Heima er bezt - 01.05.1961, Qupperneq 28
fyrir tvo og kemur því smekklega fyrir á eldhúsborð-
inu. I fyrsta sinni drekka þau nú tvö saman kvöldkaff-
ið á Grund, Gunnar og hún, og þetta kaffiborð verður
að bera þess merki á einhvern hátt. Hún veit þegar,
hvað bezt á við. Hún gengur í flýti út í blómagarðinn
og safnar saman ilmandi rósum í dálítinn vönd og kem-
ur honum svo fallega fyrir á miðju eldhúsborðinu. Þau
tvö, Gunnar og hún, eiga ilminn af þessum rósum, og
hún hefur sjálf gróðursett þær.
Gunnar hefur lokið því að flytja hestana í haga og
gengur nú aftur heim. Heitur og djúpur fögnuður bær-
ist í sál hans, og að þessu sinni hlakkar hann til að koma
inn í kvöldkaffið. Og er hann kemur inn í eldhúsið,
bíður rjúkandi kaffið á borðinu, og ljúfan blómailm
leggur að vitum hans. Hann lítur fyrst yfir blóm-
skreytta kaffiborðið og síðan á Elsu.
„Er einhver hátíð hér í kvöld?“ spyr hann brosandi.
„Já, Gunnar, hátíð sem við eigum tvö. Gerðu svo
vel og seztu.“
Þau setjast saman við borðið og drekka kvöldkaffið.
Stundin er unaðsrík. Að kaffidrykkjunni lokinni, rís
Gunnar á fætur og segir:
„Ég þakka þér fyrir kaffið, Elsa, og ilminn af rósun-
um þínum.“
„Eg þakka þér sömuleiðis, Gunnar.“ Hún tekur rós-
irnar af borðinu og réttir honum þær. „Hafðu þessar
rósir með þér upp í herbergi þitt til minningar um
þessa kvöldstund, og njóttu anganar þeirra, meðan þær
lifa.“
Gunnar tekur við rósunum og lítur heitum, blíðum
augum á gefandann, og hjartað þýtur í barmi hans. En
kaupamaðurinn á Grund verður að stjórna tilfinning-
um sínum, þegar sýslumannsdóttirin er annars vegar.
„Ég þakka þér fyrir rósirnar — og kvöldið, Elsa,“
segir hann lágum, djúpum rómi, „góða nótt“. Svo geng-
ur hann upp í herbergi sitt með rósirnar frá henni, sem
hann veit að upp frá þessu kvöldi muni aldrei blikna
í hjarta hans.
Pálmi fulltrúi stöðvar bifreið sína heima á hlaðinu á
Grund. Hann hefur nú átt sitt fyrsta ævintýri með
vinnukonunni úti í faðmi sumarkvöldsins. Þau stíga
þegar út úr bifreiðinni og ganga saman inn í húsið.
Elsa er nýfarin upp í herbergi sitt, en hún hefur fram-
reitt kaffi handa tveimur á eldhúsborðinu, og að þessu
sinni ætlar hún fulltrúanum að drekka kvöldkaffið í
eldhúsinu með vinnukonunni.
Stína opnar eldhúsið og segir við Pálma: „Hér bíð-
ur okkar kvöldkaffi á borðinu. En á ég ekki að bera
þitt kaffi upp í stofu?“
Pálmi fulltrúi glottir kalt. „Nei, húsfreyjan hefur
auðsjáanlega ætlazt til, að ég drykki það hér, og mér
er sama, þó ég geri það í þetta sinn.“ Hann sezt við
eldhúsborðið, og Stína hellir í bollann handa honum,
og svo fær hún sér einnig kaffi.
Nú hefur Pálmi þegar breytt um viðmót. Hann er
ekki lengur glaður og ástleitinn, heldur þögull og kald-
ur, og unga vinnukonan er feimin og vansæl.í návist
hans. Þau ljúka við að drekka kaffið, og Stína fer að
þvo bollapörin, en Pálmi reykir einn vindling og rís
síðan upp frá borðum. Hann hefur tæmt bikar kvölds-
ins í botn, býður Stínu góða nótt án þess að þakka
samfylgd hennar, og gengur út úr eldhúsinu.
Unga vinnukonan lýkur við uppþvottinn og sezt
svo við eldhúsborðið, hjartað þýtur heitt og órótt í
barmi hennar. Fulltrúinn hefur rænt hana því. En hvað
ætlar hann að gefa henni í staðinn? Ekki neitt?
Stína lætur fallast fram á borðið og grætur hljóð-
lega um stund. En æska hennar og sakleysi speglast í
þeim tárum og svala sál hennar. Loks rís hún á fætur
og heldur til herbergis síns. Og hljóð sumarnóttin um-
vefur allt. —
Sunnudagsmorguninn er bjartur og fagur. Elsa fær-
ir Pálma fulltrúa morgunkaffið upp í dagstofu. Er hún
kemur þar inn, situr fulltrúinn þar í hægindastól og
reykir. Hún býður honum góðan dag og setur kaffi-
bakkann á borðið. „Gerðu svo vel, hér er morgun-
kaffið,“ segir hún og ætlar svo þegar að snúa á brott.
En Pálmi lítur á hana og brosir ertnislega.
„Hvernig skemmtir þú þér í gærkvöld, Elsa?“ spyr
hann formálalaust.
„Ég skemmti mér vel.“
„Garnan að ríða út með kaupamanninum?“
„Já, reglulega gaman.“
„Hvernig heldur þú, að foreldrum þínum hefði lík-
að ferðafélaginn?“
„Areiðanlega vel.“
„Þú heldur það. Gaman væri að komast eftir því.“
„Þá skaltu bara veita þér þá ánægju.“
Hann horfir stríðnislega á hana. „Ég ætla að segja
foreldrum þínum frá ferðalagi þínu og kaupamannsins.“
„Það máttu mín vegna, gerðu svo vel. En ég hélt að
maður í þinni stöðu léti sig ekki í það að flytja svo
smátt mál.“
Pálmi roðnar örlítið, og stríðnisbrosið hverfur af
andliti hans. „Ég vil gera samning við þig, Elsa, og
ljósta engu upp um þig, en þú kemur með mér í bif-
reiðartúr í kvöld.“
„Nei, þakka þér fyrir, Pálmi fulltrúi, ég hafna þeim
samningi. — En hvernig skemmtir þú þér í gærkveldi?"
„Ég?“
„Já, fórstu ekki út að aka með Stínu?“
„Jú, þú skildir hana hér eina eftir, svo ég bauð henni
út með mér, stelpu-greyinu.“
„Þú gazt heldur ekki valið betri ferðafélaga. Stína er
bæði saklaus og góð.“ Svo gefur Elsa honum ekki færi
á frekari samræðum og gengur hvatlega út úr stofunni.
Pálmi horfir svipþungur á eftir henni. Enn einu sinni
hefur hann beðið ósigur fyrir sýslumannsdótturinni. En
það aðeins stælir skap hans og fastan ásetning. Hann
skal finna nýjar leiðir til þess að koma fram vilja sínum!
172 Heima er bezt