Heima er bezt - 01.02.1963, Page 36
HEIMA_____________
BEZT BÓKAHILLAN
Bjöm J. Blöndal: Lundurinn helgi. Reykjavík 1962.
Menningarsjóður.
í bók þessari eru níu sögur, sem allar fjalla um dýr, en að þessu
sinni hefur höfundur einkum snúið sér að húsdýrunum og sam-
búð þeirra við mennina en ekki hinni villtu náttúru, sem hann
hefur áður lýst af svo miklum skilningi og samúð í hinum fyrri
bókum, og skortir ekki á þá kosti í þessari. „Milli manns og hests
og hunds hangir leyniþráður“ kvað Matthías. Enginn maður er
fundvísari á þessa þræði eða kann að rekja þá af slíkri nærfærni
og Bjöm Blöndal. En þeir liggja lengra í sögum hans. Hann rekur
þá um alla náttúruna, lifandi og dauða, og hann vefur þá í hag-
lega gerða voð, sem einnig er skreytt perlum úr ýmsu hinu feg-
ursta og dulúðgasta úr íslenzkri þjóðtrú, því að um hennar heima
er Birni ekki síður kunnugt en náttúruna umhverfis hann. Þótt
söguefnin virðist oft ekki stór við fyrstu sýn þá vaxa þau fljótt við
nánari athugun, og í raun og veru eru sögurnar allar um mikil
örlög manna eða dýra, og höfundi bregst aldrei frásagnarlistin,
sem honum er þegar löngu töm orðin, og er sérkenni hans og
styrkur. Það er erfitt að gera upp milli einstakra sagna, enda
kemur þar meira til persónulegur smekkur, en mismunur í með-
ferð höfundar. Mér þykja Snotra og Endurfundir beztar. Björn
hefur að nokkru leyti haslað sér nýtt sagnasvið með þessari bók,
og mun hann eiga eftir að sýna oss fleiri myndir þaðan. En eins
sakna ég þó, og það er hin létta góðlátlega kímni, sem höfundur
á í svo ríkum mæli, en sparar hér um of.
Ivar Orgland: Stefán frá Hvítadal. Reykjavík 1962.
Menningarsjóður.
Stefán frá Hvítadal var merkilegt ljóðskáld og sérkennilegur
persónuleiki. Naumast verður um það deilt, að Söngvar föru-
mannsins ollu straumhvörfum í íslenzkri Ijóðagerð á sínum tíma,
og mátti um þá segja líkt og Lilju, að „öll skáld vildu kveðið
hafa“. Það er því ekki nema maklegt að Stefáni séu gerð skil sem
skáldi og manni með rækilegri ritgerð. Annað mál er, hvort ekki
sé ofrausn að skrifa um hann tvö gild bindi, eins og hér er ætlun-
in. Og ekki fær lesandinn varizt því, að margt smátt, og að því er
virðist óþarft, er til tínt í þessu fyrsta bindi. En hinn norski
menntamaður vill sýnilega vinna svo verk sitt, að ekkert sé látið
ónotað, sem til er um ævi Stefáns. En hætt er við að myndin af
skáldinu drukkni í öllum þessum smámunum. Og naumast skapar
það traust á verkinu, að höfundur telur Þorberg Þórðarson einn
aðalheimildarmann sinn og ýkjurit hans íslenzkan aðal. Og satt
að segja finnst manni nóg komið af lofgerðinni um Unuhús, þótt
merkilegt væri, og tæpast getur það orkað öðruvísi en skoplega,
þegar höfundur kallar það brennipunkt íslenzks menningarlífs
(bls. 220).En allt um þetta er margt skemmtilegt í bókinni, en hún
hefði að skaðlausu mátt vera styttri.
Einar ólafur Sveinsson: Islenzkar bókmenntir í fomöld.
Reykjavík 1962. Almenna bókafélagið.
