Heima er bezt - 01.10.1960, Blaðsíða 2
Hálfrar aldar sigurför
Hinn 6. september sl. var minnzt 50 ára afmælis
Heilsuhælisins á Vífilsstöðum. Stofnun þess var merk-
ur áfangi í sögu landsins, og hefur hún vissulega mark-
að stærra spor meðal þjóðar vorrar en vér gerum oss
daglega Ijóst, enda hefur minna verið um þann atburð
og þau störf talað en margt, sem ómerkara gerist meðal
þjóðar vorrar.
í ræðu, sem Helgi Ingvarsson yfirlæknir hélt við
minningarathiifnina lét hann í Ijós þá skoðun, að berkla-
veikin hafi verið að komast í algleyming í landinu um
eða upp úr aldamótunum síðustu. Vér getum hugsað
okkur, hvernig farið hefði, ef viðnámið hefði ekki haf-
izt jafnsnemma og raun varð á með stofnun Vífils-
staðahælis. Síðan hefur baráttunni við berklaveikina
verið haldið áfram ótrauðlega. Fyrst var aðallega um
varnir að ræða, en furðu fljótt snerist vörnin í sókn, og
síðustu árin hafa verið óslitin sigurganga. Merkustu
atburðirnir í þeirri sögu, síðan Vífilsstaðahæli var reist,
eru stofnun Kristnesshælis 1927 og Reykjalundar 1945.
En jafnframt þeim athöfnum hefur verið merkileg lög-
gjöf um berklavarnir, sem unnið hefur ómetanlegt
gagn, framfarir í læknavísindum, og þrotlaust starf
þeirra manna, sem staðið hafa í fremstu víglínu í bar-
áttunni við hinn ægilega vágest.
En árangurinn af þessari baráttu er líka glæsilegri en
nokkur mun hafa gert sér vonir um í öndverðu. Dauðs-
fallatala af berklum hér á landi er nú meðal hins lægsta,
sem þekkist í nokkru landi, og langflestir, sem sýkjast
nú orðið, hljóta fullan bata. Svo er fyrir að þakka
framförum í læknavísindum, ágætum berklalæknum og
vel búnum heilsuhælum. Svo má kalla, að ógn berkla-
veikinnar sé bægt í brott frá þjóðinni, þótt ekki sé hún
sigruð að fullu. Það er full ástæða til að hafa í huga
ummæli þeirra Helga yfirlæknis og Sigurðar landlæknis
við áðurnefnda hátíð, að ekki má enn slaka á klónni
um varnir og eftirlit, því að einungis með því að gæta
hinnar fyllstu varúðar og halda uppi hinum sterkustu
vörnum, meðan nokkur smitandi sjúklingur er til, verð-
ur veikinni haldið í skefjum.
Margt er merkilegt um viðnám íslenzku þjóðarinnar
gegn berklaveikinni. En ef til vill eru þó viðbrögð og
hjálp almennings merkilegasti þátturinn í þeirri sögu.
Vífilsstaðahælið var reist að verulegu leyti með almenn-
um samskotum. Á þeim tíma voru þó litlir peningar í
umferð, og reynsla engin um hversu takast mundi með
þessum aðgerðum. En fórnfýsin og áhuginn var vak-
andi. Á sama hátt var Kristneshælið reist fyrir sam-
skotafé Norðlendinga. Og loks þegar berklasjúkling-
arnir sjálfir bundust samtökum um að hrinda af stað
stofnun vinnuheimilis, til að taka við sjúklingunum,
þegar hinni eiginlegu hælisvist lyki, og Reykjalundur
var reistur, þá hétu þeir á alþjóð til styrktar, og enn
voru allar hendur fram réttar. Fátt eða ekkert hefur
gerzt í sögu þjóðar vorrar á þessari öld, sem sýnir Ijós-
ar skilning almennings á vandamáli, fórnfýsi þjóðar-
innar, eða hverjum Grettistökum má lyfta, þegar ein-
hugur og góðvild alþjóðar stendur að baki. Að vísu
má segja, að sársaukinn hafi að nokkru leyti verið sá
aflgjafi, er knúði þjóðina til átaka í þessu máli, því að
margur átti hér um sárt að binda. En ekki er öll sagan
sögð með því. Þarna var einnig að verki skilningur á
því, hvað gera þurfti og sú góðvild og menning hjart-
ans, sem nauðsynleg er hverju verki, til þess að það
megi blessast.
Vífilsstaðir hafa nú starfað í hálfa öld. iMargir hafa
sótt þangað huggun og heilsubót. Mörgu mannslífi hef-
ur verið bjargað þar, og mikilli orku til hagsbóta ís-
lenzku þjóðlífi. Þess vegna stendur þjóðin öll í mikilli
þakkarskuld við stofnunina og þá menn, sem áttu
frumkvæðið að stofnun hælisins og þar hafa starfað
fyrr og síðar. Þá skuld fær þjóðin goldið með því einu
að fylkja sér enn þétt um það merki, sem reist hefur
verið og sótt er fram undir gegn berklaveikinni. Hún
verður að halda vöku sinni gegn óvininum, og aldrei
láta undan síga.
Svo má heita að baráttan sé háð í tveimur fylkingum.
Annars vegar er ríkisvaldið með stofnunum sínum og
starfsmönnum, heilsuhælum og læknum. Þess er að
vænta, að löggjafar þjóðarinnar verði enn sem hingað
til minnugir þess, sem gert hefur verið, og trúir þeirri
stefnu, að horfa aldrei í fé né fyrirhöfn, til þess að
varnir megi verða sem sterkastar og árangurinn sem
beztur.
Á hinu leytinu eru hin frjálsu samtök almennings,
þar sem forysta og framkvæmd er í höndum Sambands
íslenzkra berklasjúklinga (SÍBS). Þau samtök hafa
reist Reykjalund, sem tvímælalaust er fremsta stofnun
sinnar tegundar um víða veröld. Um það ber öllum
saman, sem hann hafa skoðað, hvaðan úr heimi, sem
þeir hafa komið. Og vafasamt er hvort þjóð vor hefur
á þessari öld reist sér nokkurt virðulegra minnismerki
374 Heima er bezt