Heima er bezt - 01.03.1966, Blaðsíða 19

Heima er bezt - 01.03.1966, Blaðsíða 19
Hrossasala og sauða til Englands. Nú liðu svo nokkur ár, að eigi var efnt til skipulags- bundinna verzlunarsamtaka í Skagafjarðarsýslu. Fór þó fjarri, að eigi væri um þau mál hugsað né ekki hafzt að. Hinum beztu mönnum var ljóst, að eigi tjóaði að leggja árar í bát, þótt andbyr væri. Andinn var nú einu sinni vakinn, andi frelsis og félagshyggju. Og þótt enn væri hann fálmandi og leitandi og á stundum jafnvel sem blaktandi skar, þá varð hann eigi slökktur úr þessu — andinn, sem horfði fram á leið, sá hilla undir félagsleg samtök frjálsra manna, er horfðu til hagsbóta — og mannbóta um leið. Nú vildi svo vel til að hugmyndin, sem ýmsir ólu í brjósti um ný og endurreist félagssamtök, fékk ómetan- legan stuðning úr óvæntri átt. Arið 1872 komu hingað til lands enskir kaupsýslu- menn og hugðust kaupa íslenzka hesta. Gekk sú verzl- un að óskum. Keyptu þeir margt hrossa hér í Skaga- firði og annars staðar, þar sem þau var að fá, og guldu háu verði. Hélzt síðan þessi hrossasala, óslitið að kalla, framt að því 20 ár. Voru á hverju sumri, a. m. k. eftir 1875, haldnir hrossamarkaðir í Skagafjarðarsýslu og Húnavatns. Hét sá John Coghill, er þar keypti lengst- um. Þótti hann góður viðskiptis, enda drengur hinn bezti og eignaðist hér marga einlæga vini. Coghill var sí-glaður og kátur, skapbráður nokkuð að vísu, skjót- ráður og orðhvatur, en léttlyndur og raungóður, svo að orð var á gert. Lítt lærði hann að tala íslenzku, þótt hingað kæmi á hverju sumri — nema að blóta. Það lærði hann bæði fljótt og vel og lét blótsyrði fjúka á báðar hendur, þótt eigi þætti ávallt eiga sem bezt við. Höfðu menn gaman af og lærðu sumir heilar blótsyrðarunur eftir Coghill. Hrossasalan var Skagfirðingum og Húnvetningum mjög hagstæð. Og enn bætti það um, að árið 1879, næsta ár eftir að Grafarósfélagið hætti störfum, hóf Coghill, sem var erindreki fyrir skozkan stórkaupmann, Róbert Slimon í Leith, að kaupa sauði og geldar ær á hinu gamla félagssvæði. Hélt hann þeim hætti meir en ára- tug og keypti fé á hverju ári svo þúsundum skipti í þessum sveitum. Coghill galt með gulli bæði hross og fé. Var þessi verzlun hinn mesti búhnykkur fyrir bænd- ur, sem fengu nú í fyrsta sinn peninga, svo að heitið gæti, handa í milli, og þá um leið meira svigrúm til kaupa á nauðsynjum. Samtök um vörupöntun. Enskt gull var að vísu góður kaupeyrir í verzlunum á Sauðárkróki og Skagaströnd. Hitt mundi þó væntan- lega enn þá betra, að nota gullið til vörukaupa annars staðar en hjá þeim dönsku. Því var það, að svo til jafn snemma og sauðasalan hófst, hurfu nokkrir menn að því ráði, að panta vörur hjá Coghill. Má sennilegt telja, að sjálfur hafi hann vísað þann veg, því að bæði var hann hygginn og hollráður íslendingum. Lítið fór þó fyrir þessu fyrst í stað, — fáir menn, sem pöntuðu fáar Konráð Jónsson. Hermann Jónasson. vörutegundir. En hér dró skjótt til hins meira. Um og eftir 1880 færðist þessi starfsemi stórum í aukana. Studdi þar hvað fastast að, að þessar ensku vörur reyndust bæði betri og ódýrari en sams konar vörur á Sauðárkróki og Skagaströnd. Hófu menn nú samstarf og pöntuðu vörur í félagi, fyrst nokkrir menn en síðan fleiri, og brátt urðu sam- tökin bundin við hreppa. Risu þannig á legg pöntunar- deildir. Má telja þær, þótt lausar væru í reipum, þriðja áfangann í verzlunarsamtökum Skagfirðinga. Starfsemi þessari var þannig háttað í stórum dráttum, að „deildirnar“ — þ. e. samtök bænda í ýmsum — líklega flestum — hreppum í Skagafirði og Húnavatnssýslu — sendu Coghill og Slimon vörupantanir seinni hluta vetr- ar. Þeir félagar sendu síðan hina pöntuðu vöru til Sauð- árkróks og Borðeyrar að sumrinu. Til Sauðárkróks sóttu bændur úr Húnaþingi austanverðu. Svo kom Coghill, hélt markaði og keypti hross og fé. Með því voru vör- urnar greiddar. En það, sem umfram var andvirði þeirr- ar vöru, er hver og einn hafði pantað, galt Coghill í gulli. Þetta þótti góð verzlun. Og vissulega var hún það. Enda voru það geysimikil viðskipti á þeirra tíma vísu, sem þeir Coghill og Slimon áttu við íslendinga þessi ár- in. Arið 1882 — harðindaárið — keyptu þeir félagar t. a. m. 22370 fjár — sauði, geldar ær og veturgamalt, — þar af tæp 13 þúsund á Norðurlandi. Var meðalverð á hverri kind kr. 16.59. Sama ár keyptu þeir 1481 hross, hvert á kr. 54.00 að meðaltali. Á þessu ári keyptu þeir fé og hross fyrir samtals kr. 44611.30. Var það enginn smá- ræðis-skildingur í þá daga. Eigi þarf í grafgötur um að fara, að íslendingum féllu vel þessi viðskipti. Má það á mörgu sjá. Sá er þó ljós- astur vottur þess og eftirtektarverðastur, að 22. dag ág- ústmán. 1885 undirrituðu 27 alþingismenn ávarp til þeirra Coghills og Slimons, þar sem þeir tjáðu þeim virð- ingu sína og þakkir fyrir þrautreyndan drengskap í framkomu og margra ára viðskiptum við íslenzka bænd- ur — viðskiptum, sem þeim hafi reynzt næsta hagfelld og ábatasöm. (Framhald.) Heima er bezt 91

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.