Þótt það sé að vísu orðið útþvælt slagorð að tala um „bók
ársins" eða að bókin eigi erindi til hvers íslendings, þá verð-
ur ekki annað sannara sagt um hina nýju bókmenntasögu E.
Ó. S. Þótt margt væri góðra bóka á markaðinum fyrir síðustu
jól, stendur hún upp úr öllu flóðinu, og mun það þó betur
sannast síðar, þegar hismið er horfið. Og hún á erindi til vor
allra, þar sem hér er fjallað um upphaf og undirstöðu ís-
lenzkra bókmennta og menningar. Og hvert sem mat vort
kann að vera á bókmenntum almennt, getum vér ekki af-
neitað því gildi, sem Eddukvæðin og fornbókmenntimar yfir-
leitt hafa haft í þjóðlifi voru. í þessu fyrsta bindi, af þremur
áætluðum, rekur höfundur af frábæmm lærdómi og skarp-
leik upphaf og rætur fornnorræns skáldskapar og tekur síðan
Eddukvæðin til meðferðar og ræðir þau bæði almennt og ein-
stök kvæði. En það er ekki lærdómur höfundar, sem grípur
lesandann fastast, heldur hversu hann framreiðir þennan lær-
dóm. Það má vera illa læs maður, sem ekki finnur þar kafla
og þá marga, sem hann les sér til óblandinnar ánægju og
fróðleiks. Og í raun réttri fær höf. okkur upp i hendurnar
Eddukvæðin auðlærð og auðskilin með hinum ágætu útdrátt-
um og yfirlitum. Höfundur er hófsamur í dómum og álykt-
unum og sanngjarn gegn skoðunum annarra, þótt hann gagn-
rýni þær. Sínar eigin kenningar rökstyður hann ljóst og vel.
Það hefði verið gaman að mega verja meira rúmi til að rabba
um þessa bók frá sjónarmiði leikmanns, en þess er ekki kost-
ur nú, og vil ég því einungis þakka höf. og útgefanda fyrir
unnið afrek, og bíða síðan fullur eftirvæntingar eftir fram-
haldinu.
Joan Grant: Carola. Reykjavík 1961. Leiftur h.f.
Saga þessi er eins og sagan Vængjaður Faraó eftir sama höf-
und, talin vera eins konar „ósjálfráð skrift" eða endurminn-
ingar úr fyrra lífi. Slíkt getur lesandinn látið liggja milli
hluta. En hitt fær honum ekki dulizt, að sagan er full af
spenningi, miklum atburðum, undarlegum örlögum og
rammri dulúð. Höfundur leiðir miðaldir Ítalíu fram á sjón-
arsviðið með hinu margbreytilega, iðandi lífi þeirra, og at-
burðirnir halda huga lesandans föstum. Steinunn S. Briem
þýðir bókina á íslenzku.
Þrjátíu IjóS úr Rigveda. Reykjavik 1962. Menningar-
sjóður.
Lítið hefur verið þýtt á íslenzku úr fornbókmenntum Ind-
verja. Er það bæði, að fáir eru þess umkomnir að þýða þær
af frummálinu, og vafasamt hvern hljómgrunn þær fengju
meðal íslenzkra lesenda. Elér hefur Sören Sörensson ráðizt í
að kynna íslenzkum lesendum dálítið sýnishorn af hinu æva-
forna helgiriti, Rigveda. Skrifar hann alllangan inngang, þar
sem lýst er að nokkru hinni fornu tungu og helgiritum Ind-
verja og er það yfirlit hið fróðlegasta. Marga mun og fýsa að
lesa þessi Ijóð, enda þótt margt í þeim sé fjarlægt hugsunar-
hætti vorum. En satt bezt að segja kann ég ekki að meta þau.
En mundi ekki kveðskapurinn hafa látið oss betur í eyrum
og snortið oss meir, ef þýðandinn hefði snarað kvæðum þess-
um t. d. á fornyrðislag?
St. Std.
72 Heima er bezt