Heima er bezt - 01.05.1962, Page 26
Þá situr hún inni og hugsar um hann
sem horfinn er út yfir bládýpisrann;
hún situr við nálina’, hún syngur um ást,
hún syngur um tryggðina, er aldregi brást.
Hún syngur um vorið, sem friðsæla fró
færa skal hjartanu’ og öndinni ró;
hún syngur um báruna’ á brimsollnum geim,
er bera’ á þann kæra á vorinu heim.
Svo hlýnar í lofti og fuglinn, sem fló
til fjarlægra landa’ undan klaka og snjó,
nú flugmóður heilsar og kvakar svo kátt,
að komið sé vorið úr suðlægri átt.
Þá gægist frá víðinum vísirinn smár,
þá velta af brúnunum fossar og ár,
og blómgrösin vekur með blíðgeislum sól,
þau brosandi líta’ upp á sérhverjum hól.
Og laufblöðin smámsaman grænka á grein;
í gróandi hvamminum situr hún ein,
þar sunnanblær þýtur, hún segir við hann:
„Ó, segðu mér frá þeim, sem heitast ég ann.“
Og öldurnar hlæjandi hoppa’ upp á stein.
Við hólinn nær ströndinni situr hún ein:
„Ó, segðu mér bára, hvort sástu’ ekki þann
sigla til landsins, er heitast ég ann.“
Á vorinu seinna um sólarlagstíð
situr hún ein upp í gróinni hlíð
og sorgbitin leikur með hendinni’ að hring,
og horfir nú tárvotum augum í kring.
Með skjálfandi hendi hún brýtur upp blað:
„Ég við þig að gleyma mér þegar í stað;
ég lifi hér glaður við lukku og seim
og lít ekki framar á ævinni heim.“
Og blómin í hlíðinni hnigu í blund
og höfuðin döggvuðu beygðu’ o’nað grund.
— En döggin var gremjufull grátskúraföll,
því grösin í hlíðinni táruðust öll.
Og lóan, sem kvakandi’ í loftinu fló,
að leita að hreiðrinu’ á þúfunni’ í mó,
hún söng nú um vonbrigði, heitrof og harm,
og hjartslátt og ekka í sorgmæddum barm.
Og kvöldmóðan sveipaði hnjúkana há,
hjúpur, er sorggyðjan lagði yfir þá;
við hafflötinn úti sást hreggskýja blik,
hegninga tákn fyrir brigðmælgi og svik.
Hvað sýna rósir og brosandi blóm
og bláloftið hljómandi’ af söngfugla óm?
Glaðværa hjartanu gleði og líf,
en grátþrungna brjóstinu sorgir og kíf.
Hvað er í heiminum eiður og ást?
Elding, er fljótlega leiftrandi sást,
blómsveigur gefinn af blíðustu mund,
er bliknar og hverfur að lítilli stund.
Allt, sem þú lítur, er töfrar og tál,
í töfrandi spegilgler horfir þín sál,
því grátandi sérðu’ aðeins hatur og hryggð,
en hlæjandi ástúð og gleði og dyggð.
Fjórar ungar stúlkur: Ásta, Ragnhildur, Ásrún og
Anna Sigga, sendu þættinum bréf og þar stóð meðal
annars þetta: „Viltu segja okkur hvað Jónas Jónasson
(sem syngur Spánarljóð) er gamall, hvort hann er gift-
ur og eigi böm og hvar hann á heima.“ Með góðu
leyfi Jónasar Jónassonar get ég svarað þessum spurn-
ingum. Hann er 30 ára, giftur og á tvö börn. Hann
vinnur nú á skrifstofu hjá Flugfélagi íslands.
Hér kemur svo lítið ljóð, sem margur hefur beðið
um. Það heitir „Ömmub<en“. Höfundur ljóðsins er
Jenni Jónsson, verzlunarmaður í Reykjavík. Er ljóðið
tileinkað syni hans. Alfreð Clausen hefur sungið það
á hljómplötu við miklar vinsældir.
Marga góða sögu amma sagði mér,
sögu um það er hún og aðrir lifðu hér.
AUtaf var hún amma mín, svo ósköp væn
og í bréfi sendi þessa bæn:
Vonir þínar rætast kæri vinur minn,
vertu alltaf sanni góði drengurinn.
Þó í lífsins straumi bjáti eitthvað á
ákveðinn og sterkur sértu þá.
Allar góðar vættir lýsi veginn þinn,
verndi og blessi, elskulega drenginn minn.
Gefi, lán og yndi, hvert ógengið spor,
gæfusömum vini hug og þor.
Þá er það kvæðið „Hjálmar og Hnldau. Ég hef þeg-
ar fengið send mörg ágæt afrit af þessu kvæði, sem ég
þakka kærlega. Þessi mörgu afrit sýna vinsældir kvæð-
isins. Ég ætla nú í góðu tómi að bera öll afritin nákvæm-
lega saman og mun svo kvæðið birtast í júníblaðinu.
Nú liggja hjá mér mörg bréf, þar sem beðið er um
dægurljóð, en því miður er ekki rúm fyrir meira í
þetta sinn. Mikið hefur verið beðið um ljóð, sem
hinn þjóðkunni ljóðasmiður og söngvari Ómar Ragn-
arsson hefur samið og sungið. Hef ég fengið leyfi hans
til að birta þessi Ijóð, og munu þau birtast á næstunni.
166 Heima er bezt
Stefán Jónsson, Skeiðarvogi 135, Reykjavík.