Heima er bezt - 01.02.1965, Page 12
föður mínum. Hann kenndi mér líka að reikna og draga
til stafs.
— Hvar lærðir þú að fara með bátavélar og hvernig
fékkstu réttindi til formennsku á þeim stærri vélbátum,
sem þú stjórnaðir?
— Kunnáttumaður í meðferð bátavéla, Valdimar
Þórarinsson frá Þorvaldsstöðum, var með mér tvo tíma
um borð í vélbáti til þess að kenna mér þau fræði, er
að vélstjórn lúta. Að öðru leyti þreifaði ég mig áfram.
Ég var svo heppinn að hjá mér bilaði aldrei vél á
hættustund.
Almennar siglingareglur lærði ég tilsagnarlaust af
bókum.
Ásgeir Eggertsson frá Skógargerði, sem gengið hafði
í Stýrimannaskólann, gaf mér vottorð um skipstjórnar-
hæfni. Það var fullgilt á þeim tíma. Ásgeir hafði oft
verið með mér á sjó, — og vitað mig ganga þar undir
próf hjá reynslunni.
Sjónvottorðið fékk ég hjá héraðslækni mínum.
Meira þurfti ekki með en þetta. Hins vegar sé það
fjærri mér að gera lítið úr lærdómi fengnum í skóla.
Ég saknaði þess oft á liðnum ævidögum að hafa ekki
notið skólagöngu.
Hið skemmtilegasta.
— Hvað hefur þér þótt skemmtilegast um þína daga?
— Því er vandsvarað. Mér hefur þótt margt skemmti-
legt.
í fljótu bragði verður svar mitt við þessari spurn-
ingu: Veiðiskapur, bóklestur og samneyti við gott fólk.
Á afmœlum.
— Hvaða smíðisgripur er þetta á skrifborðinu þínu?
— Gamlir hásetar mínir gáfu mér þennan grip á
sjötugsafmæli mínu. Jóhann Björnsson myndskeri frá
Húsavík smíðaði gripinn. Þarna er sjómaður með byssu
sína og skotfærakassann, — og svo er selkópur, sem
táknar veiðina. Þetta var vinsemdargjöf, sem mér þyk-
ir vænt um, ekki sízt af því að hún er í þessu formi.
Margar fleiri vinargjafir fékk ég á sjötugsafmælinu
og einnig þegar ég varð áttræður, og mörg kveðju-
skeyti bárust mér á þessum tímamótum ævi minnar,
sum í bundnu máli. Þetta var elskulegt af þeim, sem
gerðu, og gott og blessað fyrir mig, einkum þó ef hól-
ið, er fylgdi, hefði verið verðskuldað. Eftirfarandi sím-
skeyti fékk ég t. d. frá þér sunnan af Alþingi:
Sjötugi heiðurshöldur!
Heilt um lífsins öldur
fley þitt prúða fer.
Hógværð, greind og hreysti,
hönd, sem þrautir leysti,
guðir gáfu þér.
Finnst þér nú ekki þetta helzt til djúpt tekið í árinni,
Karl?
— Nei, síður en svo. Ég endurték lofsyrðin hér með
og skal staðfesta þau á prenti.
Ein staka.
— En vel á minnst. Hefur þú ekki stundum ort, eins
og forfaðir þinn Sören á Geirbjarnarstöðum og frænk-
ur þínar Ljósavatnssystur?
— Nei, aðeins reynt, en ekki fundið að ég gæti það.
— Lof mér að heyra.
— Hef því miður ekkert til að láta þig heyra.
— Þá skal ég sjálfur koma með stöku, sem ég hef
lært, eftir þig. Hún er til Þórðar Markússonar, eins af
gömlu hásetunum þínum, og líklega afmælisvísa:
Lífsins gleði heims við hark
heldurðu með prýði.
Þú ert alltaf Þórður Mark,
þó að árin líði.
— Jæja, kallarðu þetta frásagnarverða stöku?
— Ég gæti bezt trúað því, að Sören langafi þinn
hefði hrósað þér fyrir hana, og sagt þér að yrkja meira.
Kveðjur frá Einari.
Að síðustu segir Einar: Ef þú gerir alvöru úr því,
að hlaupa með þetta samtal okkar á prent, þá skilaðu
beztu kveðju frá mér til allra vina minna og kunningja,
er lesa kunna skrafið, af því að ég býst við að úr þeim
hópi verði ýmsir, er ég næ ekki að taka í hendina á
héðan af til kveðju, áður en ég fer í hinztu sjóferðina
einn á bátnum. En ég hef kynnzt mörgu mér geðfelldu
fólki um dagana, og er því þakldátur fyrir viðkynn-
inguna. „Maður er manns gaman,“ segir hið forn-
kveðna, — og miklu meira en það, vil ég bæta við.
Lokaorð.
Það fór svo, að mér dugði ekki eitt ágústkvöld til
framanritaðs viðtals okkar Einars Sörenssonar. Ég
kvaddi hann eftir þriggja kvölda töf með þakklæti fyrir
spjallið, sem óvíst er að ég hafi komið jafn efnisríku
á blaðið og orð hans og frásagnir gáfu efni til.
Það er mildll ávinningur að hafa um fjöld ára fengið
að eiga samleið með þessum vel gerða og trausta dreng-
skaparmanni. Ég leyfi mér að flytja honum alúðar-
þakkir okkar, sem þessa höfum notið.
Þetta skraf mitt við hann er tilraun til þess að gefa
fleirum en þeim, sem með honum hafa verið, ofurlítið
tækifæri til að kynnast honum líka.
56 Heima er bezt