu sæll! Handaband þeirra er lengi og þétt. Svo segir hann: — Ekki dreymdi mig fyrir því, þegar ég fór að heiman í kvöld, að fund- um okkar bæri hér saman, Lilja. — Það segi ég sama til, ég bjóst ekki við að sjá þig á þessum vetri. — Ekki það? Ég dreif mig heim í jólafríinu, en ég hafði litla von um að hitta þig í þeirri ferð, en þó gat það viljað til. Hreimblærinn í rödd Jónatans örvar blóðstrauminn í æðum Lilju, og hún verður rjóð í kinnum. — Hvernig hefur þér liðið í skólanum, Jónatan? — Vel, en gaman er að koma heim í sveitina sína. Þau renna sér hægt af stað hlið við hlið, en aðeins stuttan spöl, og Jónatan nemur staðar. Ólin á öðrum skauta hans hefur slitnað. Hann losar af sér skautana og athugar, hvort hann geti gert við ólina, en það reyn- ist ókleift, hann hefur engin verkfæri til þess. — F.g renni mér ekki meira á skautum að þessu sinni, segir hann daufur í bragði. — Það er leiðinlegt, Jónatan, segir Lilja. — Nei, það gerir annars ekkert til, ferðalagið hingað hefur náð miklu meira en tilgangi sínum, en ég má ekki tefja þig, Lilja, þú þarft að njóta kvöldsins á þínum skautum. — Ég er búin að renna mér svo lengi, að ég læt það duga í kvöld. Hún beygir sig niður og losar af sér skautana, svo ganga þau saman út af vatninu. Hjarnið glitrar í töfrabjarma tunglsins, og kvöldið er dásamlegt. Þau setjast hlið við hlið á bakkanum sunnan við vatnið, og hendur þeirra tengjast hlýju handabandi. Ármann kennari hefur setið einn um stund í her- bergi sínu og lesið í bók. En skyndilega leggur hann bókina frá sér og rís á fætur. Hann hefur ekki séð heimilisfólkið síðan um kvöldverð, og ekkert heyrt það ganga um bæinn. En hann er farið að langa til að spila að nýju. Spilamennskan er ein af hans beztu listum, og hjónin í Austurhlíð eru sérstaldega skemmtileg í spil- um. Hann gengur fram úr herbergi sínu og litast um í baðstofunni, en þar er enginn, hann heldur áfram að eldhússdyrunum og lítur inn um þær. Anna stendur við eldavélina og framreiðir kvöldkaffi. Ármann nem- ur staðar hjá Önnu og segir: — Eigum við ekki að spila nokkra hringi í kvöld? — Jú, það var nú meiningin að spila út hátíðina, en Lilja er horfin. — Nú, hvert heldurðu að hún hafi farið? — Ég gæti bezt trúað því, að hún hafi farið á skauta út á Hlíðarvatn. Ég sé að skautarnir hennar eru horfnir af sínum stað. — Þá getum við ekki spilað, fyrr en hún kemur aftur. — Nei, til þess erum við of fá. Ármann brosir glettnislega. — Hún hefði átt að bjóða mér að koma á skauta með sér, ég er þeirri list ekki al- veg óvanur úr höfuðborginni. — Já, það hefði hún sannarlega átt að gera. En þú fyndir nú Lilju, ef þú færir af stað, — þú veizt hvar Hlíðarvatnið er? — Já, það veit ég vel, og einhvers staðar á ég að hafa skauta í fórum mínum. — Jæja, það er ágætt. En viltu ekki drekka kaffi núna? — Nei, þakka þér fyrir, ég ætla að bregða mér út á skauta dálitla stund og drekka svo kaffið, þegar ég kem aftur. — Þú reynir að finna Lilju og koma með hana heim með þér, svo að við getum eitthvað spilað í kvöld. — Já, ég skal finna Lilju og hafa hana með mér heim, vertu sæl á meðan, Anna. — Vertu sæll, Ármann kennari. Hann hraðar sér aftur inn í herbergi sitt og býr sig ferðafötum, svo nær hann í skauta sína og heldur af stað burt frá bænum í leit að nýjum ævintýrum. Ármann nemur staðar á Hlíðarvatninu, bindur á sig skautana og rennir sér út á flughált, glitrandi svellið og fer að leita að Lilju, en hún er þar hvergi sjáanleg. Loks kemur hann auga á tvær mannverur sem sitja skammt sunnan við vatnið, og það eru auðsjáanlega piltur og stúlka. Blóðið tekur að ólga í æðum kennarans. Skyldi Lilja vera þarna á stefnumóti við einhvern strák úr sveitinni? Sé svo, þá hefur hann fengið gott tromp á hendina. Hann gerir ekki ráð fyrir því, að móður hennar líki vel slíkt framferði. Og nú rennir hann sér óðfluga yfir vatnið í áttina til þeirra tveggja, sefn sitja þarna, og for- vitnin svellur í brjósti hans. Jónatan og Lilja hafa gleymt alveg líðandi stund, gleymt hinu kalda umhverfi og aðeins fundið unaðinn af nærveru hvors annars. En óvænt og skyndilega sjá þau mann koma á fleygiferð yfir vatnið í áttina til þeirra, og Lilja þekkir þegar manninn. Báðum bregður óþægilega við komu hans. Þau rísa bæði á fætur, en standa kyrr hlið við hlið. Jónatan þekkir ekki manninn og segir lágt: — Hver er þetta, Lilja? — Það er Ármann Hlíðberg, sýnist mér. — Er það þessi nýi kennari, sem er hjá ykkur í vetur? — Já, það er hann, sé ég. — Ég ætla þá að kveðja þig og fara, Lilja. Hann má ekki hitta okkur saman, það gæti komið illu til leiðar heima hjá þér. — Nei, Jónatan, þú ferð ekki að flýja fyrir Ármanni kennara. Hann veit ekkert, hver þú ert. — Á ég ekki að kynna mig fyrir honum? — Nei, blessaður gerðu það ekki. Honum kemur nafn þitt eldtert við, og þá getur hann heldur engu ljóstað upp að gagni, meðan hann veit ekki hver þú ert. Ármann er nú kominn alveg til þeirra og nemur staðar. — Gott kvöld, segir hann með hæðnisglotti. Heima er bezt 319

x

Heima er bezt

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.