Heima er bezt - 01.05.1978, Blaðsíða 15

Heima er bezt - 01.05.1978, Blaðsíða 15
í nokkra daga. Kom þá gerð í hann, og var þetta síðan notað sem ger í kökudeigið. Pottkökumar voru miklir hleifar hálfkúlulaga. Þegar baka skyldi var kyntur mikill eldur í hlóðum, þegar hann var brunninn niður í glóð, var brauðhleifurinn látinn á glóðina, en oftast var blikkplötu eða gamalli steikarpönnu stungið undir hann. Yfir kök- una var síðan hvolft potti, og ösku mokað utan að, en ofan á pottbotninn var raðað glóandi taðflögum eða svarðar- kögglum. Ekki man ég hve lengi þessum glóðarkögglum var haldið við, þangað til allt var byrgt í ösku. Mig minnir að kakan væri tvo sólarhringa að bakast, en seint gleymi ég þeirri angan, sem fyllti bæinn, þegar kakan var tekin upp. Öllum þótti pottbrauð hið mesta hnossgæti, einkum ef það var rauðseytt. En talið var að seytt brauð væri óhollara en óseytt, en ekki veit ég sönnur á því. Þegar pottbrauð var til, var það skammtað með flatbrauðinu, og þótti það harla gott og tilbreyting. Til viðbits var mest notað smér. Stundum var það drýgt með því að skafa tólk í strokkinn, og strokkaðist hann saman við smérið. Aldrei samlagaðist þetta vel, og ætíð þótti mér tólkarsmérið vont, og var svo um fleiri. Oft var súrt smér notað til viðbits, einkum á sumrin, þegar rjómi var sendur í rjómabúið á Möðruvöllum. Eftir að það lagðist niður var að mestu hætt að nota súrt smér. Þegar smér var geymt þannig var það hnoðað af strokknum niður í kvartil. En þar sem bæta þurfti í kvartilið smám saman komu loftrúm á milli lag- anna, hversu vandlega sem að var unnið og myndaðist þá gráðaskóf, og þótti það ekki bragðgott. Súra smérið var víst gott, sumir tóku það fram yfir nýtt smér, en aldrei þótti mér það gott og át heldur brauðið þurrt, nema ég hefði eitthvað bragðbætandi með því, t.d. hákarl eða há- karlsstöppu. Tólkur var mikið notaður með sméri til við- bits og eins allt flot, sem til féllst. Þótti flestum hangiðflot hnossgæti. Stundum var búinn til bræðingur úr lýsi og tólk. Lýsi það, sem notað var, var sellýsi, hnísulýsi eða þá hvallýsi, sem oftast var kallað hvalsmér. Það var bragð- minnst af öllu lýsi. Bræðingurinn var þeyttur úr lýsinu og bráðnum tólk og kryddaður með pipar og salti. Var hann í rauninni gott viðbit, en ekki var hann vinsæll. Smérlíki var aldrei notað, ég held að Margrétu hefði þótt sem hún væri að gefa fólki sínu ólyfjan, ef hún hefði skammtað því margarín, eins og það var ætíð kallað, svo mikla andúð hafði hún á því. Slátrið, blóðmör og lifrapylsa var annar meginþáttur norgunmatarins. í öðrum kafla verður minnst á slátur- störfin, suðuna og annað, var það allt geysimikið verk. Allt, sem ætilegt var af slátrinu, var nýtt. Lungu, lifur, júgur, hrútspungar, nýru o.s.frv, að ekki sé talað um mörinn, hver slýja var nýtt. Afklippur af vömbum voru hirtar, úr ristlum voru gerðir lundabaggar og hjörtun höfð innan í, en þindamar vafðar utan um. Þetta var allt sett í súr og geymt til vetrar. Og enn í dag þykir mér allt þetta lostætara en sjálfur blóðmörinn og lifrarpylsan, finnst mér blóðugt að sjá hversu þessu er nú fleygt, og þá ekki siður sviðalöppunum, sem eru eitt mesta góðmeti af kindinni. Sérstakt hnossgæti þóttu súr svið og