Heima er bezt - 01.02.1965, Side 28
ÞRIÐJI HLUTI.
— Vel ætlar það að ganga, sagði Óli hróðugur og
rétti út höndina til að klappa Mósa á lendina. En nú
sást það bezt, að Mósi hafði tekið vel eftir öllu. Það
var alveg ótrúlegt, hve svona gamall hestur gat verið
viðbragðsfljótur. Óli hafði rétt aðeins snert hann með
fingurgómunum, þegar hann var rokinn á harða sprett
og Skjóna með honum út í fjærsta horn hestahólfsins.
— Ekki er káhð sopið, þótt í ausuna sé komið, sagði
Aki og gat ekki annað en hlegið, en Óli sagði eitthvað
Ijótt. Næst skyldi sá gamli ekki leika svona á hann.
— Mér datt bara ekki í hug, að klárinn myndi hreyfa
sig, annars hefði ég haft meiri varúð, og svo ert þú
alltaf eins og sauður, þú hefðir vel getað hent þér á
hann, um leið og hann rauk af stað, þú varst í miklu
betri aðstöðu en ég.
Óli æsti sig upp og tók nú til fótanna. Þeir hlupu
báðir eins hratt og þeir gátu, en það var sama hvað þeir
hlupu, hrossin voru alltaf rokin út úr höndunum á
þeim, einmitt þegar þeir héldu, að nú væru þeir alveg
að handsama þau.
Óli var lafmóður og kófsveittur, en gat þó ekki stillt
sig um að blóta hraustlega, þótt hann mætti alls ekki
vera að því. Allt í einu kom hann auga á Hönnu Maríu.
Hún sat á hliðgrindinni og horfði á þá. Óli henti sér
niður á þúfu.
— Eg er hættur, við skulum láta stelpuna ná þessum
vitlausu klárum.
Áki settist líka. Þeir gengu upp og niður af mæði, en
Mósi blés ekki úr nös. Hann nam saðar stutt frá þeim,
leit á þá með fyrirlitningarsvip og lagði kollhúfur. Áki
stóð upp og gekk heim að hliðinu til Hönnu.
— Ég gefst upp, Mósi er ósigrandi, sagði hann bros-
andi.
— En hann? Hanna kinkaði kolli í áttina til Óla.
— Ég held að hann hafi líka gefizt upp, svaraði Áki.
Ofurlítið bros flögraði um andlit Hönnu, svo blístr-
aði hún hátt og hvellt. Mósi leit til hennar, síðan á Óla
sem enn lá á þúfunni, svo rölti hann af stað. Hann var
ekkert að flýta sér, fékk sér tuggu við og við, litist
honum einhver grastoppurinn sérstaklega girnilegur, en
áfram miðaði honum samt jafnt og þétt.
— Hvar er beizlið? spurði Hanna, þegar Mósi var
líominn alla leið til þeirra.
— ÓIi er með það, svaraði Áki.
— Neró, sæktu beizlið, skipaði Hanna og benti á Óla.
Síðan tók hún grindina úr hliðinu og hleypti Mósa í
gegn, meðan Neró stökk í löngum stökkum þúfu af
þúfu.
Óli settist á beizlið, svo Neró náði því ekki.
— Taktu það bara, kallaði Hanna, sem séð hafði til
Óla. Svo brá hún sér á bak Mósa og barði fótastokk-
inn, svo Mósi gamli skokkaði af stað, og leit ekki einu
sinni við, hvort Neró næði beizlinu. Brátt var hún
komin í hvarf.
— Láttu hundinn hafa beizlið, kallaði Áki til Óla.
— Ég held nú síður, svaraði Óli ákveðinn. — Ég
hlýði engum hundum.
Hann hafði varla sleppt orðinu, þegar Neró stökk
upp á axlir hans með framlappirnar og velti honum
út af þúfunni og ofan í skorning, greip síðan beizlið
milli tannanna og þaut heim á leið.
Áki horfði á hundinn heitur af aðdáun, aldrei hafði
hann séð þvílíkt, þessi hundur var hreinasta gersemi.
Þegar Áki og Óli komu heim, mættu þeir afa og
móður sinni, sem voru búin að beita Mósa fyrir kerr-
una og hlaða á hana, og voru nú á leið heim að Fells-
enda.
Afi sagði glaðlega, að þarna kæmu þeir þá, heilla-
karlarnir, en Guðný var þung á brúnina. Henni þótti
heldur lítið til sona sinna koma, að þeir skyldu láta
stelpukrakkann skáka sér. Ekki var þó hægt annað að
segja, en þeir væru vanir hestum, og Áki var auk þess
talinn sérstaklega duglegur og laginn að fást við
ótemjur.
Nú strunsaði frúin inn í nýja bæinn sinn, svo gamall
sem hann nú var, og leizt ekki meira en svo vel á sig.
Þetta væru þau langlélegustu húsakynni sem hún hefði
búið í, en sem betur fór væri það ekki til frambúðar,
því hefði Jón heitið henni.
Nú var hafizt handa við að koma því nauðsynlegasta
af dótinu fyrir, og Guðný kveikti upp eld, svo brátt
varð hlýtt og heimilislegt inni.
Þegar afi var farinn aftur ofan eftir með Mósa og
kerruna til að ná í meira dót, og Guðný var ein með
sonum sínum, sagði hún stygglega:
— Gátuð þið ekki náð klárnum?
72 Heirría er bezt