Heima er bezt - 01.04.1983, Blaðsíða 30

Heima er bezt - 01.04.1983, Blaðsíða 30
Við gengum þegjandi með ánni og rýndum upp eftir snarbröttum hömrunum á báðar hliðar og létum ekkert fara fram hjá okkur, er þar kynni að leynast. Er við höfðum gengið drjúgan spöl, heyrðum við lamb jarma í fjarska og hröðuðum okkur á hljóðið. Brátt sáum við, hvar lamb og ær stóðu í örlitlum grasi grónum bolla og voru auðsjáanlega í sjálfheldu, nema ef vera kynni að komast mætti eftir mjóu einstigi, sem skepnurnar höfðu trúlega hlaupið eftir út í þessa dauðagildru. Og það sem verra var, þá sáum við brátt, hvar Eyjólfur stóð í hnipri mitt á þessu örmjóa ein- stigi, þrýsti sér þar upp í klettaskoru og virtist hvorki kom- ast fram né aftur, enda var svimandi hengiflug fyrir fótum hans. Við kölluðum til hans, en hann virtist ekki heyra til okkar eða sýndi þess engin merki. Hann stóð þarna sem stjarfur og sýndist hafa gefið allt frá sér. Ólafur gat þess að líklega hefði hann ætlað að koma lambánni upp úr gilinu, farið að elta hana og hlaupið í hugsunarleysi eftir henni út á þetta einstigi, sem sífellt mjókkaði, þar til ær, lamb og maður voru öll komin í sjálfheldu. r’ Olafur bað mig að bíða við ána, en tók sjálfur á rás upp eftir klettunum stall af stalli, þar til hann loks staðnæmdist á hamri einum svo nærri Eyjólfi að hann gat vel talað til hans. Reyndi hann það líka hvað eftir annað, en Eyjólfur svaraði engu og virtist sem lamaður og sljór gagnvart öllu öðru en að klemma sig sem fastast inn í klettaskoruna, þar sem hann hélt báðum höndum með krampakenndu taki um nokkrar steinnibbur í berginu. En Ólafur var ekki af baki dottinn, þótt útlitið væri ekki sem best, heldur þokaði hann sér með varúð hærra og hærra og komst brátt upp á einstigið og stóð þar skammt frá Eyjólfi. Síðan steig hann varfærnum skrefum í áttina til hins nauðstadda manns, talaði rólega til hans og reyndi að hughreysta hann. En allt kom fyrir ekki, því að lofthræðslan hafði gripið hann þeim heljartökum að ekki virtist aftur snúið. Ólafur gafst samt ekki upp, heldur mjakaði sér eftir einstiginu til Eyjólfs, tók varlega um herðar hans og reyndi með fortölum að fá hann með sér úr þessum ógöngum. Það reyndist þó allt til einskis og fékkst Eyjólfur jafnvel ekki til að snúa sér við, svo að hann horfði fram, og var auðsjáanlega sem bergnuminn í orðsins fyllstu merkingu. En þá tók Ólafur það til bragðs, sem mér hefði síst dottið í hug. Með snöggu bragði greip hann eftir þykku stækk- unargleraugunum hans, svipti þeim af og stakk þeim í vasa sinn. Við þetta var eins og ótti og óráðsvíma rynni af Eyjólfi. Hann sneri sér hægt við út úr klettaskorunni og horfði fram og virtist á sömu stund verða næsta óskelfdur og eðlilegur. Ólafur tók um aðra hönd hans, gekk síðan á undan og leiddi hann hægt og rólega eftir einstiginu. Eftir litla stund voru þeir úr allri hættu og komu brátt niður eftir grasi gróinni brekku og til mín, þar sem ég beið við ána. Þá loks fékk Eyjólfur málið og átti hann vart nógu sterk orð til að lýsa þakklæti sínu fyrir þessa góðu björgun, því að hann hafði haldið að hans síðasti dagur væri kominn. En hvernig gat þér dottið í hug að fara að þrífa af mér gler- augun þarna uppi á brún hengiflugsins, sagði hann og sneri sér spyrjandi að Ólafi. Hvað átti ég annað að gera úr því sem komið var? Ég sá að þú varst lamaður af lofthræðslu og eina ráðið var að losa þig við þenna kvilla. Ég veit vel að þú sérð sama og ekkert frá þér gleraugnalaus og því sýndist mér þetta eina ráðið og það dugði líka vel. Eyjólfur sá að Ólafur hafði lög að mæla eins og venjulega og gat þess um leið að aldrei hefði honum orðið ráðfátt. Ólafur gaf lítið út á það, en sagði þó, að oftast nær fyndust einhverjar leiðir út úr hverjum vanda. Að svo mæltu bað hann Eyjólf að bíða um stund og- gaf mér merki um að koma með sér. Við klifum upp í hamrana og með lagni tókst Ólafi að reka lambána úr sjálfheldunni og upp úr gilinu. Að því loknu fórum við aftur niður til Eyjólfs og teymdum síðan allir saman hesta okkar upp á brún, þar sem við stigum á bak og riðum létt niður heiðarnar. -Irað varð fagnaðarfundur, er við komum allir þrír til fé- laga okkar í fjárréttinni. Var þá óðar gert hlé á rúningi og gengum við inn í leitarmannakofann, þar sem hitað var sterkt og gott ketilkaffi. Eyjólfur hafði náð sér að mestu eftir þá alvarlegu lífshættu og þrengingar, sem hann hafði lent í uppi í Grendalsárgili. Ræddi hann nú um þessa reynslu sína með bros á vör og henti jafnvel góðlátlegt gaman að öllu saman. Að vísu sagði hann að illa hefði farið, ef Ólafur hefði ekki komið, því að aldrei hefði honum sjálfum komið til hugar að taka af sér gleraugun, svo að hann þyrði að snúa sér við og horfa niður í gilið. Menn skröfuðu glaðlega, renndu úr kaffibollunum og sneru síðan aftur til starfa í fjárréttinni, þar sem Ólafur í Hlíð stjórnaði verki af dugnaði og röggsemi, svo sem hann var vanur. Ullarbingirnir utan við réttarvegginn urðu sífellt stærri og fleiri og fleiri nýrúnar ær hlupu frá réttinni með lömbum sínum. Brátt mundi þessu verki lokið og haldið heim til byggða. Nóttin leið, án þess að við tækjum eftir því. Morgunsólin hellti brátt geislum sínumyfirheiðarogjökla, svo að landið glitraði í óumræðilega skærri birtu. Brátt var verki okkar lokið og lagt af stað heim til byggða. Fjár- jarmur, fuglasöngur, árniður, hófatök og hlátrar glaðværra manna, allt rann þetta saman í eina heild í vitund minni á leiðinni heim. En syfjaður var ég eins og oft áður, einkum eftir að hlýna tók af morgunsólinni. Oft hefur mér síðar orðið hugsað til þessara löngu liðnu hamingjudaga í vor- leitum á heiðum uppi og þá skal það ekki bregðast að mér komi í hug hinn einstæði atburður, sem ég þá upplifði í Grendalsárgili. þegar fullhuginn úrræðagóði, Ólafur í Hlíð, bjargaði Eyjólfi í Tóftum úr sjálfheldu við erfiðustu að- stæður með því einu að taka af honum gleraugun. Það var örugglega eina ráðið, sem dugði í þessu tilviki, en trúlega hefði engum komið það til hugar, nema Ólafi í Hlíð, enda hefur sá maður átt fáa sína líka. 138 Heimaerbezl

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.