Heima er bezt - 01.02.1965, Blaðsíða 13

Heima er bezt - 01.02.1965, Blaðsíða 13
 STEINDÓR STEINDÓRSSON FRÁ HLÖÐUM: A ORÆFASLOÐUM INNGANGUR. Ieiðar og fjöll, auðnir og óskalönd. — Það er liðinn aldarþriðjungur, síðan leiðir mínar lágu fyrst á vit íslenzkra öræfa. Síðan eru ferðirn- ar orðnar býsna margar. Eg hef farið bæði einn míns liðs og í hópi vaskra og glaðra förunauta, en hvort sem er, þá mæta öræfin mér alltaf með sömu töfrum. Víðerni þeirra seiðir og lokkar, fjallakyrrðin róar og sefar. Stórbrotið útsýni til fjalla og jökla, eða smáfelldar gróðurtorfur og blómahvammar veita auganu sama unað nú sem fyrr. Og alltaf færa öræfin ferða- manninum eitthvað nýtt, hversu oft sem farið er, jafn- vel á sömu slóðir. Sjónarspil ljóss og skugga, veðra- brigði og vatnavextir, allt er þetta síbreytilegt, og áhrif- in alltaf ný og fersk. En allt um breytileikann eru öræf- in samt hin sömu eins og fyrr, en ferðalög um hálendi íslands hafa á þessum aldarþriðjungi tekið þeim breyt- ingum, að engan okkar samferðamannanna frá árun- um eftir 1930 hefði dreymt um það, að við mundum lifa slíka gjörbyltingu. Þá varð hvergi farið um hálend- ið nema gangandi eða á hestbaki, og sum öræfasvæði því næsta torkönnuð sakir hagleysis og vegalengda. Þá var t. d. vandkvæðum bundið að fara inn í Öskju, en nú eru sum torfærustu svæðin frá þeim tímum heim- sótt af hundruðum manna á hverju sumri, og bílarnir þjóta yfir auða sandana, eða brjótast hægt en örugg- lega um urðir og hraun. Faðmur öræfanna hefur opn- azt hverjum manni að heita má. Það er að vísu fagn- aðarefni, að nú er það flestum kleift að sækja sér þang- að yndisauka og hressingu, en samt hafa þau glatað við það nokkru af töfrum sínum. Það er ekki lengur hægt að láta sig dreyma um dali útilegumanna né yfir- skyggð pláss, og mitt í kyrrðinni á maður þess nú von, að þegar minnst varir, sé hún rofin af bílaskrölti og skarkala, og auðir sandarnir, þar sem enginn manns- fótur hafði stigið eru sundurskornir af bílaslóðum, með öllu, sem þeim fylgir. En eitt helzt óbreytt. Hver, sem öræfin hafa eitt sinn seitt á vald sitt, leitar þangað á ný, og svo er einnig um mig. Naumast finnst mér nokkurt sumar vera reglulegt sumar, fái ég ekki andað að mér fjallalofti, þótt ekki sé nema stuttan tíma, gefið mig á vald öræfa- þagnarinnar og teygað angan úr grasi. Og í þetta sinn ætla ég að rifja upp nokkrar stundir frá liðnu sumri eða eins og skáldið segir „að svífa burt og setjast hjá sumargleði minni“. Tilefni ferðalaga minna í sumar var, að ég hef nú um allmörg ár unnið með flokki frá Atvinnudeild há- skólans, sem gerir kort af gróðurfari hálendisins, eða nánar til tekið afréttum landsins. Starf þetta var hafið fyrir um tug ára, en fyrst síðustu árin hefur verið að því unnið af fullum krafti. En hvaða tilgangi mundi slíkt þjóna? mun einhver spyrja. Mér þykir því hlýða að gefa lesendum Heima er bezt ofur-litla hugmynd þar um. Frá upphafi íslands byggðar, hafa afréttir og heiða- lönd verið varasjóður íslenzkra byggða. Þangað hafa stóðhross og sauðfénaður sótt sumareldi sitt. Fæstum hefur til hugar komið annað en þessi sjóður væri þrot- laus, hve miklu, sem úr honum væri ausið. Þar hefur víðáttan villt mönnum sýn. Öld eftir öld hafa menn ugglitlir horft á svarta sandmekki þyrlast ofan af ör- æfum og leggjast eins og mistur og móðu yfir byggð- irnar. Þeir hafa séð, hvernig gróðurtorfur hafa sorfizt utan og minnkað ár frá ári, og smám saman hafa stór eða smá svæði breytzt í örfoka mela. En þótt staðreynd- irnar hafi blasað við, hefur fæstum komið til hugar, að hér væri um annað að ræða en náttúrulögmál, að of- notkun landsins ætti þarna þátt í hefur flestum verið eins og lokuð bók. Ekki hafði ég farið margar ferðir til fjalla, þegar mér varð það Ijóst, að gróðri á afréttarlöndum væri víða ofboðið. Ymsir aðrir höfðu sömu sögu að segja, en þótt við létum til okkar heyrá, vildu fáir trúa, enda voru þetta aðallega bóklærðir ferðalangar, og hvað máttu þeir sín á móti reynslunni. Vald vanans er rótgróið, og einnig trú manna á brjóstvitið umfram fræðilega rann- sókn. Fyrir nokkrum árum tók Atvinnudeild háskól- ans málið í sínar hendur. Landspjöllin voru svo aug- Ijós, og líkurnar fyrir að ofmikil beit mundi á mörg- um stöðum vera ein meginorsökin, að ekki gat lengur beðið að taka málið til gaumgæfilegrar rannsóknar, því að Ijóst var það hverjum manni, að vá var fyrir dyr- um, ef jarðvegur landsins fyki smám saman á haf út. En víst var, að uppblástur, sem sótti ofan í byggðirnar, átti mjög upptök sín inni á afréttum og heiðalöndum. Við bættist og, að afréttarféð reyndist verða rýrara eftir því sem fjölgaði í högunum. Þegar svo var komið, var ráðizt í það fyrirtæki að Heima er bezt 57

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.