lunda- baggar, enda var slíkt naumast notað hversdagslega heldur handa gestum og til hátíðabrigðis. Lundabaggabiti eða sviðasneið á diski var kærkomin tilbreyting. Annars var minnst af sviðunum súrsað, heldur voru þau etin ný, voru þau sunnudagamatur fram eftir öllu hausti, jafnvel fram á jólaföstu. Var þá að jafnaði farið að slá mjög í þau, og þótti sumum það jafnvel til bóta. Svo vel var slátrið nýtt, að jafnvel maukið, sem safnaðist undir sýruna, var notað saman við grauta í staðinn fyrir skyr, ef lítið var um það. Enda var það gott, þvi að allt var súrsað í skyrsýru. Sjaldan var ofanálag með brauðinu. Þó var kæfa stundum framan af vetri. Var hún þó helst búin til úr einhverju úrgangsketi, af sjálfdauðu eða þessháttar, og var enginn fastur liður í fæði. Stundum, einkum eftir fráfærur á sumrin, var soðinn mysuostur, var hann skammtaður með brauði og þótti öllum góðgæti. Einnig var þá stundum soðinnmjólkurosturvar hann etinn nýr og þótti flestum lítið til koma. Oft var harðfiskur hluti af morgunmatnum, einkum á sumrin. Með honum var tólkur til viðbits, og alloft hákarl. Var hann stundum verkaður heima, þ.e. keyptur óverkaður og kæstur til fulls, var það helst gert niðri í Gæsafjöru. Síðan var hann hengdur á rár, en oft var erfitt að verja hann fyrir maðki. Hákarl, sem hengdur var upp á vorin eða snemma sum- ars, var aldrei etinn fyrr en leið á vetur. Voru beiturnar geymdar í fjárhúsum, og fékk hákarlinn við það sér- kennilegt og þægilegt bragð. Allt annað en ef hann var geymdur í skemmu. Á vorin voru oft fengin hákarlsgot, sem þá veiddust að staðaldri á Akureyrarpolli. Voru þau kæst í tunnu, sem höfð var úti í fjósi, svo að kæsingin gengi sem hraðast. Þau voru síðan höfð í hákarlsstöppu, sem gerð var úr soðnum hákarlinum og feiti, best var að hafa í hana súrt smér, en mest var notaður tólkur. Brjóskið var brytjað með í stöppuna, og þótti mörgum það betra. Stundum var fullorðinn hákarl notaður i stöppu. Stappan var etin með brauði líkt og kæfa, nema haft miklu meira af henni. Hún þótti kostamatur og því betri sem hún var feitari. Minnist ég þess, að eitt vor vorum við tveir strákar í vegavinnu nokkra daga og höfðum með okkur nesti, brauð, smér harðfisk og hákarlsstöppu, og suma dagana einhverja ketnurtu. Þetta þótti okkur kóngafæði. Enda var hvorugt sparað, smérið né hákarlsstappan. Meðan hvalveiðastöðvar voru starfandi, var æfinlega fenginn hvalur. Stundum var hann nýr, en oftar þó salt- aður. Var það rengi, sporður og ket. (Verð 1908, 7 aurar pundið, ekki sundurliðað). Hvalsuðan var mikið verk, því að allt rengi og sporður var soðið í einu. Helst var hann ekki soðinn inni, því að af honum lagði megna og óþægi- lega lykí. Fór suðan því mest fram í hlóðum niður við læk. Venjulega var hafður heitur hvalur með baunum einu sinni eða tvisvar í miðdegismat. Þótt flestum hann góður. Annars var hann súrsaður og etinn á málum, líkt og slátur. Hvalketið, sem þá var ætíð kallað undanflátta, var saltað og stundum reykt, það sem ekki var etið nýtt. Stundum var það súrsað. Þótti það heldur vondur matur, og finnst mér það hafa verið allt annar matur en hvalket það, sem nú er á markaðinum. Heima er bezt 159

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.