Heima er bezt - 01.01.1962, Síða 6
ÁRAMÓT
Enn einu sinni stöndum vér á áramótum, hin ófrá-
víkjanlega endurtekning í lífinu, sem þó er ailtaf jafn
ný. Vér horfum aftur til hins liðna árs með ljósi þess
og skuggum, en það sem fram undan er, er hulið sjón-
um vorum að fullu. Vér getum gizkað á, óskað og
vonað, en allt er samt falið að tjaldabaki. Og ef til vill
er það ein mesta gæfa vor mannanna, hversu skammt
vér sjáum fram undan oss.
Við hver áramót skjóta ýmsar minningar um at-
burði liðins árs upp kollinum í huga vorum, er vér
horfum um öxl af sjónarhóli tímaskiptanna. Hver og
einn á sínar minningar, ljúfar eða leiðar, sælar eða sár-
ar. Og þegar þær renna fyrir hugskotssjónir vorar líkt
og kvikmynd á tjaldi, hverfa þær saman í eina heild,
eins konar samhljóm, sem gefur liðna árinu svip, mild-
an og bjartan eða harðan og myrkan eftir því, hvað
markað hefur dýpst för í huga vorn. En vissulega væri
það öllum mönnum heillaráð að lifa eftir reglu Indriða
Einarssonar skálds, „að safna sólskinsblettunum í líf-
inu“, en láta þoku- og hríðardagana hverfa í djúp
gleymskunnar, jafnótt og þeir eru liðnir hjá, eða eins
og Þorsteinn Erlingsson komst að orði, setjast hjá sum-
argleðinni, „þegar vetrarþokan grá“ leggur á mann
fjötra sína. Vafalítið er, að lífið allt yrði fegurra og
léttara, ef vér fylgdum þessu heilræði. Hver björt
hugsun skapar um sig aðra bjartari. Þær lýsa umhverf-
ið og fylla það góðleik og mildi. Frá þeim stafar hlýju
og ljósi, ekki einungis á oss sjálf, heldur einnig út á við.
Náírrenni vort fær notið einhvers af sólskinsblettum
vorum. Sólin býr ekki ein að ljósi sínu og hita. Hún
eyðir því í hófleysu út í geiminn umhverfis sig. Og
ofurlítið brot af geislaflóði hennar „kveikir líf úr
steini“ vorrar örsmáu jarðar. Og þótt oss þyki stund-
um lífið umhverfis oss næsta hversdagslegt, af því að
vér höfum það sífellt fyrir augunum, er það samt æðsta
dásemdin sem vér þekkjum, furðulegasta undrið og
mesta fegurðin. Það sannfærumst vér bezt um, ef vér
ölum upp í oss lotningu gagnvart lífinu í hverri mynd,
sem það birtist, jafnt hinni smæstu og óbrotnustu og
hinni stærstu og fjölþættustu. Og skyldi því ekki geta
verið eitthvað líkt farið með oss menn og hina miklu
sól. Ef vér söfnum sólskinsblettum h'fsins og leitumst
við að gefa þeim meiri hlýju, þá fái eitthvert brot af
þeim orkað svo á umhverfi vort, að það njóti góðs af,
og einhverjir samferðamannanna taki að gera hið sama.
Svo trúa að minnsta kosti dulfróðir menn, að hver
hugsun sé eins og útvarpsbylgjur, sem komi fram, oft
víðs fjarri þeim stað, er vér dveljumst á, líkt og bylgj-
ur útvarpsstöðvanna eru gripnar af viðtækjum í óra-
fjarlægð. Ef svo væri, þá er það í senn alvöruefni og
áminning um að vanda eigi síður hugsun sína en at-
hafnir. En hverfum nú frá oss sjálfum. Arið liðna hef-
ur skráð minningu sína á spjöld sögunnar. Hér er ekki
færi að rita annál liðins árs né rifja upp atburðaröð þess,
aðeins drepa á örfátt, sem markað hefur spor í þjóðlífi
voru. Hér meðal vor hafa orðið harðvítug átök um
skiptingu vinnuarðsins. Langvinn verkföll með allri
þeirri ógæfu sem því fylgir þegar hjól þjóðarvélarinn-
ar stöðvast, að meira eða minna leyti, þrátefli, óvild og
jafnvel hatur, sem af þeim atgerðum skapast, og að
lokum lausn, sem allir eru óánægðir með og færir þjóð-
arbúinu ný vandamál án þess að leysa þann hnút, sem
riðinn var í upphafi. Það gegnir raunar nokkurri furðu
um svo fámenna og vel mennta þjóð og íslendinga að
oss skuli ekki hafa lærzt að leysa mál vor á friðsamari
hátt. Sennilega er engin þjóð frábitnari vopnavaldi og
ofbeldisaðgerðum en íslendingar, en samt heyja þeir
illvígari deilur í ræðu og riti en flestir aðrir og eru
flestum ósveigjanlegri, til að rétta fram höndina á hálfa
leið við samningsborðið, þegar um hagsmunadeilur er
að ræða. Samningslipurð þykir ódyggð og samningar
oftsinnis stimplaðir sem svik. Allt eða ekkert, virðist
vera eina boðorðið, og hefur verið það lengi.
Á síðastliðnu hausti var haldið hátíðlegt hálfrar aldar
afmæli Háskóla íslands með viðeigandi pomp og pragt.
En skyldu menn yfirleitt hafa gert sér þá ljóst, hvílíkt
átak það var þjóðinni að stofna háskóla fyrir 50 árum.
Sá stórhugur og framsýni, sem þar var að verki er einn
af Ijósblettunum í sögu þessarar aldar, þótt mönnum
sjáist oft yfir það og festi hugann heldur við atburði,
sem gerðust með meiri hávaða og bægslagangi. F.n að
hátíðahöldunum loknum verður oss ósjálfrátt að spyrja,
á þjóðin nú, að liðnum 50 árum, sama stórhuginn, sömu
trúna á framtíðina og gildi menningar vorrar? Stund-
um hvarflar að manni, að efast um það, þrátt fyrir all-
ar framfarirnar og aukna velmegun á öllum sviðum.
Skyggir Skuld fyrir sjón segir síra Matthías. Fram-
undan oss er aðeins úlfgrár þokuveggurinn. í þokunni
sjáum vér óraunhæfar skrípamyndir. Líkt fer og um
flestar spásagnir vorar um framtíðina. Eitt er þó víst.
Margt er nú uggvænlegt í heiminum. Andrúmsloftið er
mengað helryki Rússanna, og vekur það mönnum meiri
ugg en flest annað, og þykjast eygja í því vísinn að
9 Heitna er bezt